Íslendingasögurnar á mannamál fyrir framtíðina

Í dag fíla ég Íslendingasögurnar. Þessar miklu bókmenntaperlur þjóðarinnar eru frábærar og í raun fullkomnar sögur. Innihalda allt. Ást, hatur, spennu og já bara það sem þarf til að halda lesandanum við efnið. Eini gallinn er kannski sá að það er ekkert létt að lesa þessar sögur þó það sé mun auðveldara núna en þegar ég var yngri. Hvað þá þegar ég var á mínum unglingsárum þá botnaði ég ekkert í þessum texta. Ég þurfti meira að segja að vera tvo vetur í Gísla sögu Súrssonar. Einmitt þeirri sögu sem ég hef mest dálæti á í dag. 

Börn mín hafa þurft að ganga þessa lestrarþraut og glímu við Íslendingasögurnar. Núna er minn miðburður að lesa Fóstbræðrasögu. Pabbi, gamli, hefur verið að aðstoða hana og hef ánægju af. Hinsvegar hef ég tekið eftir því að þetta er alls ekkert auðvelt lestrarefni. Þessi texti er bara of flókinn sem um leið leiðir til þess að hinn ungi lesandi á erfitt með að skilja hann. Um leið þá gerist það eðlilega að áhuginn minnkar. Segir sig sjálft ef maður skilur ekki efnið þá verður engin neisti. Einosg þegar ég þurfti að glíma við algebruna ég þurfti að taka þann áfanga þrisvar sinnum. Já, þrisvar. Ég bara skildi þetta ekki. Hef nú heldur aldrei verið sleipur í reikningnum en mikið var ég glaður þegar ég loks fattaði algebruna og rúllaði upp prófinu, loksins, sagði minn góði kennari Pétur Önundur Andresson í Héraðsskólanum Reykholti. 

Það var einmitt á Reykholti sem ég háði aðra atlögu við Gísla Súrsson. Þar var stórkostlegur kennari Snorri Jóhannesson sem fílaði sig svo inní söguna að unun var að. Ég sextán ára patti varð heillaður þegar hann ekki bara lýsti sögunni heldur lék hana hana. Sérlega er mér minnisstætt þegar hann tók fyrir lokabardaga Gísla á Einhamri í Geirþjófsfirði. Þá varð hann svartur í framan enda hafði hann rétt áður þurrkað af tússtöflunni þar sem hann hafði teiknað sverðið Grásíðu og svo þegar hann stóð á hamrinum þurrkaði hann svitan af enni sér og svarti tússinn setti þar sitt mark. Áhrif þessara Gíslakennslustunda í Reykholti urðu slík að snemma ákvað ég að gera leiksýningu um þann Súra. Það tókst árið 2005 og hefur líka lukkast svona vel að ég er ennþá að sýna þessa sýningu. Hef farið með hana nokkrum sinnum útí heim, leikið hana bæði á íslensku og ensku. Í dag eru sýningar á verðlaunaleiknum Gísli Súrsson orðnar 269 og samt bara rétt að byrja. Margar sýningar hafa þegar verið bókaðar á þessu ári. 

En nú er ég farinn út og suður í þessum Íslendingasögupistli en þó ekki. Því ég tel víst að ef þessar sögur eru poppaðar soldið upp einsog ungdómurinn segir þá verður þetta allt miklu skýrara. Þó held ég að mikilvægt sé að vinna texta sagnanna betur og einfalda hann fyrir skólabókaútgáfu. Nú hrista ábyggilega margir spekingar hausinn og vilja halda í hina eldgömlu íslensku. En hafið ekki áhyggjur þau munu lesa hinn upprunalega texta síðar. Því ef textanum er aðeins lyft upp á blaðinu og færður til nútímans, erum þó ekki að tala um að setja eitthvað slangur í þetta, þá nær hin efnilega æska efninu. Fattar það. Um leið vaknar áhugi því engin efast um að þessar sögur eru magnaðar.

Ég er alls ekki að skjóta á kennara þessa lands sem eru að kenna Íslendingasögurnar. Því ég veit að þeir beita öllum ráðum til að matreiða efnið sem mest þeir geta fyrir sína nemendur. En það þarf að stíga lengra og taka námsbækurnar sjálfar til endurskoðunnar. Færa þær til nútímans fyrir framtíðina.

Ef ekki þá gæti farið einsog fór fyrir mér þegar ég var að læra Íslandsklukkuna eftir Halldór Laxness. Mikið var það leiðinleg lesning í minningunni. Svo leiðinleg að síðan hef ég ekki viljað líta og hvað þá lesa bók eftir þennan mikla skáldjöfur. Minnningin er sterk og fer með mann allaleið líkt og þorpið. Samt er fólk alltaf að tala um hve þessar bækur Laxa séu flottar. En bara áhuginn var ekki vakinn eða kannski var þetta bara of snemmt, ég meina var ekki nema 16 ára þegar ég las þessa leiðinlegu sögu. Þá erum við nú komin að allt annarri spurningu, kannski er bara betra að við lesum Íslendingasögurnar síðar á námsárunum?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband