Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

TIL LUKKU GÆÐALEIKARI MEÐ DAGINN

Christopher Walken einn af bestu leikurum Hollywoodborgar. Stendur alltaf fyrir sínu en velur oft myndir sem standa síður en svo fyrir sínu og þá eina sem bjargar þeim frá gleymsku er frammistaða Walken. Að mínu mati eitt flottasta Bond illmennið en hann fer á kostum í A View to a Kill þar sem Roger Moore, uppáhalds Bondinn minn, er í njósnaragerfinu og Duran Duran semur titillagið sem er ágætis slagari sem eldist vel. Einhverju sinni heyrði ég að Walken ætlaði að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna. Í fyrstu fannst mér það útíhött hugsaði svo til Reagan og sagði þá bara Auðivtað, ég meina hann hefur allavega þetta lúkk sem hentar hlutverkinu og mundi ábyggilega standa sig vel. Hinsvegar vil ég nú heldur að hann haldi sig við bíóið og þau hlutverk sem þar bjóðast en mátt samt alveg vanda valið betur. Til lukku með daginn.
mbl.is Christopher Walken 65 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

98 DAGAR Í ACT ALONE

Bara svona til að minna okkur á Act alone hátíðina og þá einleiknu stemningu sem verður þá, ég meina 98 dagar er ekki svo langur tími og tíminn er fljótur að líða. En til að stytta biðina þá bendi ég ykkur kæru leikhúsvinir og unnendur á Act alone heimasíðuna www.actalone.net þar er hægt að nálgast allar upplýsingar um Act alone allt frá upphafi og þar að auki er heilmikið lesefni um þetta sérstaka leikhúsform sem margir vilja meina að sé erfiðasta form leiklistarinnar. Það má t.d. lesa fjölmargar greinar um þekkta einleikara á borð við Lily Tomlin, Hal Holbrook, Eric Bogosian ofl ofl. Á næstunni hefst síðan kynning á sýningum hátíðarinnar sem eru fjölbreyttar og ekki bara einleiknar. Ýmsar nýjungar verða á Act alone 2008 og verður sagt frá þeim á heimasíðunni þegar nær dregur hátíð það er því um að gera að fylgjast vel með Act alone síðunni og svo er líka um að gera að byrja að bóka gistingu á Ísafirði áður en allt fyllist. En í tilefni dagsins þá skulum við aðeins bregða á leik með því að birta hér mynd úr sýningu sem verður á Act alone 2008 og um leið spyrjum við, hvaða sýning er hér á ferð og hver er leikarinn?


ÞORSTEINSVAKA

Verð bara að vekja athygli á þessari frétt um stórviðburð í Iðnó á næstunni. Þar mun Hjalti Rögnvaldsson lesa ljóð Þorsteins frá Hamri í tilefni af 70 ára afmæli skáldsins. Erum nú ekkert að tala um nokkur ljóð heldur bara allt safnið einsog þessi frétt hér gefur til kynna sem er á heimasíðu TMM www.tmm.is

Þorsteinsvaka

 

Í tilefni af því að Þorsteinn frá Hamri varð nýlega 70 ára og að 50 ár eru liðin frá útkomu fyrstu ljóðabókar hans flytur Hjalti Rögnvaldsson leikari ljóð Þorsteins í Iðnó næstu fjóra mánudaga, 31. mars, 7., 14. og 21. apríl. Lesturinn hefst kl. 17 og heldur áfram vel fram yfir miðnætti. Aðgangur er ókeypis.

_____________________________________________________________________Mánudaginn 31. marskl. 17 Í SVÖRTUM KUFLI (1958)kl. 19 TANNFÉ HANDA NÝJUM HEIMI (1960)kl. 21 LIFANDI MANNA LAND (1962)kl. 23 LANGNÆTTI Á KALDADAL (1964)kl. 01 JÓRVÍK (1967)_____________________________________________________________________Mánudaginn 7. aprílkl. 17 VEÐRAHJÁLMUR (1972)kl. 19 FIÐRIÐ ÚR SÆNG DALADROTTNINGAR (1977)kl. 21 SPJÓTALÖG Á SPEGIL (1982)kl. 23 NÝ LJÓÐ (1985)_____________________________________________________________________Mánudaginn 14. aprílkl. 17 URÐARGALDUR (1987)kl. 19 VATNS GÖTUR OG BLÓÐS (1989)kl. 21 SÆFARINN SOFANDI (1992)kl. 23 ÞAÐ TALAR Í TRJÁNUM (1995)_____________________________________________________________________Mánudaginn 21. apríl kl. 17 MEÐAN ÞÚ VAKTIR (1999)kl. 19 VETRARMYNDIN (2000)kl. 21 MEIRA EN MYND OG GRUNUR (2002)kl. 23 DYR AÐ DRAUMI (2005)AÐGANGUR ÓKEYPIS

 

Þetta er náttúrulega bara snild. Hjalti er einn besti upplesari okkar og hefur áður gert ljóðum Jóns úr Vör mjög góð skil og því ástæða til að hvetja sem flesta til að skunda í Iðnó næstu mánudaga og pælið í því FRÍTT INN.


BESTI SÖNGVARI ÍSLANDS

Vilhjálmur hefur alla tíð verið í miklum metum hjá Kómedíuleikaranum. Á æskuárunum í Birkihlíðinni á Bíldudal var Villi ósjaldan undir nálinni og í mestu metum var lagið Bíddu pabbi. Þegar lagið hófst fór hann í ham og lék með tilþryfum við texta lagsins og skemmtilegast var víst að leika ,,ég hljóp svo hratt að ég hrasaði og datt" semsagt áhættuleikur á háu stigi. Skömmu síðar varð uppi fótur og fit hjá drengnum. Haldiði að hann hafi ekki hitt Vilhjálm, jú jú alveg satt. Meira að segja á Bíldudal nánar tiltekið á flugvellinum á Bíldudal. Hann var þá að skuttlast vestur með einhverja menn á fund á lítilli rellu. Pilturinn fékk að fara með pabba á flugvöllinn og vissi nú ekkert hvað var í gangi. Þegar flugmaðurinn kom út úr vélinni datt andlitið af snáðanum. Haldið kannski að þetta sé toppurinn ó nei. Þar sem bíllinn var of lítill fyrir alla farþegana sem þurftu að komast á Bíldó. Þannig að strákurinn þurfti að sitja í fanginu á Villa. Vá, maður. Svo fóru kallarnir á fundinn. En Villi var á meðan í Birkihlíðinni hjá okkur mömmu, einmitt á leiksviðinu á Bíddu pabba í stofunni, og þar sat hann og drakk kaffi og borðaði randalínu og ég, já að sjálfsögðu sat ég bara í fanginu á Villa. Allan tímann. Aðdáun að Villa hefur haldist allar götur síðan enda hafði hann rödd sem var engri lík, einstök tilfinning og bara eitthvað svo sannur. Hef meira að segja pælt oftar en einu sinni í því að búa til einleik um Vilhjálm. Hef aðeins sagt nokkrum þessa hugmynd og hef fengið frekar dræmar undirtekktir. Veit ekki af hverju. En kannski er það einmitt þá sem maður á að kíla á hugmyndina. Sjáum til.

P.s. takk Rás tvö, hélt ég ætti nú sjáldan eftir að hrósa þeim, fyrir að minnast Villa í dagskrá ykkar í dag.


mbl.is Nýtt lag fannst með Vilhjálmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÁVARP Í TILEFNI ALÞJÓÐLEGA LEIKLISTARDAGSINS

Einsog greint var frá hér á Kómískablogginu í morgun þá er Alþjóðlegi leiklistardagurinn í dag. Leiklistarsamband Íslands hefur af því tilefni fengið Benna Erlings leikhúslistamann til að semja ávarp og mun það verða flutt víða í dag t.d. í útvarpinu og á undan sýningum hjá bæði atvinnu- og áhugaleikhúsum í kvöld og næstu kvöld. En hér er ávarpið hans Benna:

Benedikt Erlingsson:

Ávarp Alþjóða leiklistardagsins, 27. mars 2008

(Flytjandinn skal vera alvarlegur og ávarpa okkur af einurð og einlægni.)

Kæru leikhússgestir.

Í dag er Alþjóða leiklistardagurinn .
Þá eru haldnar ræður og gefin ávörp.
Þið áhorfendur góðir fáið ekki að njóta leiksýningarinnar fyrr en sá sem hér stendur hefur lokið þessu ávarpi.
(Dok)
Þetta er svona um allan heim í dag.
Þessvegna er dagurinn kallaður Alþjóða leiklistardagurinn.
(Dok) 
Þessar ræður fjalla yfirleitt um getu leiklistarinnar til að stuðla að skilningi og friði þjóða í milli eða upphaf og tilgang sviðs listarinnar  í sögulegu ljósi og svona ræður hafa verið haldnar við upphaf leiksýninga á þessum degi síðan 1962 eða í 46 ár.

(þögn, nýr tónn.)

Samt er það svo að leiklistinni sem framin verður hér í kvöld er engin greiði gerður með þessu ávarpi.
(Stutt dok)
Höfundar sýningarinnar: Skáldið, leikstjórinn, leikhópurinn og  samverkamenn þeirra, gerðu ekki ráð fyrir svona ávarpi í upphafi leiks.
Þessi ræða er ekki partur af hinu ósýnilega samkomulagi sem reynt verður að gera við ykkur eftir andartak.
(Dok)
Leikararnir standa nú að tjaldabaki um allan heim í kvöld og bíða þess pirraðir að þessum ræðum ljúki og leikurinn megi hefjast. Þetta ávarp er ekki að hjálpa þeim.
(Dok)
Og svo eru það þið áhorfendur góðir.  Fæst ykkar áttuð von á þessari truflun. Ávarp vegna Alþjóða leiklistardagsins! Eitthvað sem þið vissuð ekki að væri til! Kannski setur þetta tal ykkur úr stuði og þið verðið ekki mönnum sinnandi í langa stund og náið engu sambandi við sýninguna.

(þögn, nýr tónn)

En ef til vill mun leiksýningin, sem hér fer í gang eftir andartak, lifa af þetta ávarp.
Ef til vill mun þetta tal eins og annað tal á hátíðisdögum hverfa úr huga ykkar undrafljótt.
Kannski mun leiklistin “lifa af ” Alþjóða leiklistardaginn og hrista hann af sér eins og svo margt annað í gegnum tíðina.
Hún er nefnilega eldra fyrirbrigði en Alþjóða leiklistardagurinn,  eins og sjálfsagt verður tíundað í ávörpum um allan heim í kvöld.
(Dok)
Sumir halda að hún eigi upphaf sitt í skuggaleik frummanna við varðeldanna í grárri forneskju.
Aðrir tengja upphafið við fyrstu trúarathafnir mannsins eða jafnvel fæðingu tungumálsins.
Samt er það svo, að þegar maður horfir á flug tveggja hrafna sem snúa sér á hvolf og fetta sig og bretta í hermileik háloftanna og að því er virðist  skellihlæja að leikaraskapnum, þá er ekki laust við að læðist að manni sá grunur að þessi göfuga list tilheyrir ekki okkur einum og upphaf hennar sé dýpra en… “við”.
Tilheyri kannski alveg eins fiskunum í sjónum.

(þögn, nýr tónn)

Þetta var heimspekilegi kafli þessa ávarps. Hér  fenguð þið það sem til var ætlast, nokkur orð um upphaf og eðli leiklistarinnar.
Ég vona að þessi orð muni stuðla að skilningi og friði þjóða í milli.
(Dok)
Kæru áhorfendur. Nú mun þetta tal taka enda og sá sem hér stendur mun þagna  svo átökin á sviðinu geti hafist.
Þeirra vegna erum við jú hér.
Þessu ávarpi er lokið.
Takk fyrir.

(Ræðumaður hneigir sig og dregur sig í hlé án þess að brosa.)

Leiðbeiningar:
Dok =1-1,5sek.
Þögn = 2 til 3sek
Ef flytjandinn er lítt undirbúinn og því bundinn við blaðið þá ætti hann einungis  að  líta upp og á horfa á áhorfendur í dokum og þögnum.
Nýr tónn= frjáls og fer eftir innsæi og smekk flytjandi hvort og hvernig.


Benedikt Erlingsson útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1994 og lék Galdra-Loft í Óskinni eftir Jóhann Sigurjónsson haustið eftir. Hann setti upp  leikritið Ormstungu, ásamt leikkonunni Halldóru Geirharðsdóttur og sænska  leikstjóranum Peter Engkvist. Benedikt leikstýrði Skáldanótt eftir Hallgrím  Helgason á  Stóra sviði Borgarleikhússins haustið 2000 og haustið eftir lék  hann Vladimir í Beðið  eftir Godot eftir Samuel Beckett á Nýja sviðinu, í leikstjórn Peters Engkvist. Þá  leikstýrði Benedikt á nýja sviði Borgarleikhússins: Fyrst er að fæðast eftir hina dönsku  Line Knutson, And Björk of course... eftir Þorvald Þorsteinsson og Sumarævintýri -  byggt á Vetrarævintýri Shakespeares. Benedikt var búsettur í Kaupmannahöfn um  tveggja ára skeið og starfaði þar og víðar á Norðurlöndum. Hann kom heim og  leikstýrið Draumleik eftir Strindberg í Borgarleikhúsinu vorið 2005 og fékk hann  Grímuna fyrir leikstjórn sýningarinnar. Hann leikur um þessar mundir í einleiknum "Mr  Skallagrimsson" í leikstjórn Peter Enqkvist. Benedikt var stjarna Grímuhátiðarinnar  síðastliðið vor en þar hreppti hann þrenn verðlaun, sem leikskáld og leikari ársins fyrir  Mr. Skallagrímsson og sem leikstjóri ársins fyrir Ófagra veröld sem sýnd var á Stóra  sviði Borgarleikhússins. Hann leikstýrði Sólarferð eftir Guðmund Steinsson fyrr á árinu  og var það fyrsta leikstjórnarverkefni hans fyrir Þjóðleikhúsið.


JA JA NONNA UND MANNA AFTUR Í SJÓNVARPIÐ DANKE

Ég veit ég hef aldrei verið sleipur í þýskunni, kannski vegna þess að ég hef aldrei lært hana í skóla. En ég verð bara að taka undir með heiðurszontakonunum á Akureyri sem eiga heiðurinn af Nonnahúsi og að hafa haldið nafni skáldsins hátt á lofti í mörg ár. Í minningunni eru þessari þáttir um ævintýri Nonna og Manna alveg stórskemmtilegir og ég er nokk viss um að æskan í dag mun ekki síður taka vel á móti piltunum. Ekki satt?
mbl.is Nonni, Manni og smaladrengur hittast á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í DAG ER ALÞJÓÐLEGI LEIKLISTARDAGURINN

Alþjóðlegi leiklistardagurinn er í dag og er því fangað í leikhúsum af öllum stærðum og gerðum líka í skólastofum og öllum mögulegum sýningarrýmum leikhúsa í heiminum. Kómedía ætlaði að sjálfsögðu að taka þátt í gleðinni en því miður þá liggur Kómedíuleikarinn í flensu og þar sem hann er eini leikari leikhússins og reyndar einnig eini starfsmaður þess þá segir það sig sjálft að halda verður bara uppá daginn hér á blogginu. Alþjóðlegi leiklistardagurinn hefur verið haldin hátíðlegur síðan 1962. Í tilefni dagsins hefur ITI hin alþjóðaleiklistarstofnun fengið heimsþekktan leikhúslistamann til að semja ávarp. Leiklistarsamband Íslands hefur einnig tekið upp þennan sið og fengið marga kunna leikhúslistamenn til að semja ávarp. Aðþví að dagurinn er Alþjóðlegur þá langar mig að birta fyrst ávarp erlenda listamannsins, sem er að þessu sinni Robert Lepage. Í hádeginu kemur sú innlenda ávarpið. Til hamingju með daginn leikhúsfólk um heim allan. Þess óskar Kómedían:

Ávarp frá Robert Lepage:

Það eru til margar kenningar um uppruna leikhússins, sú sem hefur ætíð heillað mig mest er dæmisaga.

Nótt eina, í upphafi daga, var hópur fólks saman kominn í hellisskúta, þar sem fólk yljaði sér við eld og sagði hvert öðru sögur. Þá var það að einhverjum datt í hug að standa á fætur og nota skugga sinn til þess að myndskreyta sögu sína. Með hjálp birtunnar frá eldinum, lét hann yfirnáttúrlegar persónur birtast á hellisveggjunum. Hinir voru yfir sig hrifnir, þegar birtust þeim hver á eftir öðrum; sá sterka og hinn veiki, kúgarinn og hinn kúgaði, Guð og dauðlegir menn.

Á okkar tímum hafa ljóskastarar komið í staðinn fyrir bálköst og sviðsmyndir í staðinn fyrir hellisveggi. Án þess ég vilji hnýta í hreinstefnumenn, minnir þessi saga okkur á að tæknin hefur frá fyrstu tíð verið ómissandi þáttur  leikhússins. Tæknina má ekki sjá sem ógn, heldur einmitt tækifæri til þess að sameina krafta.

Framtíð leiklistarinnar er undir því komin að hún endurnýi sig stöðugt og tileinki sér ný verkfæri og ný tungumál. Hvernig á leikhúsið að geta haldið áfram að vitna um átakalínur samtímans og vera merkisberi mannlegrar samkenndar, ef það tileinkar sér ekki víðsýni? Hvernig getur leikhúsið státað af því að bjóða upp á lausnir við óumburðarlyndi, útilokun og kynþáttahyggju, nema það rugli sjálft reytum við nýja mótleikara?

Til þess að geta sýnt heiminn í allri sinni flóknu dýrð verður listamaðurinn að bjóða upp á ný form og nýjar hugmyndir og treysta dómgreind áhorfandans, sem kann að lesa skuggamyndir mannkyns í hinum endalausa leik ljóss og skugga.

Sá sem leikur sér að eldi getur brennst. En hann getur líka heillast og uppljómast.

Þýðandi: Guðrún Vilmundardóttir.


Róbert Lepage Er kanadískur galdramaður í leikhúsi og undrabarn. Hann er jafnvígur sem leikstjóri í leikhúsi, leikari, sviðsmyndahönnuður og  kvikmyndaleikstjóri. Frumleiki  hans og sköpun hefur borið hróður hans  víða um heim og er hann einn virtasti leikhúslistamaður heims um þessar mundir.
Hann fæddist í Quebec 1957 og eftir að hann gekk til liðs við leikhúsið hefur hann verið jafnvígur á að finna nýjar leiðir til að túlka samtímann sem og að brjóta klassísk verk leikbókmenntana til mergjar og færa fram kjarna þeirra á nýstárlegan hátt.


VEL MÆLT OG ALLT SATT OG RÉTT

Kómedía tekur heilshugar undir þessi orð allt satt og rétt. Aldrei fór ég suður er sannarlega hátíð fólksins og á örugglega eftir að draga að sér ennfleiri aðdáendur og gónendur að ári. Aldrei fór ég suður er gott merki um það hvað eitt stykki listahátíð getur gert fyrir atvinnulífið. Núna um helgina var fullur bær af fólki og allir hagnast. Fyrirtækin í bænum s.s. Bakarinn, Hamraborg, Hótel Ísafjörður ofl ofl og svo allir hinir Flugfélag Íslands, N1 ofl. Hef sagt það áður en segi það enn það er mikill vaxtabroddur í vera með listahátíð sem þessa í Ísafjarðarbæ. Og það skemmtilega er að þau eru fleiri festivölin hér vestra tónlistarhátíðin Við Djúpið í júní og leiklistarhátíð Kómedíu Act alone í júlí. Allt hefur þetta mikið að segja bæði fyrir mannlífið og þá ekki síður fyrir atvinnulífið. Nú er bara að vona að fyrirtækin sjái leik á borði og flykkist í kringum listahátíðirnar þrjár á Ísó. Eða sagði ekki maðurinn: Þú verður að eyða monnýum til að græða þá.
mbl.is „Hátíðin er okkar og hún er skemmtileg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MANNAVEIÐAR ÁGÆTIS BYRJUN

Kómedían fagnar mjög aukinni íslenskri dagskrágerð á sjónvarpsstöðum og sama held ég að sé um meiri hluta landans. Það skal viðurkennast að sá Kómíski er mjög slappur í sjónvarpsgóni en þegar kemur að innlendu efni er setið við kassann. Nýjasta afurðinn er glæpaseríann Mannaveiðar sem er byggð á hinni frábæru glæpasögu Afturelding eftir Vikor Arnar Ingólfsson. Því miður já ég segi því miður var ég búinn að lesa bókina en það getur oft skemmt fyrir þegar horft er á sjónvarps eða kvikmyndaútgáfu á verkinu. Bókin er nefnilega hinn besti reyfari. Samt eru Mannaveiðar bara ágætis byrjun t.d. var byrjunaratriðið mjög gott fyrir utan gerfilegt gólið í hundinum þegar hann var skotinn en látum það liggja á milli hluta. Persónur eru hinsvegar mjög vel úr garði gerðar og er þar fremstur Ólafur Darri sýnir hér stórleik. Já, þetta er bara ágætis byrjun og verður því setið við kassann á næsta sunnudag kl.20.20 þegar annar þáttur Mannaveiða fer í loftið.

TAKK FYRIR KOMUNA Á LEIKHÚSPÁSKA

Það er óhætt að segja að sjaldan hafi jafnmargir komið á Skíðaviku á Ísó og nú í ár. Stappaður bær af fólki og rosa gaman. Viðburðir útum allt músíkin í meirihluta en líka nokkrar myndlistar- og ljósmyndasýningar að ógleymdum leikhúsinu Leikfélag MÍ sýndi Rocky Horror, Saga Sigurðardóttir og companý bauð uppá danssýningu og Kómedían var með Dimmalimm og Gísla Súra. Þrátt fyrir alveg geggjað veður alla páskana þá var góð mæting í leikhúsið, takk fyrir það og takk fyrir komuna á Ísó komið sem allra fyrst aftur og ávallt velkomin. Væri t.d. upplagt að plana næstu vesturferð þegar Act alone leiklistarhátíðin verður haldin dagana 2. - 6. júlí. Vegleg dagskrá þar sem sýndir verða um 20 leikir og rúsínan í pylsunni það er FRÍTT INN.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband