EINMÁNUÐUR GENGINN Í GARÐ OG EINLEIKIN STEMMNING Á LANDINU ÖLLU
24.3.2009 | 11:36
Einmánuður gekk í garð þriðjudaginn 24. mars. Einmánuður er síðasti mánuður vetrar samkvæmt gömlu norrænu tímatali og er sagt að ef fyrsti dagur Einmánuðar sé votur þá sé von á góðu vori. Það er gaman að segja frá því í upphafi Einmánuðar að sjaldan hefur fjörið verið jafn mikið í einleikjalífinu á Íslandi og einmitt í dag. Hver einleikurinn á fætur öðrum er settur á svið og er gaman að sjá hve vegur listarinnar hefur vaxið og dafnað vel hér á landi. Á þessu ári hafa fjölmargir einleikir litið dagsins ljós. Borgarleikhúsið hefur nú þegar sett á svið eina þrjá einleiki og von er á einum til viðbótar áður en leikárinu lýkur. Kómedíuleikhúsið frumsýnir nýjan einleik 1. apríl á Ísafirði og heyrst hefur af einleiknum æfingum í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Það má því búast við fjölbreyttri og spennandi Act alone hátíð í ár. Undirbúningur fyrir hátíðina er þegar hafin en hún verður haldin dagana 14. - 16. ágúst í einleikjabænum Ísafirði. Þegar hefur verið gengið frá erlendu sýningum þessa árs. Sýningarnar koma að þessu sinni frá Danmörku og Svíþjóð og verður nánar greint frá þeim síðar. Þessa dagana er svo verið að negla niður íslensku sýningarnar sem verða á Act alone 2009. Í tilefni af öllu þessu einleikna tali og komu Einmánuðar þá er rétt að láta hér eina góða vísu fylgja með í lokin:
Einmánuður minn, minn
gakk þú í bæinn.
Vertu ekki úti í vindinum
vorlangan daginn.
Einmánuður minn, minn
gakk þú í bæinn.
Vertu ekki úti í vindinum
vorlangan daginn.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.