LJÓÐ DAGSINS - MIÐVIKUDAGUR

Kómíska ljóðæðið heldur áfram og nú hefst fyrsti kapituli af þættinum Ljóð dagsins. Næstu vikurnar eða meðan Kómsíka ljóðaæðið stendur yfir verður birt eitt ljóð á dag. Það er við hæfi að byrja á uppáhaldi Kómedíuleikhússins sem er vestfirska skáldið Steinn Steinarr og að sjálfsögðu er það ljóðið Miðvikudagur.

 

MIÐVIKUDAGUR

Miðvikudagur. – Og lífið gengur sinn gang,

eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það.

Manni finnst þetta dálítið skrítið, en samt er það satt,

því svona hefir það verið og þannig er það. 

Þér gangið hér um með sama svip og í gær,

þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stýfið.

Í morgun var haldið uppboð á eignum manns,

sem átti ekki nóg fyrir skuldum. – Þannig er lífið. 

Og mennirnir græða og mennirnir tapa á víxl,

og mönnum er lánað, þó enginn skuld sína borgi.

Um malbikuð strætin berst múgsins háværa ös,

og Morgunblaðið fæst keypt niðr’ á Lækjatorgi. 

Miðvikudagur. – Og lífið gengur sinn gang,

og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn.

Dagbjartur múrari eignaðist dreng í gær,

í dag verður herra Petersen kaupmaður grafinn.

steinn 

 


KÓMÍSKT LJÓÐAÆÐI

Það er sannarlega mikið ljóðafjör í herbúðum Kómedíuleikhússins þessa dagana. Um síðustu helgi sýndi leikhúsið ljóðaleikinn Aumingja litla ljóðið á ljóðahátíðinni Glóð á Siglufirði. Á laugardaginn stendur Kómedíuleikhúsið í samstarfi við Bókasafnið á Ísafirði fyrir Vestfirskum húslestri í Safnhúsinu á Ísó. Einsog nafnið gefur til kynna er boðið uppá skáldskap að vestan á þessum húslestrum sem hófu göngu sína síðasta vetur og fóru fram mánaðarlega fram á vor. Eitt skáld er tekið fyrir hverju sinni sem er þá um leið Vestfirska skáld mánaðarins í Bókasafninu á Ísafirði. Á fyrsta Vestfirska húslestri þessa veturs verður ljóðaþorpsskáldið frá Patró Jón úr Vör tekin fyrir. Jóna Símonía Bjarnadóttir fjallar um skáldið og Kómedíuleikarinn flytur valin ljóð eftir höfundinn. Lesturinn verður í Safnahúsinu á Ísafirði á laugardag 27. október kl.14. og er aðgangur ókeypis. Jón úr Vör gaf út all nokkrar ljóðabækur en hans þekktasta verk er án efa Þorpið sem kom út árið 1946. Þar fjallar hann í ljóði um gamla þorpið sitt, Patreksfjörð, og dregur um leið fram fjölbreytta og sanna mynd af litlu Vestfirsku sjávarþorpi. Einnig verður lesið úr ljóðabókunum Mjallhvítarkistan, Regnbogastígur og Altarisbergið. Allt er þegar þrennt er segir einhvursstaðar því þriðja ljóðaverkefni Kómedíu er ljóðaleikurinn Ég bið að heilsa. Dettur mörgum nú sjálfsagt í hug hvað er hér á ferðinni. Jú, listaskáldið góða og tilefnið er 200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar. Flutt verða yfir 20 ljóð í tali og tónum allt frá Móðurást til Ég ætlaði mér að yrkja og allt þar á milli. Elfar Logi Hannesson flytur ljóðin og með honum verður Þröstur Jóhannesson sem flytur frumsamin lög við ljóð skáldsins góða. En þess má geta að Þröstur vakti mikla athygli fyrir sinn fyrsta geisladisk, Sálmar, sem kom út fyrir nokkru. Þeir kappar æfa nú að fullum krafti og verður leikurinn frumsýndur á veitingastaðnum Við Pollinn á Ísafirði miðvikudaginn 7. nóvember kl.20.00. Já kæru vinir ljóðið er sko ekki dautt hér vestra.

jon ur vor Jón úr Vör ljóðaþorpsskáldið frá Patró verður í aðalhluverki í Vestfirskum húslestri á Ísó á laugardaginn.


Bloggfærslur 24. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband