PÉTUR OG EINAR Í VÍKINNI Í KVÖLD
18.9.2008 | 10:41
Einleikurinn Pétur og Einar verður sýndur í Einarshúsi í Bolungarvík í kvöld. Leikurinn hefur notið mikilla vinsælda allt frá því hann var frumsýndur á sjómannadag í sumar. Sýningin í kvöld er sú 14 og er um leið síðasta sýningin á Pétri og Einari í bili. Leikurinn hefst kl.20 miðapantanir hjá Vertinum í Víkinni ragna@einarshusid.is
Pétur og Einar
Elfar Logi túlkar líf og störf þeirra manna sem settu hvað mestan svip á Bolungarvík á miklum uppgangstímum og sveipar sögu þeirra ævintýraljóma. Frumkvöðlarnir Pétur Oddsson og Einar Guðfinnsson voru miklir athafnamenn hvor á sínum tíma og stjórnuðu stórveldum sínum af skörungsskap. Þeir bjuggu báðir í húsi harma og hamingju, Péturshúsi sem síðar var nefnt Einarshús.
Í sýningunni leiða Soffía Vagnsdóttir og Elfar Logi saman hesta sína öðru sinni en á síðasta ári settu þau upp sýninguna Jólasveinar Grílusynir sem sýnd var við góðan orðstýr í Tjöruhúsinu. Þar að auki voru íbúar bæjarins kallaðir til aðstoðar og brugðu þeir sér í hljóðver í Bolungarvík og sungu með íðilfögrum röddum, allt frá jólalögum og sálmum til vel þekktra þorrablótsvísna.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.