Dagskrá ACT ALONE 12. - 14. ágúst Ísafirði og Arnarfirði
25.7.2011 | 23:02
Ein flottasta listahátíð landsbyggðarinnar ACT ALONE verður haldin áttunda árið í röð dagana 12. - 14. ágúst. Hátíðin fer að vanda fram í Einleikjabænum Ísafirði en einnig verða sýningar á Hrafnseyri í Arnarfirði. Rétt er að taka það sérstaklega fram að aðgangur að öllum sýningum hátíðarinnar er ókeypis. En þannig hefur það reyndar verið allt frá upphafi. Þannig að nú er bara að vippa sér í Einleikjabæinn og njóta einstakrar hátíðar. Hér er dagskrá ACT ALONE:
Dagskrá ACT ALONE 2011
12. 14. ágúst á Ísafirði og Arnarfirði
Aðgangur að öllum sýningum ACT ALONE er ókeypis
Föstudagur 12. ágúst
Silfurtorg Ísafirði
Kl.15.00 Prinsessan á Bessastöðum: Opinber heimsókn á Ísafirði
Leikari: Þórunn Arna Kristjánsdóttir
Prinsessan er búin að ferðast um allt Ísland með forsetanum í sumar og nú er komið að Ísafirði. En núna er hún búin að týna forsetanum! Hvar gæti hann verið? Ætli hann hafi tjaldað upp í Naustahvilft? Sé að gæða sér á góðgæti í bakaríinu? Eða er hann hreinlega upp í skýjunum? Hjálpið prinsessunni að finna forsetann, dansið og syngið að vild, þetta verða sko fálkaorður og fjör!
Edinborgarhúsið Ísafirði
Kl.17.00 Röð stuttra einleikja
Leikarar: Leikfélag Flensborgar
Leikstjórn: Eyrún Ósk Jónsdóttir, Erna Ómarsdóttir
Leikfélag Flensborgar hefur verið a vinna með einleikjaformið síðasta árið og munu nokkrir meðlimir leikfélagsins sýna einleiki á Act alone. Einleikirnir verða sýndir hver á eftir öðrum og tekur hver sýning 5-10 mínútur. Einleikirnir eru spuna verk, skrifaðir eða stílfærðir af krökkunum sjálfum. Þeir eru mjög mismunandi: grínleikir, harmleikir, abstrakt dans og súríalismi.
Edinborgarhúsið Ísafirði
Kl.20.00 The Whole Caboodle
Leikari/Höfundur: Sara Margrethe Oskal
Sýningartími: 80 mín
Einleikurinn The Whole Caboodle byggir á hinni gömlu hirðfíflahefð. Hirðfíflið grefur upp óþægileg mál, kemur upp um hluti sem þarf að gagnrýna og dregur fram í dagsljósið það sem er hulið. Oskal hefur tekið hefðbundnar gamansögur, sögusagnir og joiks (gömul finnsk sönghefð) og skapað úr þeim þrjár nútímapersónur: Maidie, hreindýrið og ömmuna. Þessar persónur eru gæddar miklum tilfinningaþunga og hafa öll mikilvæga sögu að segja. Það hefur verið níðst á þeim og þau niðurlægð en á sviðinu kemur hirðfíflið upp í þeim. Þau byrja í tapliðinu en enda sem sigurvegarar.
Oskal flytur verk sitt á minnihluta tungumálinu, Sami, en hefur þróað með sér þann hæfileika að komast yfir tungumálaþröskuldinn. Eins og töframaður þýðir hún stanslaust, línu fyrir línu, brandara eftir brandara, yoik eftir yoik með hjálp Power Point. Þessi þýðingaraðferð er algerlega samofin sýningunni og er í sjálfu sér orðið listrænt tæki. Það virkar sem galdrar og þeir tilheyra hlutverkum hirðfíflsins. Þannig má segja að þetta nútímalega Sama hirðfífl geti spunnið, haft stjórn á tímasetningum á sviðinu OG haft raunveruleg samskipti við áhorfendur á hvaða tungumáli sem er: Íslensku?
Edinborgarhúsið Ísafirði
Kl.22.00 Skjaldbakan
Leikari: Smári Gunnarsson
Höfundar: Árni Grétar Jóhannsson, Smári Gunnarsson
Leikstjórn: Árni Grétar Jóhannsson
Sýningartími: 55 mín
Skjaldbakan er gamansamur einleikur byggður á þeim sannsögulega stóratburði þegar risaskjaldbaka kom að landi á Hólmavík árið 1963 og upphófst mikið fjölmiðlafár.
Ungur maður kynnist veiðimanninum og þótt þeir fari í sitt hvora áttina þá eru á milli þeirra órjúfanleg tengsl. Veiðimaðurinn tekur loforð af hinum unga manni að passa upp á bát fyrir sig þegar hann flytur frá þorpinu. Þegar báturinn dúkkar upp aftur mörgum árum seinna og minningar um veiðimanninn og skjaldbökuna sem hann dró að landi streyma fram þá koma fram leyndir draumar hins unga manns um veiðimennsku, sjómennsku og almenna karlmennsku. Allt kristallast þetta auðvitað í einu merkasta afreki veiðimannsins, skjaldböku ævintýrinu.
Laugardagur 13. ágúst
Edinborgarhúsið Ísafirði
Kl.14.00 Beðið eftir gæsinni
Leikfélagið Frjálst Orð
Leikari: Jón Gunnar Axelsson
Höfundur/Leikstjórn: Ásgeir Hvítaskáld
Sýningartími: 18 mín
Beðið eftir gæsinni er einleikur eftir Ásgeir Hvítaskáld. Jón leikur örvæntingafulla veiðimanninn sem hræðist mest af öllu að vera kallaður einnar gæsar veiðimaður. En gæsin er slunginn og hefur áhrif á hugarheim veiðimannsins. Bráðfyndið og kaldhæðið.
Edinborgarhúsið Ísafirði
Kl.15.00 Kyrrja
Flytjandi/Hugmyndahöfundur: Ragnheiður Bjarnarson
Höfundur texta: Snæbjörn Brynjarsson
Tónlist: Jóhann Friðgeir Jóhannsson
Lýsing: Stefán Benedikt Vilhelmsson
Sýningartími: 50 mín
Skynjum við litbrigði martraða?
björt sem mjöll
rjóð sem rós
tinnusvört
Komdu á vit ævintýranna -
og ef þú rýnir vel gæturðu séð engla...
Tilgangur verksins er að rannsaka munin á milli góðs og ills.
Kanna hvað hugtökin himnaríki og helvíti standa fyrir og hvort það sé nauðsynlegt að hafa einn heim af hinu góða og annan af hinu illa/vonda.
Er tvískiptur heimur nauðsynlegur til að skilja jafnvægið á milli þeirra?
Eru hinir samfélagslega illu eins vondir og við viljum halda?
Eru þeir illu að reyna að fá okkur til að horfast í augu við okkur sjálf?
Hvað kraumar undir hinu góða yfirborði?
Hvað gerist ef prinsessan deyr?
Edinborgarhúsið Ísafirði
Kl.17.00 Verk í vinnslu Opin æfing á Shakespeare
Leikari: Sigurður Skúlason
Leikstjórn: Benedikt Árnason
Sýningartími: 90 mín
Í október n.k. verður frumsýndur einleikurinn Hvílíkt snilldarverk er maðurinn! byggður á höfundarverki Williams Shakespeare eftir leikarann Sigurð Skúlason og leikstjórann Benedikt Árnason. Þessi sýning er hugsuð sem þakkaróður til leiklistarinnar og þess besta sem hún hefur af sér alið: verka leikskáldsins Williams Shakespeares.
Sýningin er byggð á brotum úr verkum Shakespeares og fjallar um manninn og vegferð hans frá vöggu til grafar og skyldleika lífs og leikhúss af því innsæi og listfengi sem Shakespeare einum er lagið! í þýðingu Helga Hálfdanarsonar.
Edinborgarhúsið Ísafirði
Kl.21.00 Mamma, ég
Höfundar: Lilja Katrín Gunnarsdóttir, Svanur Már Snorrason
Leikari: Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Framleiðandi/Tæknitröll: Stefán Benedikt Vilhelmsson
Leikstjórn: Ástbjörg Rut Jónsdóttir
Sýningartími: 50 mín
Hér er á ferð gamansamur einleikur eftir nýbakaða móður um meðgöngu, fæðingu og sjálft móðurhlutverkið. Lilja Katrín var með lífið planað. Hún ætlaði aldrei að vera mamma enda miklu skemmtilegra að djamma, djúsa og fara í skemmtistaðasleiki á sóðalegum börum....En lífið henti Lilju út í djúpu laugina eitt vorkvöld í Köben. Hún varð ólétt eftir einnar nætur gaman og eftir miklar hugleiðingar fram og til baka ákvað hún að eignast barnið. Það var hægara sagt en gert. Lilja komst að því að það var ótal margt sem hún hafði ekki hugmynd um um meðgönguna því enginn hafði sagt henni það. Konur tala ekki um gyllinæð, þvagleka, skeggvöxt og bjúg heldur einblína á að meðgangan, fæðing og það að verða mamma sé bara frábært, æðislegt og meiriháttar - sem það er vissulega. En ekki alltaf.
Hér er á ferð einleikur sem allir geta haft gaman að - hvort sem það eru óléttar konur, ömmur, afar, bræður, systur, mömmur, pabbar og allir þeir sem hafa hugleitt barneignir eða þekkja einhvern sem hefur gengið í gegnum þetta ferli.
Komið með í ferðalag um ævintýraheima bleyjuskipta, ungbarna, brjóstagjafar og ælubletta.
Sunnudagur 14. ágúst
Hrafnseyri Arnarfirði
Kl.13.30 Bjarni á Fönix
Kómedíuleikhúsið
Leikari: Ársæll Níelsson
Höfundar: Ársæll Níelsson, Elfar Logi Hannesson
Búningar/Leikmunir: Marsibil G. Kristjánsdóttir
Leikstjórn: Elfar Logi Hannesson
Sýningartími: 40 mín
Skipherrann Bjarni Þorlaugarson á skútunni Fönix háði frækinn bardaga við hátt í 30 Fransmenn um miðja nítjándu öld. Bardaginn stóð yfir í heila fjóra klukkutíma, að vísu tóku menn sér stutta pásu í miðjum átökum, og gekk Bjarni óskaddaður af vettvangi. Skömmu síðar fannst sjórekið lík af einum Fransmanni og voru uppi kenningar um að Bjarni hafi orðið hans bani. Mál var dómtekið og þurfti Bjarni þá að spyrja sig þeirrar samviskuspurningar: Drap ég mann eða drap ég ekki mann? Sagan af Bjarna skipherra á Fönix er sönn vestfirsk hetju og þroskasaga. Í þessu leikriti skiptast á ástir og átök úr íslenskum raunveruleika.
Bjarni á Fönix er kraftmikil sýning sem lætur engan ósnortinn.
Hrafnseyri Arnarfirði
Kl.15.00 Jón Sigurðsson strákur að vestan
Kómedíuleikhúsið
Leikari/Höfundur: Elfar Logi Hannesson
Leikmynd/Búningar: Marsibil G. Kristjánsdóttir
Leikstjórn: Ársæll Níelsson
Sýningartími: 45 mín
Sómi Íslands sverð og skjöldur. Frelsishetjuna Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri þekkja allir og þá einkum afrek hans í Danaveldi. En hver var Jón Sigurðsson og hvaðan kom hann? Hvað var það sem mótaði hann og gerði hann að öflugum talsmanni þjóðarinnar? Í þessu verki fáum við að kynnast piltinum Jóni Sigurðssyni og æskuárum hans á Hrafnseyri í Arnarfirði.
Verkið er sérstaklega samið í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar og var frumsýnt á afmælisdegi hans þann 17. júní á Hrafnseyri.
Hátíðarlok Sjáumst að ári á Act alone 2012 í ágúst
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.