Færsluflokkur: Menning og listir

Rafmagnsmorðið kl.14 laugardag á Ísó

Vestfirskur húslestur verður í Bókasafninu á Ísafirði núna á laugardag kl.14. Að þessu sinni verður fjallað um skáldið Val Vestan eða Steingrím M Sigfússon einsog hann hét réttu nafni. Hann ritaði vinsælar spennu og skemmtisögur m.a. Rafmagnsmorðið, Týndi hellirinn auk barnsögunnar Blíð varstu bernskutíð. Sönglög samdi hann líka fjölmörg og þar þekktast meðal jafningja Síldarvalsinn. Jóna Símonía Bjarnadóttir segir frá skáldinu og listamanninnum og Elfar Logi Hannesson les úr verkum hans. Aðgangur er ókeypis og boðið verður uppá kaffi. Vestfirskur húslestur er samstarfsverkefni Kómedíuleikhússins og Bókasafnsins á Ísafirði sem hefur staðið í nokkur ár. Fjölmörg skáld hafa verið til umfjöllunar má þar nefna Matthías Jochumsson, Stein Steinarr, Stefán frá Hvítadal, Ólöf Jónsdóttir, Gísli á Uppsölum, Dagur Sigurðarsson, Hannes Hafstein ofl.

Nýtt íslenskt leikrit frumsýnt á Þingeyri í kvöld

Leikdeild Höfrungs á Þingeyri frumsýnir nýtt íslenskt leikrit Höfrungur á leiksviði í kvöld. Sýnt verður í Félagsheimilinu á Þingeyri og hefst sýningin kl.20. Miðaverð er aðeins tvö þúsund krónur, posi á staðnum og miðasölusíminn ávallt á vaktinni í síma: 848 4055. Leikritið Höfrungur á leiksviði fjallar um íþróttamenningu í Dýrafirði en rætur íþróttarinnar eru langar og í raun endalausar. Skipulagðar íþróttaæfingar fóru fyrst fram árið 1885 og árið 1904 var síðan Íþróttafélagið Höfrungur stofnað. Félagið hefur starfað ötulega allar götur síðan og er með elstu starfandi íþróttafélaga í dag. Gaman að segja frá því að félagið er ekki bara í sportinu því þau standa einnig fyrir fjölbreyttu menningarlífi og hafa sannarlega ,,puntað vel uppá menningarlífið" í gegnum áratugina. Félagið stendur m.a. fyrir árlegri söngvarakeppni á fæðingardegi Nonna Sig, eru bæði jólaball og Þrettándagleði og síðast en ekki síst hafa þau verið að setja upp leiksýningar með miklum bravúr. Aðeins verða fjórar sýningar á leikritinu Höfrungur á leiksviði og því um að gera að líta á dagatalið og velja sér sýningu. Frumsýningin er í kvöld einsog áður var getið og hefst kl.20. Önnur sýning verður á sunnudag kl.20, þriðja sýning fimmtudaginn 10. nóvember og lokasýningin verður á Degi íslenskrar tungu miðvikudaginn 16. nóvember kl.20. Höfrungur á leiksviði er sportlegt og skemmtilegt leikrit fyrir alla fjölskylduna.

Gísla sögu Súrssonar námskeið

Í byrjun janúar á næsta ári verður haldið fróðlegt, spennandi og öðruvísi námskeið um Gísla sögu Súrssonar á Ísafirði. Gísla saga er án efa ein vinsælasta og besta Íslendingasagan en hún gerist að stærstum hluta á Vestfjörðum. Sagan segir af fornkappanum Gísla Súrssyni sem kemur til Íslands ásamt fjölskyldu sinni eftir deilur í Noregi. Tekur hann land í Haukadal í Dýrafirði og byggir þar reislulegan bæ. Allt gengur vel í fyrstu en brátt skipast veður í lofti, menn fara að höggva mann og annan og að lokum er Gísli útlægur ger. Gísla sögu námskeiðið er fjölbreytt og mun fara fram á nokkrum kvöldum í janúarmánuði í Listakaupstað á Ísafirði en ljúka á söguslóðum í Haukadal í Dýrafirði. Sagan verður lesin og krufin á nokkrum kvöldum. Á lokadegi námskeiðsins verður loks farið á söguslóðir í Haukdal og gengið í fótspor Gísla Súrssonar. Námskeiðinu lýkur síðan með sýningu á verðlaunasýningunni Gísli Súrsson sem verður sýnd á Gíslastöðum í Haukadal. Námskeiðið fer fram þriðjudagana 10., 17.. og 24. janúar en ferðin í Haukadal verður laugardaginn 28. janúar. Kennarar námskeiðsins eru miklir Gísla sögu spekingar og hafa bókstaflega verið með fornkappanum á heilanum í áraraðir ef ekki áratugi. Þetta eru þeir Þórir Örn Guðmundsson sem þekkir söguna út og inn og fer reglulega í Gíslasöguferðir bæði í Haukadal og í Geirþjófsfjörð í Arnarfirði. Leikarinn Elfar Logi Hannesson hefur síðustu árin verið upptekinn við að sýna einleik sinn um Gísla Súrsson sem hefur verið sýndur um land allt og víða erlendis við fádæma góðar undirtektir auk þess hefur sýningin hlotið verðlaun á nokkrum leiklistarhátíðum. Skráning á Gísla sögu Súrssonar námskeiðið er þegar hafin í síma 891 7025 einnig er hægt að skrá sig með því að senda tölvupóst á netfangið komedia@komedia.is . Þátttökugjald er aðeins krónur 9.900.- krónur.

X og Z eru hjón á Ísó

Í morgun skellti ég mér á árshátíð Grunnskóla Ísafjarðar. Þetta er nýr tími á árshátíð skólans yfirleitt er hún haldin að vori. Ég er ekki frá því að þetta sé bara betri tími. Að vanda er ákveðið þema á árshátíð skólans að þessu sinni var það Gagn og gaman einsog lestrabókin munið þið, X og Z eru hjón. Krakkarnir fóru allir á kostum að vanda og gaman að sjá hvernig þau fléttuðu saman nýja og gamla tímanum. Það var t.d. verið að tala um súrmat til forna í upphafi leikþáttar en endað með útlenskum slagara þar sem sungið er um MacDonalds, Pizza Hut ofl. Það var líka gaman að sjá útfærslu þeirra á gömlu góðu sögunni um Bakkabræður og sýnir enn að þessir kostulegu bræður eiga vel við okkur nútímafólkið í dag. Heimskupör bræðranna á Bakka fengu okkur til að veltast um af hlátri. Það er frábært að sjá æskuna stíga á stokk og sannar fyrir okkur enn og aftur að framtíðin á Ísafirði er mjög björt. Einlægni allra leikara var einstök og allir voru mjög sannir í sínum leik. Krakkar í Grunnskóla Ísó þið eruð frábær takk fyrir mig.

Höfrungur á leiksviði

Íþróttafélagið Höfrungur á Þingeyri er með elstu starfandi íþróttafélaga á landinu stofnað árið 1904. Hafði þó tekið til starfa ári áður en menn voru svo upptekknir í spportinu að það gleymdist að rita fundargerðina og því tók Höfrungur formlega til starfa ári síðar. Skipulagðar íþróttaæfingar á Þingeyri hófust þó miklu fyrr eða árið 1885 þegar danski beykirinn Andrés Böken stóð fyrir sportæfingum. Nú hefur verið ritað leikrit um sögu íþrótta á Þingeyri og nefnist króinn einfaldlega Höfrungur á leiksviði. Æfingar hafa staðið yfir síðustu vikur og nú líður að frumsýningu sem verður föstudaginn 4. nóvember. Sýnt verður í Félagsheimilinu á Þingeyri en þar er eitt flottasta leiksvið Vestfjarða. Á sýningunni verður einnig vígt nýtt ljósaborð sem Höfrungur hefur keypt og er það mikill fengur fyrir leikhúslífið á Þingeyri. Höfundur og leikstjóri verksins er Elfar Logi Hannesson en hann hefur áður sett upp tvö leikrit með Höfrungi sem slógu báðar í gegn og voru sýndar við miklar vinsældir. Fjölmennur hópur kemur að sýningunni Höfrungur á leiksviði. Leikarar eru 14 talsins og gaman að segja frá því að þar á meðal eru þrír ættliðir innanborðs, já listin gengur sannarlega í ættir. Stór hópur starfar á bakvið tjöldin við búninga-leikmuna- og leikmyndagerð auk annarra starfa sem fylgja uppfærslu á leikriti. Rétt er að taka fram að aðeins verður um fjórar sýningar á leikritinu Höfrungur á leiksviði að ræða. Einsog áður var getið verður frumsýnt föstudaginn 4. nóvember, önnur sýning verður sunnudaginn 6. nóvember, þriðja sýning fimmtudaginn 10. nóvember og lokasýning verður á Degi íslenskrar tungu miðvikudaginn 16. nóvember. Allar sýningar hefjast klukkan 20. Miðasala á Höfrung á leiksviði hefst í næstu viku.

Opnunarhátíð Listakaupstaðar

Það er stór dagur í menningunni á Ísafirði á morgun en þá verður Listakaupstaður formlega opnaður. Þetta apparat Listakaupstaður er hús einyrkja í listinni á Ísó og hús tækifæranna. Opnunarhátíð Listakaupstaðar verður á laugardag kl.13. -16. Þar verður starfsemin kynnt, vinnustofur verða opnar og sýnd verða brot úr tónlistarþættinum Heyrðu mig nú eftir Fjölni Baldursson en þættirnir voru einmitt gerðir í Listakaupstað. Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða, er með starfsstöð í Listakaupstað og mun á opnunarhátíðinni sýna brot úr leikritinu Jón Sigurðsson strákur að vestan. Óvæntar tónlistaruppákomur verða og margt fleira óvænt og spennandi. Enn eru nokkrar vinnustofur lausar í Listakaupstað og því um að gera að fjölmenna á laugardag og kynna sér starfsemina. Kaffi á könnunni, brauð með púðusykri og fleira gott.

Túnið - Listamannaíbúð á Ísafirði

Nú er loksins komin upp sérstök lista- og fræðimannaíbúð í menningarbænum Ísafirði. Íbúðin er staðsett í Túngötu 17 í gömlu norsku húsi. Íbúðin er fullbúinn öllum húsgögnum og öðru sem nútímamaðurinn þarfnast. Lista- og fræðimenn allsstaðar af landinu geta sótt um dvöl í íbúðinni og geta nú þegar sótt um á umsóknareyðiblaðinu sem fylgir með þessari frétt. Íbúðin er leigð út í minnst eina viku og mest í einn mánuð í senn. Túnið er leigt út á tímabilinu október 2011 til og með apríl 2012. Leiguverði er stillt mjög í hóf aðeins 15.000.- krónur vikan. Allar nánari upplýsingar veitir Elfar Logi Hannesson, leikari, í síma 891 7025.

TÚNIÐ
LISTA- OG FRÆÐIMANNAÍBÚÐ Á ÍSAFIRÐI
TÚNGÖTU 17 400 ÍSAFJÖRÐUR

UMSÓKN
TÍMABIL Í BOÐI OKTÓBER 2011 – APRÍL 2012

Nafn:_____________________________________________________

Heimilisfang: _____________________________________________

Sími: ____________________________________________________

Netfang: __________________________________________________

Ósk um dvöl tímabil, íbúðin leigist frá einni viku til eins mánaðar:

________________________________________________________________

Verð: Vikan kostar 15.000.- krónur og greiðist áður en leigutími hefst. Greiða skal inná reikning:

Reikningur: 0156 – 26 – 866
Kennitala: 151171 – 3899

Um íbúðina:
Er 73 fermetra íbúð í Túngötu 17 á Ísafirði. Íbúðin er fullbúinn húsgögnum s.s. eldavél, þvottavél, ísskáp, sjónvarpi og annað sem nútímamaðurinn þarfnast. Nettenging er á staðnum. Í íbúðinni er eitt stórt svefnherbergi með hjónarúmi og eitt lítið með rúmi, tvær stofur, eldhús og baðherbergi.

Vinnustofa:
Umsækjendur hafa einnig möguleika á að fá sérstaka vinnuaðstöðu í Listakaupstað á Ísafirði gegn vægu gjaldi.

Umsókn skal senda rafrænt á netfangið:

komedia@komedia.is
Elfar Logi og Billa. Sími: 8917025


Draugasögur ný Þjóðleg hljóðbók

Ný Þjóðleg hljóðbók, Draugasögur, kom út í dag, föstudag 14. október, kl.14.14. Það er einfalt að panta sendið okkur bara tölvupóst á netfangið komedia@komedia.is og við sendum þér megnaðar Draugasögur á Þjóðlegri hljóðbók um hæl.

Draugasögur er áttunda Þjóðlega hljóðbókin sem Kómedíuleikhúsið gefur út. Hér er á ferðinni mögnuð útgáfa af rosalegum draugasögum úr íslensku þjóðsögunum fátt betra en að hlýða á svoddan nokkuð á þessum tíma ársins. Meðal sagna á Þjóðlegu hljóðbókinni Draugasögur má nefna: Móðir mín í kví kví, Skemmtilegt er myrkrið, Ábæjar-Skotta, Draugur tekur ofan, Fáðu mér höfuðskelina mína Gunna, Djákninn á Myrká ofl ofl. Þjóðlegu hljóðbækurnar hafa notið gífurlegra vinsælda enda er hér á ferðinni vönduð útgáfa á frábærum íslenskum sagnaarfi. Pantaðu þér Draugasögur strax í dag og stækkaðu Þjóðlega safnið þitt.


Haustleikferð Kómedíu lýkur í Súðavík

16 sýninga, staða og daga Haustleikferð Kómedíuleikhússins lýkur núna í kvöld. Sýnt verður í Melrakkasetrinu í Súðavík og hefst leikurinn kl.20. Miðaverðið er það kómsíka og góða 1.900.- kall og það er posi á staðnum. Sýndar verða tvær leiksýningar Jón Sigurðsson strákur að vestan og Bjarni á Fönix, stutt hlé er gert á milli sýninga. Haustleikferð Kómedíuleikhússins hóft 9. september í Búðardal og alveg síðan þá hefur verið sýnd ein sýning á stað á jafnmörgum stöðum. Óvænt framhald verður á þessu ævintýri því Kómedíuleikhúsinu hefur verið boðið að sýna þessar sögulegu leiksýningar í Kaupmannahöfn um næstu helgi. Sýnt verður í Jónshúsi 1. október kl.20.

Leiksýningar í Bolungarvík í kvöld

Haustleikferð Kómedíuleikhússins fer senn að ljúka aðeins eru tvær sýningar eftir af þeim 16 sem eru á dagskrá leikferðarinnar. Sýnt verður í Félagsheimilinu Bolungarvík í kvöld og hefst sýningin kl.20. Miðaverð er aðeins 1.900.-kr og það er posi á staðnum. Sýnd verða leikritin Jón Sigurðsson strákur að vestan og Bjarni á Fönix bæði alvestfirsk stykki. Síðasta sýning Haustleikferðarinnar verður síðan á morgun í Melrakkasetrinu í Súðavík og hefst sú sýning kl.20.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband