KÓMÍSK VIKA
11.5.2009 | 10:03
Það er mikið um að vera hjá Kómedíuleikhúsinu í nýhafinni viku. Í kvöld verður uppistand í Stykkishólmi á menningarráðstefnu sem þar er haldin. Kómedíuleikarinn skundar síðan á Bíldudal þar sem hann mun setja upp sýningu með æskunni á staðnum, leik um þeirra eigið þorp. Sýningin ber nafnið Bíldudals Bacalao og fjallar um uppgangstímann á staðnum þegar Pétur Thorsteinsson flutti þangað og breytti staðnum úr sveit í þorp á örfáum árum. Enda var hann ekki kallaður Bíldudalskóngurinn fyrir ekki neitt. Leikurinn verður frumsýndur á afmælisdegi Péturs 4. júní en í ár eru 155 ár frá fæðingu föður Bíldudals. Á fimmtudag verður fyrsta sýning sumarsins á Gísla Súrssyni á ensku. Sýnt verður í Edinborgarhúsinu. Daginn eftir verður haldið inntökupróf fyrir Morrann á Ísafirði en Kómedía sér um listræna stjórn Morrans. Alls munu 15 ungir leikarar starfa við leikhúsið í sumar. Á laugardag verður haldið Listamannaþing Vestfjarða á Ísafirði. Kómedía og Menningarráð Vestfjarða standa fyrir þinginu og er þetta í fyrsta sinn sem þingið er haldið en síðustu tvö ár hefur Kómedían haldið Listamannaþing Ísafjarðarbæjar. Yfirskrif Listamannaþings Vestfjarða er stór og mikil eða Staða og framtíð listalífs á Vestfjörðum. Fjölmargir listamenn taka til máls og ræða og pæla í listinni. Einnig fáum við listamann úr borginni á þingið og mun hann flytja erindi um möguleika og tækifæri listalífs á Vestfjörðum. Rétt er að geta þess að aðgangur að Listamannaþingi Vestfjarða er ókeypis og vonumst við til að sjá sem flesta og ekki bara listamenn heldur og ekki síður þeirra sem greiða okkur launin, þ.e. áhorfendur og unnendur listarinnar. Nánar verður sagt frá þinginu þegar nær dregur en endilega takið daginn frá. Loks má geta þess að Kómedíuhjónin verða í Dalaporti í Arnardal á sunnudag. Það verða Þjóðlegu hljóðbækurnar til sölu og margt fleira. Gaman er að geta þess að þessi vika er svipuð og næstu vikur sumarsins. Semsagt Kómískir tímar framundan.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:12 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.