LIST Á LAUGARDEGI Á HÓLMAVÍK UM HELGINA
6.5.2009 | 18:06
Listahjónin Elfar Logi Hannesson og Marsibil G. Kristjánsdóttir standa fyrir sérstökum listadegi á Hólmavík laugardaginn 9. maí. Ævintýrið nefnist einfaldalega List á laugardegi og á veisluborðinu verður leiklist og myndlist. Fjörið hefst með leiksýningunni Auðun og ísbjörninn í Bragganum á Hólmavík kl.15. Hér er á ferðinni vönduð leiksýning fyrir alla fjölskylduna sem hefur fengið frábæra dóma. Auðun og ísbjörninn fjallar um ungan dreng að vestan sem leggst í víking til fjarlægra landa. Á leiðinni verður á vegi hans taminn ísbjörn og þá tekur leikurinn á sig ævintýralegar myndir. Myndlistin tekur völdin að lokinni sýningu á Auðun og ísbjörninn. Þá mun Marsibil G. Kristjánsdóttir opna myndlistarsýningu í Þróunarsetrinu á Hólmavík. Sýningin opnar kl.16 og verður boðið uppá léttar veitingar. Marsibil hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín og hefur haldið sýningar víðs vegar um landið og einnig erlendis. Um sölusýningu er að ræða og mun sýningin standa í mánuð.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.