Færsluflokkur: Menning og listir

Afinn í Bolungarvík

Einn ástsælasti leikari þjóðarinnar Sigurður Sigurjónsson sýnir gamanleikritið Afinn fyrir vestan. Sýnt verður í Félagsheimilinu í Bolungarvík föstudaginn 18. maí og hefst sýningin kl.20. Miðasala er þegar hafin á midi.is En rétt er að taka það sérstaklega fram að aðeins verður um þessa einu sýningu fyrir vestan að ræða. Því er um að gera að bóka sér miða á Afann strax í dag. Gamanleikurinn Afinn hefur fengið frábærar viðtökur gangrýnenda og áhorfenda og hefur verið sýndur fyrir fullu Borgarleikúsi á yfirstandandi og síðastliðnu leikári. Uppfærslan er samvinna þeirra Sigurðar og Bjarna Hauks Þórssonar. Áður hafa þeir unnið saman að Hellisbúanum og Pabbanum.

Hvernig eru afar í dag? Þeir eru á besta aldri, í góðri stöðu, búnir að ala upp börnin og geta loksins notið lífsins eftir brauðstritið. Margir hverjir eiga Harley Davidson í bílskúrnum og hlusta ennþá á Bítlana, en eiga það allir sameiginlegt að sofna yfir Kastljósinu á kvöldin. En verkefni afa í dag geta verið ýmis og flókin: tvískipt gleraugu, flóknar fjarstýringar, Viagra töflur og síðast en ekki síst barnabörnin.

„Barnabörnin eru eins og bílaleigubílar, maður pikkar þau upp tandurhrein, með fullan tank og leikur sér aðeins með þau, en skilar þeim svo bara aftur eftir einhverja stund grút¬ skítugum og tómum.“ – Afinn

Afinn er sprenghlægileg og hjartnæm leiksýning sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Skelltu þér inná midi.is og bókaðu miða á Afann í Félagsheimilinu í Bolungarvík föstudaginn 18. maí.


Vestfirsku dægurlögin - allt að seljast upp

Það er líf og fjör í miðasölunni fyrir söngvasjóvið Vestfirsku dægurlögin sem verður á fjölunum fyrir vestan um pásakana. Nú þegar er orðið uppselt á sýninguna á Skírdag, en laus sæti eru á sýninguna í kvöld miðvikudag kl.21. Miðasölusíminn er 892 4568 og miðaverðið er aðeins krónur 2.900.-. Síðasta sýningin á Vestfirsku dægurlögunum er síðan á föstudaginn langa 6. apríl kl.21. Sýningar eru í Félagsheimilinu í Bolungarvík og rútuferðir eru frá Ísafirði alla sýningardaga. Rútan fer frá Samkaupsplaninu kl.20.
Það er nýjasta leikhús Vestfjarða Vestfirska skemmtifélagið sem setur söngvasjóvið Vestfirsku dægurlögin á svið. Leikhúsinu stýra þeir félagar Elfar Logi Hannesson, leikstjóri, og Guðmundur Hjaltason, tónistarstjóri. Þrír söngvarar taka þátt í sýningunni það eru þau Hjördís Þráinsdóttir, Steingrímur Rúnar Guðmundsson og Sveinbjörn Simbi Hjálmarsson. Hljómsveitina skipa Guðmundur Hjaltason, Bjarni Kristinn Guðjónsson, Sunna Karen Einarsdóttir og Haraldur Ringsted.

Vestfirsku dægurlögin slá í gegn

Það er ótrúlegt hve mikið af dægurlögum koma frá Vestfjörðum. Nú hefur öllum helstu perlum Vestfirskra dægurlagamenningar verið safnað í eina sýningu Vestfirsku dægurlögin. Frumsýnt var um síðustu helgi við dúndrandi góðar viðtökur, gestir dönsuðu, dilluðu, sungu og skemmtun sér með stæl. Enda er það einmitt tilgangurinn að koma saman hlusta á einstak tónlist og eiga stuðkvöldstund án þess að pæla í einhverjum negatívum fréttum sem alltof mikið er af þessa dagana. Nú streyma gestir af öllu landinu Vestur enda eru páskar framundan og þá er pleisið Vestfirðir einsog allir vita. Vestfirsku dægurlögin verða á fjölunum alla páskana og er miðasala á allar sýningar hafin í síma: 892 4568. Næstu sýningar eru:
Miðvikudagur 4. apríl kl.21 laus sæti
Fimmtudagur, Skírdagur, 5. apríl örfá sæti laus
Föstudagur, þessi langi, 6. apríl sýning er á miðvikudag kl.21 laus sæti.

Hey kanína - bókaðu miða á Vestfirsku dægurlögin strax í dag.


Vestfirsku dægurlögin - Nýtt söngvasjóv frumsýnt á Kan slóðum

Hver þekkir ekki slagara á borð við Hey kanína, Er't í ræktinni, Ég er frjáls, Þín innsta þrá, Drottningin vonda...já listi Vestfirskra dægurlaga er langur. Nú hefur öllum þessum vestfirsku dægurlagaperlum verið komið fyrir í geðveikt flottu söngvasjóvi sem nefnist einfaldlega Vestfirsku dægurlögin. Söngvasjóvið verður frumsýnt á söguslóðum Vestfirskra dægurlaga nánar til tekið í Bolungarvík, heimabæ hljómsveitarinnar Kan sem rokkaði feitt á sveitaböllunum í gamla daga. Frumsýnt verður á laugardag 31. mars kl.21 og er mikill stemmari fyrir kvöldinu og aldrei að vita nema einhverjir ,,orginalar" vestfirskra dægurlaga verði viðstaddir. Sönvassjóvið Vestfirsku dægurlögin verður einnig sýnt um páskana en einsog allir vita eru Vestfirðir staður til að vera á um páskana. Páskasýningarnar verða miðvikudaginn 4. apríl, á Skírdag fimmtudaginn 5. apríl og loks á Föstudaginn langa 6. apríl. Allar sýningarnar hefjast kl.21 en rétt er að geta þess að rútuferðir á sýningarstað verða frá Hamraborg á Ísafirði alla sýningardaga. Miðasala á allar sýningar er þegar hafin og því vissara að panta sér miða strax í dag. Miðasölusími:892 4568.
Það er Vestfirska skemmtifélagið sem setur söngvasjóvið Vestfirsku dægurlögin á svið. Mennirnir í brúnni þar eru Elfar Logi Hannesson, leikstjóri, og Guðmundur Hjaltason, tónlistarstjóri, en þeir hafa síðustu ár sett á svið vinsælar leik- og söngvasýningar fyrir vestan. Söngvarar í sýningunni eru stuðboltarnir Hjördís Þráinsdóttir, Steingrímur Rúnar Guðmundsson og Sveinbjörn Hjálmarsson. Einnig tekur leikkonan Marla Koberstein þátt í sýningunni með einstökum hætti. Dægurlagabandið vestfirska skipa þau Bjarni Kristinn Guðjónsson, Guðmundur Hjaltason, Haraldur Ringsted og Sunna Karen Einarsdóttir.

Kómedíuleikhúsið frumsýnir Náströnd - Skáldið á Þröm

Kómedíuleikhúsið frumsýnir nýtt íslenskt leikverk, Náströnd – Skáldið á Þröm, föstudaginn 23. mars í Félagsheimili Súgfirðinga.
Um er að ræða einleik byggðan á dagbókum Magnúsar Hj Magnússonar. Allur texti verksins er eftir Magnús sjálfan. Dagbækur Magnúsar voru Halldóri Laxness einmitt innblástur við ritun hans á skáldsögunni Heimsljós og Magnús því fyrirmyndin af Ólafi Kárasyni ljósvíking.
Í verkinu hittum við fyrir skáldið sjálft, þar sem hann situr einn í klefa sínum og afplánar dóm. Á þessum umbrotstíma í lífi sínu kemur hann til dyrana eins og hann er klæddur og leiðir áhorfendur í sannleikan um líf sitt og þrautargöngu. Hann horfist í augu við sjálfan sig og gerir upp fortíð sína á einlægan hátt. Saga Magnúsar er ekki aðeins saga eins manns, heldur saga heillar stéttar í samfélagi sem er að brjóta sér leið út úr moldarkofum og inn í nútímann.
Leikgerð er í höndum Elfars Loga Hannessonar og Ársæls Níelssonar sem einnig fer með hlutverk skáldsins en Elfar Logi leikstýrir. Höfundur tónlistar er tónlistarmaðurinn Jóhann Friðgeir Jóhannsson, einnig þekktur sem 70i, auk þess sem lagið Ljósvíkingur eftir kyndilbera vestfirskrar tónlistar, Mugison, er notað í sýningunni. Ljósahönnuður er Jóhann Daníels Daníelsson.
Uppsetningin er styrkt af Menningarráði Vestfjarða.
Kómedíuleikhúsið fagnar 15 ára afmæli sínu í ár og er leikhúsið meðal elstu starfandi sjálfstæðra leikhúsa í dag. Náströnd – Skáldið á Þröm er fyrri afmælissýning Kómedíuleikhússins en í sumar verður frumsýndur einleikur um annan merkan alþýðulistamann. Eins og áður var getið verður verkið frumsýnt 23. mars og og eru alls 5 sýningar fyrirhugaðar fram að páskum.
Frums. fös 23. mars kl 20.00
2. sýning lau 24. mars kl. 20.00
3. sýning fös 30. mars kl 20.00
4. sýning lau 31. mars kl. 20.0

Galdrasögur - Ný Þjóðleg hljóðbók

Kómedíuleikhúsið hefur gefið út nýja Þjóðlega hljóðbók sem heitir Galdrasögur. Að vanda er sótt í hinn magnaða og frábæra þjóðsagnaarf Íslands. Galdrasögur er níunda Þjóðlega hljóðbók Kómedíuleikhússins en þær þjóðlegu hafa notið mikilla vinsælda um land allt enda er hér á ferðinni sérlega vönduð útgáfa á þjóðsögum þjóðarinnar. Alls eru 22 galdrasögur á nýju Þjóðlegu hljóðbókinni hver annarri magnaðri og göldróttari. Meðal sagna á hljóðbókinni Galdrasögur má nefna Galdra-Loftur, Gottskálk biskup grimmi, Allir erum við börn hjá Boga, Viltu skyr skeggi?, Ljósið í hauskúpunni, Sagnarandi kemur upp þjófnaði og Stokkseyrar-Dísa. Lesari er Elfar Logi Hannesson, leikari. Galdrasögur sem og allar Þjóðlegu hljóðbækurnar fást á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is í verslunum um land allt.

Hinar Þjóðlegu hljóðbækurnar eru:
Þjóðsögur úr Vesturbyggð
Þjóðsögur frá Ísafjarðarbæ
Þjóðsögur af Stöndum
Þjóðsögur úr Bolungarvík
Þjóðsögur frá Súðavík
Þjóðsögur frá Hornströndum og Jökulfjörðum
Bakkabræður og kímnisögur
Draugasögur


Ísafjarðarbær hefur trú á Kómedíunni

Á föstudaginn var endurnýjaður samstarfssamningur Ísafjarðarbæjar við Kómedíuleikhúsið. Samningurinn felur í sér að Kómedíuleikhúsið vinnur ýmis verkefni fyrir Ísafjarðarbæ árlega. Verkefnin eru: Leikhúsið verður með leikatriði á 17 júní, stendur fyrir 4 húslestrum á Bæjar- og héraðsbókasafni, sýnir leikrit og eða menningardagskrá í skólum bæjarins og standi fyrir leiklistarnámskeiði fyrir börn í bænum í tengslum við hátíðina Veturnætur. Samningurinn er til tveggja ára. Kómedíuleikhúsið vill þakka Ísafjarðarbæ fyrir traustið sem bærinn ber til leikhússins og er þessi samningur stór þáttur í því að styrkja starfsemi Kómedíuleikhússins. Gaman er að geta þess að Kómedíuleikhúsið fagnar 15 ára afmæli nú í ár og er leikhúsið meðal elstu starfandi einka leikhúsa á landinu. Óhætt er að segja að starfsemi einkaleikhúsi hafi verið mjög erfið síðustu ár sem sýnir hve fá þau eru eftir í dag sem starfa á ársgrundvelli. Ástæðan er fyrst og fremst skortur á opinberu fjármagni og verður að segjast einsog er að Menntamálaráðuneytið hefur staðið sig afleitlega hvað varðar atvinnuleiklist á landsbyggðinni. Þar á bæ vilja menn bara ekkert með það hafa að svoleiðis sé í gangi. Furðulegt. En sem betur fer hefur Ísafjarðarbær trú á atvinnuleiklist á landsbyggðinni og hefur nú sýnt það í verki með því að gera góðan samstarfssamning við Kómedíuleikhúsið. Hafið þökk fyrir.

Notaðir blýantar óskast fyrir leiksýningu

Mikill stemmari er nú í herbúðum Kómedíuleikhússins því þessa dagana standa yfir æfingar á nýju íslensku leikverki. Að vanda er sótt í hinn merka vestfirska sagnaarf og nú er það Skáldið á Þröm sem er í sviðsljósinu. Leikurinn nefnist Náströnd Skáldið á Þröm og er byggt á dagbókum skáldsins sem eru miklar að vöxtum. Skáldið á Þröm eða Magnús Hj. Magnússon er fyrirmyndin af Ólafi Kárasyni í Heimsljósi Laxa. Náströnd Skáldið á Þröm verður frumsýnt á söguslóðum á Suðureyri þar sem skáldið eyddi síðustu æviárum sínum, föstudaginn 23. mars. Önnur sýninga verður daginn eftir.
Leikmynd leiksins er að meðal annars gerð úr blýantsstubbum og er nú leitað eftir aðstoð landsmanna. Það vantar nokkur hundruð notaðara blýanta í verkið og ef þú lesandi góður lumar á nokkrum stubbum þá endilega settu þig í samband við okkur.

100 bestu bækur Íslands

Ég er mikill bókamaður einsog margur Íslendingurinn. Þessi áhugi hefur bara aukist eftir því sem árin færast yfir mann. Enda er galdur góðrar bókar einstakur og ósjaldan er galdurinn það áhrifaríkur að hann heldur fyrir manni vöku. Til gamans hef ég tekið saman lista yfir 100 bestu bækur Íslands að mínu mati. Þetta er að sjálfsögðu ekki endanlegur listi því árlega bætast við nýjar uppáhaldsbækur en svona er topp 100 bókalistinn minn í dag. Og það er öll íslenska bókmenntaflóran undir; skáldsögur, smásögur, ljóð, leikrit, ævisögur, ljósmyndabækur, fræðibækur, listaverkabækur og allt þar á milli. Auðvitað eru svona listar umdeildir enda misjafn smekkur mannanna. Hér er t.d. enginn Halldór Kiljan enda fíla ég hann ekki rétt komst í gegnum Heimsljós. Hér eru hinsvegar Gunnar Gunnarsson, Yrsa Sigurðardóttir, Dagur Sigurðarson og fleiri meistarapennar. Bækurnar eru listaðar í stafrófsröð en ekki eftir mestu uppáhaldi. Gjörið svo vel 100 bestu bækur Íslands, að mínu mati:

1.Aðventa. Gunnar Gunnarsson
2. Aska. Yrsa Sigurðardóttir
3. Bíldudalskóngurinn. Ásgeir Jakobsson
4. Bláin ljóðaúrval. Steingerður Guðmundsdóttir
5. Blóðakur. Ólafur Gunnarsson
6. Býr Íslendingur hér. Garðar Sverrisson
7. Dagur. Ristjórar: Geir Svansson, Hjálmar Sveinsson
8. Dagur vonar. Birgir Sigurðsson
9. Dauðans óvissi tími. Þráinn Bertelsson
10. Draumar á jörðu. Einar Már Guðmundsson
11. Englar alheimsins. Einar Már Guðmundsson
12. Einar Benediktsson, ævisaga I. Guðjón Friðriksson
13. Einar Benediktsson, ævisaga II. Guðjón Friðriksson
14. Einfarar í íslenskri myndlist. Aðalsteinn Ingólfsson
15. Enn af Jóni Oddi og Jóni Bjarna. Guðrún Helgadóttir
16. Eyðibýli. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Nökkvi Elíasson
17. Firðir og fólk. Kjartan Ólafsson
18. Fjalla-Eyvindur. Jóhann Sigurjónsson
19. Fótspor á himnum. Einar Már Guðmundsson
20. Furðuveröld Alfreðs Flóka. Aðalsteinn Ingólfsson
21. Galdra-Loftur. Jóhann Sigurjónsson
22. Gísla saga Súrssonar.
23. Glímuskjálfti. Dagur Sigurðarson
24. Góðir Íslendingar. Huldar Breiðfjörð
25. Grafarþögn. Arnaldur Indriðason
26. Grettis saga.
27. Gulleyjan. Einar Kárason
28. Hafið. Ólafur Haukur Símonarson
29. Harmur englanna. Jón Kalman Stefánsson
30. Hart í bak. Jökull Jakobsson
31. Heykvísl og gúmmískór. Gyrðir Elíasson
32. Himnaríki og helvíti. Jón Kalman Stefánsson
33. Hlaðhamar. Björn Th. Björsson
34. Hvíta kanínan. Árni Þórarinsson
35. Í vagni tímans. Agnar Þórðarson
36. Íslenskt grjót. Hjálmar R Bárðarson
37. Íslenskt vættatal. Árni Björnsson
38. Í Skálholti. Guðmundur Kamban
39. Jólin koma. Jóhannes úr Kötlum
40. Jón Oddur og Jón Bjarni. Guðrún Helgadóttir
41. Karlar einsog ég, æviminningar Brynjólfs Jóhannessonar leikara. Ólafur Jónsson
42. Kraftbirtingarhljómur guðdómsins. Sigurður Gylfi Magnússón tók saman
43. Kvöld í ljósturninum. Gyrðir Elíasson
44. Lakkrísgerðin. Óskar Árni Óskarsson
45. Land tækifæranna. Ævar Örn Jósepsson
46. Laxdæla.
47. Leiðin til Rómar. Pétur Gunnarsson
48. Lífróður Árna Tryggvasonar leikara. Ingólfur Margeirsson
49. Ljóð. Steinn Steinarr
50. Ljóðmæli Stefáns frá Hvítadal. Stefán frá Hvítadal
51. Mávahlátur. Kristín Marja Baldursdóttir
52. Meira af Jóni Oddi og Jóni Bjarna. Guðrún Helgadóttir
53. Meðvituð breikkun á rasgati. Dagur Sigurðarson
54. Milli trjánna. Gyrðir Elíasson
55. Mjallhvítarkistan. Jón úr Vör
56. Muggur. Björn Th. Björnsson
57. Myndin af heiminum. Pétur Gunnarsson
58. Mýrin. Arnaldur Indriðason
59. Nafnlausir vegir. Einar Már Guðmundsson
60. Nóttin hefur þúsund augu. Árni Þórarinsson
61. Næturluktin. Gyrðir Elíasson
62. Óvitar. Guðrún Helgadóttir
63. Perlur og Steinar, árin með Jökli. Jóhanna Kristjónsdóttir
64. Rauður loginn brann. Steinn Steinarr
65. Sagnakver Skúla Gíslasonar. Skúli Gíslason
66. Saman í hring. Guðrún Helgadóttir
67. Sér grefur gröf. Yrsa Sigurðardóttir
68. Sjóleiðin til Bagdad. Jökull Jakobsson
69. Skáldanótt. Hallgrímur Helgason
70. Sitji guðs englar. Guðrún Helgadóttir
71. Sólon Íslandus I. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi
72. Sólon Íslandus II. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi
73. Stalín er ekki hér. Vésteinn Lúðvíksson
74. Steinn Steinarr kvæðasafn og greinar. Steinn Steinarr
75. Steinn Steinarr, Leit að ævi skálds I. Gylfi Gröndal
76. Steinn Steinarr, Leit að ævi skálds II. Gylfi Gröndal
77. Sumarljós og svo kemur nóttin. Jón Kalman Stefánsson
78. Svarfugl. Gunnar Gunnarsson
79. Synir duftsins. Arnaldur Indriðason
80. Tími nornarinnar. Árni Þórarinsson
81. Til gangs og til fegurðar. Æsa Sigurðardóttir
82. Tindátarnir. Steinn Steinarr
83. Tregahornið. Gyrðir Elíasson
84. Truflanir í vetrarbrautinni. Óskar Árni Óskarsson
85. Tröllkirkja. Ólafur Gunnarsson
86. Valkyrjur. Þráinn Bertelsson
87. Vatnsfólkið. Gyrðir Elíasson
88. Vestfirðir. Hjálmar R. Bárðarson
89. Vestfirskar sagnir. Helgi Guðmundsson
90. Vestfirskar þjóðsögur. Arngrímur Fr. Bjarnason
91. Vetrarferðin. Ólafur Gunnarsson
92. Við Urðarbrunn. Vilborg Davíðsdóttir
93. Yfir heiðan morgun. Stefán H. Grímsson
94. Þar sem djöflaeyjan rís. Einar Kárason
95. Þjóðsögur Jóns Árnasonar. Jón Árnason
96. Þjóðsögur Þorsteins Erlingssonar. Þorsteinn Erlingsson
97. Þorpið. Jón úr Vör
98. Þrettánda krossferðin. Oddur Björnsson
99. Þulur. Theadóra Thoroddsen
100. Ævintýrabókin um Alfreð Flóka. Nína Björk Árnadóttir


Andaglasið nýr alvestfirskur rokksöngleikur

Andaglasið nýr alvestfirskur rokksöngleikur verður frumsýndur á Öskudag kl.20 í Félagsheimilinu Bolungarvík. Nýjasta leikhús Vestfjarða Vestfirska skemmtifélagið setur Andaglasið á svið og er þetta jafnframt fyrsta verkefni leikhússins. Menningarráð Vestfjarða styrkir sýninguna með veglegu framlagi. Hér er á ferðinni þjóðlegur rokksöngleikur fyrir alla fjölskylduna eftir Elfar Loga Hannesson og Guðmund Hjaltason. Rokksöngleikurinn Andaglasið er byggður á vestfirskum þjóðsögum þar sem við sögu koma margar sögulegar persónur má þar nefna Jón Indíafara, Hjámar Gogg, draugana Mókoll, Pjakk, Leggg, Skuplu og Guddu afturgöngu að ógleymdum skessunum þremur sem ætluðu að moka Vestfirðina frá meiginlandinu. Þrír krakkar hafa nappað andaglasi frá foreldrum sínum sem voru í heimavistarskóla á Núpi í Dýrafirði og því er hér á ferðinni andaglas með reynslu. Enda fer það svo að hver andinn á fætur öðrum birtist í alvörunni líkt og í nútíma tölvuleik. Allir andarnir eiga það sameiginlegt að vera persónur í vestfirskum þjóðsögum. Leikurinn verður þó fullraunverulegur þegar draugurinn Mókollur birtist og lokkar krakkana til sín í Móholuna sína. Þá fyrst byrjar ævintýrið og krakkarnir uppgötva að þau eru stödd í öðru landi, Þjóðsagnalandi, og þá tekur ævintýrið á sig ævintýralega mynd.
Tólf leikarar taka þátt í sýngunni sem eru í hópi framtíðaleikara Vestfjarða því hér eru á ferðinni nemendur í skólum á norðanverðum Vestfjörðum. Rokksöngleikurinn Andaglasið verður einsog áður gat frumsýndur á Öskudag miðvikudaginn 22. febrúar kl.20 í Félagsheimilinu Bolungarvík. Einnig verður sýnt laugardaginn 25. febrúar og sunnudaginn 26. febrúar kl.16 báða dagana. Aðeins verður um þessar þrjár sýningar að ræða. Miðasala á allar sýningar er hafin í síma 892 4568.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband