Innihaldið skiptir meiru en útlitið, svo sem engin ný sannindi
14.1.2014 | 09:57
Líkt og margir aðrir þá tók ég mér tíma á gamlaársdag til að pæla í komandi ár. Setti mér markmið, horfði aðeins á liðið ár en aðallega á það komandi. Eitt af því sem ég setti mér er að taka nú duglega lestrahrinu í mínu eigin bókasafni. Er safnari í eðlinu mínu og bækurnar taka orðið alla borðstofuna í Túninu heima í dag og enn vantar fleiri bókahillur. Mér fannst miðburður minn orða þetta frábærlega einu sinni. Þá var ég að koma heim eftir leikferð í höfuðborginni. Hafði verið þar í tvær vikur og verið duglegur að heimsækja Góða hirðinn til að bæta í mitt bókasafn. Þegar ég svo kom heim með stóran stafla af bókum þá sagði minn kæri miðburður: Hva, pabbi erum við að fara að opna bókasafn?
Börnin kunna að orða það, ávallt hrein og bein og vita oft betur en við sem þykjumst vita betur. Ég hef líka í gegnum árin haft miklar áhyggjur af því að ég mundi lenda í því sama og einhver spekingur sagði: Því stærra sem bókasafnið er þeim mun minna er lesið.
Svo strax á nýju ári hófst ég handa við að lesa hinar ólesnu bækur míns eigin bókasafns. Er þegar búinn með nokkrar alveg ágætar m.a. Bréf til Sólu ástarfbréf Þórbergs til Sólrúnar. Um daginn tók ég svo eina litla skáldsögu úr bókasafninu sem ég átti eftir að lesa. Reyndar var ég nú ekki bjartsýnn á komandi lestur. Því bókarkápan fannst mér alveg agalega ólekkert. Hins vegar hafði ég heyrt mikið gott talað um skáldið sem er Helgi Ingólfsson og bókin heitir Andsælis auðnuhjólinu frá 1996. Gott ef þetta er ekki bara hans fyrsta skáldsaga? Enn á ný sannaðist hið forna að innihaldið skiptir meira máli en útlitið. Þetta er nefnilega hin ágætasta bók. Kannski hjálpaði eitthvað að maður gerði svosem ekki miklar væntingar og það útaf hinni skelfilegu bókarkápu. Það vill oft vera þannig ef maður hefur t.d. heyrt mikið gott talað um eitthvað þá aukast væntingarnar og þá vill líka vera styttra í vonbrigðin. Og á hinn máta vill það líka gerast ef maður hefur heyrt að eitthvað sé nú frekar slappt þá getur bara vel verið að manni líki það svona líka vel. Það er nú líka blessaður smekkurinn hann er svo misjafn. Sem betur fer. Andsælis auðnuhjólinu er bara hin allra skemmtilegasta saga og svo skilst mér að kvikmyndin Jóhannes sem byggð á þessari sögu. Sel það nú ekki dýrara. Enda hef ég ekki séð þá ræmu. Annað sem þarf að taka til í eigin ranni að horfa á fleiri kvikmyndir sérstaklega íslenskar. En það var ekki í mínu átaki ársins 2014. Kannski maður setji sér það bara fyrir næsta ár, 2015.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.