LEIKHÚSFÓLK TIL LUKKU MEÐ DAGINN

Alþjóðaleiklistardagurinn er í dag og að venju hefur Leiklistarsamband Íslands fengið leikhúslistamann til að semja ávarp í tilefni dagsins. Að þessu sinni er það hin ástæla leikkona Sigrún Edda Björnsdóttir. Kómedíuleikhúsið óskar ykkur öllum til lukku með daginn og leggur til að við njótum dagsins, ölluheldur kvöldsins í leikhúsinu. Kómedíuleikhúsið er því miður ekki með sýningu í kvöld en æfingar standa nú yfir á nýju íslensku leikverki sem verður frumsýnt 1. apríl næstkomandi. En þá er bara að skunda í eitt af ökkur flottu leikhúsum í kvöld og svo væri sniðugt að vera dugleg að sækja leikhúsið allt árið um kring. Því í leikhúsinu gerast ævintýrin og í leikhúsinu er gaman.

En hér kemur ávarp Sigrúnar Eddu:

 Ávarp í tilefni að Alþjóða leiklistardegi 27. mars 2009. 

Höfundur: Sigrún Edda Björnsdóttir.             

Ágætu leikhúsunnendur.   Hvers vegna viljum við hafa leikhús? Þetta furðulega fyrirbæri sem þó hefur fylgt manninum frá ómunatíð. Í dag, þann 27. mars er Alþjóða leiklistardagurinn. Hann er haldinn hátíðlegur um heim allan í þeim tilgangi að vekja athygli á leiklistinni og mikilvægi hennar í mannlegu samfélagi. Því er vert að staldra við og velta ofangreindri spurningu fyrir sér.   Það fallegasta sem sagt hefur verið um leiklistina og hægt er að taka undir af heilum hug er að löngun mannsins til að leika sé sprottin af þörf hans til tengjast því sem býr innra með öllum mönnum, þessu innra ljósi sem við búum öll yfir og finnum svo sterkt fyrir. Það er vegna þessarar tengingar, þessarar samkenndar sem við getum skapað nýjan veruleika. Veruleika leikhússins. Fátt er eins dýrmætt fyrir leikara og að finna þessa tengingu og taka þátt í leiksýningu sem á erindi við áhorfandann og hreyfir við honum, hvort sem er í gleði eða sorg. Við mannfólkið erum þelið sem draumar spinnast úr, þessir dýrmætu draumar sem eru eins og gullþráður í því margbrotna mynstri sem tilvist okkar mótast af. Þessi þráður kemur fram í skáldskapnum, myndmálinu, tónlistinni og hreyfingunni. Ekkert er leiklistinni óviðkomandi. Hún á að endurspegla tilvist okkar, sameina upplifanir okkar og stuðla að samkennd og skilningi meðal manna.  Í viðleitni sinni til að tjá og spegla veruleikann leitar leiklistin að mismunandi formum. Þess vegna er engin ein tegund leiklistar mikilvægari en önnur.

            Til er gamanleikur, harmleikur, grímuleikur, látbragðsleikur, brúðuleikur, einleikur, trúðleikur. Götuleikhús, kaffileikhús, pólitískt leikhús, stofuleikhús, barnaleikhús, vasaleikhús, útileikhús, skuggaleikhús, lítið leikhús, stórt leikhús, útvarpsleikhús, meira að segja ósýnilegt leikhús. Og áhorfendur hafa dregist að leikhúsinu í gegnum aldirnar, alveg eins og þið gerið hér í (dag) kvöld. Hvers vegna? Jú, við viljum verða fyrir áhrifum. Við viljum hlæja saman, gráta saman, láta hreyfa við hugsunum okkar og hugmyndum. Og í síbreytilegum heimi þar sem hugmyndafræði og áherslur geta kollsteypst á einni nóttu, eins og við þekkjum svo vel einmitt nú, á leikhúsið brýnt erindi. Það er ekki síst á þannig tímum sem við höfum þörf fyrir leikhús og því ber leikhúsið mikla ábyrgð. Leiklist breytir kannski ekki heiminum en við getum öll verið sammála um að í leikhúsi búi leyndur sannleikur sem hjálpar okkur í þeirri viðleitni að skilja líf okkar og viljann til að búa til betri heim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband