Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

HVER HEFUR NEF SEM ER NÆMAST ALLRA NEFJA? GETTU NÚ

Gáttaþefur kominn á kreik en þessi jólasveinn hefur verið feikivinsæll þó ekki hafi farið eins mikið fyrir honum undanfarin ár. Fyrir allmörgum árum var Gáttaþefur iðinn við að gefa út úrvals fína hljómplötur sem voru nánast til í  hverju koti og höll. Enda eru þetta úrvals verk og þegar orðinn klassík. Veit ekki hvort plöturnar hafi verið gefnar út á geisla ef svo er ekki mætti gjarnan bæta úr því ég skal kaupa seríuna. Gáttaþefur hefur feiki stórt nef enda er það næmast allra nefja einsog hann segir í vísunni sinni:

GÁTTAÞEFUR

Nefið mitt er næmast allra nefja,

það á það líka stundum til að tefja

ferðir mínar vítt og breitt um bæinn,

því ég er alveg einstaklega laginn

að þefa uppi eldhúsilminn góða

þegar einhver frúin fer að sjóða.

Þá staldra ég við skráargat og sting svo nefi inn

og lyngi aftur augunum er jólailminn finn.

gattatefurGáttaþefur


JÓLASVEINAR GRÝLUSYNIR Á ÍSAFIRÐI Á MORGUN

Jólaleikritið vinsæla Jólasveinar Grýlusynir verður sýnt á morgun í Tjöruhúsinu á Ísafirði. Sýning hefst kl.14 og stendur miðasala yfir á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is Grýlusynirnir hafa fengið fádæma góðar viðtökur hér vestra og hafa nú þegar verið sýndar tíu sýningar. Enda eru hér á ferðinni alíslenskir jólasveinar þessir gömlu góðu ekki þessir rauðu enda er sýningin ekki styrkt af Kóka Kóla. Mikil tónlist er í sýningunni því allir sveinarnir þrettán taka lagið og einnig unglingspilturinn sem flækist inní þeirra ævintýri. Pilturinn sá er að leita að beljunni Búkollu sem hefur strokið einn ganginn enn frá ömmu gömlu. Leitin leiðir hann að jólasveinahellinum og þar gerast nú ævintýrin. Jólasveinar Grýlusynir verða á fjölunum í Tjöruhúsinu ævintýrahúsi jólasveinanna á morgun einsog áður var getið. Síðasta sýning á leiknum verður milli jóla og nýárs nánar tiltekið 27. desember kl.17.00.

jolasveinar grylusynirUnglingspilturinn og jólasveinarnir þrettán


GLUGGAGÆGIR LIGGUR Á GLUGGA OG ER AÐ GLÁPA

Gluggagægir kominn af fjöllum og mikið hafði hann það nú gaman í nótt. Ekki bara sport að gefa í skóinn heldur um leið gafst honum einstakt tækifæri til að taka út glugga landsins. Gluggagægir nær heldur betur miklum áfanga í verkinu Jólasveinar Grýlusynir því þar tekst honum loks að útbúa sinn eigin glugga. Gluggagægir hefur sett saman nýja vísu um sig og þar segir frá hans aðaláhugamáli.

GLUGGAGÆGIR

Hér ligg ég einn á glugga og er að glápa

inn til þín og augun í mér rápa

til og frá í augnatóftum mínum

er fylgist ég með ferðum þínum.

Í öllum bænum lát þér ekki bregða

þó þurfi' ég mér á þennan hátt að hegða,

en nafnið mitt er gamli Gluggagægir

að glápa inn um gluggana - það nægir!

gluggagaeir


BJÚGNAKRÆKIR LEIKUR SÉR AÐ BJÚGUM EINSOG KJÖTKVEÐJUKARL

Bjúgnakrækir kominn til byggða og nú er ein gott að kjötkaupmenn passi uppá bjúgun og pylsurnar. Þetta tvennt er nú uppáhaldsfæða Bjúgnakrækis enda heitir hann ekki Bjúgnakrækir fyrir ekki neitt. Hann hefur svo mikið yndi af þessum mat að hann bæði kelar og leikur við þau einsog kjötkveðjukarl út í löndum. Eða einsog hann segir sjálfur frá í vísunni sinni:

BJÚGNAKRÆKIR

Halló bjúga, loksins náði' ég þér!

Ég skipa þér að koma heim með mér.

Dagana langa

bjúgu ég fanga.

Var búinn' að fela

nú við þau kelaaa....

Læt þau svo leika

um háls og á höndum,

rétt einsog kjötkveðjukarl út í löndum.

Maginn á mér æpir hátt og snjallt:

,,Með glöðu geði ét ég þetta allt!"

 


SKYRGÁMUR HÁMAR Í SIG SKYRIÐ OG LÍTUR ÚT EINSOG TUNNA EFTIR SKYRÁTIÐ

Skyrgámur mættur á svæðið og farinn að spóka sig í bænum. Hann er víst ekki allskostar sáttur við skyrmarkaðinn fílar ekki alveg þetta jarðaberja, karamellu, bananasplitt eða hvað þetta nú allt heitir. Heldur vill hann hafa skyrið einsog hjá Grýlu mömmu en uppskriftin er svohljóðandi: þykkt, súrt og bragðsterkt. Þegar hann kemst í svoddan nokkuð hámar hann í sig og lítur út einsog tunna að skyrmáltið lokinni. Eða einsog hann segir í kvæði sínu:

SKYRGÁMUR

Líttu ' á mig, - ég lít út einsog tunna!

Já - eitt er það sem fáir aðrir kunna:

að tæma aleinn ámu risastóra

sem venjulega dugar fyrir fjóra.

Hún troðfull er af skyri beint frá bænum

ég tæmi'ana til botns í einum grænum.

Svo sit ég bara afvelta og get mig ekki hreyft,

ég veit það bara að þetta hefði Grýla aldrei leyft,

hvort sem skyrið hefði verið gefins eða keypt!

skyrgamurSkyrgámur saddur og mettur eftir alvöru skyr.


HURÐASKELLIR YRKIR OG ELSKAR AÐ HAFA HÁTT

Hurðaskellir er mættur í bæinn og átti nú nokkuð erfiða nótt allavega hér vestra rok og læti. En honum fannst það nú svosem ekki slæmt þar sem hann elskar að hafa hátt og skellir hurðum af stakri list. Hurðaskellir hefur heldur betur skellt hurðum í Tjöruhúsinu á Ísó í jólaleikritinu Jólasveinar Grýlusynir. Hefur það mikil áhrif á gang mála í verkinu en til að komast að því er best að mæta bara í Tjöruhúsið ævintýrahús jólasveinanna og sjá jólastykkið. Næsta sýning er á laugardag 22. desember kl.14.00 og stendur miðasala yfir á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is Hurðaskellir hefur sett saman skemmtilega vísu um þetta sérstaka áhugamál sitt að skella hurðum:

HURÐASKELLIR

Hurðaskellir heiti ég og elska að hafa hátt.

Ef einhversstaðar sé ég hurð sem stendur uppá gátt,

þá rýk ég til og skelli

með ógnarlegum hvelli,

svo hrekkur þú í kút,

en ég er rokinn út!

Hristist hún á hjörunum,

skelfur þú í spjörunum!

Ha, ha, hæ,

ég skellihlæ

og nægju mína fæ.

hurdaskellirHurðaskellir í ham enda kominn í bæinn og skellir hurðum sem aldrei fyrr.


ASKASLEIKIR YRKIR Á KISTUNNI MEÐAN HANN HREINSAR INNAN ASKINN

Þá er Askasleikir mættur í bæinn til að taka út diska af öllum stærðum sem hafa leist af hendi hlutverk asksins síðustu ár. Hann er hins vegar fastur fyrir og vill ekkert vera að breyta nafni sínu þó fólk sé löngu hætt að borða uppúr öskum. Enda væri það sennilega dáldið hallærislegt að heita kannski Diskasleikir eða Súpudiskasleikir, nei heldur viljum við hafa gamla góða nafnið Askasleikir. Líkt og aðrir bræður hans hefur Askasleikir hent fram stöku enda ekki slæmt að geta hent fram stöku á stöku stað. Þetta hefur Askasleikir að segja:

ASKASLEIKIR

Til eru furðulegustu leikir

það þekki ég sjálfur, Askasleikir.

Ég sit svo sæll á minni kistu

og reyni í fyrstu

að hreinsa innan askinn

áður en hann fer í vaskinn.

Ef ekki dugir fingur

þá er ég nokkuð slingur

og teygi mína tungu endilanga

oní askinn, - restarnar að fanga.

jólasveinar 001Askasleikir hvergi banginn þó ekki sé lengur í askana látið


POTTASLEIKIR YRKIR MEÐ POTTINN Á HAUSNUM

Pottasleikir mættur á svæðið og sópar að sér pottum til að sleikja þá og hreinsa að innan. Pottasleikir komst í einn stóran pott í nótt og varð úr því mikið ævintýri því hann festi hausinn í pottinum. Þess vegna birtist hér engin mynd af Pottasleiki en vísan hans er svona:

POTTASLEIKIR

Æ, æ, æ,

æ, æ, æ.

Ég hausnum á mér ekki uppúr næ!

En viltu vita hvernig fram fer vinnan?

Ég vinn við það að sleikja pott að innan.

Mín langa breiða tunga gerir gagnið,

því betur sem að meira reynist magnið

af innansleikjunni sem eftir verður

þegar góður pottréttur er gerður!


TÍUNDA SÝNING Á JÓLASVEINAR GRÝLUSYNIR Á MORGUN

Á morgun sunnudag verður tíunda sýning á jólaleikritinu Jólasveinar Grýlusynir og hefst hún kl.14.00. Það er óhætt að segja að Kómísku sveinarnir hafi fengið frábærar viðtökur og hafa nú um fjögur hundruð manns séð leikinn. Ekki amalegt það þar sem sýningarstaðurinn Tjöruhúsið er lítið og sætt leikhús sem tekur tæplega 60 manns í sæti ef vel er raðað. Jólastemmningin hefur sannarlega verið til staðar enda er Tjöruhúsið sannkallað ævintýrahús jólasveinanna en til gamans má geta þess að húsið er rautt sem er nú jólaliturinn í ár og síðustu aldar. Höfundar Jólasveina Grýlusona eru þau Elfar Logi Hannesson og Soffía Vagnsdóttir, hann leikur og hún leikstýrir. Leikmyndahönnum og jólasveinahönnun er í höndum listakonunnar Marsibil G. Kristjánsdóttur. Hrólfur Vagnsson semur tónlist og Jóhann Daníel Daníelsson lýsir ævintýrið upp. Hægt er að panta miða á jólaleikritið Jólasveinar Grýlusynir á heimasíðu leikhússins www.komedia.is

komiskur jolasveinn2Nútíma unglingspiltur á tali við Stúf.

Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson.


ÞVÖRUSLEIKIR HENDIR FRAM VÍSU Í UPPHAFI NÆTURVAKTAR

Þvörusleikir kom við hér í túninu heima á ísó og kastaði í hús nýrri vísu.

ÞVÖRUSLEIKIR

Þvörusleikir er nafnið mitt

ég dunda mér reyndar við þetta og hitt.

En mest þykir mér þó gaman

þegar margir koma saman

og elda sér mat í potti,

þá fylgist ég með, - og glotti.

Ég veit þá að mín bíður þvara

sem ég fæ að sleikja, bara

af því ég heiti þvörusleikir.

jólasveinar 004 Þvörusleikir verður í Tjöruhúsinu á Ísafirði um helgina, endilega kikkið við.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband