PÉTUR OG EINAR Á FIMMTUDÖGUM
22.6.2009 | 17:54
Sýningar á leikritinu vinsæla Pétur og Einar hefjast að nýju á fimmtudag, 25. júní í Einarshúsi í Bolungarvík. Pétur og Einar var frumsýnt í maí í fyrra og var sýnt reglulega fram á haustið við mjög góðar viðtökur. Nú verður þráðurinn tekinn upp að nýju og markar sýningin á fimmtudag aðeins þá fyrstu því leikurinn verður á fjölunum alla fimmtudaga í júlí. Sýningar hefjast kl.20. Miðaverð aðeins 1.500.- krónur og er miðasala þegar hafin í síma:456 7901. Einnig er hægt að panta miða með því að senda tölvupóst á ragna@einarshusid.is
Leikritið Pétur og Einar
Í leikritinu Pétur og Einar túlkar Elfar Logi líf og störf þeirra manna sem settu hvað mestan svip á Bolungarvík á miklum uppgangstímum og sveipar sögu þeirra ævintýraljóma. Frumkvöðlarnir Pétur Oddsson og Einar Guðfinnsson voru miklir athafnamenn hvor á sínum tíma og stjórnuðu stórveldum sínum af skörungsskap. Þeir bjuggu báðir í húsi harma og hamingju, Péturshúsi sem síðar var nefnt Einarshús.
Í sýningunni leiða Soffía Vagnsdóttir og Elfar Logi saman hesta sína en þau hafa einnig sett á svið leikina Jólasveinar Grílusynir og nú síðast Auðun og ísbjörninn. Þar að auki voru íbúar bæjarins kallaðir til aðstoðar og brugðu þeir sér í hljóðver í Bolungarvík og sungu með íðilfögrum röddum, allt frá jólalögum og sálmum til vel þekktra þorrablótsvísna.
Það var Ragna Jóhanna Magnúsdóttir veitingamaður í Einarshúsi sem átti frumkvæðið að uppsetningu sýningarinnar og vinnur að fjármögnun verksins. Fékk hún Elfar Loga og Kómedíuleikhús hans til liðs við sig til að koma sögunni á fjalirnar.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.