Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

137 ára skóli

Á föstudag var Grunnskóla Ísafjarðar slitið í 137 sinn. Þetta var sérstaklega stórdagur hér hjá okkur í Túninu heima því miðburður okkar hjóna var að útskrifast úr grunnskólanum, já hvað tíminn líður. Stoltur er ég af dömunni minni og veit að hún mun plumma sig vel í framtíðinni. Sannarlega spennandi tímar framundan hjá henni. Skólaslitin voru að vanda hátíðleg og fóru fram í kirkjunni. Ræða skólastýru var mjög góð og einlæg en eitt stakk mig mikið og hefur fengið kollinn til að hugsa. Það er hve það hefur fækkað mikið í skólanum á allra síðustu árum og enn mun víst fækka á komandi skólaári en þá verða nemendur væntanlega 400 sem er fækkun um 16 nemendur ef ég man rétt. Þetta er rosalegt. Við sem hér búum verðum að taka höndum saman og gera eitthvað í þessari þróun. Það er nebblega þannig að við erum með úrvals góðan grunnskóla hér með góðum kennurum og flottu félagslífi. Við erum með góðan Menntaskóla, tipptopp Tónlistarskóla og meira að segja Háskóla. Einsog löngu frægt er orðið þá er afþreying hér mjög mikil og fjölbreytt, eitthvað fyrir alla aldurshópa og já alla fjölskylduna. Við erum með atvinnuleikhús, áhugaleikhús, gallerý, kvikmyndahús ofl ofl. Hér eru haldnar hvorki fleiri né færri en þrjár listahátíðir árlega, hver hefur sitt sérsvið. Einleikjahátíðin Act alone er haldin um miðjan ágúst, í júní er klassíska músíkhátíðin Við Djúpið og um páska tekur rokkhátíðin Aldrei fór ég suður öll völd. En afhverju er okkur að fækka? Hvað vantar? Það þurfum við að finna sem hér búum og það mikilvægasta að öllu við verðum að hefjast handa við að bæta úr þessu og fylla í eyðurnar. Því sjálfum finnst mér gott að búa hér og skil ekkert í þessari stöðu sem við stöndum í. Þegar ég er spurður hvar ég eigi heima segi ég stoltur frá því að ég eigi heima á Ísafirði og svo koma jafnan smá upplýsingar um hið öfluga lista- og menningarlíf hér, svona í kaupæti. Nú hefst leitin að bættum stað og vona ég að við öll sem hér eigum heima hjálpumst að við að bæta okkur og kannski það mikilvægasta líka að segja frá okkkur sjálfum og vera soldið stolt að því - enda megum við það alveg.

Söfn og setur á Vestfjörðum

Jæja sólin mætt aftur á Ísafjörðinn og snjórinn sem hefur sest í fjöllin síðustu dagana er óðum að hverfa. Ætli sumarið sé ekki bara að koma. Ferðamenn eru þegar farnir að láta sjá sig hér vestra og nú þegar hefur eitt skemmtiferðaskipi komið en það er bara byrjunin því metfjöldi verður í komu skemmtiskipa á Ísafjörð. Það hefur verið vel staðið að uppbyggingu í þessum málum og eiga Muggi hafnarstjóri og allir þeir sem hafa ljáð fram töfra sína miklar þakkir skildar. Hér á Vestfjörðum eru fjölmörg söfn og setur. Til gamans langar mig að nefna nokkur þeirra sem vert er að heimsækja en þar sem þau eru orðin svo mörg gæti vel verið að ég gleymi að nefna einhver þeirra. Ef við byrjum á Ströndum þá eru þar tvö geggjuð en ólík söfn. Hið margverðlaunaða Galdrasafn og litla leyndarmálið, Sauðfjársetrið sem er bara gullmoli og óvæntur gleðigjafi. Á Suðurfjörðum Vestfjarða ber fyrst að nefna safnið á Hnjóti sem er vert að heimsækja. Þegar leiðin liggur í hinn fagra Arnarfjörð, sem er án vafa einn flottasti fjörður Vestfjarða, er vissara að gefa sér góðan tíma. Því þar eru hvorki fleiri né færri en fjögur söfn. Inná Bíldudal er hið magnaða músíksafn Melódíur minningana sem söngvari þjóðarinnar Jón Kr Ólafsson hefur byggt upp af mikilli hugsjón og elju. Ekki má gleyma Skrímslasafninu sem er í gömlu matavælaverksmiðjunni þar sem hinar sögufrægu Bíldudals grænu baunir voru framleiddar að ógleymdum handsteiktum kjötbollum. Flottasta safnið að mínu mati er þó Listasafn Samúels í Selárdal, Listamannsins með barnshjartað einsog hann er nefndur. En til gamans má geta þess að það var víst Hannibal Valdimarsson sem gaf listamanninum þetta viðeigandi viðurnefni. Þetta safn er alveg einstakt og síðustu árin hefur Félag um endurreisn safnsins hans Samúels lift þar miklu grettistaki. Fyrir nú utan hve náttúrufegurðin er mikil í Selárdal og saga í hverjum hól. Þarna bjuggu jú m.a. Gísli á Uppsölum, síra Páll Björnsson, Árum Kári, Jón Þorláksson skáld, Hannibal ofl ofl. Hinu megin í Arnarfirði er svo safn frægasta Arnfirðingsins nebblega Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Þar er nú unnið hörðum höndum við endurgerð safnsins enda er í ár fagnað 200 ára afmæli ,,forsetans". Á Ísafirði er Byggðasafn Vestfjarða í Neðstakaupstað hér er um að ræða skemmtilegt sjóminjasafn og konfektmolinn er einstakt harmonikkusafn. Í Bolungarvík er einnig sjórinn í aðalhlutverki í safninu í Ósvör og ekki má gleyma Náttúrgripasafni Vestfjarða í Bolungarvík. Síðast en ekki síst má nefna Melrakkasetur í Súðavík þar sem rakkanum eru gerð góð skil. Að lokum má geta þess að á Flateyri er einn ofurhugi að undirbúa stofnun Dellusafns. Nú hef ég örugglega gleymt einhverju safni eða setri en þið bætið því þá bara við hér að neðan. Einsog lesa má eru söfnin og setrin mörg og fjölbreytt og engum ætti að þurfa leiðast er þeir ferðast um hina sögulegu Vestfirði. Verið velkomin og njótið vel.

Börn og menning

Innum lúguna í Túninu heima var að koma hið ágæta tímarit Börn og menning. Blaðið er gefið út af IBBY á Íslandi sem er félagsskapur áhugafólks sem vill efla barnamenningu og er ég stoltur félagi þessa merka félagsskapar. Blaðið er að vanda stútfullt af vönduðu efni um barnamenningu en að þessu sinni eru Múmínálfar Tove Jansson í aðalhlutverki. Sögurnar um Múmínálfana eru meðal þess besta sem komið hefur út í norrænum barnabókmenntum að mínu mati kannski næst á eftir verkum Astrid Lindgren. Einnig er fjallað um leiksýningar fyrir börn í blaðinu. Að mínu áliti er barnamenning ein mikilvægasta menningin í landinu okkar og já líka bara í heiminum öllum. Hvað er það sem skiptir okkur mestu eru það ekki litlu króarnir okkar og fjölskyldan öll. Ekkert er skemmtilegra en að skella sér í leikhús öll fjölskyldan eða þá að lesa bækur saman. Þessa dagana er sannkallað Kaftein ofurbrókar æði heima en ofurbrókarbækurnar eru á náttborðinu hjá yngstu dóttur minni. Þessar sögur eru algjör gullmoli og ég og frúin keppumst um að fá að lesa á kvöldin. Það skiptir mjög miklu máli að við getum boðið æskunni uppá vandaða og fjölbreytta menningu um land allt. Því ef þau fá ekki að kynnast menningunni í æsku hvenær þá? Þrátt fyrir að barnamenning eigi rétt á sér þá verð ég að viðurkenna að hið háa Menntamálaráðuneyti hefur staðið sig miður vel í að stiðja við bakið á henni. Nægir að nefna hve illa ráðuneytið stendur sig í að stiðja við leiksýningar fyrir börn. Ár eftir ár dissar Leiklistarráð leiksýningar fyrir börn, mesta lagi að ein sýning fái nokkrar kúlúr - en bara nokkrar - það kostar jú svo lítið að búa til leiksýningu fyrir börn. Í tuttugu ár hafa hugsjónaaðilar barist við að reka sérstakt barnaleikhús hér á landi sem stjórnvöld hafa í raun hafnað. Hafnað pælið í því - sjálft Menntamálaráðuneyti vill ekki að æskan í landinu fái tækifæri til að upplifan þann mikla galdur sem fram fer á leiksviðinu. Hvers konar stefna er það? Já, alveg rétt það er engin stefna í þessu ráðuneyti var búinn að gleyma því. Ég er bara alls ekki sáttur við gang mála í þessu efni og krefst þess að ráðuneytið geri veigamiklar breytingar en byrji samt á því að móta sér stefnu. Annars verður engin breyting. Það er engin sparnaður í því að skera niður í barnamenningu alveg einsog það er engin sparnaður í að skera niður í skólamálum. Ef þannig á að halda áfram þá þori ég ekki að spá í framtíðina. Ráðamenn setjist niður og forgangsraðið rétt. Eða viljum við ekki börnum okkar það besta?

Sundlaugamenning

Um helgina skellti ég mér í sund með tvær af prinsessum mínum. Sem er svosem ekki í frásögur færandi alltaf jafn hressandi að fara á þessa heilsubætandi staði og ávallt segir maður við sjálfan sig að lokinni heitapottssetu ,,af hverju fer maður ekki oftar". Að þessu sinni fórum við í sundlaugina í Bolungarvík sem er í miklu uppáhaldi hjá prinsessunum því þar er nefnilega rennibraut. Hún hefur reyndar verið lokuð uppá síðkastið en nú er hægt að renna sér að nýju og var heldur betur tekið á því ætli ferðirnar hafi ekki náð hátt í þriðja tuginn. Sundlaugin á Suðureyri er líka vinsæl hér á heimilinu en þar er úrvalsfín útisundlaug ásamt sér barnalaug að ógleymdum heitum potti. Laugin á Þingeyri er líka mjög góð en þar er innilaug, góður heitur pottur og ávallt heitt á könnunni líkt og á hinum stöðunum. Að vísu var ekki boðið uppá kaffi í Bolungarvík um helgina við heitapottinn en það hefur líklega bara gleymst. Hér á norðurfjörðum Vestfjarða er því gott úrval sundstaða og engin ástæða til að bæta við fleirum, finnst mér. En öðrum sjálfsagt ekki. Auðvitað væri gaman að hafa stóra og góða sundlaug á hverjum einasta stað. Hinsvegar hafa samgöngur batnað talsvert á okkar norður svæði og nú síðast með Bolungarvíkurgöngum og því lítið mál að þurfa að aka í 20 mín til að baða sig. Byggjum heldur enn frekar upp þá góðu sundstaði sem við höfum í dag í stað þess að ætla að reka marga við erum ekki það mörg heldur að það beri sig. Fyrir skömmu var tekið upp alveg stórniðugt kerfi hvað varðar sundstaði í Ísafjarðarbæ. Nú getur þú keypt þér sérstakt kort sem gildir í allar sundlaugar bæjarins. Þetta er auðvitað málið og nú er bara að stækka dæmið enn frekar og hvetja sundlaugar Vestfjarða til að taka upp víðtækt samstarf í formi Sundlaugarkorts Vestfjarða. Þú keyptir þér bara eitt kort, gæti verið árskort eða 10 sundferðakort eða hvernig sem menn vilja, sem gildir í allar sundlaugar á Vestfjörðum. Alveg er ég sannfærður um að þetta mundi vera vinsælt og án efa fjölga gestum í sundlaugum Vestfjarða sem og auka sundlaugarmenninguna sem er bara skemmtilegt. Auk þess færi maður án efa oftar í sund á á fjölbreyttari stöðum ég hef t.d. aldrei farið í sundlaugina á Patreksfirði sem mér skilst að sé mjög flott.
Það rifjaðist lika upp fyrir mér um daginn þegar ég fann ekki kaffið í Bolungarvík þegar ég fór í ferðalag til Belgíu fyrir mörgum árum. Fór með frábærum hópi starfsfólks í Frystihúsi Bíldudals sem þá var og hét. Þar sem við vorum í Belgíu var stór og mikil sundlaugarhöll. Geysistór sundlaug sem var með öldum, já þegar heyrðist lúðrablástur í höllinni var það merki um að nú væri settur af stað öldugangur í lauginni sem varði í nokkrar mínútur. Það var voða sport að vera þá á sundi. Mest þótti mér þó varið í það að þarna var einnig hægt að tilla sér við borð og panta sér veitingar. Franskar og öl til að mynda og meira að segja höfðu þeir fyrir því að gera fyrir okkur Íslendingana kokteilsósu, eftir að við höfðum gefið þeim upp hina leyndardómsfullu uppskrift. Nú stoppa örugglega margir og hrópa haleljúa. Á nú að fara að selja vín og bús í sundlauginni líka. Já afhverju ekki? Íslensk drykkjumenning hefur breyst umtalsvert síðustu árin nú er allt í lagi að fá sér bara tvo í stað þess að fara alltaf á fyllerí einsog var hér áður og fyrrum. Þannig var þetta einmitt í Belgíunni þegar ég dvaldi í sumarparadísinni þar aldrei var neinn þarna öfurölvi ekki einu sinni við Íslendingarnir. En þetta var nú bara aukapæling margt annað mætti hugsa sér í sundlaugarmenninguna t.d. tónleika, ljóðaupplestur þar sem flytjendur eru í sundlauginni gestir á bakkanum - já það er mikilvægt að hafa gaman og njóta lífsins og það eigum við líka að gera í sundlaugunum.

Myndlistin blómstrar fyrir vestan

Það hefur verið gaman að fylgjast með uppgangi myndlistarinnar fyrir vestan á þessu ári. Fjölmargar sýningar hafa verið í gangi það sem af er árinu og mikið framundan. Mánaðarlega eru opnaðar sýningar í hinni einstöku verslun Hamraborg á Ísafirði, nýtt gallerý var opnað í Listakaupstað fyrir páska og myndlistarverkefnið Menningarhvellur var haldið í fyrsta sinn um páska með sýningum um allan bæ. Fyrir skömmu opnaði Marsibil G. Kristjánsdóttir sýningu í minnsta gallerý þjóðarinnar er nefnist Búrið og er staðsett í miðbæ Ísafjarðar. Sýningin ber nafnið Tröll í búri og hefur vakið mikla athygli. Búrið er opið alla daga ársins allan sólarhringinn. Í sumar verður svo hið flotta myndlistarverkefni Æringi haldið fyrstu vikuna í júlí í Bolungarvík. Fjölmargt annað er framundan í myndlistinni fyrir vestan í júlí verður t.d. opnuð sýningin Einstakir listamenn - Listamaðurinn með barnshjartað á Gíslastöðum í Haukadal. Einsog mörgum er kunnugt er hér um að ræða alþýðulistamanninn Samúel Jónsson í Selárdal. Einnig verða á sýningunni myndir eftir listahjónin á Hofi í Dýrafirði sem einnig skipa flokk vestfirskra einfara í íslenskri myndlist. Aðgangur að sýningunni er ókeypis. Vorið í íslenskri myndlist er sannarlega fyrir vestan árið um kring og ég hvet landsmenn alla að upplifa kraftinn og sköpunarkarft vestfirskra myndlistamanna. Það er alveg þess virði og vel það. Verið velkomin vestur og njótið vel.

Einstakir vestfirskir listamenn

Það er ekkert djók né miklar ýkur hve margir listamenn koma frá Vestfjörðum. Listinn er svo langur að það yrði mjög langt kómedíublogg. Ég hef lengi verið áhugamaður um að kynna þennan fjölbreytta hóp vestfirskra listamanna og er nú með í pípunum bók hvorki meira né minna. Fyrst langaði mig að búa til svona einskonar uppfletti rit þar sem fjallað væri í stuttu máli um alla vestfirsku listamennina. En eftir stuttan göngutúr og kúnst hugsun ákvað ég heldur að afmarka hópinn. Niðurstaðan er hópur listamanna sem hafa allir farið sína eigin leið í listinni án þess þó að vera sífellt á vörum fólks né í öllum glanstímaritum þjóðarinnar. Alls hef ég gert mér lista með tíu einstökum vestfirskum listamönnum sem fylla þennan flokk auk þess sem list viðkomandi listamanna hafa haft mikil áhrif á mig sem listamann. Hugmyndin er meira að segja komin það langt að ég er byrjaður að skrifa og búinn að tryggja mér frábæran hönnuð við bókina. Form bókarinnar verður á þá leið að sagt verður frá hverjum listamanni í stuttu máli en svo list þeirra gerð skil á veglegan máta með myndasíðum. Hvenær verkið verður tilbúið til útgáfu veit ég ekki en gaman væri ef það gerðist á þessu ári.
Til gamans birti ég hér grein um einn af Einstöku vestfirsku listamönnunum, Hjálmar Þorsteinsson eða Hjálmar goggur eða ölluheldur Pilsa-Hjálmar:

Hjálmar goggur eða Pilsa-Hjálmar
Nafn Hjálmars Þorsteinssonar hringir kannski ekki mörgum bjöllum hjá fólki í dag. Kappinn sá var hæfileikamaður sem flakkaði milli bæja og skemmti fólki. En hér á öldum áður voru menn sem flökkuðu um Ísland og þar sem þeir áðu unnu þeir sér fyrir fæði og húsnæði. Voru einskonar farandverkamenn en fengu þó sjaldan aura fyrir starfið aðeins þak yfir höfuðið og mat í askinn. Sumir flakkaranna voru einnig skemmtikraftar, sögðu sögur í baðstofunni á kvöldin eða tóku lagið. Þeir sem kunnu eitthvað í listinni gerðu sumir hverjir sérstaklega út á það og þáðu greiðslu fyrir skemmtunina. Dagskrá þessara íslensku flökku einleikara var fjölbreytt þeir sögðu sögur, fóru með þulur og vísur og léku á alls oddi. Einn þekktasti flökku einleikari 19 aldar á Íslandi er án efa Hjálmar Þorsteinsson er kallaður var Hjálmar goggur þar sem hann hafði bogið nef líkt fuglsgoggi. Einnig hafði hann viðurnefnið Pilsa-Hjálmar sökum þess að hann sagðist ekki geta sofið nema hafa pils ofan á sér. Frægð hans má kannski rekja til þess að hann er sagður vera fyrirmyndin af Hjálmari tudda í skáldsögu Jóns Thoroddsen Maður og kona. Jón samdi einnig ásamt fleirum ljóðabálk um Hjálmar er nefnist Goggsraunir en vísur skáldsins má finna í kvæðasafni hans. Fjallað er um Hjálmar í vestfirskum sögnum og þar er honum lýst þannig ,,að hann hafi verið svartur á brún og brá, fyllilega meðalmaður á hæð, heldur óliðlegur í vexti, en grannvaxinn, toginleitur í andliti, með hýjungs-skegg á vöngum og nefið beygt niður að framan.” Hjálmar var frá Arnarfirði og á fyrstu árum æviskeið síns þótti hann ekki vera neitt öðruvísi en önnur börn. Þegar hann náði fjögura ára aldri þótti hins vegar breytingar á háttum og hegðun piltsins töldu margir hann jafnvel vera umskipting. Ekki þótti hann þó vera heimskur bara hagaði sér öðruvísi en aðrir. Hann lagðist fljótlega í flakk um Vestfirðina þó einkum um sína heimasveit í Arnarfirði. Birtist hann mönnum á bæjunum þannig að hann bar askinn á bakinu og næturgangið fyrir. Mönnum líkaði nú ekki allskostar vel gesturinn sumir buðu honum ekki gistingu en aðrir tóku við honum í skamman tíma. Ekki þótti hann góður í skapi og var orðaforðinn frekar dónalegur einkum ef honum mislíkaði eitthvað. Það var svosem ekki undarlegt að bændur tækjum þessi gesti ekki fagnandi því hann þótti ekki duglegur til vinnu einna helst var hægt að nota hann í að mala korn. Æskan var hrædd við Hjálmar og kvenfólkið var ekki heldur spennt fyrir honum. Sem er ekki að undra því hann átti það til að vilja ,,sjúga blessuð konubrjóstin.” Hann var hinsvegar trúr í sumum verkum og meira að segja var hægt að senda trúa honum fyrir bréfi með peningum í sem ætti að sendast með á einhvern bæinn. Þegar vel lá á Hjálmari skemmti hann heimilsfólki með leik og söng. Hann þótti stálminnugur kunni m.a. alla Passíusálmana utanbókar sem og margar vísur. Sögur voru í miklu uppáhaldi hjá honum og sátu svo fastar í kollinum að honum nægði að heyra söguna einu sinni til að geta farið með hana nánst orðrétta strax á eftir. Eftir að hafa flakkað um tíma um Vestfirði hélt hann norður í land en þar var honum tekið fálega og sendur til baka í sína heimasveit. Eigi líkaði honum allskostar vel í heimahéraði og kvaraði við Jón Thoroddsen sýslumann í Haga á Barðaströnd um hve fálega honum væri tekið á heimaslóð. Sýslumaður kemur honum þá fyrir á Litlu Eyri sem dugði þó skammt því aftur kvartaði Hjálmar til sýslumanns um illa viðgjörning þar á bæ. Eftir það brá sýslumaður á það ráð að koma honum fyrir viku og viku í senn á bæjum í Arnarfirði. Hjálmar stóð einnig fyrir sérstökum skemmtunum á bæjum í firðinum þar sem áhorfendum var gert að greiða fyrir skemmtunina sérstaklega. Kostaði áheyrnin 4 skildinga á mann og fékk hann ósjaldan marga til að hlýða á sig. Einu sinni gortaði hann sig af því að hann hafi fengið fleiri áheyrendur en presturinn í Otradal. Klerkur fékk 4 en Hjálmar 20 fleiri. Í heimildum er sagt frá því að Hjálmar hafi skemmt eitt sinn í Selárdal fjölda manns sem allir greiddu 4 skildinga fyrir sýninguna. Sat Hjálmar þá uppi á elhússtrompnum í Selárdal og flutti þar m.a. kvæðið Í fögrum dal hjá fjallabláum straumi. Eins og áður var getið samdi Jón Thoroddsen sýslumaður vísur um Hjálmar og nefndi þær Goggsraunir. Lærði Hjálmar braginn utanbókar og flutti á ferðum sínum. Hjálmar Þorsteinsson andaðist á Bíldudal 3. október 1876, 67 ára að aldri.
Heimildir:
Vestfirzkar sagnir. Safnað hefir Helgi Guðmundsson. 1. bindi. Bókaverzlun Guðm. Gammalíelssonar 1933 – 1937


Harpa Vestfjarða

Það var stór dagur í menningar- og listalífi þjóðarinnar í gær þegar músíkhúsið Harpa var formlega opnað. Því miður var maður ekki á staðnum upptekinn við listsköpun fyrir vestan. Hef því ekki séð höllina nema af myndum í sjónvarpi og já talandi um Sjónvarpið það hefði nú verið allt í lagi ef þeir hefðu sýnt frá opnuninni í Sjónvarpi (allra landsmanna) fyrir alla þá sem komust ekki en hefðu svo gjarnan viljað vera á pleisinu. Svona stórir dagar í listlífinu og lífinu almennt eru mikilvægir eftir nokkur ár spyr maður sig ,,Hvar varst þú þegar Harpa opnaði?". Þegar ég fer næst suður mun ég pottþétt kíkja í Hörpu og hlakka mikið til að sjá. Reyndar má segja að maður hafi fengið smá forsmekk af dæminu sem sýnir hve mikilvægt er að eiga vönduð og vegleg menningarhús hvar sem er á landinu. Fyrir skömmu var nefnilega Félagsheimilið í Bolungarvík opnað að nýju eftir miklar endurbætur sem hafa staðið í nokkur ár. Vissulega voru miklar umræður um framkvæmdina líkt einsog með Hörpu. En núna þegar húsið er tilbúið þá eru allir sáttir að ég tel líka þeir sem voru á móti tiltektinni á húsinu. Þannig er þetta nú bara sama verður ábyggilega með Hörpuna. Endurbyggingin á Félagsheimili Bolungarvíkur er líka mjög vel heppnuð og voru gárungarnir fljótir að nefna höllina Hörpu Vestfjarða. Mikið líf hefur verið í húsinu allt frá því það var opnað á nýjan leik og ég tel að það eigi bara eftir að aukast. Þarna er allt til alls, bæði hljóðgræjur og ljós og húsið almennt mjög snyrtilegt og með flottan karakter. Manni líður vel um leið og maður kemur inní húsið. Bolvíkingar, Vestfirðingar og landsmenn allir til hamingju með Hörpurnar fyrir sunnan og vestan. Framundan eru spennandi tímar í listalífi þjóðarinnar.

Þrítugur táningur

Það er stór dagur í menningarlífinu á Hólmavík í dag því fyrir 30 árum var þar stofnað hið stórskemmtilega Leikfélag Hólmavíkur. Til lukku með daginn Hólmvíkingar sem og Vestfirðingar allir. Félagið hefur verið afskaplega duglegt og heldur betur puntað uppá lista- og menningarlífið á Ströndum síðustu þrjá ártatugina. Krafturinn í Leikfélagi Hólmavíkur er slíkur að þau hafa sett upp fleiri verk en árin segja til um því verkefnaskráin spannar yfir 30 leikverk geri aðrir betur. Fyrir skömmu frumsýndi félagið svo enn einn leikinn Með táning í tölvunni sem hefur verið sýndur við fanta góðar viðtökur eftir því sem mér skilst. En gaman er að segja frá því að félagið ætlar að fara í leikferð um Vestfirðina með leikinn og er óskandi að sem flestir mæti á sýningar þrítuga táningsins á Hólmavík. Enn og aftur til lukku með daginn Leikfélag Hólmavíkur þið eruð rétt að byrja og það verður gaman að fylgjast með ykkur næstu þrjá áratugina.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband