EINLEIKIN JÓLASTEMNING Á JÓLAFRUMSÝNINGU
17.11.2007 | 17:44
Áhorfendur streyma inní Tjöruhúsið ævintýrahús jólasveinanna kaupa sér kannski smá jólanammi finna sér gott sæti. Svo slær klukkan 14.00. Ljós niður og sýningin hefst. Leikurinn er sannkallað ævintýri þar sem gömlu íslensku jólasveinarnir leika af alls oddi grínast og syngja hver með sínu nefi. Unglingspilturinn skilur ekkert í þessu er í fyrstu ekki að fíla það að vera staddur hér uppi á fjöllum þar sem er ekki einu sinni gemsasamband. Verst af öllu er þó að hann finnur ekki það sem hann leitar að. Amma hans hafði sent hann uppá fjöll til að leita af kúnni Búkollu sem hefur strokið af bænum einn ganginn enn. En allt fer vel á endanum og strákurinn fer bara að fíla jólasveinana og þegar hann loks finnur Búkollu er lífið geggjað. Reyndar hafði kúinn minnkað meira en góðu hófi gegnir þar sem jólasveinarnir höfðu mjólkað kúnna aðeins of mikið enda var mikið mjólkurleysi í hellinum korter fyrir jól. En þegar þeir voru komnir með 200 lítra af mjólk sem sumir sögðu reyndar að væri 600 lítrar þá var komið nóg í jólagrautinn hennar Grýlu. Ævintýri gerast enn og pilturinn kveður sveinanna áður en hann fer með Búkollu, í rassvasanum, heim til ömmu. Ljós niður. Áhorfendur klappa og klappa og klappa. Leikari þakkar fyrir sig og aðrir listamenn sýningarinnar eru kallaðir á svið og þakkað frábært framlag til sýningarinnar. Ljós kveikt í sal og inn kemur vagn með dýrindis jólaveitingum. Heitu súkkulaði með rjóma og heimabökuðum smákökum. Menn taka tal saman og stemningin er frábær. Einhvern veginn svona fór frumsýningin á jólaleiknum Jólasveinar Grýlusynir fram. Og nú fyrst byrjar ævintýrið 2. sýning á morgun UPPSELT á hana. Næstu sýningar eru um næstu helgi laugardaginn 24. nóv. og sunnudaginn 25. nóv. og hefjast kl.14.00 en leikhúsið er opnað hálftíma fyrir sýningu. Miðasala á sýningar næstu helgar eru í fullum gangi á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is
ELLEFTI, TÓLFTI OG ÞRETTÁNDI KÓMÍSKI SVEINNINN OG ÞÁ ERU ALLIR MÆTTIR ENDA FRUMSÝNING Í DAG
17.11.2007 | 10:58
Þá koma síðustu þrír jólasveinarnir í Kómedíuleikhúsið og þá eru samankomnir í leikhúsinu 13 jólasveinar. Sem segir okkur bara eitt það verður mikið fjör og ævintýri einsog alltaf þegar þessir fjörugu sveinar koma saman. Og nú er komið að stóra kómíska jóladeginum. Jahá svona snemma, það er nefnilega frumsýning í dag á splunkunýju íslensku jólaleikriti sem heitir Jólasveinar Grýlusynir. Sannkallað ævintýri um gömlu íslensku jólasveinana og unglingspilt sem fer upp til fjalla að leita að kúnni Búkollu. Höfundar leiksins eru Elfar Logi Hannesson og Soffía Vagnsdóttir, Kómedíuleikarinn er einn á sviðinu og Soffía leikstýrir. Aðrir listamenn sem koma að sýningunni eru Hrólfur Vagnsson sem semur tónlist, Marsibil G. Kristjánsdóttir hannar kómísku jólasveinana og einnig leikmynd og ljósahönnuður er Jóhann Daníel. Jólasveinar Grýlusynir verða sýndir í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði sem er nú orðið sannkallað ævintýrahús jólasveinanna. Leikurinn verður sýndur um helgar í nóvember og desember. Miðasala á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is Þá eru síðustu þrír sveinarnir mættir og telja niður fyrir okkur. Hurðaskellir, Kertasníkir og Stekkjastaur koma hér.
HURÐASKELLIR
Hurðaskellir heiti ég og elska að hafa hátt.
Ef einhversstaðar sé ég hurð sem stendur upp á gátt,
þá rýk ég til og skelli
með ógnarlegum hvelli,
svo hrekkur þú í kút,
en ég er rokinn út!
Hristist hún á hjörunum.
Skelfur þú í spjörunum!
Ha, ha hæ.
Ég skellihlæ
og nægju mína fæ.
KERTASNÍKIR
Ég játa það að sérvitringur er ég
því áráttan í kerti hún er ferleg.
Ég kann mér ekki læti
og léttur er á fæti
sé ég kerti.
Ef heppinn er og eignast þennan munað.
Þá get ég Kertasníkir vel við unað
með kertahrúguna alla
svo út á hlið ég halla
-sé ég kerti - fallegt kerti - jólakerti!
STEKKJASTAUR
Svakalega er ég orðinn langur!
Hann reynir líka á mig þessi gangur,
að bera búkinn efst á þessum fótum
- svona ljótum!
Tærnar á mér teygjast fram í spíss,
sem getur verið gott við klifur íss,
og skeggið hlýjar minni hvössu höku.
Þó vandast málið ef ég borða köku,
ef hrekkur mylsna oní lúsug hárin
þá segi ég í hálfum hljóðum - fjárinn!
Svo sting ég upp á því við gamla brýnið (hana Grýlu)
að þvo og snyrta á mér greppitrínið (ég í fílu!).
ÁTTUNDI, NÍUNDI OG TÍUNDI SVEINNINN KOMINN Í KÓMEDÍULEIKHÚSIÐ
17.11.2007 | 00:48
Já það er bara svaka rennerí í Kómedíuleikhúsið þessa dagana og langt fram yfir miðnætti meira að segja. Leikhúsið er bara að fyllast af jólasveinum. Dagurinn í dag hefur verið mjög kómískur og fjörugur því það þarf nú að huga að mörgu þegar sett er svið eitt stykki jólaleikrit með alíslenskum jólasveinum. Það þarf að búa til jólasveinahellinn og hann er nú heilt ævintýri út af fyrir sig einsog íbúar hellisins, ljós þurfa að skína og þar fylgist Kertasníkir vel með því þetta er nú hans sérgrein en í kvöld var hann loks ánægður enda ekki seinna vænna frumsýning eftir tæpa 14 klukkutíma. Eftir lokaæfingu í kvöld voru settar upphækkanir í húsinu svo allir sjái ævintýrið vel og tekur salurinn alls 60 manns í sæti. Já nú er Tjöruhúsið á Ísafirði sannarlega orðið Ævintýrahús Jólasveinanna. Sökum anna Kómedíuleikarans hafa vísu skrif verið lítil í dag og enn eigum við eftir marga jólasveina. Við höfum þetta því þrefalt að þessu sinni og kynnum nú til sögunnar hið frábæra jólasveinatríó: Bjúgnakræki, Gluggagægi og Kjötkrók.
BJÚGNAKRÆKIR
Halló bjúga, loksins náði'ég þér!
Ég skipa þér að koma heim með mér.
Dagana langa
bjúgu ég fanga.
Var búinn ' að fela
nú við þau kelaaaa..
Læt þau leika
um háls og á höndum,
rétt eins og kjötkveðjukall út í löndum.
Maginn á mér æpir hátt og snjallt:
,,með glöðu geði ég ég þetta allt"!
GLUGGAGÆGIR
Hér ligg ég einn á glugga og er að glápa
inn til þín og augun í mér rápa
til og frá í augnatóftum mínum
er fylgist ég með ferðum þínum.
Í öllum bænum lát þér ekki bregða
þó þurfi' ég mér á þennan hátt að hegða,
en nafnið mitt er gamli Gluggagægir
að glápa gluggana - það nægir!
KJÖTKRÓKUR
Mér gefst nú sjaldan til þess tækifæri
að taka spor við gómsætt hangilæri,
sem einhver hefur hengt í hússins rjáfur,
þá nýti ég mér allar mínar gáfur
að hugsa' út leið og krækja mér í bita,
en reyni þó að láta engan vita
sem líður eins og mér, - með tóman maga
alla daga.