STEINS HÁTÍÐ Í GÖMLU KAFFIBRENNSLUNNI
10.10.2008 | 16:25
Myndlistarmaðurinn Sigurður Þórir opnar myndlistarsýningu kl.15 á morgun, laugardag, í gömlu kaffibrennslunni Ó Johnson & Kaaber Sætúni 8. Sýningin er byggð á ljóðabálki vestfirska skáldsins Steins Steinars Tíminn og vatnið og hefur listamaðurinn unnið að þessari sýningu í nokkur ár. Í tilefni af þessari merku sýningu og aldarafmæli Steins, sem er á mánudaginn, verður boðið uppá sannkallaða listaveislu og Kómedíuleikhúsið tekur þátt enda Steinn uppáhalds skáld leikhússins. Sýningin opnar á morgun og verður strax boðið uppá veglega Steins dagskrá. Leikin verður upplestur Steins á Tímanum og vatninu. Klukkan fjögur verður sérstök dagskrá sem Vernharður Linnet kynnir en þar koma fram Hjalti Rögnvalsson, leikari, og meistari Raggi Bjarna sem mun flytja lag sig Barn við ljóð Steins, sem er að margra mati eitthvert fallegast íslenska ljóðalagið. Á sunnudeginum mun síðan Kómedíuleikarinn flytja úrval ljóða eftir Stein Steinarr og hefst dagskráin kl.16. Daginn eftir á afmælisdegi Steins mun Hörður Torfa vera með tónleika þar sem hann flytur lög er hann hefur samið við ljóð Steins. Tónleikarnir hefjast kl.20.30 og er aðgangseyrir aðeins 2.000.kr. Sýning Sigurðar Þóris stendur til 26. október og er opið alla daga frá 14. - 18.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.