MIÐASALA Á AUÐUN OG ÍSBJÖRNINN HAFIN

Miðvikudaginn 1. apríl frumsýnir Kómedíuleikhúsið nýtt íslenskt leikrit og að vanda er sótt í vestfirskan sagnaarf. Leikurinn nefnist Auðun og ísbjörninn og er byggður Auðunar þætti vestfirzka sem er án efa bestur og vinsælastur allra Íslendingaþátta. Miðasala á Auðun og ísbjörninn er hafin og er bæði hægt að panta miða hér á heimasíðunni eða bjalla í miðasölusímann 891 7025. Frumsýning verður einsog áður var getið miðvikudaginn 1. apríl í Tjöruhúsinu á Ísafirði og hefst leikurinn kl.20. Önnur sýning verður laugardaginn 4. apríl kl.14.
Auðun og ísbjörninn er einleikur einsog flest öll verk Kómedíuleikhússins. Árið 2001 tók Kómedía upp þá stefnu að helga starf sitt einleikjum og var ástæðan einkum sú að leikhúsið er staðsett á Vestfjörðum og þar býr aðeins einn atvinnuleikari og því þótti sjalfgefið að setja upp einleik. Fyrsti einleikurinn sem Kómedía setti á svið var Leikur án orða eftir Samuel Beckett. Síðan þá hefur leikhúsið sett á svið fjölmarga leiki og hafa margir þeirra notið mikilla vinsælda. Ekki verður á neinn hallað að segja að Gísli Súrsson sé vinsælasta sýning Kómedíuleikhússins en leikurinn hefur verið sýndur 191 sinni og fram undan eru fjölmargar sýningar hjá útlaganum. Rétt er þó að geta þess að Gísli Súrsson hverfur brátt endanlega í súrinn því sýningum á leiknum lýkur í ágúst á þessu ári. Af öðrum vinsælum sýningum Kómedíuleikhússins má nefna Dimmalimm sem hefur verið sýnt yfir 70 sinnum um land allt og einnig erlendis. Að lokum má geta þess að Auðun, Gísli og Dimmalimm verða öll á fjölunum á Leikhúspáskum á Ísó sem verður haldin á hinni frábæru Skíðaviku á Ísafirði.

KRAKKAR 1 - 101 ÁRA TIL LUKKU MEÐ ALÞJÓÐLEGA BARNALEIKHÚSDAGINN

Alþjóðlegi barnaleikhúsdagurinn er haldinn ár hvert að frumkvæði ASSITEJ International – alþjóðasamtaka um barna- og unglingaleikhús.  Með samskiptaneti sem tengir saman þúsundir leikhúsa og einstaklinga um allan heim hvetur ASSITEJ leikhúslistamenn sem vinna að leiksýningum fyrir börn og unglinga að slá hvergi af listrænum kröfum í starfi sínu.  ASSITEJ leitast við að sameina ólíka menningarheima og kynþætti í baráttu fyrir friði, jafnrétti, umburðarlyndi og menntun.

Í tilefni af alþjóðlegum leikhúsdegi barna í ár hefur Þórarinn Eldjárn, að beiðni Samtaka um barna- og unglingaleikhús á Íslandi, samið eftirfarandi ávarp.

Ávarp á alþjóðlegum leikhúsdegi barna20. mars 2009

eftir Þórarin Eldjárn

Leikhúsmiði...... 

og leikarar uppi á sviði.

Þar sem allir geta orðið það sem þeir vilja.

Þau æpa, hvísla,  syngja, tala, þylja....

eitthvað sem allir krakkar skilja. 

Fullorðnir verða börn og börnin gömul um stund

Breytist einn í kött og annar í hund.

Leikararnir skemmta,  fræða,  sýna, kanna, kenna...........

Kæti,  læti,  tryllingur og spenna.

Stundum er verið að reyna að ráða gátur 

svo reka sumir upp taugaveiklaðan hlátur

og beint á eftir byrjar í salnum grátur.

Samt er alveg ótrúlega gaman

hvernig allir geta setið þarna saman

og horft á hvað leikararnir eru snarir í snúningum

og í sniðugum búningum.....

Þess vegna er alveg full ástæða til að þakka

að þessi dagur í dag skuli vera frátekinn sem alþjóðlegur leikhúsdagur krakka.

AUKASÝNINGAR Á AUKAVINNU Á ÍSÓ

Alþýðlega leik- og söngskemmtunin Við heimtum aukavinnu hefur sannarlega slegið í gegn. Tvær sýningar voru núna um helgina og var uppselt á báðar sýningarnar þó bætt hefði verið við fleiri sætum en um helgina sáu um 300 manns sýninguna.Það hefur því verið ákveðið að hafa tvær aukasýningar um næstu helgi. Sýnt verður á laugardag 21. febrúar og verður sérstök fjölskyldusýning sem hefst kl.17. En gaman er að segja frá því að mikið Jónasar og Jón Múla æði er nú í Grunnskólanum á Ísafirði en um daginn sáu þau brot úr sýningunni og höfðu svo gaman af að nú er Riggarobb og fleiri slagarar sungnir í öllum frímínútum og nestistímum. Það er því tilvalið að fjölskyldan skelli sér öll saman í leikhús um helgina. Síðar um kvöldið eða kl.21 verður svo önnur sýning á Við heimtum aukavinnu! Miðasala á aukasýningarnar er hafinn og nú er bara að slá inn númerið 618 8269 og panta sér miða.

UPPSELT Á AUKAVINNU Á ÍSÓ Í KVÖLD

Uppselt er á alþýðlegu leik- og söngskemmtunina Við heimtum aukavinnu! í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í kvöld. Reyndar var líka uppselt í gærkveldi en verið er að vinna í því að koma á aukasýningum um næstu helgi. Leikurinn hefur fengið frábærar móttökur áhorfenda og geggjaða dóma. Enda er hér á ferðinni vönduð sýning byggð á efni úr smiðju galdrabræðranna Jónasar og Jóns Múla Árnasona. Höfundur leikgerðar og leikstjóri er Kómedíuleikarinn en alls koma um 20 manns að sýningunni.

ALLT AÐ VERÐA UPPSELT Á AUKAVINNU Á ÍSÓ UM HELGINA

Það er óhætt að segja að Tóta, miðasölustjóri LL, hafi haft í nógu að snúast í símanum í vikunni því miðasölusíminn á Aukavinnuna hefur verið rauðglóandi síðustu daga. Nú þegar er orðið uppselt núna á föstudag á Við heimtum aukavinnu í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.  Reyndar gott betur en það því bætt var við slatta af aukasætum sem ruku út um leið.  Á laugardag eru aðeins örfá sæti laus. Ekki er eftir neinu að bíða og drífa sig að panta miða á Við heimtum aukavinnu! á laugardag. Miðasölusíminn er 618 8269.

...OG LÓFATAKINU ÆTLAÐI ALDREI AÐ LJÚKA

Alþýðlega leik- og söngskemmtuninin Við heimtum aukavinnu! fær frábæra dóma blaðamanns Bæjarins Besta á Ísafirði, Thelmu Hjaltadóttur. Leikdómurinn er á heimasíðu BB www.bb.is og þar segir m.a.: ,,Skemmtunin var eins og vítamínsprauta í hverfandi skammdeginu, full af gleði, húmor og slögurum sem alþjóð þekkir. Nafn leiksins er sótt í samnefndan slagara og er óhætt að segja að það eigi vel við í dag. Við heimtum aukavinnu hrífur áhorfandann með sér aftur í tímann fyrir tíð pjatts og tískustrauma, útrásarvíkinga og krepputals. Áhorfendur sungu, stöppuðu, klöppuðu og rugguðu sér í takt við lögin og mikil stemmning var í salnum. Leikararnir virtust ekki síður skemmta sér konunglega uppi á sviðinu og óhætt að segja að frumsýningin hafi heppnast vel í alla staði enda stóðu áhorfendur upp í lok sýningar og lófatakinu ætlaði aldrei að ljúka.

Leikgerð og leikstjórn verksins var í höndum Elfars Loga Hannessonar og ætli það sé ekki óhætt að kalla hann vestfirskan Mídas því nánast allt sem þessi þúsundþjalasmiður leiklistarinnar kemur nærri verður að vestfirskri menningarperlu." thelma@bb.is

Miðasala á næstu sýningar er þegar hafinn í síma 618 8269. Sýnt verður föstudag og laugardag og hefjast sýningarnar kl.21. Sjáumst í leikhúsinu.

UPPSELT Á VIÐ HEIMTUM AUKAVINNU

Í kvöld frumsýnir Litli leikklúbburinn í samstarfi við Kómedíuleikhúsið alþýðlegu leik- og söngskemmtunina Við heimtum aukavinnu. Sýnt verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og nú þegar er orðið uppselt á frumsýninguna í kvöld. Önnur sýning er á morgun og er laust á þá sýningu, fyrstir panta fyrstir fá. Miðapantanasíminn er 618 8269. Miðaverðið er mjög alþýðlegt eða aðeins 1.900.kr. Við heimtum aukavinnu er sannkölluð leik og söngperla þar sem flutt er úrval úr verkum bræðranna Jónasar og Jóns Múla Árnasona. Hér er á ferðinni hver slagarinn á fætur öðrum nægir þar að nefna klassíkur á borð við Riggarobb, Og þá stundi Mundi, Lífið er lotterí, Klara Klara, Einu sinni á ágústkvöldi. Augun þín blá, ofl ofl ofl ofl ofl. Það ættu því allir að geta sungið með og skemmt sér í Edinborgarhúsinu. Næstu sýningar á Við heimtum aukavinnu verða sem hér segir:

6. feb. kl.21. Frumsýning UPPSELT

7. feb. kl.21. Laus sæti

13. feb. kl.21. Laus sæti

14. feb. kl.21. Laus sæti.

Og allir með: En ég elska hann Jóhann árans......


HAMINGJUÓSKIR FRÁ ATVINNULEIKHÚSINU FYRIR VESTAN

Kómedíuleikhúsið á Ísafirði óskar styrkhöfum til hamingju og hlakkar mikið til að sjá ævintýrin öll lifna á senunni. Gangi ykkur allt í haginn og megi leikhúsgyðjan vera með ykkur.
mbl.is 70 milljónir til atvinnuleikhópa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KÓMEDÍULEIKHÚSIÐ Á FJÁRLÖG

Fjárlaganefnd hefur ákveðið að veita Kómedíuleikhúsinu 1.5 milljónir króna í styrk á fjárlögum 2009. Þetta eru mikil gleðitíðindi einsog gefur að skilja og þakkar Kómedíuleikhúsið kærlega fyrir þennan glæsilega styrk. Þetta er í þriðja sinn sem Kómedíuleikhúsið fær styrk frá Fjárlaganefnd og er þetta mikil viðurkenning á starfi leikhússins. Þessi styrkur kemur sér mjög vel því framundan eru fjölmörg verkefni hjá Kómedíuleikhúsinu. Nú standa yfir æfingar á nýjum einleik, Auðun og ísbjörninn, sem er byggður á Íslendingaþættinum Auðunar þáttur vestfirska. Einnig er ný hljóðbók í burðarliðnum að þessu sinni eru það Þjóðsögur frá Súðavík og mun bókin koma út fyrir páska. Af öðrum Kómískum verkum má nefna söngleikinn Við heimtum aukavinnu sem er samstarfsverkefni við Litla leikklúbbinn, ljóðaleikinn Þorpið sem einnig er samstarfsverkefni að þessu sinni við Ljóðasetur Íslands og í byrjun júní er von hljóðbókinni Skrímslasögur. Þannig að það er nokk ljóst að þessir monnýpeningar komi sér mjög vel í hinum fjölbreyttu verkefnum Kómedíuleikhússins sem framundan eru.

THE HORSEPLAY COMPANY

Kómedíuleikhúsið er aðili í alþjóðlega leikhópnum The Horseplay company. Leikhópurinn var stofnaður árið 1997 af nemendum í The Comedia School í Kaupmannahöfn. Stofnendur komum frá Eistlandi, Finlandi og Íslandi. Að sjálfsögðu átti að sigra heiminn en ekki varð þó mikið úr afrekum þar sem leikararnir fóru flestir aftur til síns heima að vinna við leikhúsin þar. Óhætt er að segja að öllum hafi gengið þokkalega að fóta sig í hinum erfiða en skemmtilega leikhúsheimi. Nú stefnir hinsvegar allt í að Kómedíuvinirnir stíga aftur á bak hestsins og endurvekji The Horseplay Company strax á þessu ári. Þegar er komið uppkast af handriti og fjármögnun er komin af stað. Að öllum líkindum verður sýningin alfarið æfð á Íslandi nánar tiltekið í Haukadal í Dýrafirði, leikhúsi Kómedíuleikhússins. The Horseplay Company er þegar komið á netið með Fésbók síðu og blogg síðu, sjá hér,

http://thehorseplaycompany.blogspot.com/

Já það eru sannarlega spennandi tímar framundan hjá Kómedíuleikhúsinu og víst er að árið byrjar með trompi. Þessa dagana standa yfir æfingar á leik- og söngverkinu Við heimtum aukavinnu sem er samstarfsverkefni Kómedíu við Litla leikklúbbinn. Einnig er nýr einleikur í smíðum er nefnist Auðun og ísbjörninn sem er byggður vinsælasta Íslendingaþættinum Auðunar þáttur vestfirski. Rétt er að geta þess að Kómedíuleikhúsið er að sjálfsögðu komið á Fésbókina og allir geta slegist í hópinn og þannig fylgst vel með ævintýrum Kómedíu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband