Færsluflokkur: Menning og listir
Íslendingasögurnar á mannamál fyrir framtíðina
22.1.2014 | 10:32
Í dag fíla ég Íslendingasögurnar. Þessar miklu bókmenntaperlur þjóðarinnar eru frábærar og í raun fullkomnar sögur. Innihalda allt. Ást, hatur, spennu og já bara það sem þarf til að halda lesandanum við efnið. Eini gallinn er kannski sá að það er ekkert létt að lesa þessar sögur þó það sé mun auðveldara núna en þegar ég var yngri. Hvað þá þegar ég var á mínum unglingsárum þá botnaði ég ekkert í þessum texta. Ég þurfti meira að segja að vera tvo vetur í Gísla sögu Súrssonar. Einmitt þeirri sögu sem ég hef mest dálæti á í dag.
Börn mín hafa þurft að ganga þessa lestrarþraut og glímu við Íslendingasögurnar. Núna er minn miðburður að lesa Fóstbræðrasögu. Pabbi, gamli, hefur verið að aðstoða hana og hef ánægju af. Hinsvegar hef ég tekið eftir því að þetta er alls ekkert auðvelt lestrarefni. Þessi texti er bara of flókinn sem um leið leiðir til þess að hinn ungi lesandi á erfitt með að skilja hann. Um leið þá gerist það eðlilega að áhuginn minnkar. Segir sig sjálft ef maður skilur ekki efnið þá verður engin neisti. Einosg þegar ég þurfti að glíma við algebruna ég þurfti að taka þann áfanga þrisvar sinnum. Já, þrisvar. Ég bara skildi þetta ekki. Hef nú heldur aldrei verið sleipur í reikningnum en mikið var ég glaður þegar ég loks fattaði algebruna og rúllaði upp prófinu, loksins, sagði minn góði kennari Pétur Önundur Andresson í Héraðsskólanum Reykholti.
Það var einmitt á Reykholti sem ég háði aðra atlögu við Gísla Súrsson. Þar var stórkostlegur kennari Snorri Jóhannesson sem fílaði sig svo inní söguna að unun var að. Ég sextán ára patti varð heillaður þegar hann ekki bara lýsti sögunni heldur lék hana hana. Sérlega er mér minnisstætt þegar hann tók fyrir lokabardaga Gísla á Einhamri í Geirþjófsfirði. Þá varð hann svartur í framan enda hafði hann rétt áður þurrkað af tússtöflunni þar sem hann hafði teiknað sverðið Grásíðu og svo þegar hann stóð á hamrinum þurrkaði hann svitan af enni sér og svarti tússinn setti þar sitt mark. Áhrif þessara Gíslakennslustunda í Reykholti urðu slík að snemma ákvað ég að gera leiksýningu um þann Súra. Það tókst árið 2005 og hefur líka lukkast svona vel að ég er ennþá að sýna þessa sýningu. Hef farið með hana nokkrum sinnum útí heim, leikið hana bæði á íslensku og ensku. Í dag eru sýningar á verðlaunaleiknum Gísli Súrsson orðnar 269 og samt bara rétt að byrja. Margar sýningar hafa þegar verið bókaðar á þessu ári.
En nú er ég farinn út og suður í þessum Íslendingasögupistli en þó ekki. Því ég tel víst að ef þessar sögur eru poppaðar soldið upp einsog ungdómurinn segir þá verður þetta allt miklu skýrara. Þó held ég að mikilvægt sé að vinna texta sagnanna betur og einfalda hann fyrir skólabókaútgáfu. Nú hrista ábyggilega margir spekingar hausinn og vilja halda í hina eldgömlu íslensku. En hafið ekki áhyggjur þau munu lesa hinn upprunalega texta síðar. Því ef textanum er aðeins lyft upp á blaðinu og færður til nútímans, erum þó ekki að tala um að setja eitthvað slangur í þetta, þá nær hin efnilega æska efninu. Fattar það. Um leið vaknar áhugi því engin efast um að þessar sögur eru magnaðar.
Ég er alls ekki að skjóta á kennara þessa lands sem eru að kenna Íslendingasögurnar. Því ég veit að þeir beita öllum ráðum til að matreiða efnið sem mest þeir geta fyrir sína nemendur. En það þarf að stíga lengra og taka námsbækurnar sjálfar til endurskoðunnar. Færa þær til nútímans fyrir framtíðina.
Ef ekki þá gæti farið einsog fór fyrir mér þegar ég var að læra Íslandsklukkuna eftir Halldór Laxness. Mikið var það leiðinleg lesning í minningunni. Svo leiðinleg að síðan hef ég ekki viljað líta og hvað þá lesa bók eftir þennan mikla skáldjöfur. Minnningin er sterk og fer með mann allaleið líkt og þorpið. Samt er fólk alltaf að tala um hve þessar bækur Laxa séu flottar. En bara áhuginn var ekki vakinn eða kannski var þetta bara of snemmt, ég meina var ekki nema 16 ára þegar ég las þessa leiðinlegu sögu. Þá erum við nú komin að allt annarri spurningu, kannski er bara betra að við lesum Íslendingasögurnar síðar á námsárunum?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sex í vestfirsku leikhúsi
17.1.2014 | 11:06
Leiklist stendur á gömlum merg á Vestfjörðum. Í mínum heimabæ, Bíldudal, var byrjað að leika strax árið 1894 og voru meira að segja sett upp þrjú verk það ár. Síðan þá hefur verið leikið á Bíldudal sem og um alla Vestfirði. Fjölmörg áhugaleikfélög eru starfrækt um alla Vestfirði og það skemmtilega er að mörg þeirra hafa verið að vakna úr dvala síðustu misseri nú síðast var það Leikfélag Flateyrar sem setti upp bráðfjörugan farsa. Í skólum eru líka sett upp leikrit fyrir áramót sýndi Grunnskóli Ísafjarðar söngleikinn Söngvaseið og Menntaskólinn á Ísafirði hefur sett upp leikrit árlega kannski bara frá upphafi þori þó ekki að fara með það. Síðast en ekki síst er rekið atvinnuleikhús á Vestfjörðum sem heitir Kómedíuleikhúsið og er það einmitt tilnefnt til Eyrarrósarinnar nú í ár.
Ef ég tel rétt og hef frétt rétt þá eru sex leikrit nú að fara í æfingu á Vestfjörðum. Þar af eru tvö ný íslensk verk en óhætt er að segja að Vestfirðingar eiga líklega Íslandsmet í frumfluttningi nýrra leikverka. Nægir að nefna að Kómedíuleikhúsið hefur frumflutt 35 íslensk leikverk og það á aðeins 16 árum. Kannski er þetta bara heimsmet?
Í gær var Vestfirska skemmtifélagið með leik- og söngprufur fyrir nýjan vestfirkskan söngleik Jón Indíafari. Um er að ræða sýningu sem verður leikin af ungu listafólki en höfundar eru sá sem hér ritar og Guðmundur Hjaltason. Skemmst er frá því að segja að það var mikið fjölmenni á prufunni og mættu miklu fleiri en fá hlutverk. Æfingar á Jón Indíafara hefjast á sunnudag og stefnt er að frumsýningu um miðjan febrúar. Litli leikklúbburinn er einnig að fara af stað í mikið ævintýri. Nú um helgina verður haldið leiklistarnámskeið í Edinborgarhúsinu. Í framhaldinu hefjast síðan æfingar á klassíkinni Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason. Vippum okkur nú yfir fjöll og fjörðu eða falla nú öll vötn til Þingeyrar. Íþróttafélagið Höfrungur sem starfrækir sérstaka leikdeild boðaði til kynningarfundar í upphafi vikunnar. Fundarefnið var uppsetning á einu vinsælasta barnaleikriti allra tíma nefnilega Línu Langsokk. Þegar er búið að setja í öll hlutverk slíkur er áhuginn og krafturinn í Dýrafirði. Æfingar hefjast laugardaginn 25. apríl og stefnt er að frumsýningu í byrjun mars. Atvinnuleikhús Vestfjarða mun svo frumsýna nýtt íslenskt leikrit Halla sem er byggt á samnefndri ljóðabók eftir vestfirska skáldið Stein Steinarr. Handritsskrif standa nú yfir í herbúðum Kómedíuleikhússins en stefnt er á frumsýningu í byrjun apríl. Nú fimmta leikritið sem er væntanlegt á hinar vestfirsku fjalir er hin árlega uppfærsla Menntaskólans á Ísafirði á Sólrisuhátíð þeirra. Loks berast fréttir af því að hið ofurduglega Leikfélag Hólmavíkur ætli að setja upp barnastykkið Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson. Verkefnið er unnið í samstarfi við grunnskóla staðarins.
Það má alveg segja það að sexið sé sexý og málið í hinu vestfirska leikhúsi þessa dagana.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Innihaldið skiptir meiru en útlitið, svo sem engin ný sannindi
14.1.2014 | 09:57
Líkt og margir aðrir þá tók ég mér tíma á gamlaársdag til að pæla í komandi ár. Setti mér markmið, horfði aðeins á liðið ár en aðallega á það komandi. Eitt af því sem ég setti mér er að taka nú duglega lestrahrinu í mínu eigin bókasafni. Er safnari í eðlinu mínu og bækurnar taka orðið alla borðstofuna í Túninu heima í dag og enn vantar fleiri bókahillur. Mér fannst miðburður minn orða þetta frábærlega einu sinni. Þá var ég að koma heim eftir leikferð í höfuðborginni. Hafði verið þar í tvær vikur og verið duglegur að heimsækja Góða hirðinn til að bæta í mitt bókasafn. Þegar ég svo kom heim með stóran stafla af bókum þá sagði minn kæri miðburður: Hva, pabbi erum við að fara að opna bókasafn?
Börnin kunna að orða það, ávallt hrein og bein og vita oft betur en við sem þykjumst vita betur. Ég hef líka í gegnum árin haft miklar áhyggjur af því að ég mundi lenda í því sama og einhver spekingur sagði: Því stærra sem bókasafnið er þeim mun minna er lesið.
Svo strax á nýju ári hófst ég handa við að lesa hinar ólesnu bækur míns eigin bókasafns. Er þegar búinn með nokkrar alveg ágætar m.a. Bréf til Sólu ástarfbréf Þórbergs til Sólrúnar. Um daginn tók ég svo eina litla skáldsögu úr bókasafninu sem ég átti eftir að lesa. Reyndar var ég nú ekki bjartsýnn á komandi lestur. Því bókarkápan fannst mér alveg agalega ólekkert. Hins vegar hafði ég heyrt mikið gott talað um skáldið sem er Helgi Ingólfsson og bókin heitir Andsælis auðnuhjólinu frá 1996. Gott ef þetta er ekki bara hans fyrsta skáldsaga? Enn á ný sannaðist hið forna að innihaldið skiptir meira máli en útlitið. Þetta er nefnilega hin ágætasta bók. Kannski hjálpaði eitthvað að maður gerði svosem ekki miklar væntingar og það útaf hinni skelfilegu bókarkápu. Það vill oft vera þannig ef maður hefur t.d. heyrt mikið gott talað um eitthvað þá aukast væntingarnar og þá vill líka vera styttra í vonbrigðin. Og á hinn máta vill það líka gerast ef maður hefur heyrt að eitthvað sé nú frekar slappt þá getur bara vel verið að manni líki það svona líka vel. Það er nú líka blessaður smekkurinn hann er svo misjafn. Sem betur fer. Andsælis auðnuhjólinu er bara hin allra skemmtilegasta saga og svo skilst mér að kvikmyndin Jóhannes sem byggð á þessari sögu. Sel það nú ekki dýrara. Enda hef ég ekki séð þá ræmu. Annað sem þarf að taka til í eigin ranni að horfa á fleiri kvikmyndir sérstaklega íslenskar. En það var ekki í mínu átaki ársins 2014. Kannski maður setji sér það bara fyrir næsta ár, 2015.
Herra menntamálaráðherra vilt þú ganga í málið?
9.1.2014 | 17:49
Ég er kannski ekki alveg marktækur þegar ég segi að leikhús sé bæði æðislegt, mikilvægt og síðast en ekki síst skemmtilegt. Og svo miklu miklu meira. Leikhús hefur forvarnargildi, leikhús er skemmtilegt áhugamál, leikhús er fjölbreytt, leikhús er beytt og einsog sumir segja svolítið oft leikhús hreyfir við okkur. Er örugglega að gleyma einhverju og þið megið þá endilega fullkomna þennan lista hér að neðan. En það er annað sem ég er að hugsa. Það er sú staðreynd að einn markaður hins íslenska leikhús hefur gjörsamlega hrunið. Já, það er orðið. Hrunið.
Þetta gerðist einmitt þetta ár sem oft er nefnt en ég ætla ekki að nefna hér því allir vita hvað ég er að tala um. Fyrir þann tíma hafði verið mikið líf í svonefndum skólaleiksýningum. Leiksýningum sem voru sérstaklega gerðar í þeim tilgangi að geta ferðast um landið og þá aðallega í skóla. Erum þá að tala um alla skóla alveg frá leik - til framhaldsskóla. Reyndar var framhaldsskóla markaðurinn ávallt lítill og svo gott sem engin í dag. Ég var svo heppinn að fá að starfa við þennan geira leikhússins í mörg ár. Fyrst með Möguleikhúsinu og síðan með eigin leikhúsi, Kómedíuleikhúsinu. Þessi hefð fyrir skólasýningum er reyndar mjög ung veit ekki alveg árið sem þetta byrjaði hér á landi allavega vorum við langt á eftir hinum Norðurlöndunum í þeim málum og þá sérstaklega Danmörku. Í dag erum við ekki bara í aftursætinu hvað leiksýningar fyrir skóla varðar heldur lengst aftan í skotti.
Ég fullyrði það að þessar skólasýningar voru og eru mjög mikilvægar fyrir íslenska æsku. Ég veit ekki hve oft ég hef sýnt fyrir krakka sem hafa aldrei áður séð leikrit. Já, aldrei áður séð leiksýningu. Þessar leiksýningar sem gerðar voru fyrir þennan markað voru mjög fjölbreyttar. Margar höfðu skírskotun í námsefnið þannig gerði t.d. sá sem hér ritar leikrit um Gísla Súrsson. En sú saga er einmitt kennd víða í skólum landsins. Svo skemmtilega vill til að margt ungmennið hefur loksins fattað söguna eftir að hafa séð leikritið. Alveg satt. Svo voru líka gerð leikrit fyrir skólamarkaðinn sem höfðu bara hreint og beint afþreyingagildi. Svo voru gerðar sérstakar jólasýningar sem nutu mikilla vinsælda.
En svo var það þetta ár sem engin vill festa á blað né hugsa um. Þá bara varð leikhúshrun. Svo virðist sem liðurinn ,,leiksýningar" í fjárhagsáætlun skóla þessa lands hafi bara verið strikaðir út. Einsog hjá knattspyrnugoðinu á sínum tíma.
Þetta er ekki gott mál. Bara alls ekki.
Hvað er til ráða? Markaðurinn hefur lítið sem ekkert tekið við sér ennþá enda virðist ekki verið áætlað fjármagn í leiksýningar.
Nú vil ég biðla til herra menntamálaráðherra að ganga í þetta mál. Við í Kómedíuleikhúsinu erum alveg til í að gera meira að segja samning og veita góðan afslátt af leiksýningum fyrir skóla. Og að sjálfsögðu ef maður gerir samning þá fær maður betri prís. En það mikilvægasta er að hefjast handa og gera eitthvað í málinu. Hér er um verkefni að ræða fyrir æsku þessa lands og það er jú hún sem skiptir öllu máli.
Það er ekki bara trúin sem flytur fjöll leikhúsið getur það líka, allavega á leiksviðinu.
Hérna er númerið mitt herra menntamálaráðherra ef þú vilt ræða málið.
891 7025
Elfar Logi
Eusebio kynnti mig fyrir heimi bókmenntanna
5.1.2014 | 18:40
Á mínum æskuárum á Bíldudal var ég alltaf í boltanum. Lífið snérist um knöttinn ekkert annað komst að. Skipti engu hvort það var sumar eða vetur. Ég man meira að segja eftir því einu sinni að vetri til þá fjölmenntum við púkarnir á Bíldó frameftir alla leið að Hóli þar sem knattspyrnuvöllurinn var. Stór gerfigrasvöllur. Þetta var í raun einsog tískusýning því við vorum allir klæddir að hætti vetrarknattspyrnu sjónvarpsins. Vorum í föðurlandi, eða þunnum síðum buxum, svo stuttbuxur þar yfir, já ég veit svaka smart. Svo var efri hlutinn auðveldari peysa og íþróttablússa yfir auðvtiað merkt íþróttafélagi voru ÍFB. Ekki mátti gleyma vetlingunum. Og þeir skiptu miklu urðu að vera fingra vetlingar, því þannig voru þeir í sjónvarpinu hjá Bjarna Fel. Minn eldri og líklega betri bróðir var mikill knattspyrnumaður og hann var oft að kynna mig fyrir eldri stjörnum fótknöttsins. Þar voru fremstir í flokki stjörnur sem báðar báru svart dulnefni. Svarta perlan var Pele frá Brasilíu sem var víst með augu í hnakkanum. Svo var það Svarti pardusinn sem var hinn portugalski Eusebio. Bróðir minn þekkti sögu þessara manna nokk vel sérstaklega pardussins. Enda hafði hann lesið bók um kappann. Að fótknattasögustund lokinni hjá brósa var ég staðráðinn í að fara á bókasafn Bíldudals og ná í þessa bók um hinn Svarta pardus.
Bókasafnið á Bíldudal var til húsa í grunnskóla þorpsins. Fyrir mér var það stór ævintýraheimur en þó var safnið pínulíitð. Lítið og mjótt herbergi sem var eiginlega bara lítill þröngur gangur. Þarna réði ríkjum Ingimar Júlíusson. Stórmerkilegur maður sem hafði meira að segja gefið út ljóðabók, Leirfuglar, sem ég vissi nú ekkert um þá en löngu síðar féll ég fyrir þessari merku bók. Ingimar var í raun einsog persóna í ævintýri. Var hávaxinn með miklar augabrýr, gekk við staf, var alvarlegur en samt ávallt góðlegur við okkur krakkana. Sérstraklega þegar við komum á bókasafnið. Þegar maður hugsar útí það þá hefði hann verið flottur í ævintrýraheim Harry Potters. Gæti verið maðurinn í bókabúðinni. Ingimar var ekki lengi að finna þessa íþróttaævisögu sem ég spurði um Eusébio Svarti pardusinn. Æviferill Eusébio da Silva Ferreira. Þetta er fyrsta bókin sem ég las alveg sjálfur. Já, frá upphafi til enda.
Segið svo að sportið geti ekki verið menningarlegt líka. Því síðan þá hef ég lesið bækur og eykst sá áhugi með hverju ári. Reyndar hef ég lítið lesið af sport bókum síðustu ár en á sínum tíma fór ég í gegnum þetta allt. Bókina um Ásgeir Sigurvins, Arnór að ógleydum bókunum um Íslenska knattspyrnu.
Ég þakka knattspyrnugoðinu Eusebio fyrir að hafa kynnt mig fyrir bókmenntunum. Góða ferð félagi bið að heilsa Hemma og George Best.
Eusebios minnst - myndband | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tökum upp skóla að hætti Barbapabba
23.12.2013 | 08:52
Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Er engin lygi. Bækur voru á mínu heimili sem hafa sannarlega átt þátt í að móta mig og jafnvel gera að aðeins skárri manni. Sumar bækur æskunnar eru ekki ósvipaðar og Jón úr Vör sagði um þorpið, að það fari með manni alla leið. Í minni æsku voru bækurnar um Barbapabba í miklu uppábhaldi. Þar hafði líklega sjónvarpið sitt að segja því þar voru einmitt sýndir þættir um þessa síbreytilegu fjölskyldu. Víst gat þar allt gerst líkt og í ævintýrum. Því þessi fjölskylda er þeim kostum búin að hún getur breytt sér í hvað sem er. Alveg sama hvað. Tannhjól, skip, flugvél, flugfisk já bara nefnið það. Sú bók sem var í mestu uppáhaldi hjá mér af Barbapabba bókunum var Skólinn hans Barbapabba sem kom út árið 1977 en þá var ég sex ára. JPV gaf síðan bókina út á nýjan leik þrjátíu árum síðar og sú útgáfa er nú til á mínu heimili, hinn er öll í henglum enda lesin mun oftar en Lukku Láka bækurnar sem ég átti en þó var hann líka skemmtilegur.
Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri í dag er að lesa fyrir afstelpuna mína hana Sögu Nótt. Hún verður tveggja ára í upphafi komandi árs. Við eigum okkar lestrarstundir. Þá sest ég, afi gamli, í gamla stólinn í borðstofunni og sú stutta fer síðan í bókahilluna og sækir þangað lesefni. Síðan hefst lesturinn og úrvalið er fjölbreytt. Hún hefur t.d. mikinn áhuga á fræðibók um víkinga, hin stórkostlega bók Allt í einu sem ég man ekki hver samdi en hún tók einmitt þessa bók með sér þegar hún skrapp til ömmu sinnar í Súðavík í gær. Síðast en ekki síst eru bækurnar um Barabapabba sérlega vinsælar. Þar fer fremst í flokki einmitt bókin Skólinn hans Barbapabba. Og ekki leiðist afa að lesa þá bók.
Skólin hans Barbapabba fjallar um það þegar mannlegu tvíbura vinir Barbana er að fara í skólann í fyrsta skipti og barbarnir fara með þeim. En ekki gengur nú kennaranum vel að hafa stjórn á æskunni í skólastofunni og loks gefst hann upp og grætur við öxl skólastjórans, eða er það bæjarstjórinn. Ekki alveg viss. Allir fara að rífast ekki bara þeir fullorðnu heldur og krakkarnir. Barbaþór og Barbaljóð byrja að spila og auðvitað er Barbaþór hljóðfærið og við það róast nú nokkrir óþekktarormar og taka upp dansa. Hinir fullorðnu sjá bara eitt í stöðunni. Tuska þessa púka til flengja eða fangelsa bara.
Barbapabba líst ekki á þessa aðferð og bendir á að engin börn séu alveg eins. Sum hafa gaman af tónlist, önnur af dansi, hinir þriðju af bílum og svo mætti lengi telja. Hinum fullorðnu líst nú ekki svo á þetta en vilja þó að Barbarnir fái að setja á stofn sinn eigin skóla, svona áður en flengingar hefjist.
Og hvað skyldi nú vera kennt í skóla Barbapabba. Jú, þar fer sköpun og fjölbreytileiki fremst í flokki. Barbafín og Barbaljóð bjóða uppá dans og tónlist, Barbasnjall er vitanlega allur í tækninni kennir þeim að skrúfa hluti í sundur og aftur saman. Þá er nú gott að hafa Barbana til aðstoðar sem breyta sér í allra handa vélar, tannhjól, bora og ég veit ekki hvað. Settur er upp matjurtargarður og náttúran skoðuð, í alvörunni sko, farið útí náttúruna og hún könnuð. Ekki má gleyma deild Barbakærs sem kennir teikningu og þar má sko mála á veggina.
Allt leikur í lindi og gamni. En þó fara púkarnir eitthvað að fljúgast á og Barbamamma fer alveg í kerfi. Barbaþór veit lausnina á því og allir fara út í leiki og sparka bolta.
Fullorðna fólkið kemur í heimsókn og er bara alveg steinhissa. Og meira að segja gamli kennarinn getur núna kennt krökkunum.
Svo er haldin hátíð, mikil hátíð. Allir hjálpast að við að gera hátíðina sem flottasta. Börnin eru þar í aðalhlutverki þau dansa, spila og hafa svo til sölu það sem þau hafa búið til í skólanum.
Ég er nokk viss á því að ef við færum að dæmi Barbapabba og hans fjölskyldu þá væri þessi Pisa sem alltaf er verið að tala um fljótur að rétta við sér.
Síðbúnar þakkir til Lions
17.12.2013 | 13:57
Betra er seint en ekki sagði einhver merkur maður. Það er mikilvægt að þakka þegar vel er gert og vissulega vill það oft gleymast að þakka fyrir sig. En nú skal bætt úr því frá mínum garði.
Síðasta laugardag var mér boðið að flytja erindi hjá Lionsklúbbi Bolungarvíkur. Að sjálfsögðu þáði ég það með þökkum og sagði já jafnvel áður en ég fór að hugsa um hvað ég ætlaði að tala um. Eftir hið algenga ,,já" svar mitt settist ég niður í túni mínu heima og byrjaði að hugsa hvað ég ætti nú að tala um. Datt strax í hug að lesa uppúr nýjum bókum enda yfirstandandi hið árlega jólabókaflóð. Ákvað að lesa uppúr nýju jólaljóðakveri eftir bróður minn Þórarinn Hannesson sem nefndist Um jólin. Ritið er glæsilega myndskreytt af mínum betri helmingi Marsibil G. Kristjánsdóttur. Einnig ákvað ég að lesa uppúr hinni frábæru bók Frá Bjargtöngum að Djúpi sem Vestfirska forlagið gefur út. Meðan ég var að undirbúa lesturinn þá hvarflaði hugurinn allt í einu til æskuáranna og þá sérstaklega minningar tengdar Lionsklúbbnum í mínum heimbabæ Bíldudal. Nú veit ég ekki hvort lesendur viti hvað þetta Lions er eiginlega? Fyrir mörgum árum voru þessi félög mjög áberandi og voru nánast í hverjum bæ og þorpi. En síðan er liðin mörg ár og þessum félögum hefur fækkað allverulega á síðustu árum. Lions er félagsskapur sem lætur gott að sér leiða á öllum sviðum samfélagins. Þetta er karlaklúbbur þó sumsstaðar sé líka til Lionessur. Of langt mál væri að nefna allt það góða og mikla starf sem Lions hefur gert hér á landi. Ég vil þó nefna þrjár minningar sem ég á um Lions í mínum heimabæ, Bíldudal.
Lionsfélagið á Bíldudal var mjög duglegt á mínum æskuárum. Faðir minn, Hannes Friðriksson, var þar félagi ásamt að ég held öllum fullorðnum karlmönnum í þorpinu. Alltaf þegar pabbi var kominn í jakkafötin þá vissi ég hvað stóð til. Hann var að fara á Lionsfund og ég fékk ekki að koma með og var nú ekkert alltof sáttur við það. En í dag skil ég það alveg. Hinsvegar fékk ég alltaf að fara með pabba á leikæfingar en það er önnur saga. Lions á Bíldudal átti stóran þátt í jólahaldinu í þorpinu. Fyrir það fyrsta hófu þeir jafnan jólabiðina mína. Því í lok nóvember gengu þeir á milli húsa í þorpinu, knúðu dyra. Buðu góðan dag, voru ávallt mjög kurteisir og í jakkafötum, og spurðu svo: Má ekki bjóða þér að kaupa súkkulaðijóladagatal?
Sama dag fékk ég leyfi hjá mömmu, Þórunni Helgu, til að taka upp jólahljómplöturnar og fyrst á fóninn var ávallt Verkstæði jólasveinanna. Leikrit eftir meistara barnaleikritanna Thorbjörn Egner túlkað af frábærum leikurum m.a. Helga Skúla og míns uppáhalds í æsku Bessa Bjarna.
Tveimur vikum síðar var síðan haldið jólaball Lions. Það var haldið í grunnskólanum og þar mættu sko alvöru jólasveinar. Þeir voru svo raunverulegir að mitt barnshjarta brast í öll skiptin en þárin voru terruð þegar sveinarnir gaukuðu að manni jólaeplinu. Auðvitað var líka boðið uppá smákökur og heitt súkkulaði.
Þriðja Lions minning mín úr æsku er útilega á Dynjanda. Man reyndar ekki hvaða ár þetta var líklega 1977 eða 1978. Þetta var sko alvöru útilegupartý. Það var boðið uppá geggjaða matarveislu þar sem voru heilsteikt lömb á teini. Fór þetta fram í gömlu réttinni sem lengi stóð við paradísina á Dynjanda. Einn daginn voru við krakkarnir svo settir í það að safna flötum steinvölum sem mikið er af þarna á svæðinu. Við steinunum sléttu tóku nokkrir hleðslumenn sem pússluðu þessu svo vel saman að úr varð stór varða sem var ekki bara hefðbundinn varða. Heldur bókstafurinn L sem stendur auðvitað fyrir Lions. Margt fleira var gert þessa helgi sem stendur svo vel í minningunni ásamt mörgum öðrum Lionsminningum æskunnar.
Þakkir til Lionsklúbbs Bíldudals fyrir ómetanlegar stundir.
Hemmi Gunn hinar góðu minningar
10.12.2013 | 14:01
Þegar dagar ársins fara að týna tölunni er manni gjarnt á að horfa yfir hið liðna. Vissulega hefur margt gerst á 13 ári nýrra aldar. Fjölskyldan hefur dafnað vel og er það vel. Maður uppgötvar oftar en ekki þegar maður sest niður og hættir að velta sér uppúr hinu ,,negatíva" hvað maður er í raun heppinn. Ég er í alvörunni gífurlega ríkur þó fáa eigi ég monnípeninga enga telst það ekki til raunverulegs ríkidæmis. Þó þarf ég ávallt að vera að minna mig á þessa staðreynd að monníngar eru bara til að flækja málin. Fjölskylda og vinir er það sem skiptir máli. Minn góði vinur Hemmi Gunn á einmitt stóran þátt í því að hamra þessa staðreynd í minn netta haus. Mikið sem maður saknar góðs vinar.
Ef einhver hefur sýnt manni hve jákvæðni og hressileiki skipti máli í lífinu þá er það félagi Hemmi. Það var alveg nóg að sjá hann þá komst ég í gott skap og gleymdi öllu þessu daglega böggi og áhyggjum. Ég hitti Hemma fyrst um aldamótin og eftir því sem árin liðu styrktust okkar kynni meir og meir. Við áttum og sama afdrep. Hinn dýrðlega Haukadal í Dýrafirði. Þar hlóðum við batteríið og styrktum kynnin enn betur. Ég á mér bara góðar minningar um vin minn Hemma. Þess vegna hef ég ekkert verið að velta mér uppúr þeim fjölmörgu og alltof ,,negatvíu" fréttum sem hafa verið í fjölmiðlum síðustu daga. Ég efast um að ég eigi meira að segja eftir að kikka í ævisögu hans. Öll höfum við jú okkar bresti og nútímafjölmiðlar virðast hafa það efst á sinni efnisskrá að ef eitthvað er miður þá skal það fara beint í blöðin. Svo eru menn að undra sig á því að okkur gengur erfiðlega að komast uppúr þessum ,,negatívu" hjólförum.
Sjálfur er ég alin upp við jákvæðni enda átti ég yndæla æsku. Vissulega gerast miður skemmtilegir hlutir og þá þarf að glíma við. En hinar góðu minningar er það sem gefur tilgang á okkar hótel jörð.
Minningar mínar um Hemma vin minn eru svo margar að þær munu ylja mér allt til enda. Hann var vanur að koma í morgunkaffi til okkar í kofa okkar fjölskyldunnar í Haukadal. Reyndar vorum við oft ekki vöknuð þegar hann bankaði á dyrina. Enda var hann ávallt snemma á fótum í sveitinni fór í morgunsund inná Þingeyri og mætti svo til okkar nátthrafnanna í Haukadal. Þá var dregin fram kannan hans, já hann átti sína könnu í okkar kofa, auðvitað merkt Manchester United. Ég sötraði hinsvegar úr minni Arsenal könnu. Vissulega var oft spjallað um boltann en þó var ávallt byrjað að spyrja um hag fjölskyldumeðlima. Pólitík var sem betur fer aldrei rædd enda var öll umræða á jákvæðum nótum. Oftar en ekki var rætt um stöðu Vestfjarða en Hemmi bar mikinn og góðan hug til kjálkans. Hann var t.d. með frábæra hugmynd um að koma upp íþrótta og listabúðum á fyrrum héraðskólanum að Núpi. Var hann búinn að ganga með þessa hugmynd lengi í maganum en þó nefnt við marga en því miður hefur þessi úrvals hugmynd ekki komist á koppinn en góðar hugmyndir lifa og framtíðin er björt. Á gamlaársdag kom hann ávallt til okkar í kaffi og þá létum við okkur öll dreyma um frábært komandi ár og komandi ævintýri.
Núna styttist í jólin og þá förum við fjölskyldan í kofann okkar góða í Haukadal. Það verður skrítið að hafa engan Hemma á næsta bæ. Þó veit ég að hann verður þarna einhversstaðar. Síðasta sumar var oft einsog einhver væri að banka á útidyrina hjá okkur en þegar að var gáð var engin. Engin var hræddur né hissa. Við vissum öll hver þetta var og vippuðum okkur úr náttfötunum og yfir í glaðan, ævintýralegan og jákvæðan dag.
Einbeitum okkur frekar að góðum minningum en hinum. Gleymum heldur ekki að hlæja og endilega skellihlæjum og njótum lífsins.
,,Ekta vestfirsk leiksýning"
23.4.2012 | 11:05
Kómedíuleikhúsið sýndi nýtt íslenskt leikverk Náströnd - Skáldið á Þröm fyrir skömmu. Leikurinn fjallar um ævi og örlög alþýðuskáldsins Magnús Hj. Magnússonar betur þekktur sem Skáldið á Þröm og enn aðrir þekkja hann sem Ólaf Kárason í Heimsljósi Laxness. Náströnd - Skáldið á Þröm var sýnt á slóðum skáldsins á Suðureyri við Súgandafjörð en þar bjó hann síðustu árin í kofanum Þröm. Sýningin fékk mjög góðar viðtökur og var uppselt á allar sýningar leiksins. Sigurður Pétursson, sagnfræðingur, er einn þeirra fjölmargra sem sáu sýninguna og segir hér að neðan frá þeirri upplifun:
Heimsókn til Skáldsins á Þröm. Hugleiðing eftir leiksýningu Kómedíuleikhússins
Ársæll Níelsson sem Magnús Hj. Magnússon
Magnús Hj. Magnússon var fæddur í Álftafirði, alinn upp á sveit í Önundarfirði, heilsuveill á yngri árum og vart fyrirvinna á fullorðinsárum. Fátæklingurinn átti lítið val í fastskorðuðu bændasamfélagi fyrri alda. Að þiggja sveitarstyrk frá fæðingahreppnum vegna veikinda ungur að árum, varð honum fótakefli það sem eftir var ævinnar. Sá sem ekki gat borgað til baka skuld sína, var upp á náð og miskunn hreppsnefndarinnar. Og hjá henni var slíkur munaður af skornum skammti. Þurfamaður átti engan rétt til að ráða sínu lífi, hvar hann settist að, hvort hann gifti sig og því síður að hann fengi lýðréttindi svo sem kosningarétt. Hann skyldi þjóna bændum með vinnu sinni og lífi. Allt sitt líf reyndi Magnús Hj. Magnússon, skáldið á Þröm, að brjótast undan þessu hlutskipti. Hann flutti stað úr stað, stundaði kennslu og skriftir, samdi erfiljóð og afmælisvísur og skrifaði upp handrit fyrir fólk. Og skrifaði dagbækur. En miskunn hreppsnefndarinnar kom aldrei.
Alþýðuskáldið Magnús hefur orðið þjóðinni hugleikinn allt frá því að nóbelskáldið Halldór hnaut um dagbækur hans á Landsbókasafninu og notaði til að draga upp skáldmæringinn og auðnuleysingjann í Heimsljósi. Síðar gaf Gunnar M. Magnúss út útdrætti úr dagbókum Magnúsar undir nafninu Skáldið á Þröm. Enn síðar komu ungir fræðimenn og gáfu út sýnisbók úr handritum Ljósvíkingsins til að sýna okkur inn í hugarheim alþýðumannsins. Og nú hefur Kómedíuleikhúsið á Vestfjörðum samið og sett upp einþáttung um líf skáldyrðingsins, sem reyndi að brjóta af sér hlekki fátæktar og fordóma með skrifum og skáldskap. Það var einkar vel til fundið að sýna verkið í Félagsheimilinu á Suðureyri, í þorpinu þar sem skáldið og fylgikona hans fengu að búa óáreitt síðustu æviár Magnúsar í þurrabúðinni Þröm. Víðsýni útvegsbænda í Súgandafirði fyrr á tíð skal höfð í minnum.
Leikstjórinn og leikhússtjórinn Elfar Logi Hannesson og leikarinn Ársæll Níelsson hafa skrifað og sett upp einleikinn Náströnd - Skáldið á Þröm. Leikurinn fór ekki fram í sal félagsheimilisins, heldur á sviðinu. Í þröngu rými, fangaklefa Magnúsar, skapaðist nálægð milli áhorfenda og leikarans, sem virkaði sterkt. Einföld sviðsmynd með bókum og blýantsstubbum skapaði rétt andrúmsloft. Texti verksins er allur fenginn úr dagbókum og skrifum skáldsins. Við fylgjum lífhlaupi hans í svipmyndum, þar sem hann afplánar dóm fyrir brot sem hann framdi. Við fáum að kynnast vonum hans og þrám, vonbrigðum og vesæld, en líka háum og stundum hjákátlegum hugmyndum hans um sjálfan sig. Hann sýnir okkur öfgarnar sem togast á í honum, frá sjálfsvorkunn til upphafningar, sem berast helst í afstöðu hans til kvenna og í veikburða skáldatilraunum. En sterkast verkar samt kaldur raunveruleikinn, fátæktarbaslið, hlutskipti öreigans. Ársæll túlkar skáldið auðnulausa á hóflegan hátt, en með þeirri glóð sem býr undir yfirborðinu; þránni eftir hinu æðra. Sterk nærvera hans og framvinda verksins gerði það að verkum að þær 55 mínútur sem sýningin tekur, leið sem örstutt stund. Frumsamin tónlist Jóhanns Friðgeirs Jóhannssonar virkaði fullkomlega með verkinu og ekki spillti Mugison í lokin.
Það var því skemmtileg leikhúsupplifun í Félagheimili Súgfirðinga, sem áhorfendur fengu að reyna, fyrir og um páskana hér fyrir vestan. Enda var fullt hús á öllum sýningum. Vonandi fær Kómedíuleikhúsið tækifæri til að flytja verkið oftar og víðar, svo fleiri fái tækifæri til að upplifa alþýðuskáldið á Þröm og ,,skáldyrðinginn" sem hugsaði hátt, en laut að lágu. Til hamingju með ekta vestfirska leiksýningu, Elfar Logi og Ársæll.
Sigurður Pétursson.
Sýningum hætt fyrir fullu húsi á Náströnd
13.4.2012 | 08:53