Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

KÓMÍSKT LJÓÐAÆÐI

Það er sannarlega mikið ljóðafjör í herbúðum Kómedíuleikhússins þessa dagana. Um síðustu helgi sýndi leikhúsið ljóðaleikinn Aumingja litla ljóðið á ljóðahátíðinni Glóð á Siglufirði. Á laugardaginn stendur Kómedíuleikhúsið í samstarfi við Bókasafnið á Ísafirði fyrir Vestfirskum húslestri í Safnhúsinu á Ísó. Einsog nafnið gefur til kynna er boðið uppá skáldskap að vestan á þessum húslestrum sem hófu göngu sína síðasta vetur og fóru fram mánaðarlega fram á vor. Eitt skáld er tekið fyrir hverju sinni sem er þá um leið Vestfirska skáld mánaðarins í Bókasafninu á Ísafirði. Á fyrsta Vestfirska húslestri þessa veturs verður ljóðaþorpsskáldið frá Patró Jón úr Vör tekin fyrir. Jóna Símonía Bjarnadóttir fjallar um skáldið og Kómedíuleikarinn flytur valin ljóð eftir höfundinn. Lesturinn verður í Safnahúsinu á Ísafirði á laugardag 27. október kl.14. og er aðgangur ókeypis. Jón úr Vör gaf út all nokkrar ljóðabækur en hans þekktasta verk er án efa Þorpið sem kom út árið 1946. Þar fjallar hann í ljóði um gamla þorpið sitt, Patreksfjörð, og dregur um leið fram fjölbreytta og sanna mynd af litlu Vestfirsku sjávarþorpi. Einnig verður lesið úr ljóðabókunum Mjallhvítarkistan, Regnbogastígur og Altarisbergið. Allt er þegar þrennt er segir einhvursstaðar því þriðja ljóðaverkefni Kómedíu er ljóðaleikurinn Ég bið að heilsa. Dettur mörgum nú sjálfsagt í hug hvað er hér á ferðinni. Jú, listaskáldið góða og tilefnið er 200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar. Flutt verða yfir 20 ljóð í tali og tónum allt frá Móðurást til Ég ætlaði mér að yrkja og allt þar á milli. Elfar Logi Hannesson flytur ljóðin og með honum verður Þröstur Jóhannesson sem flytur frumsamin lög við ljóð skáldsins góða. En þess má geta að Þröstur vakti mikla athygli fyrir sinn fyrsta geisladisk, Sálmar, sem kom út fyrir nokkru. Þeir kappar æfa nú að fullum krafti og verður leikurinn frumsýndur á veitingastaðnum Við Pollinn á Ísafirði miðvikudaginn 7. nóvember kl.20.00. Já kæru vinir ljóðið er sko ekki dautt hér vestra.

jon ur vor Jón úr Vör ljóðaþorpsskáldið frá Patró verður í aðalhluverki í Vestfirskum húslestri á Ísó á laugardaginn.


SPARIKALLINN LENDIR Á VESTFJÖRÐUM

Kómedíuleikhúsið kynnir nýja kómíska fígúru í fyrramálið í listabænum Súðavík. Persóna þessi heitir Sparikallinn og kemur frá plánetunni Spari en þar má finna lítið land sem heitir Spariland. Í Sparilandi tala menn sparísku bjóða t.d. góðan dag með því að segja Sparilegan dag og þegar Spariíbúar kveðja segja þeir einfaldlega Sparibless. Sparikallinn er sérlegur Sparisendiherra Sparilands og er komin til Íslands til að kynna sér Sparihætti hér á landi sem og kynna sitt Sparilega Spariland. Það er Sparisjóður Vestfirðinga sem stendur fyrir komu Sparikallsins og mun hann heimsækja útibú Sparisjóðsins enda vel við hæfi þar sem þar má margt læra um hvernig má Spara peninginn. Fyrsta Spariheimsókn Sparikallsins í útibú Sparisjóð Vestfirðinga verður sem hér segir:

Súðavík miðvikud. 24. okt. kl.11

Þingeyri fimmtud. 25. okt. kl.11

Flateyri fimmtud. 25. okt. kl. 13.30

Ísafjörður föstud. 26. okt. kl.11 og kl.14

Kómedíuleikhúsið fagnar sparitilkomu Sparikallsins og hlakkar til sparisamstarfsins.


LEIKLISTARTÍMARIT HVER VILL VERA MEMM?

Kómedíuleikhúsið hefur lengi haft áhuga á því að koma á fót sérstöku leiklistartímariti. Enda erum við mikil leikhúsþjóð og áhugi á listinni mikill. Aðsókn bara á sýningar Sjálfstæðu leikhúsanna á síðasta leikári var 255 þúsund. Sýnd voru 82 verk og voru að meðaltali 4 sýningar á dag alla daga ársins. Þetta eru svaka flottar tölur og er langt í frá allt því inní töluna vantar sýnignar stofnanaleikhúsanna og ekki má gleyma sýningum áhugaleikfélaga um land allt. Kómedíuleikarinn hefur oft fitjað uppá þessu við hin ýmsu tækifæri og enn og aftur er hann byrjaður að rausa um íslenskt leiklistartímarit. Það sem kveikti í honum aftur var að nú er búið að gefa út glæsilegt myndlistartímarit Sjónauki. Virkilega glæsileg útgáfa í alla staði. Nú er það svo og er svosem engin stór uppgötvun né leyndarmál að útgáfa á íslensku leiklistartímarit er náttúrulega fyrst og fremst hugsjón alveg einsog að detta sú vitlausa í hug að gefa út leikrit á bók og græða á því einhverja monnípeninga. Það telst nokkuð gott að ná fyrir kostnaði í þeim bransa. Kómedíuleikhúsið gaf fyrir nokkrum árum út bókina Íslenskir einleikir sem inniheldur safn innlendra einleikja og er fyrsta útgáfa sinnar tegundar hér á landi. Enn hefur útgáfan á þeirri góðu skruddu ekki náð yfir núllið fræga enda er mikið til ennþá af bókinni, áhugasamir geta pantað ritið á kómísku verði. Sama á við með útgáu á leiklistartímariti þetta er fyrst og fremst hugsjónaútgáfa. Á síðustu öld voru gefin út nokkur íslensk leiklistartímarit þar fór fremstur í flokki stórleikarinn Haraldur Björnsson sem gat út Leikhúsmál í áratug eða svo. Þetta var mjög mettnaðarfull útgáfa þykkur doðrantur með vönduðum greinum um leiklist bæði hér heima og erlendis. Einhverjum árum síðar hófu aðrir hugsjónamenn að gefa út leiklistartímarit. Bandalag Íslenskra leikfélaga, sú merka stofnun, gaf einnig út blað sem hét Leiklistarblaðið og fyrir áratug eða svo gaf Félag Íslenskra leikfélaga út Leikhúsmál nokkur tölublöð komu út úr þeirra ranni. Síðan ekki söguna meir. Þrátt fyrir að internetið sé alveg frábært og allt það þá er það staðföst trú kómedíu að þörf sé á prentuðu leiklistartímariti og það er örugglega áhugi meðal landans líka. Það væri alveg nóg að gefa út 2 tímarit á ári t.d. í upphafi leikárs og svo aftur í febrúar- mars eða svo og mætti kannski hugsa sér það í stærð Tímarits Máls og Menningar. Efni í blaðið væri umfjöllun um leiklistarstarfið hér á landi hvað eru leikhúsin að sýna með sérstakri áherlsu á ný íslensk verk, fræði- og sögugreinar t.d. um leikara, leikstjóra og leikskáld sem höfðu áhrif á söguna, greinar um áhugaverðar sýningar erlendis, fjallað um leiklistarhátíðir, strauma og stefnur og bara allt sem viðkemur leiklistinni nema sleppa gagnrýni. Erum alveg með nóg af gagnrýni í blöðum og tímaritum nú þegar og svo eru líka menn líka hættir að lesa hana. Já það væri sko að nógu að taka og ljóst að efni væri meira en hægt væri að koma að hverju sinni. Jæja eigum við að kikka á þetta og sjá hvort það sé ekki hægt að stofna eitt stykki leiklistartímarit. Hugsjónamenn og konur sem hafa áhuga á þessu hafið samband við Kómedíuleikhúsið sakar allavega ekki að pæla aðeins og finna leiðir til að hrinda þessu í framkvæmd. Hlakka til að heyra frá ykkur.

haraldur björnsson Haraldur Björnsson gaf út tímaritið Leikhúsmál með miklum bravúr.


ENGIN AUMINGJASKAPUR Á LJÓÐINU Á SIGLÓ

Kómedíuleikhúsið er komið úr ljóðaleikferð frá Siglufirði þar sem leikhúsið sýndi ljóðaleikinn Aumingja litla ljóðið. Tilefnið var ljóðahátíð sem Ungmennafélagið Glói ásamt fleirum stóð fyrir á Siglufirði dagana 18. - 20. október og bar hátíðin nafnið Glóð. Aumingja ljóðið var sýnt í vinnustofu og gallerí listamanns á Siglufirði og var gerður góður rómur af sýningunni enda á ferðinni klassískur kveðskapur úr smiðju vestfirskra skálda. Að leik loknum var skundað í Herhúsið á Sigló þar sem fram fór Jónasarkvöld í tilefni af tveggja alda afmæli listaskáldsins góða. Þar lásu Kómedíuleikarinn og Sigurður Skúlason, einn af bestu upplesurum landsins, ljóð eftir Jónas. Einnig flutti Páll Helgason skemmtilegt erindi um skálidð og lauk lestrinum með því að fara með Gunnarshólma. En þess má geta að þegar kappinn Páll, sem er fyrrum kennari á Sigló, var í skóla þá var það eitt af verkefnum æskunnar í skólanum að læra þetta kvæði utanbókar og hefur hann staðið sína plikt því ljóðíð flutti hann með bravúr. Einog menn vita þá er Gunnarshólmi nú ekkert stutt kvæði og þar að auki nokkuð erfitt í fluttningi en þetta voru börnin læra hér í gamla daga og hefur það nú ábyggilega verið nokkuð erfið glíma. Reyndar er það nú svo að börn eru fljót að læra og eru meira að segja snögg að tileinka sér nýtt tungumál. Þegar aldurinn færist yfir þá minnkar þessi hæfileiki jafnt og þétt og þekkir Kómedíuleikarinn það að með hverju árinu þarf hann að eyða lengri tíma í að læra sinn texta. Það væri því ekki úr vegi að nýta æskuárin og læra svona klassíkur einsog Gunnarshólma utanbókar því það er nú líka þannig að þegar það er komið í kollinn þá ferð það ekkert þaðan aftur. Meðan Jónasardagskráin fór fram flaug það í koll ritara að það hefði nú verið gaman ef Rás eitt hefði verið á staðnum og hefði hljóðritað þessa uppákomu. Var úrvals efni í einn góðan útvarpsþátt um Jónas Hallgrímsson. Mættu þeir ljóðamenn á Sigló hafa þetta í huga að ári að hafa samband við ríkisviðtækið og bjóða þeim að koma á hátíðna og gera kannski einn eða tvo þætti um hátíðina. Það var allavega að heyra á fólki i gær að Ljóðahátíðin Glóð væri komin til að vera enda var dagskráin og skipulag í gær til mikillar fyrirmyndar. Landsbyggðin ætti að gera meira að því að fara útí listahátíðir því þar felast miklir möguleikar. Nefnum sem dæmi Ísafjörð þar sem árlega eru haldnar þrjár stórar listahátíðir leiklistarhátíðin Act alone sem Kómedíuleikhúsið stendur fyrir og svo tvær tónlistarhátíðir Aldrei fór ég suður og Við Djúpið. Þessar hátíðir hafa verið að stækka á hverju ári og lengjast Act alone stendur t.d. yfir í fimm daga núna. Fleiri byggðarlög á landsbyggðinni hafa verið að poppa uppá menningarlífið með listahátíðum t.d. á Patró var haldin heimildarmyndahátíð í vor. List á landbyggð er málið, höldum áfram á sömu braut og bætum bara við enn fleiri listahátíðum á landsbyggð. Aukum úrvalið það er margt fleira hægt að gera einsog t.d. smásagnahátíð nú eða teiknmyndasöguhátíð eða bara þöglumyndahátíð........

aumingja Aumingja litla ljóðið


AUMINGJA LJÓÐIÐ Á SIGLÓ

Ljóðahátíðin Glóð hófst 18. október á Siglufirði og heldur ljóðafjörið áfram um helgina. Kómedíuleikhúsið sýnir á laugardag 20 október ljóðaleikinn Aumingja litla ljóðið eftir Hallgrím Oddsson. Sýningin fer fram í Aðalgötu 18 á Sigló og hefst leikurinn klukan 19.30 og takið eftir FRÍTT INN. Að vanda er um einleik að ræða og vart þarf að nefna það en gerum það samt að Kómedíuleikarinn leikur. Að lokinni sýningu verður haldin sérstök Jónasardagskrá í Herhúsinu í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli listaskáldsins góða. Kómedíuleikarinn er meðal lesara ásamt Sigurði Skúlasyni og Páli Helgasyni en hann mun flytja Gunnarshólma einsog honum einum er lagið. Fyrir þá sem ekki komast á sýninguna á Aumingja ljóðinu þá látum vér hér fylgja lokaljóð leiksins en þau eru fjölmörg og eiga það eitt sameiginlegt að höfundar eru allir vestfirskir. Ljóðið heitir Skáldagrímur og er eftir Guðmund Inga Kristjánsson en þess má geta að aldarafmæli hans er einmitt núna í ár og hafa Önfirðingar verið duglegir við að minnast skáldsins á árinu. Meðal annars hafa þau gefið út ljóðasafn hans Sóldagar í sérlega vandaðri útgáfu og ástæða til að hvetja ljóðaunnendur til að festa kaup á þessu eigulega verki eftir eitt fremsta ljóðskáld Vestfirðinga á síðustu öld. En hér kemur Skáldagrímur:

Skáldagrímsdalur, hvilft við lága heiði,

hvaðan er runnið nafnið sem þú berð?

Gleymst hefur skáld frá löngu liðnu skeiði.

Ljóð þess og minjar eru hvergi á ferð.

Ortir þú stökur eða heila rímur?

Af hverju týndist þetta kvæðasafn?

Varstu ekki ljós í vestri, Skáldagrímur?

Vann ekki hróður tímans þetta nafn?

Horfinn ert þú, og hverfa munu fleiri.

Hrósyrða margra bíður gleymskan ein.

Bjarndæling eftir öld í sýn ég heyri,

örtölvuþjón og gerfihnattasvein.

Lítur hann inn á ljóðadeild í safni,

les þar í hljóði fölnað titilblað,

glöggvar sig ei á gömlu, týndu nafni.

,,Guðmundur Ingi," spyr hann, ,,hver var það?"

aumingja litla ljóðið Frá frumsýningu leiksins Aumingja litla ljóðið í ,,ljóðalundi" Guðmundar Inga á Kirkjubóli í Önundarfirði.


NEGRASTRÁKARNIR SNÚA AFTUR

Kómedíuleikarinn brá sér í bókabúðina á Ísafirði svona til að kikka á jólabækurnar sem eru þegar byrjaðar að flæða inn. Var honum nokk brugðið en þó ánægjulega við að sjá þar eina væna skruddu. Ljóðabálkinn Negrastrákana með myndskreytingum eftir bílddælska listamanninn Mugg sem fjallar um 10 litla negrastráka og  líkur á þessa leið: ,,Einn lítill negrastrákur sá hvar gekk ein dama, / hann gaf sig á tal við hana og bað hennar með því sama. / Negrastelpan sagði já, og svo fóru þau í bíó, - / og ekki leið á löngu áður en þeir urðu aftur tío." Ósjaldan var þetta kvæði sungið á jólaböllum á æskuárum Kómedíuleikarans í Baldurshaga á Bíldudal. En það hefur nú margt breyst síðan þá, enda sá kómíski farin að grána í vöngum, og nokkuð langt síðan þetta kvæði var tekið útaf lagalista íslensku jólasveinanna og þarf svosem ekkert að rökstyðja né ræða þá ástæðu neitt frekar titill ljóðsins segir allt sem segja þarf. Hinsvegar er þetta mjög þörf útgáfa því myndskreytingar Muggs við kvæðið eru stórkostlegt listaverk einsog öll hans verk voru. Þessi bók hefur verið ófánleg um langt skeið en nú hefur bókaútgáfan Skrudda bætt úr því með vandaðri útgáfu. Kómedíuleikhúsið fagnar þessari útgáfu Skruddu enda er Muggur í miklu uppáhaldi hjá leikhúsinu. Árið 2002 færði Kómedía á fjalirnar einleik, sem jafnframt fyrsti frumsamdi leikur leikhússins, um ævi Muggs og hét einfaldlega Muggur. Leikurinn var frumsýndur í fæðingarþorpi Muggs og Kómedíuleikarans, Bíldudal. Einnig var leikurinn sýndur á Ísafirði og í Borgarleikhúsinu. Árið 2006 frumsýndi Kómedíuleikhúsið einleikinn Dimmalimm sem er einmitt byggður á ævintýri eftir Mugg og er sá leikur enn í ævintýraham en sýningar eru nú komnar yfir 60. Fyrir skömmu var ritað um það hér á blogginu að Dimmalimm er ný útgefin og má því segja að Muggur sé fyrirferðamikill í jólabókaflóði fjölskyldunnar þessa dagana.

muggur3


KÓMÍSK JÓL FRAMUNDAN

Í gærkveldi hófustu æfingar á nýju íslensku jólaleikriti. Um er að ræða einleik, ekki að spyrja að því uppskrift að hætti Kómedíu sem hefur líka bara einn leikara á sínum snærum, sem heitir Jólasveinar Grýlusynir. Leikurinn er eftir Soffíu Vagnsdóttur og Kómedíuleikarann. Vart þarf að nefna hver leikur en leikstjóri er Soffía. Fjölmargir vestfirskir listamenn koma að uppfærslunni. Hrólfur Vagnsson semur tónlist, Marsibil G. Kristjánsdóttir hannar brúður og leikmuni, Alda Veiga Sigurðardóttir hannar búninga og ljósahönnuður er í höndum Jóhanns Daníels. Leikurinn verður sýndur í Tjöruhúsinu á Ísafirði sem er staðsett á safnasvæðinu í Neðsta kaupstað. Í tilefni sýningarinnar verður Tjöruhúsið sett í sérstakan jólabúning og verður þá sannkallað ævintýrahús jólasveinanna. Jólasveinar Grýlusynir fjallar um gömlu íslensku jólasveinana áður en þeir fóru í rauðu sparifötin og byrjuðu að drekka Kóka Kóla. Soffía hefur samið nýjar vísur fyrir jólasveinanna og Hrólfur hefur samið skemmtilega músík við þær. Inní ævintýri Grýlusonanna fléttast samt allt annað ævintýri um unglingspilt sem er að leita að kúnni Búkollu sem hefur stungið af rétt einu sinni. Eða hvað? Var henni kannski stolið? Til að forðast allan misskilning þá styrkir Vódafón ekki sýninguna enda langt síðan Búkolla kom í heiminn og hefur verið á randi síðustu áratugi og lent í ótal ævintýrum. Jólasveinar Grýlusynir verður frumsýnt laugardaginn 17. nóvember kl.14.00 í Tjöruhúsinu. Sýningar verða síðan allar helgar í nóvember og desember.

STEINN STEINARR MEÐ CHEERIOSINU

Kómedíuleikarinn fær sér Cheerios á morgnanna einsog svo margir aðrir. Meðan hann skóflar í sig þessum þjóðlega morgunverði les hann gjarnan á morgunkornspakkann. Lesefnið er sérlega skemmtilegt núna því á annari hliðinni eru teiknaðar myndir af ýmsum listamönnum. Meðal þeirra er eitt af uppáhöldum Kómedíuleikarans meistari Steinn Steinarr og um hann er ritaður þessi texti: Steinn Steinarr hét réttu nafni Aðalsteinn Kristmundsson. Ljóð hans eru talin upphaf íslenskra nútímaljóðlistar. Þekktasta ljóð hans er Tíminn og vatnið." Aðrir höfðingjar sem eru heiðraðir af Cheerios kompaníinu eru Megas, William Shakespeare og Woody Allen. Fyrir neðan teikningarnar er svo þessi texti: Rannsóknir sýna að heilbrigt mataræði styrkir varnir líkamans gegn ýmsum kvillum....." Nú er það nú ábyggilega ekki þannig meint að fyrrnefndir spekingar séu nefndur kvilli og að maður geti losnað undan þeim með því að borða Cheerios. Að gríni splepptu þá er þetta sniðugt menningarframtak hjá Cheerios mönnum og konum að kynna fyrir æskunni merka listamenn sem hafa haft mikil áhrif í listaheiminum í gegnum tíðina. Á baki pakkans eru svo líka margar fleygar setningar og þar skákar öllum öðrum Megas með heilræðið: Ef þú smælar framan í heiminn, þá smælar heimurinn framan í þig. Þetta er auka morgunkorn og gott veganesti við átök dagsins.

Kómedíuleikarinn sem Steinn Steinarr í uppfærslu Kómedíu árið 2003.

steinn


HÖFUNDUR AUMINGJA LITLA...

Að gefnu tilefni skal þess getið að nafn ljóðaleiksins Aumingja litla ljóðið er sótt í ljóðabrunn Steins Steinarrs. Ljóðið sem um ræðir hljómar svona:

Líf mitt er eins og ljóðið

og ljóðið er eins og ég

samt fáum við aldrei að finnast

og förum hvort sitt veg

Aumingja litla ljóðið

sem lífið hvergi fann

aumingja litla lífið

sem ljóðinu ann

Svo fljúga þau eins og fuglar

í fjarskann hvort sitt veg

og ekkert verður eftir

nema aumingja ég.

Þá vitum við það. Aumingja litla ljóðið verður á dagskrá ljóðahátíðarinnar Glóð á Siglufirði núna um helgina. Hátíðin hefst á fimmtudag en ljóðaleikurinn verður sýndur á laugardagskvöldinu kl.19.30.

Mynd úr uppfærslu Kómedíu á einleiknum Steinn Steinarr árið 2003. Leikari var Elfar Logi Hannesson og leikstjóri Guðjón Sigvaldason.

steinnsteinar


21 SÝNING Á 20 DÖGUM

Leikferð Kómedíuleikhússins er lokið og er óhætt að segja að leikferðin hafi verið skemmtileg kómedía. Kómedíuleikhúsið ferðaðist um noður-austur- og suðurland með einleikina Gísli Súrsson og Dimmalimm. Leikferðin stóð yfir í 20 daga og var obbulítið meira en ein leiksýning á dag eða 21 styki. Kómedíuleikhúsið er hæst ánægt með árangurinn og frábærar viðtökur. Kómedíuleikarinn er nú komin vestur á fjörður aftur. Ekki á þó að leggjast í kör því nú hefjast æfingar að fullum krafti að tveimur sýningum. Fyrst ber að nefna Jónasardagskrána Ég bið að heilsa sem verður frumsýnd Við pollinn á Ísafirði 7. nóvember. Þar munu Elfar Logi og Þröstur Jóhanesson flytja ljóð Jónasar Hallgrímssonar í tali og tónum en leikurinn er fluttur í tilefni af 200 ára afmæli listaskáldsins góða. Síðast en ekki síst hefjast æfingar á jólaeinleiknum Jólasveinar Grýlusynir sem verður frumfluttur 17. nóvember í Tjöruhúsinu á Ísafirði. Elfar Logi leikur og er höfundur ásamt Soffíu Vagnsdóttur sem einnig leikstýrir. Tónlist semur Hrólfur Vagnsson. Ekki má gleyma Aumingja litla ljóðinu sem Kómedíuleikhúsið sýnir á laugardaginn á ljóðahátíðinni Glóð á Siglufirði. Semsagt Kómískt og skemmtilegt ástand í herbúðum Kómedíuleikhússins.

P.s. Kómedíuleikhúsið fangar enn einni endurútgáfu bókarinnar Dimmalimm og sérílagi að nú sé hún einnig fáanleg í pólskri þýðingu. Og hér eru þau Dimmalimm og Pétur í einleik Kómedíu Dimmalimm.

dimmalimm brúður


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband