Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

AUKASÝNINGAR Á AUKAVINNU Á ÍSÓ

Alþýðlega leik- og söngskemmtunin Við heimtum aukavinnu hefur sannarlega slegið í gegn. Tvær sýningar voru núna um helgina og var uppselt á báðar sýningarnar þó bætt hefði verið við fleiri sætum en um helgina sáu um 300 manns sýninguna.Það hefur því verið ákveðið að hafa tvær aukasýningar um næstu helgi. Sýnt verður á laugardag 21. febrúar og verður sérstök fjölskyldusýning sem hefst kl.17. En gaman er að segja frá því að mikið Jónasar og Jón Múla æði er nú í Grunnskólanum á Ísafirði en um daginn sáu þau brot úr sýningunni og höfðu svo gaman af að nú er Riggarobb og fleiri slagarar sungnir í öllum frímínútum og nestistímum. Það er því tilvalið að fjölskyldan skelli sér öll saman í leikhús um helgina. Síðar um kvöldið eða kl.21 verður svo önnur sýning á Við heimtum aukavinnu! Miðasala á aukasýningarnar er hafinn og nú er bara að slá inn númerið 618 8269 og panta sér miða.

UPPSELT Á AUKAVINNU Á ÍSÓ Í KVÖLD

Uppselt er á alþýðlegu leik- og söngskemmtunina Við heimtum aukavinnu! í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í kvöld. Reyndar var líka uppselt í gærkveldi en verið er að vinna í því að koma á aukasýningum um næstu helgi. Leikurinn hefur fengið frábærar móttökur áhorfenda og geggjaða dóma. Enda er hér á ferðinni vönduð sýning byggð á efni úr smiðju galdrabræðranna Jónasar og Jóns Múla Árnasona. Höfundur leikgerðar og leikstjóri er Kómedíuleikarinn en alls koma um 20 manns að sýningunni.

ALLT AÐ VERÐA UPPSELT Á AUKAVINNU Á ÍSÓ UM HELGINA

Það er óhætt að segja að Tóta, miðasölustjóri LL, hafi haft í nógu að snúast í símanum í vikunni því miðasölusíminn á Aukavinnuna hefur verið rauðglóandi síðustu daga. Nú þegar er orðið uppselt núna á föstudag á Við heimtum aukavinnu í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.  Reyndar gott betur en það því bætt var við slatta af aukasætum sem ruku út um leið.  Á laugardag eru aðeins örfá sæti laus. Ekki er eftir neinu að bíða og drífa sig að panta miða á Við heimtum aukavinnu! á laugardag. Miðasölusíminn er 618 8269.

...OG LÓFATAKINU ÆTLAÐI ALDREI AÐ LJÚKA

Alþýðlega leik- og söngskemmtuninin Við heimtum aukavinnu! fær frábæra dóma blaðamanns Bæjarins Besta á Ísafirði, Thelmu Hjaltadóttur. Leikdómurinn er á heimasíðu BB www.bb.is og þar segir m.a.: ,,Skemmtunin var eins og vítamínsprauta í hverfandi skammdeginu, full af gleði, húmor og slögurum sem alþjóð þekkir. Nafn leiksins er sótt í samnefndan slagara og er óhætt að segja að það eigi vel við í dag. Við heimtum aukavinnu hrífur áhorfandann með sér aftur í tímann fyrir tíð pjatts og tískustrauma, útrásarvíkinga og krepputals. Áhorfendur sungu, stöppuðu, klöppuðu og rugguðu sér í takt við lögin og mikil stemmning var í salnum. Leikararnir virtust ekki síður skemmta sér konunglega uppi á sviðinu og óhætt að segja að frumsýningin hafi heppnast vel í alla staði enda stóðu áhorfendur upp í lok sýningar og lófatakinu ætlaði aldrei að ljúka.

Leikgerð og leikstjórn verksins var í höndum Elfars Loga Hannessonar og ætli það sé ekki óhætt að kalla hann vestfirskan Mídas því nánast allt sem þessi þúsundþjalasmiður leiklistarinnar kemur nærri verður að vestfirskri menningarperlu." thelma@bb.is

Miðasala á næstu sýningar er þegar hafinn í síma 618 8269. Sýnt verður föstudag og laugardag og hefjast sýningarnar kl.21. Sjáumst í leikhúsinu.

UPPSELT Á VIÐ HEIMTUM AUKAVINNU

Í kvöld frumsýnir Litli leikklúbburinn í samstarfi við Kómedíuleikhúsið alþýðlegu leik- og söngskemmtunina Við heimtum aukavinnu. Sýnt verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og nú þegar er orðið uppselt á frumsýninguna í kvöld. Önnur sýning er á morgun og er laust á þá sýningu, fyrstir panta fyrstir fá. Miðapantanasíminn er 618 8269. Miðaverðið er mjög alþýðlegt eða aðeins 1.900.kr. Við heimtum aukavinnu er sannkölluð leik og söngperla þar sem flutt er úrval úr verkum bræðranna Jónasar og Jóns Múla Árnasona. Hér er á ferðinni hver slagarinn á fætur öðrum nægir þar að nefna klassíkur á borð við Riggarobb, Og þá stundi Mundi, Lífið er lotterí, Klara Klara, Einu sinni á ágústkvöldi. Augun þín blá, ofl ofl ofl ofl ofl. Það ættu því allir að geta sungið með og skemmt sér í Edinborgarhúsinu. Næstu sýningar á Við heimtum aukavinnu verða sem hér segir:

6. feb. kl.21. Frumsýning UPPSELT

7. feb. kl.21. Laus sæti

13. feb. kl.21. Laus sæti

14. feb. kl.21. Laus sæti.

Og allir með: En ég elska hann Jóhann árans......


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband