Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013
Tökum upp skóla að hætti Barbapabba
23.12.2013 | 08:52
Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Er engin lygi. Bækur voru á mínu heimili sem hafa sannarlega átt þátt í að móta mig og jafnvel gera að aðeins skárri manni. Sumar bækur æskunnar eru ekki ósvipaðar og Jón úr Vör sagði um þorpið, að það fari með manni alla leið. Í minni æsku voru bækurnar um Barbapabba í miklu uppábhaldi. Þar hafði líklega sjónvarpið sitt að segja því þar voru einmitt sýndir þættir um þessa síbreytilegu fjölskyldu. Víst gat þar allt gerst líkt og í ævintýrum. Því þessi fjölskylda er þeim kostum búin að hún getur breytt sér í hvað sem er. Alveg sama hvað. Tannhjól, skip, flugvél, flugfisk já bara nefnið það. Sú bók sem var í mestu uppáhaldi hjá mér af Barbapabba bókunum var Skólinn hans Barbapabba sem kom út árið 1977 en þá var ég sex ára. JPV gaf síðan bókina út á nýjan leik þrjátíu árum síðar og sú útgáfa er nú til á mínu heimili, hinn er öll í henglum enda lesin mun oftar en Lukku Láka bækurnar sem ég átti en þó var hann líka skemmtilegur.
Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri í dag er að lesa fyrir afstelpuna mína hana Sögu Nótt. Hún verður tveggja ára í upphafi komandi árs. Við eigum okkar lestrarstundir. Þá sest ég, afi gamli, í gamla stólinn í borðstofunni og sú stutta fer síðan í bókahilluna og sækir þangað lesefni. Síðan hefst lesturinn og úrvalið er fjölbreytt. Hún hefur t.d. mikinn áhuga á fræðibók um víkinga, hin stórkostlega bók Allt í einu sem ég man ekki hver samdi en hún tók einmitt þessa bók með sér þegar hún skrapp til ömmu sinnar í Súðavík í gær. Síðast en ekki síst eru bækurnar um Barabapabba sérlega vinsælar. Þar fer fremst í flokki einmitt bókin Skólinn hans Barbapabba. Og ekki leiðist afa að lesa þá bók.
Skólin hans Barbapabba fjallar um það þegar mannlegu tvíbura vinir Barbana er að fara í skólann í fyrsta skipti og barbarnir fara með þeim. En ekki gengur nú kennaranum vel að hafa stjórn á æskunni í skólastofunni og loks gefst hann upp og grætur við öxl skólastjórans, eða er það bæjarstjórinn. Ekki alveg viss. Allir fara að rífast ekki bara þeir fullorðnu heldur og krakkarnir. Barbaþór og Barbaljóð byrja að spila og auðvitað er Barbaþór hljóðfærið og við það róast nú nokkrir óþekktarormar og taka upp dansa. Hinir fullorðnu sjá bara eitt í stöðunni. Tuska þessa púka til flengja eða fangelsa bara.
Barbapabba líst ekki á þessa aðferð og bendir á að engin börn séu alveg eins. Sum hafa gaman af tónlist, önnur af dansi, hinir þriðju af bílum og svo mætti lengi telja. Hinum fullorðnu líst nú ekki svo á þetta en vilja þó að Barbarnir fái að setja á stofn sinn eigin skóla, svona áður en flengingar hefjist.
Og hvað skyldi nú vera kennt í skóla Barbapabba. Jú, þar fer sköpun og fjölbreytileiki fremst í flokki. Barbafín og Barbaljóð bjóða uppá dans og tónlist, Barbasnjall er vitanlega allur í tækninni kennir þeim að skrúfa hluti í sundur og aftur saman. Þá er nú gott að hafa Barbana til aðstoðar sem breyta sér í allra handa vélar, tannhjól, bora og ég veit ekki hvað. Settur er upp matjurtargarður og náttúran skoðuð, í alvörunni sko, farið útí náttúruna og hún könnuð. Ekki má gleyma deild Barbakærs sem kennir teikningu og þar má sko mála á veggina.
Allt leikur í lindi og gamni. En þó fara púkarnir eitthvað að fljúgast á og Barbamamma fer alveg í kerfi. Barbaþór veit lausnina á því og allir fara út í leiki og sparka bolta.
Fullorðna fólkið kemur í heimsókn og er bara alveg steinhissa. Og meira að segja gamli kennarinn getur núna kennt krökkunum.
Svo er haldin hátíð, mikil hátíð. Allir hjálpast að við að gera hátíðina sem flottasta. Börnin eru þar í aðalhlutverki þau dansa, spila og hafa svo til sölu það sem þau hafa búið til í skólanum.
Ég er nokk viss á því að ef við færum að dæmi Barbapabba og hans fjölskyldu þá væri þessi Pisa sem alltaf er verið að tala um fljótur að rétta við sér.
Síðbúnar þakkir til Lions
17.12.2013 | 13:57
Betra er seint en ekki sagði einhver merkur maður. Það er mikilvægt að þakka þegar vel er gert og vissulega vill það oft gleymast að þakka fyrir sig. En nú skal bætt úr því frá mínum garði.
Síðasta laugardag var mér boðið að flytja erindi hjá Lionsklúbbi Bolungarvíkur. Að sjálfsögðu þáði ég það með þökkum og sagði já jafnvel áður en ég fór að hugsa um hvað ég ætlaði að tala um. Eftir hið algenga ,,já" svar mitt settist ég niður í túni mínu heima og byrjaði að hugsa hvað ég ætti nú að tala um. Datt strax í hug að lesa uppúr nýjum bókum enda yfirstandandi hið árlega jólabókaflóð. Ákvað að lesa uppúr nýju jólaljóðakveri eftir bróður minn Þórarinn Hannesson sem nefndist Um jólin. Ritið er glæsilega myndskreytt af mínum betri helmingi Marsibil G. Kristjánsdóttur. Einnig ákvað ég að lesa uppúr hinni frábæru bók Frá Bjargtöngum að Djúpi sem Vestfirska forlagið gefur út. Meðan ég var að undirbúa lesturinn þá hvarflaði hugurinn allt í einu til æskuáranna og þá sérstaklega minningar tengdar Lionsklúbbnum í mínum heimbabæ Bíldudal. Nú veit ég ekki hvort lesendur viti hvað þetta Lions er eiginlega? Fyrir mörgum árum voru þessi félög mjög áberandi og voru nánast í hverjum bæ og þorpi. En síðan er liðin mörg ár og þessum félögum hefur fækkað allverulega á síðustu árum. Lions er félagsskapur sem lætur gott að sér leiða á öllum sviðum samfélagins. Þetta er karlaklúbbur þó sumsstaðar sé líka til Lionessur. Of langt mál væri að nefna allt það góða og mikla starf sem Lions hefur gert hér á landi. Ég vil þó nefna þrjár minningar sem ég á um Lions í mínum heimabæ, Bíldudal.
Lionsfélagið á Bíldudal var mjög duglegt á mínum æskuárum. Faðir minn, Hannes Friðriksson, var þar félagi ásamt að ég held öllum fullorðnum karlmönnum í þorpinu. Alltaf þegar pabbi var kominn í jakkafötin þá vissi ég hvað stóð til. Hann var að fara á Lionsfund og ég fékk ekki að koma með og var nú ekkert alltof sáttur við það. En í dag skil ég það alveg. Hinsvegar fékk ég alltaf að fara með pabba á leikæfingar en það er önnur saga. Lions á Bíldudal átti stóran þátt í jólahaldinu í þorpinu. Fyrir það fyrsta hófu þeir jafnan jólabiðina mína. Því í lok nóvember gengu þeir á milli húsa í þorpinu, knúðu dyra. Buðu góðan dag, voru ávallt mjög kurteisir og í jakkafötum, og spurðu svo: Má ekki bjóða þér að kaupa súkkulaðijóladagatal?
Sama dag fékk ég leyfi hjá mömmu, Þórunni Helgu, til að taka upp jólahljómplöturnar og fyrst á fóninn var ávallt Verkstæði jólasveinanna. Leikrit eftir meistara barnaleikritanna Thorbjörn Egner túlkað af frábærum leikurum m.a. Helga Skúla og míns uppáhalds í æsku Bessa Bjarna.
Tveimur vikum síðar var síðan haldið jólaball Lions. Það var haldið í grunnskólanum og þar mættu sko alvöru jólasveinar. Þeir voru svo raunverulegir að mitt barnshjarta brast í öll skiptin en þárin voru terruð þegar sveinarnir gaukuðu að manni jólaeplinu. Auðvitað var líka boðið uppá smákökur og heitt súkkulaði.
Þriðja Lions minning mín úr æsku er útilega á Dynjanda. Man reyndar ekki hvaða ár þetta var líklega 1977 eða 1978. Þetta var sko alvöru útilegupartý. Það var boðið uppá geggjaða matarveislu þar sem voru heilsteikt lömb á teini. Fór þetta fram í gömlu réttinni sem lengi stóð við paradísina á Dynjanda. Einn daginn voru við krakkarnir svo settir í það að safna flötum steinvölum sem mikið er af þarna á svæðinu. Við steinunum sléttu tóku nokkrir hleðslumenn sem pússluðu þessu svo vel saman að úr varð stór varða sem var ekki bara hefðbundinn varða. Heldur bókstafurinn L sem stendur auðvitað fyrir Lions. Margt fleira var gert þessa helgi sem stendur svo vel í minningunni ásamt mörgum öðrum Lionsminningum æskunnar.
Þakkir til Lionsklúbbs Bíldudals fyrir ómetanlegar stundir.
Hemmi Gunn hinar góðu minningar
10.12.2013 | 14:01
Þegar dagar ársins fara að týna tölunni er manni gjarnt á að horfa yfir hið liðna. Vissulega hefur margt gerst á 13 ári nýrra aldar. Fjölskyldan hefur dafnað vel og er það vel. Maður uppgötvar oftar en ekki þegar maður sest niður og hættir að velta sér uppúr hinu ,,negatíva" hvað maður er í raun heppinn. Ég er í alvörunni gífurlega ríkur þó fáa eigi ég monnípeninga enga telst það ekki til raunverulegs ríkidæmis. Þó þarf ég ávallt að vera að minna mig á þessa staðreynd að monníngar eru bara til að flækja málin. Fjölskylda og vinir er það sem skiptir máli. Minn góði vinur Hemmi Gunn á einmitt stóran þátt í því að hamra þessa staðreynd í minn netta haus. Mikið sem maður saknar góðs vinar.
Ef einhver hefur sýnt manni hve jákvæðni og hressileiki skipti máli í lífinu þá er það félagi Hemmi. Það var alveg nóg að sjá hann þá komst ég í gott skap og gleymdi öllu þessu daglega böggi og áhyggjum. Ég hitti Hemma fyrst um aldamótin og eftir því sem árin liðu styrktust okkar kynni meir og meir. Við áttum og sama afdrep. Hinn dýrðlega Haukadal í Dýrafirði. Þar hlóðum við batteríið og styrktum kynnin enn betur. Ég á mér bara góðar minningar um vin minn Hemma. Þess vegna hef ég ekkert verið að velta mér uppúr þeim fjölmörgu og alltof ,,negatvíu" fréttum sem hafa verið í fjölmiðlum síðustu daga. Ég efast um að ég eigi meira að segja eftir að kikka í ævisögu hans. Öll höfum við jú okkar bresti og nútímafjölmiðlar virðast hafa það efst á sinni efnisskrá að ef eitthvað er miður þá skal það fara beint í blöðin. Svo eru menn að undra sig á því að okkur gengur erfiðlega að komast uppúr þessum ,,negatívu" hjólförum.
Sjálfur er ég alin upp við jákvæðni enda átti ég yndæla æsku. Vissulega gerast miður skemmtilegir hlutir og þá þarf að glíma við. En hinar góðu minningar er það sem gefur tilgang á okkar hótel jörð.
Minningar mínar um Hemma vin minn eru svo margar að þær munu ylja mér allt til enda. Hann var vanur að koma í morgunkaffi til okkar í kofa okkar fjölskyldunnar í Haukadal. Reyndar vorum við oft ekki vöknuð þegar hann bankaði á dyrina. Enda var hann ávallt snemma á fótum í sveitinni fór í morgunsund inná Þingeyri og mætti svo til okkar nátthrafnanna í Haukadal. Þá var dregin fram kannan hans, já hann átti sína könnu í okkar kofa, auðvitað merkt Manchester United. Ég sötraði hinsvegar úr minni Arsenal könnu. Vissulega var oft spjallað um boltann en þó var ávallt byrjað að spyrja um hag fjölskyldumeðlima. Pólitík var sem betur fer aldrei rædd enda var öll umræða á jákvæðum nótum. Oftar en ekki var rætt um stöðu Vestfjarða en Hemmi bar mikinn og góðan hug til kjálkans. Hann var t.d. með frábæra hugmynd um að koma upp íþrótta og listabúðum á fyrrum héraðskólanum að Núpi. Var hann búinn að ganga með þessa hugmynd lengi í maganum en þó nefnt við marga en því miður hefur þessi úrvals hugmynd ekki komist á koppinn en góðar hugmyndir lifa og framtíðin er björt. Á gamlaársdag kom hann ávallt til okkar í kaffi og þá létum við okkur öll dreyma um frábært komandi ár og komandi ævintýri.
Núna styttist í jólin og þá förum við fjölskyldan í kofann okkar góða í Haukadal. Það verður skrítið að hafa engan Hemma á næsta bæ. Þó veit ég að hann verður þarna einhversstaðar. Síðasta sumar var oft einsog einhver væri að banka á útidyrina hjá okkur en þegar að var gáð var engin. Engin var hræddur né hissa. Við vissum öll hver þetta var og vippuðum okkur úr náttfötunum og yfir í glaðan, ævintýralegan og jákvæðan dag.
Einbeitum okkur frekar að góðum minningum en hinum. Gleymum heldur ekki að hlæja og endilega skellihlæjum og njótum lífsins.