MIÐASALA Á AUÐUN OG ÍSBJÖRNINN HAFIN

Miðvikudaginn 1. apríl frumsýnir Kómedíuleikhúsið nýtt íslenskt leikrit og að vanda er sótt í vestfirskan sagnaarf. Leikurinn nefnist Auðun og ísbjörninn og er byggður Auðunar þætti vestfirzka sem er án efa bestur og vinsælastur allra Íslendingaþátta. Miðasala á Auðun og ísbjörninn er hafin og er bæði hægt að panta miða hér á heimasíðunni eða bjalla í miðasölusímann 891 7025. Frumsýning verður einsog áður var getið miðvikudaginn 1. apríl í Tjöruhúsinu á Ísafirði og hefst leikurinn kl.20. Önnur sýning verður laugardaginn 4. apríl kl.14.
Auðun og ísbjörninn er einleikur einsog flest öll verk Kómedíuleikhússins. Árið 2001 tók Kómedía upp þá stefnu að helga starf sitt einleikjum og var ástæðan einkum sú að leikhúsið er staðsett á Vestfjörðum og þar býr aðeins einn atvinnuleikari og því þótti sjalfgefið að setja upp einleik. Fyrsti einleikurinn sem Kómedía setti á svið var Leikur án orða eftir Samuel Beckett. Síðan þá hefur leikhúsið sett á svið fjölmarga leiki og hafa margir þeirra notið mikilla vinsælda. Ekki verður á neinn hallað að segja að Gísli Súrsson sé vinsælasta sýning Kómedíuleikhússins en leikurinn hefur verið sýndur 191 sinni og fram undan eru fjölmargar sýningar hjá útlaganum. Rétt er þó að geta þess að Gísli Súrsson hverfur brátt endanlega í súrinn því sýningum á leiknum lýkur í ágúst á þessu ári. Af öðrum vinsælum sýningum Kómedíuleikhússins má nefna Dimmalimm sem hefur verið sýnt yfir 70 sinnum um land allt og einnig erlendis. Að lokum má geta þess að Auðun, Gísli og Dimmalimm verða öll á fjölunum á Leikhúspáskum á Ísó sem verður haldin á hinni frábæru Skíðaviku á Ísafirði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband