Hemmi Gunn hinar góðu minningar
10.12.2013 | 14:01
Þegar dagar ársins fara að týna tölunni er manni gjarnt á að horfa yfir hið liðna. Vissulega hefur margt gerst á 13 ári nýrra aldar. Fjölskyldan hefur dafnað vel og er það vel. Maður uppgötvar oftar en ekki þegar maður sest niður og hættir að velta sér uppúr hinu ,,negatíva" hvað maður er í raun heppinn. Ég er í alvörunni gífurlega ríkur þó fáa eigi ég monnípeninga enga telst það ekki til raunverulegs ríkidæmis. Þó þarf ég ávallt að vera að minna mig á þessa staðreynd að monníngar eru bara til að flækja málin. Fjölskylda og vinir er það sem skiptir máli. Minn góði vinur Hemmi Gunn á einmitt stóran þátt í því að hamra þessa staðreynd í minn netta haus. Mikið sem maður saknar góðs vinar.
Ef einhver hefur sýnt manni hve jákvæðni og hressileiki skipti máli í lífinu þá er það félagi Hemmi. Það var alveg nóg að sjá hann þá komst ég í gott skap og gleymdi öllu þessu daglega böggi og áhyggjum. Ég hitti Hemma fyrst um aldamótin og eftir því sem árin liðu styrktust okkar kynni meir og meir. Við áttum og sama afdrep. Hinn dýrðlega Haukadal í Dýrafirði. Þar hlóðum við batteríið og styrktum kynnin enn betur. Ég á mér bara góðar minningar um vin minn Hemma. Þess vegna hef ég ekkert verið að velta mér uppúr þeim fjölmörgu og alltof ,,negatvíu" fréttum sem hafa verið í fjölmiðlum síðustu daga. Ég efast um að ég eigi meira að segja eftir að kikka í ævisögu hans. Öll höfum við jú okkar bresti og nútímafjölmiðlar virðast hafa það efst á sinni efnisskrá að ef eitthvað er miður þá skal það fara beint í blöðin. Svo eru menn að undra sig á því að okkur gengur erfiðlega að komast uppúr þessum ,,negatívu" hjólförum.
Sjálfur er ég alin upp við jákvæðni enda átti ég yndæla æsku. Vissulega gerast miður skemmtilegir hlutir og þá þarf að glíma við. En hinar góðu minningar er það sem gefur tilgang á okkar hótel jörð.
Minningar mínar um Hemma vin minn eru svo margar að þær munu ylja mér allt til enda. Hann var vanur að koma í morgunkaffi til okkar í kofa okkar fjölskyldunnar í Haukadal. Reyndar vorum við oft ekki vöknuð þegar hann bankaði á dyrina. Enda var hann ávallt snemma á fótum í sveitinni fór í morgunsund inná Þingeyri og mætti svo til okkar nátthrafnanna í Haukadal. Þá var dregin fram kannan hans, já hann átti sína könnu í okkar kofa, auðvitað merkt Manchester United. Ég sötraði hinsvegar úr minni Arsenal könnu. Vissulega var oft spjallað um boltann en þó var ávallt byrjað að spyrja um hag fjölskyldumeðlima. Pólitík var sem betur fer aldrei rædd enda var öll umræða á jákvæðum nótum. Oftar en ekki var rætt um stöðu Vestfjarða en Hemmi bar mikinn og góðan hug til kjálkans. Hann var t.d. með frábæra hugmynd um að koma upp íþrótta og listabúðum á fyrrum héraðskólanum að Núpi. Var hann búinn að ganga með þessa hugmynd lengi í maganum en þó nefnt við marga en því miður hefur þessi úrvals hugmynd ekki komist á koppinn en góðar hugmyndir lifa og framtíðin er björt. Á gamlaársdag kom hann ávallt til okkar í kaffi og þá létum við okkur öll dreyma um frábært komandi ár og komandi ævintýri.
Núna styttist í jólin og þá förum við fjölskyldan í kofann okkar góða í Haukadal. Það verður skrítið að hafa engan Hemma á næsta bæ. Þó veit ég að hann verður þarna einhversstaðar. Síðasta sumar var oft einsog einhver væri að banka á útidyrina hjá okkur en þegar að var gáð var engin. Engin var hræddur né hissa. Við vissum öll hver þetta var og vippuðum okkur úr náttfötunum og yfir í glaðan, ævintýralegan og jákvæðan dag.
Einbeitum okkur frekar að góðum minningum en hinum. Gleymum heldur ekki að hlæja og endilega skellihlæjum og njótum lífsins.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.