Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Hemma Gunn stund í Haukadal

Mikið sakna ég vinar míns Hemma Gunn mikið. Í dag er ár liðið frá lokakveðju hans. Við fjölskyldan áttum einstakar stundir með Hemma í paradís okkar Haukadal í Dýrafirði í mörg ár. Á morgun fimmtudaginn 5. júní kl.20 verður sérstök Hemma Gunn Stund á Gíslastöðum í Haukadal. 

Sýnt verður verðlaunaleikritið Gísli Súrsson og er aðgangur ókeypis. Megin tilgangur stundarinnar er að koma saman, hlæja og hafa gaman saman að hætti Hemma. Gaman er að geta þess að Hemmi átti einmitt sinn þátt í þessu vinsæla leikriti Gísla Súrssyni því hann ritaði einstaka grein í leikskrána. Sá pistill er alveg einstakur og því finnst mér rétt að birta hann í heild sinni hér. Um leið hlakka ég til að sjá ykkur öll á Hemma Gunn stund á Gíslastöðum í Haukadal fimmtudaginn 4. júní kl.20.  

Á slóðum Gísla Súrssonar

Gísli Súrsson og örlagasaga hans hefur verið mér hugleikin allt frá þeirri tíð er ég komst í sveit á sjötta áratug síðustu aldar til þeirra Unnar og Valdimars á Húsatúni í Haukadal í Dýrafirði.

Íþróttir voru stundaðar grimmt er tími gafst frá því að fara með og sækja kýrnar og fleiri búskaparönnum; knattspyrna og frjálsar á grundinni við ána, alveg hliðstætt og á tímum Gísla, en þá voru einnig knattleikar sem voru efst á baugi á ísilagrði Seftjörninni og alls konar aðriri leikir. Þetta var alveg sama sviðið með Gíslahól í bakgrunni. Svo er þess að minnast frá þessum Gíslaslóðum þegar við strákarnir fórum gangandi úti í Svalvoga og þurftum að sæta sjávarföllum á leiðinni. þar lék undirritaður sinn fyrsta landsleik í knattspyrnu, þann eina sem þar hefur farið fram eftir því sem best er vitað. það voru miklir kappar sem voru í Haukadalsliðinu á þeim árum, allt ljóshærðir og spengilegir víkingar, sem erfitt var að standast snúning, líkt og Gísla forðum.

Siggi Þói, sem hefði örugglega náð langt í íþróttum, ef heimahagar hefðu ekki ríghaldið honum, Stjáni kaldi bróðir hans, Hafsteinn útgerðabóndi Aðalsteinsson varð netjum strengda karma af mikilli snilld. Þetta harðsnúna lið keppti undir merkjum Ungmennafélags Gísla Súrssonar, sem stofnað var í Haukadal skömmu fyrir 1950 til að halda á lofti merki fornkappans fræga.

Áhorfendur voru meðal annars heimasæturnar af bæjunum í kring, (þær voru fleiri í þá daga, alveg einsog á tímum Gísla, en núna er ekki ein einasta heimasæta eftir, ef undan er skilin drottningin Unnur á Húsatúni!)

Þau Gísli Súrsson og Auður Vésteinsdóttir, kona hans, lifðu sína sælustu og mestu hamingjudaga í Haukadal. En ei má sköpum renna. Fyrir Gísla átti það að liggja að vera í útlegð árum saman og fara huldu höfði. Þá var það Auður sem studdi mann sinn í hverri raun sem frægt er og mun halda nafni hennar á lofti meðan Ísland er byggt. ,,Skaltu það muna, vesall maður, að kona hefur barið þig" sagði Auður og er setning sem allir Íslendingar ættu að kannast við.

Ég leit alltaf með virðingu að Gíslahólnum á hverjum morgni þegar ég rak kýrnar á dalinn, nánast að þeim stað sem Gísli hafði fataskipti við þrælinn og hljóp upp í kjarrivaxnar hlíðar Haukadalsins, söguríkasta dals Vestfjarða og náði að komast undan. Já, sagan lifnaði við á hverjum degi. Hins vegar tel ég fullvíst, einsog Þórir Guðmundsson fræðimaður, að bær Gísla hafi staðið í dæld fyrir norðan við hólinn sjálfan í skjóli suðvestanáttar! Það er svo merkilegt að með mér hefur þróast sú hugsun eða ímyndun, eftir því hvernig á er litið, frá þessum árum í Haukadal, að ég hafi verið uppi á tímum Gísla í fyrra lífi, svo gjörkunnugur var ég öllum staðháttum þegar ég kom þangað sjö ára gamall!

Merkiskona ein og spámiðill fullyrðir hins vegar að ég hafi verið Gísli Súrsson! Einnig hefur kæri vinur minn og landsfrægur skemmtikraftur tjáð mér að hann telji sig hafa verið Véstein mág Gísla í fyrra lífi! Hvað sem um það má segja, er tilvist okkar hér á jörðu margslungin og ekki allt sem sýnist í þeim efnum! Eitt er víst að enginn verður ánægðari en ég, þegar leikverk úr sögu Gísla Súrssonar með þátttöku kraftajötna úr Sæbóli verður flutt í sinni upprunnalegu leikmynd! Hóllinn bíður og höldum minningu Gísla Súrssonar hátt á lofit um alla framtíð.

hemmi gunn 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband