ELLEFTI, TÓLFTI OG ÞRETTÁNDI KÓMÍSKI SVEINNINN OG ÞÁ ERU ALLIR MÆTTIR ENDA FRUMSÝNING Í DAG

Þá koma síðustu þrír jólasveinarnir í Kómedíuleikhúsið og þá eru samankomnir í leikhúsinu 13 jólasveinar. Sem segir okkur bara eitt það verður mikið fjör og ævintýri einsog alltaf þegar þessir fjörugu sveinar koma saman. Og nú er komið að stóra kómíska jóladeginum. Jahá svona snemma, það er nefnilega frumsýning í dag á splunkunýju íslensku jólaleikriti sem heitir Jólasveinar Grýlusynir. Sannkallað ævintýri um gömlu íslensku jólasveinana og unglingspilt sem fer upp til fjalla að leita að kúnni Búkollu. Höfundar leiksins eru Elfar Logi Hannesson og Soffía Vagnsdóttir, Kómedíuleikarinn er einn á sviðinu og Soffía leikstýrir. Aðrir listamenn sem koma að sýningunni eru Hrólfur Vagnsson sem semur tónlist, Marsibil G. Kristjánsdóttir hannar kómísku jólasveinana og einnig leikmynd og ljósahönnuður er Jóhann Daníel. Jólasveinar Grýlusynir verða sýndir í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði sem er nú orðið sannkallað ævintýrahús jólasveinanna. Leikurinn verður sýndur um helgar í nóvember og desember. Miðasala á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is Þá eru síðustu þrír sveinarnir mættir og telja niður fyrir okkur. Hurðaskellir, Kertasníkir og Stekkjastaur koma hér.

HURÐASKELLIR

Hurðaskellir heiti ég og elska að hafa hátt.

Ef einhversstaðar sé ég hurð sem stendur upp á gátt,

þá rýk ég til og skelli

með ógnarlegum hvelli,

svo hrekkur þú í kút,

en ég er rokinn út!

Hristist hún á hjörunum.

Skelfur þú í spjörunum!

Ha, ha hæ.

Ég skellihlæ

og nægju mína fæ.

KERTASNÍKIR

Ég játa það að sérvitringur er ég

því áráttan í kerti hún er ferleg.

Ég kann mér ekki læti

og léttur er á fæti

sé ég kerti.

Ef heppinn er og eignast þennan munað.

Þá get ég Kertasníkir vel við unað

með kertahrúguna alla

svo út á hlið ég halla

-sé ég kerti - fallegt kerti - jólakerti!

STEKKJASTAUR

Svakalega er ég orðinn langur!

Hann reynir líka á mig þessi gangur,

að bera búkinn efst á þessum fótum

- svona ljótum!

Tærnar á mér teygjast fram í spíss,

sem getur verið gott við klifur íss,

og skeggið hlýjar minni hvössu höku.

Þó vandast málið ef ég borða köku,

ef hrekkur mylsna oní lúsug hárin

þá segi ég í hálfum hljóðum - fjárinn!

Svo sting ég upp á því við gamla brýnið (hana Grýlu)

að þvo og snyrta á mér greppitrínið (ég í fílu!).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband