Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

ACT ALONE 2009 VAR EINSTÖK OG EINLEIKIN

Þá er sjöttu ACT ALONE hátíðinni lokið og óhætt að segja að frábærlega vel hafi tekist. Húsfyllir var á öllum viðburðum og einleikin stemmning ríkti í einleikjabænum alla helgina. Það er greinilegt að nýja ACT ALONE tímanum sé vel tekið en áður var hátíðin ávallt haldin í byrjun júlí. Framvegis verður ACT ALONE haldin á sama tíma og í ár eða um miðjan ágúst. ACT ALONE þakkar öllum þeim fjölda sem aðstoðaði okkur í ár og gerði þetta ævintýri jafn einleikið og skemmtilegt og það var. Fyrirtæki, stofnanir, félög og einstaklingar - þúsund þakkir til ykkar fyrir ykkar ómetanlega framlag til handa ACT ALONE 2009. Ekki má gleyma öllum þeim fjölda listamanna sem kom fram á hátíðinni í ár þakkir fyrir ykkar einstök list, þið erum frábær og við erum soldið montinn yfir því að þið hafið verið til í að koma til okkar með ykkar frábæru listaverk. Síðast en ekki síst eru kærar þakkir til áhorfenda á ACT ALONE 2009 takk fyrir ómetanlegar stundir í leikhúsinu um helgina. Fjölmargar ljósmyndir voru teknar á ACT ALONE 2009 og verða þær birtar hér á síðunni í Myndasafninu. Undirbúningur fyrir ACT ALONE 2010 er þegar hafinn en hátíðin verður haldin dagana 13. - 15. ágúst 2010 - sjáumst þá.

ACT ALONE 2009 EINLEIKIN HÁTÍÐ Á ÍSÓ

Eina árlega leiklistarhátíðin á Íslandi Act alone verður haldin hátíðleg sjötta árið í röð dagana 14. – 16. ágúst. Act alone verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og á Gíslastöðum í Haukadal í Dýrafirði. Að vanda er aðgangur að hátíðinni ókeypis og öllum opin enda er hér um hátíð að ræða og mikilvægt að sem flestir fái að njóta. Act alone er helguð einleikjum og er meðal fárra slíkra í Evrópu. Á dagskrá Act alone í ár eru alls fimm einleikir, eins manns tónleikar, sögusýning um einleiki á Íslandi og loks fyrirlestur um förumenn og leiklist á 19. öld á Íslandi. Opnunarsýning Act alone 2009 er Umbreyting – Ljóð á hreyfingu eftir og með Bernd Ogrodnik og hefst hún kl.20 í Edinborgarhúsinu á Ísafirði föstudagskvöldið 14. ágúst. Næstur stígur á stokk Róbert nokkur Snorrasson íslenskur leikari búsettur í Danmörku en hann bíður uppá eins manns kabarettinn Here I Stand. Sú sýning verður á veitingastaðnum Við Pollinn á Ísafirði og hefst kl.22. Á laugardeginum 15. ágúst verður boðið uppá þrjá vandaða einleiki. Leikurinn hefst kl.14 í Edinborgarhúsinu með sýningu Grindvíska atvinnuleikhússins á 21. manns saknað með Víði Guðmundssyni. Þóra Karítas Árnadóttir stígur næsta á stokk með Ég heiti Rachael Corrie og hefst sú sýning kl.18. Laugardeginum lýkur síðan með leikverkinu Ódó á gjaldbuxum sem einnig er í Edinborgarhúsinu og verður á dagskrá kl.21. Á sunnudeginum, 16. ágúst, falla vötn öll til Dýrafjarðar nánar tiltekið að Gíslastöðum í Haukadal. Þar verður boðið uppá Einstaka sýningu þar sem saga einleikjalistarinnar er sögð en sýningin var opnuð í sumar og er samstarfsverkefni Act alone og Leikminjasafn Íslands. Einnig verða til sýnis úrval myndverka úr smiðju vestfirskra einfara í myndlist. Jón Jónsson Menningarfulltrúi Vestfjarða flytur því næst fyrirlestur um leiklist og förumenn á Íslandi á 19. öld. Hörður Torfason, leikari og söngvaskáld, bíður loks uppá eins manns konsert og lýkur þar með dagskrá sjöttu Act alone hátíðarinnar fyrir vestan. Allar nánari upplýsingar um Act alone og dagskrána er að finna á heimasíðu Act alone www.actalone.net


Dagskrá Act alone 14. – 16. ágúst 2009

14. ágúst
Edinborgarhúsið Ísafirði
Kl.20.00 Umbreyting – Ljóð á hreyfingu. Bernd Ogrodnik. Fígúra.
Hótel Ísafjörður
Kl.22.00 Here I stand. Róbert Snorrason.


15. ágúst
Edinborgarhúsið
Kl.14.00 21. manns saknað. Víðir Guðmundsson. GRAL.
Kl.17.00 Ég heiti Rachael Corrie. Þóra Karítas Árnadóttir.
Kl.21.00 Ódó á gjaldbuxum. Þórey Sigþórsdóttir.

16. ágúst
Gíslastaðir Haukadal Dýrafirði
Kl.15.00 Einstök sýning. Einleikir á Íslandi – Vestfirskir einfarar.
Kl.15.20 Förumenn og leiklist. Fyrirlestur: Jón Jónsson, Menningarfulltrúi Vestfjarða.
Kl.16.00 Hörður Torfa eins manns konsert.

Hátíðarlok

Sjáumst á Act alone í ágúst 2010

GÍSLI SÚRSSON KOMINN Í SÚR EFTIR 203 SÝNINGAR

Sýningum á vinsælasta verki Kómedíuleikhússins Gísli Súrsson er nú lokið. Leikurinn hefur notið fádæma vinsælda allt frá því hann var frumsýndur í Grunnskólanum á Þingeyri 18. febúar árið 2005. Alls hefur einleikurinn um Gísla Súrsson verið sýndur 203 sinnum og hafa um 15 þúsund manns séð verkið á þeim tíma. Gísli Súrsson hefur verið mjög víðförull og farið um allt land á þessum tíma. Einnig hefur leikurinn verið sýndur víða erlendis t.d. á leiklistarhátíðum í Albaníu og Þýskalandi. Gísli fékk sérstök verðlaun á báðum hátíðunum m.a. sem besta sýningin. Kómedíuleikhúsið vill að lokum þakka öllum þeim sem hafa sótt sýningar á Gísla Súrssyni í gegnum árin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband