Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
ÍSBJÖRNINN KEMUR Á ÍSÓ 1. APRÍL OG ÞAÐ ER EKKI GABB
29.3.2009 | 15:49
Kómedíuleikhúsið er fyrsta og eina atvinnuleikhúsið á Vestfjörðum. Leikhúsið hefur starfað fyrir vestan með miklum blóma síðan um síðustu aldamót og sett á svið fjölmörg leikverk. Síðan 2001 hefur Kómedía helgað sig einleiknum og hefur orðið nokkuð ágengt á því sviði og verið í fararbroddi þessarar sérstöku listgreinar hér á landi. Þekktasti leikur Kómedíu er án efa Gísli Súrsson sem hefur verið sýndur um 200 sinnum bæði hér heima og erlendis og unnið tvívegis til verðlauna á erlendum leiklistarhátíðum. Af öðrum einleikjum Kómedíu má nefna Muggur, Steinn Steinarr, Pétur og Einar, Dimmalmm og Jólasveinar Grýlusynir. Kómedíuleikhúsið sér einnig um listræna stjórn leiklistarhátíðarinnar Act alone á Ísafirði sem er helguð einleikjum. Hátíðin var fyrst haldin árið 2004 og hefur vaxið og dafnað með ári hverju. Act alone fékk Menningarverðlaun DV árið 2008. Act alone verður haldin sjötta árið í röð dagna 14. 16. ágúst nú í ár. Það er óhætt að segja að Kómedíuleikhúsið hafi poppað uppá menningarlífið á Vestfjörðum á síðustu árum enda hefur leikhúsið jafnan sinnt vestfirskum sagnaarfi sérstaklega.
LEIKHÚSFÓLK TIL LUKKU MEÐ DAGINN
27.3.2009 | 14:33
Alþjóðaleiklistardagurinn er í dag og að venju hefur Leiklistarsamband Íslands fengið leikhúslistamann til að semja ávarp í tilefni dagsins. Að þessu sinni er það hin ástæla leikkona Sigrún Edda Björnsdóttir. Kómedíuleikhúsið óskar ykkur öllum til lukku með daginn og leggur til að við njótum dagsins, ölluheldur kvöldsins í leikhúsinu. Kómedíuleikhúsið er því miður ekki með sýningu í kvöld en æfingar standa nú yfir á nýju íslensku leikverki sem verður frumsýnt 1. apríl næstkomandi. En þá er bara að skunda í eitt af ökkur flottu leikhúsum í kvöld og svo væri sniðugt að vera dugleg að sækja leikhúsið allt árið um kring. Því í leikhúsinu gerast ævintýrin og í leikhúsinu er gaman.
En hér kemur ávarp Sigrúnar Eddu:
Ávarp í tilefni að Alþjóða leiklistardegi 27. mars 2009.
Höfundur: Sigrún Edda Björnsdóttir.
Ágætu leikhúsunnendur. Hvers vegna viljum við hafa leikhús? Þetta furðulega fyrirbæri sem þó hefur fylgt manninum frá ómunatíð. Í dag, þann 27. mars er Alþjóða leiklistardagurinn. Hann er haldinn hátíðlegur um heim allan í þeim tilgangi að vekja athygli á leiklistinni og mikilvægi hennar í mannlegu samfélagi. Því er vert að staldra við og velta ofangreindri spurningu fyrir sér. Það fallegasta sem sagt hefur verið um leiklistina og hægt er að taka undir af heilum hug er að löngun mannsins til að leika sé sprottin af þörf hans til tengjast því sem býr innra með öllum mönnum, þessu innra ljósi sem við búum öll yfir og finnum svo sterkt fyrir. Það er vegna þessarar tengingar, þessarar samkenndar sem við getum skapað nýjan veruleika. Veruleika leikhússins. Fátt er eins dýrmætt fyrir leikara og að finna þessa tengingu og taka þátt í leiksýningu sem á erindi við áhorfandann og hreyfir við honum, hvort sem er í gleði eða sorg. Við mannfólkið erum þelið sem draumar spinnast úr, þessir dýrmætu draumar sem eru eins og gullþráður í því margbrotna mynstri sem tilvist okkar mótast af. Þessi þráður kemur fram í skáldskapnum, myndmálinu, tónlistinni og hreyfingunni. Ekkert er leiklistinni óviðkomandi. Hún á að endurspegla tilvist okkar, sameina upplifanir okkar og stuðla að samkennd og skilningi meðal manna. Í viðleitni sinni til að tjá og spegla veruleikann leitar leiklistin að mismunandi formum. Þess vegna er engin ein tegund leiklistar mikilvægari en önnur.
Til er gamanleikur, harmleikur, grímuleikur, látbragðsleikur, brúðuleikur, einleikur, trúðleikur. Götuleikhús, kaffileikhús, pólitískt leikhús, stofuleikhús, barnaleikhús, vasaleikhús, útileikhús, skuggaleikhús, lítið leikhús, stórt leikhús, útvarpsleikhús, meira að segja ósýnilegt leikhús. Og áhorfendur hafa dregist að leikhúsinu í gegnum aldirnar, alveg eins og þið gerið hér í (dag) kvöld. Hvers vegna? Jú, við viljum verða fyrir áhrifum. Við viljum hlæja saman, gráta saman, láta hreyfa við hugsunum okkar og hugmyndum. Og í síbreytilegum heimi þar sem hugmyndafræði og áherslur geta kollsteypst á einni nóttu, eins og við þekkjum svo vel einmitt nú, á leikhúsið brýnt erindi. Það er ekki síst á þannig tímum sem við höfum þörf fyrir leikhús og því ber leikhúsið mikla ábyrgð. Leiklist breytir kannski ekki heiminum en við getum öll verið sammála um að í leikhúsi búi leyndur sannleikur sem hjálpar okkur í þeirri viðleitni að skilja líf okkar og viljann til að búa til betri heim.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
EINMÁNUÐUR GENGINN Í GARÐ OG EINLEIKIN STEMMNING Á LANDINU ÖLLU
24.3.2009 | 11:36
Einmánuður minn, minn
gakk þú í bæinn.
Vertu ekki úti í vindinum
vorlangan daginn.
MIÐASALA Á AUÐUN OG ÍSBJÖRNINN HAFIN
23.3.2009 | 10:56
Auðun og ísbjörninn er einleikur einsog flest öll verk Kómedíuleikhússins. Árið 2001 tók Kómedía upp þá stefnu að helga starf sitt einleikjum og var ástæðan einkum sú að leikhúsið er staðsett á Vestfjörðum og þar býr aðeins einn atvinnuleikari og því þótti sjalfgefið að setja upp einleik. Fyrsti einleikurinn sem Kómedía setti á svið var Leikur án orða eftir Samuel Beckett. Síðan þá hefur leikhúsið sett á svið fjölmarga leiki og hafa margir þeirra notið mikilla vinsælda. Ekki verður á neinn hallað að segja að Gísli Súrsson sé vinsælasta sýning Kómedíuleikhússins en leikurinn hefur verið sýndur 191 sinni og fram undan eru fjölmargar sýningar hjá útlaganum. Rétt er þó að geta þess að Gísli Súrsson hverfur brátt endanlega í súrinn því sýningum á leiknum lýkur í ágúst á þessu ári. Af öðrum vinsælum sýningum Kómedíuleikhússins má nefna Dimmalimm sem hefur verið sýnt yfir 70 sinnum um land allt og einnig erlendis. Að lokum má geta þess að Auðun, Gísli og Dimmalimm verða öll á fjölunum á Leikhúspáskum á Ísó sem verður haldin á hinni frábæru Skíðaviku á Ísafirði.
KRAKKAR 1 - 101 ÁRA TIL LUKKU MEÐ ALÞJÓÐLEGA BARNALEIKHÚSDAGINN
20.3.2009 | 10:34
Alþjóðlegi barnaleikhúsdagurinn er haldinn ár hvert að frumkvæði ASSITEJ International alþjóðasamtaka um barna- og unglingaleikhús. Með samskiptaneti sem tengir saman þúsundir leikhúsa og einstaklinga um allan heim hvetur ASSITEJ leikhúslistamenn sem vinna að leiksýningum fyrir börn og unglinga að slá hvergi af listrænum kröfum í starfi sínu. ASSITEJ leitast við að sameina ólíka menningarheima og kynþætti í baráttu fyrir friði, jafnrétti, umburðarlyndi og menntun.
Í tilefni af alþjóðlegum leikhúsdegi barna í ár hefur Þórarinn Eldjárn, að beiðni Samtaka um barna- og unglingaleikhús á Íslandi, samið eftirfarandi ávarp.
Ávarp á alþjóðlegum leikhúsdegi barna20. mars 2009eftir Þórarin Eldjárn
Leikhúsmiði......
og leikarar uppi á sviði.
Þar sem allir geta orðið það sem þeir vilja.
Þau æpa, hvísla, syngja, tala, þylja....
eitthvað sem allir krakkar skilja.Fullorðnir verða börn og börnin gömul um stund
Breytist einn í kött og annar í hund.
Leikararnir skemmta, fræða, sýna, kanna, kenna...........
Kæti, læti, tryllingur og spenna.
Stundum er verið að reyna að ráða gátursvo reka sumir upp taugaveiklaðan hlátur
og beint á eftir byrjar í salnum grátur.
Samt er alveg ótrúlega gaman
hvernig allir geta setið þarna saman
og horft á hvað leikararnir eru snarir í snúningum
og í sniðugum búningum.....
Þess vegna er alveg full ástæða til að þakka
að þessi dagur í dag skuli vera frátekinn sem alþjóðlegur leikhúsdagur krakka.