Færsluflokkur: Menning og listir

Að halda sig að lista verki

Það er eigi nóg að maður þurfi að halda sig að verki nær maður starfar sem listamaður. Heldur og síður er það þetta að koma sér að verki. Það er nú meira en að segja það. Tvö stórverk og þá þarf bara að gera einsog einhver mjög bræt aðili sagði að hefjast handa. Listavinna er samt ekki einsog margar vinnur, maður geti ekki bara sest niður við skrifborðið og byrjað að skrifa reikninga einsog einhver dugmikill gjaldkeri í fullu starfi. Eða jú þetta er eiginlega samt þannig að ef maður starfar við skriftir þá er það eina að gjöra að setjast bara niður og byrja að skrifa. Eigi ólíklegt að fyrstu blaðsíðurnar fari bara í glatkistuna en svo allt í einu byrjar eitthvað að gjörast, andinn kemur yfir mann og svo bara gleymir maður að mæta heim í kveldmat. 

Mín mesta kennsla við þessi tvö listansverkefni, að koma einhverju í verk, koma sér að verki og halda sig auk þess að verki upplifði ég sumarið 1999. Þá starfaði ég sem leikstjóri unglingaleikhússins Morrans á Ísafirði. Við höfðum æfingaaðstöðu í hinni merku listastofnun Tónlistarskóla Ísafjarðar. Á sama stað en í öðru kennslurými var að æfa sig þetta fagra sumar á Ísafirði píanóleikari að nafni Vladimir Ashkenazy. Nema hvað ávallt var hann mættur á undan okkur í leikhúsinu og byrjaður að æfa sig og hann æfði sig allan daginn og gott ef hann fór ekki síðastur út í lok dags. Betri skólun var eigi hægt að fá í listinni fyrir ungan listamann einsog mig, sko á þeim tíma og síðan hef ég ávallt huxað til sumarsins á Ísafirði og Ashkenazy þegar ég er eitthvað að vorkenna sjálfum mér fyrir að koma mér að verki í listinni. Fyrst að vakna svo að hefjast handa. 


Systkynin fyrirsjáanleiki og óvissa

Í viku fyrirsjáanleikans er gott að velta vöngum um hið fyrirséða og systur þess sjálfa óvissuna. Það er fyrirséð hvernig fyrstu þrír dagar vikunnar eru. Í gær át maður bollur, í dag etur maður á sig gat og á morgun verður fagur söngur æskunnar við dyrina. Í þessa fyrir séðu árlegu daga blandast svo vissulega ávallt einhver óvissa. Enda væri ekkert gaman ef við vissum ávallt handrit daxins áður en hann hefst. Þá værum við bara einsog hinn ágæti leikari Bill Murray í hinni frábæru kvikmynd Groundhog Day. Vekjaraklukkann vekur okkur ávallt með sama laginu í úttvarpinu og svo heldur bara dagurinn áfram alveg einsog dagurinn í gær og dagurinn þar á undan og dagurinn.... Heldur kýs að hafa daginn einsog Pétur Pan þar sem, dagurinn í dag er glænýtt ævintýr. 

Hjá okkur í Steininum á Þingeyri, sko Grásteininum, hvar við hjónin búum dvelur nú Belgískur listamaður reyndar ættaður til hálfs í Kongó. Hann elskar Þingeyri er hér í þriðja sinn og segir ástæðuna vera einfalda. Hér er svo gott að skapa. Get ekki verið meira sammála honum og átta mig bara ekki á því að ríkisappartið fari ekki með landsbyggðinni í það þarfa verkefni að efla listir á landsbyggð. Þá ekki síst atvinnulistir. Það má kannski segja að við séum miklu heldur í fangi systur fyrirsjáanleikas í ótryggum faðmi ósvissunnar sem eru að fást við listina á landsbyggðinni. Það er enda lítill sem engin fyrirsjáanleiki í listum á landsbyggð svona yfirleitt. Eina sem er fyrirstjánalegt og hefur verið um langa hríð eru ríkislistastofnanir sem allar hafa bústað í borginni. Engin á landsbyggð. Stundum finnst mér ég bara vera staddur í skáldverki Þráins Bertelssonar, Dauðans óvissi tími. 

Er ekki komi tími á að veita landsbyggð á landsbyggð einhverja von, þó eigi væri nema smá dass af fyrirsjáanleika. 


List verður eigi til á einni nóttu því síður fyrir haddegi

Var að lesa sögu hins merka lista- og hugvitmanns Leonardo da Vinci. Sá átti sannlega fleiri klukkutíma en mörg okkar. Reyndar á það nú oft við margt listafólkið að það er einsog þeirra tími sé dugdrígri en margra. Þó ekki þannig að það sé bara verið að drífa hlutina af, nei það er eigi háttur einlægra listamanna á borð við Vinci. Hvað haldið þið t.d. að hann hafi verið lengi að gera sitt þekktasta verk Mona Lisa sem er líklega kunnasta listaverk allra tíma? Gef ykkur vísbendingu hafið töluna frekar í árum en dögum. Sönn listaverk eru ekkert dags Rómar dæmi. Því da Vinci var þrjú ár að gera sína Monu Lisu. 

Datt þetta bara í hug svona til að minna á mikilvægi listamannalauna. 


List er byggðamál

Ég þekki mann sem býr út á landi sem fór á sína fyrstu dansleiksýningu nær hann var kominn yfir sjötugt. Það finnst mér nokk merkilegt en þó ekki. Framboð listar á landsbyggð er nefnilega alls ekki nógu mikið og er það miður. Ef eitthvað þá er listin enn mikilvægari í fámenningu en í borgarlandinu, einsog nú er svo vinsælt að nefna höfuðborgarsvæðið. Ef eitthvað þá hefur fjölbreytileiki lista á landsbyggð minnkað ef eitthvað er því meðgjöfin frá ríkinu hefur verið allt of lítil í þennan svellta málaflokk sem listir á landsbyggð eru og þá ekki síst atvinnulistir. Meina afhverju er ekki fyrir löngu búið að koma upp atvinnuleikhúsum í öllum fjórðungum landsins. Líklega vilja margir bara segja hvað þurfa að vera óperusýningar útum allt land er ekki bara nóg að hafa það í borginni og fólkið komi þangað. Þýðir heldur ekkert að nefna að Þjóðleikhúsið eigi að já um landsbyggðina því þeir gera það bara ekki. Því miður. Þannig er einmitt staðan í dag að til að sækja fjölbreytta list þá þarftu bara að fara suður. Það sem verra er að listin er órjúfanlegur hluti af lífshjólinu það er ekki nóg að vinna í laxi eða verslun þú þarft líka að hafa gaman, upplifa, hlaða batteríið og þar kemur listin sterkust inn og það á öllum sviðum. Hvort heldur það er dansiball, leikhús, myndlistarsýning, dansnámskeið.... 

Ný stjórn komin og hún hefur nú alveg einstakt tækifæri til að gera stórátak í byggðamálum með sérstaka áherslu á listir. Fyrir allmörgum árum var komið á hinum frábæru Sóknaráætlunum landshlutanna með framlagi frá ríki og sveitarfélögum. Þessir sjóðir eru eitthvað það besta sem komið hefur fyrir listastarfsemi á landsbyggð. Það væri því upplagt að hefjast strax handa og minnst fimm falda framlögin í sóknaráætlanirnar því það væri alvöru sóknarleikur og líklega bara beint í mark, einsog var hjá Arsenal í gamla daga, sko, minna núna. 

Eða einsog einhver sagði, nú er lag eða kannski frekar betra seint en ekki. 


Nýr hringur ný tækifæri eða kannski bara annað tækifæri

Góður vinur minn, sem er sko engin vitleysingur, hefur þann góða sið að óska manni til lukku með afmælið í þessa veru: Til lukku með liðinn hring og vegni þér vel með nýja árshringinn. Nýttu tækifærin sem koma en vertu líka til í að taka á móti þessu óvænta og hvað þá öllum ævintýrunum á komandi hring. Þetta verður stuð.

Eftir því sem mínum árshringjum fjölgar þá finnst mér þetta svo gott veganesti fyrir komandi ár. Að fara hringinn á einu ári er nefnilega alveg dásamleg upplifun og þetta óvænta getur vissulega verið kvíðandi, örgrandi og vakið upp ýmsar pælingar í kolli manns. En það er þetta að takast bara á við það eða einsog afadrengurinn sagði eitt sinn. Það er bara að feisa það. 

Árshringur manns er vissulega breytilegur og það er einmitt það geggjaða við tilveruna. Stundum gæti maður nú bara verið staddur í slagara Johnny Cash í eldhringnum sjálfum í Ring of fire. En á öðrum tíma í texta eftir sveitunga minn og stórskáldið Hafliða Magnússon er orti: Við förum hring eftir hring. 

Ég hlakka til að snúast með nýja árshringnum mínum er hófst einmitt í gær og enn stefni ég að því að vakna kátur að morgni og til í að feisa daginn.

Myndin hér fylgjandi er Charles Fazzino, sem ég þekki eitt neitt, en er höfundur þessa mæta listaverks er hann nefnir One world...The Circle of life. hringur tilverunnar


Töfrandi sýning í Tjarnarbíó

Við hjónin brugðum okkur ásamt einum afa- og ömmudreng okkar í leikhús á helginni. Ávallt er það nú jafn gaman og töfranadi að mæta með æskuna í leikhús eða bara á listviðburð yfirhöfuð. Það er ekki bara stundin sem er svo töfrandi heldur er þetta einhver besta fjárfesting sem mar' getur gert bæði fyrir sig sjálfan og ekki síður listalífið sjálft. Því eigi viljum við hafa listina einsog í Spilverkssöngnum: Styttur bæjarins sem engin nennir að horfa á.

Við fórum í Tjarnarbíó, musteri hinnar sjálfstæðu senu, og sáum skemmtilega og fróðlega sýningu Lalla töframanns, Nýjustu töfra og vísindi. Sannarlega voru þarna töfrar til staðar og svo vísindin sem eru sannlega töfrar útaf fyrir sig líka. Lalli er náttlega alveg afskaplega skemmtilegur listamaður. Ávallt orkumikill og svo er það þetta með leikgleðina, hún er í hæstu hæðum. Það er fátt betra en að sjá listamann njóta sín í list sinni. Þannig var það svo sannlega í Tjarnarbíó í gær á sýningu Lalla Nýjustu töfrar og vísindi. Afadrengurinn skemmti sér alveg konunglega kallaði reglulega aðstoðarorð til listamannasins og það gerðu fleiri fulltrúar æskunnar á sýningunni. Lalli náði greinilega vel til þeirra allt frá upphafi sýningarinnar til loka. 

Við fullorðna fólkið skemmtum okkur ekki síður. Vísindin hafa nú ekki alltaf náð til mín enda er ég nú ekki mjög gáfaður piltur, þó 53 sé, náði t.d. aldrei algebru í skóla. Hins vegar horfði ég á vísindaþáttinn Nýjasta tækni og vísindi er Sigurður Richter stýrði með stæl. Skyldi samt ekki margt þar þó vel hafi Sigurður lagt það fyrir gónendur. Það er bara með tölur og tækni eftir svona 1- 2 mínútur þá er hugur minn bara horfinn, ég dett bara út. En ég datt alls ekkert út á helginni á sýningu Lalla á Nýjustu töfrum og vísindum. Ég sé að það verða sýningar á leiknum í febrúar í Tjarnarbíó svo nú er bara um að gjöra að panta sér miða og leyfa töfrunum að taka þig í ævintýralegt ferðalag í Tjarnarbío. Töfri töfri. töfrar og vísindi


Mættum við fá meira lystrán

Datt heldur betur í lystapottinn um daginn nær ég fór í hina þörfu verslun Góða hirðinn. Fer ávallt beint í bókadeildina og týni mér þar löngum stundum. Svo er þetta einsog svo oft áður annaðhvort finnur maður eitthvað eða bara ekki neitt. Nú gjörðist hið fyrrnefnda haldiði bara ekki að hafi náð í allmörg blöð hins merka listtímarits Lystræninginn er kom út um 7 ára skeið 1975 - 1982. Átti nokkur listablaðana í safni nínu í Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins en nú bættust enn fleiri í það góða listabóka-leikskrá og blaðasafn. Ég elska það alveg að flétta þessum lystaræningja. Það má alveg segja að þar hafi þeim tekist er þeir rituðu í blaðið: Lystræninginn vill skoða veröldina, segja frá henni í mynd, söng eða sögu eða greinum. Það dásamlega var að hér var það listaveröldin sem var undir og sannlega á breiðum grunni allt frá djazz til leiklistar. 

Á liðinni öld var nefnilega allmikið um sérstök listablöð og má þar nefna mitt uppáhald Leikhúsmál er leikjöfurinn Haraldur Björnsson gaf út í rúman áratug um miðja liðna öld. Allt þetta gjörist fyrir alnetið en samt velti ég fyrir mér hvort umræða, umfjöllun og almennar pælingar um listir hafi verið meiri hér á landi fyrir nettíma? 

Um daginn féll frá alltof snemma menningarblaðamaðurinn Ásgeir H. Ingólfsson, góða ferð minn kæri. Það væri nú vel við hæfi að fara að kikka dulítið á hvort væri nú ekki hægt að punta soldið meira uppá menningar, eða höfum það heldur listumfjöllun í fjölmiðum í dag. Geta þarf þó þess sem enn er. Sérstakar menningarsíður eru í Morgunblaðinu og er það vel. Einnig hefur Samstöðin verið að standa sig vel í umfjöllun um listir. 

Ólíklegt má þó tejast að tilkomi nýtt prentað listablað einsog Lystræninginn en það eru fjölda mörg tækifæri til að lystrænast. Í útvarpi, sjónvarpi, hlaðvarpi og já allsstaðar þar sem varpa má ljósi á hina margbreytilegu list á Íslandi og munum þá líka eftir landsbyggðinni. Það er nefnilega geggjuð list í gangi á landsbyggð í dag. 

lystræninginn


Betra það sem kemur utan en að innan

Skrítinn fugl ég sjálfur sagði breska leikskáldið og hitti sannlega beint í mark. Í það minnsta hvað mig varðar. Ég er óttalegur veslingur þó ekki Verzlingur enda aðeins leikskóla genginn þ.e. leiklistarskóla menntaður. Enda segi ég það alveg satt, einsog Gunnar fósturafi minn á Bíldudal sagði á góðum stundum, að ég hef bara verið að leika mér nánanst frá því ég man eftir sjálfum mér. Eldskýrnina fékk ég einmitt hjá nefndum fósturafa sem var hinn eini sanni jólasveinn þorpsins. Eitt sinnið vildi hann hafa einhvern Stúf með sér. Vitanlega bauðst ég strax til þess leiks þrátt fyrir að vera þá sem nú skíthræddur við jólasveina. Gunnar jóalafi minn dressaði sig sjálfan í rautt og svo mig setti því næst á okkur sitthvort skeggið. Renndi í gegnum Adam átti syni sjö og tróð mér svo ofan í pokann sinn. Þetta var mín eldskírn í leikhúsi lífsins og verður líklega seint toppað. Enda hef ég oft komið að fjöllum síðan. Bæði sem jólagæji og ekki síður komið að fjöllum í hausnum. Enda er ég einsog ég sagði í upphafi óttalega vitlaus. Eða ætti ég kannski að segja svoddan jólasveinn. Sumt finnst mér bara, einsog krakkarnir segja stundum, ekki meika sens. 

Í nóvember liðnum dvöldum við hjónin í Daviðshúsi fyrir nordan. Frúin í bókbandi meðan ég vann mín blekbóndastörf. Úr því varð reyndar leikritskríli, draugastykki, sem mun vonandi sveima um senuna í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal Dýrafirði næsta haust. Mikið sem það er annars gott að fara á nýjan stað til að huxa, vinna eða bara til að slæpast. Kynnast nýju fólki, nýjum siðum og síðast en ekki síst njóta lista viðkomandi staðar. Það var einmitt haldin þrælmerkilegur listafundur þar nyrðra nær við hjónin vorum þar að stúdera í húsi Davíðs. Efni fundarins var mikilvægi skapandi greina á landsbyggð. Málaflokkur sem er í raun bara einsog mín trú - því ég trúi því staðfastlega að mörg tækifæri felsist í list á landsbyggð. Eigi þó sagt gegn höfuðborg. Alls ekki og við eigum heldur ekkert að vera metast um það. Heldur jafna tækifærin en þannig er það því miður ekki í listinni í dag. En nóg um þá listapólitík, huxum kannski meira um það síðar.

Nema hvað í lok fundar sagði einn frummælanda að hann væri eiginlega búinn að segja allt sem hann vildi, nema eitt kannski í lokin. Það væri nefnilega eitt atriði sem hann ætti erfitt með að skilja og það væri að miklu fleiri utanbæjar og úr nágrannabyggðum sæktu sýninguna hjá sér en heimamenn. Það varð þögn á fundinum. En svo brosti nær allur þingheimur og hló í kampinn svo sögðu nánast allir í kór. Við könnumst líka við þetta úr okkar heimabyggð. 

Þetta er nú soldið skondið að þeir sem eru nærri eru í raun fjarri eða jafnvel fjarverandi. Meðan þeir sem eru fjarri og jafnvel enn lengra frá eru nærri, sumsé mæta í hús. 

Ég var nú bara svona að huxa upphátt á snjófögrum sunnudegi fyrir vestan. 


Hætt'essu væli

Oft þarf maður að minna sjálfan sig á að anda, telja uppá 5, smæla og hætta'essu væli. Eða einsog ég haldi áfram að vitna í söngvaskáldið góða KK; Hafðu engar áhyggjur, lífið það er sem það er, fer sem það fer. 

Enda höfum við líklega ekkert val um hvernig fer því það fer allt einhvern veginn einsog Laxaskáldið sagði. Víst kroppar lífið ávallt í manns sálartetur og nær maður er lítil sál eða bara einfaldalega mömmudrengur einsog ég þá vill maður stundum fara í þann gír sem ég vil alls ekkert vera í. Að fara að tuða og hvað þá að vera bitur, enn verra að vera bitur listamaður. Þar vill maður nú alls ekki vera né lenda, frekar betra bara að vera í aftursætinu á rauðum bíl einsog sungið var á eitístímanum. 

Í kveld er leikur í handboltanum og því er við hæfi að maður kannski komi sér upp leikkerfi og hætt'essu væli. Fyrst er að anda, svo er að huxa, næst að smæla og svo halda áfram sinn veg. Við þetta má svo bæta að sleppa stundum að horfa eða hlusta á fréttir, skrolla minna á samfélagsmiðlum og hlusta frekar á þögnina. Fá sér bara göngutúr. Fátt betra en rölta niðrí fjöru eða eitthvurt út í náttúruna og hlusta á óma náttúrunnar og fuglanna. Segja svo bara við sjálfan sig.

Hafðu engar áhyggjur. 


Erfiðar slitnar byggðir

Ég hef verið að stúdera ljóðheim ljóðabónda Vestfjarða, Guðmundar Inga Kristjánssonar, frá Kirkjubóli í Öndunarfirði. Sá orti nú, einsog frandi Einar Kárason segir gjarnan, litla vitleysu eða kunni að nefna það. Víst var ljóðabóndinn einsog margt skapandi fólk hrifið af ljósinu og þá einkum sólinni enda báru allar bækur hans hið bjarta upphaf Sól. Í raun skilur maður þetta ennbetur búandi á Vestfjörðum þar sem sólin dregur sig árlega í nokkurra mánaða frí. Hér á Þingeyri hvar ég bý bíðum við nú öll eftir upphafi febrúarmánuðar nær sólin birtist í skarðinu og fer svo með hverjum degi að bera geisla sína lengra og lengra fram á eyrina fögru. Þannig skýn sólin fyrst hjá mínum góðu tengdaforeldrum enda búa þau nær sólarskarðinu en við hjónin. Við erum í strætinu, Aðalstrætinu. 

Það var eigi bara sólin er ljóðabóndinn Gvendur orti um heldur og hið fagra vestur. Í ljóðaverki sínu Sólfar er kom út 1981 er að finna ljóðið Vestur á fjörðum. Hvar einmitt er að finna orðin er prýða fyrirsögn þessarar hugleiðingar:

Vestur á fjörðum eru enn

erfiðar slitnar byggðir. 

Sitja þar nokkrir sveitamenn

er sýna þeim rækt og tryggðir. 

Svo heldur hann á að yrkja um hina strjálu sveitabyggð Vestfjarða hvar sumsstaðar er líf og sumsstaðar hafa ljósin verið slökkt endanlega. Tíminn hefur svo enn dregið tjöldin fyrir og slökkt ljós margra bæja er lifðu ljós í ljóði skáldsins annó 1981. 

En samt tímarnir breytast mennirnir með og enn erum við hér vestra ræktum vorn fjórðung og eflum vora tryggð. Það hefur nefnilega margt lagast og bæst hér vestra. Þá einkum í samgöngum enda máttum við alveg við þeirri vegabót eða þó fyrr hefði verið segir einhver en ég segi bara betra seint en ekki. Ég held líka að við erum fyrir vestan búum verðum að temja okkur það að tala frekar vort svæði upp en niður. Vissulega má margt bæta og þangað stefnum við alveg óhikað. Eða einsog ljóðabóndinn Gvendur frá Kirkjubóli sagði:

Og sagan á enn sitt mikla mál

og myndir sem rísa úr valnum. 

 

Leyfi mér svo að bæta við hinni gullnu settningu vestfirska bókaútgefandans Hallgríms Sveinssonar:

Upp með Vestfirði! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband