Hin glæpsamlega Yrsa með göfugan hug
25.11.2015 | 10:26
Ég hef mikið yndi af glæpasögum og þá sérstaklega íslenskum. Drekk þær í mig einsog forboðnar veigar á miðalda hlaðborði. Ég er svo heppinn að vera félagi í Glæpafélagi Vestfjarða og þar er sérlega glæpsamleg meðferð á meðlimum ár hvert. Það er að lesa allar íslensku glæpasögur ársins. Í upphafi næsta árs, á versta degi ársins, sem ku vera 24. janúar afhendir Glæpafélag Vestfjarða síðan Tindabikkjuna fyrir bestu glæpasögu liðins ár.
Nú er einn eitt glæpatímabilið runnið upp. Nýjir glæpir hrannast upp á náttborði mínu í Strætinu á Ísó. Þetta er alveg glæpsamlega gott ár allavega hve fjölda verka ræðír yfir tuginn sem telst gott í jafn friðsömu landi og vér búum í. Oft verð ég andvaka og þá yfirleitt ef ég fæ hugmyndir um miðjar nætur. Það er það versta. Þá þráttast maður við að fara á fætur til að fá sér göngutúr að hætti Laxnessa til að melta pælinguna sem vakti mann upp. Því ef undir sænginni er skriðið þá verður eigi skriðið heldur stikað ganga og tröppur Strætisins. Sest síðan við skriftir og næsti dagur er ónýtur sökum þreytu. Þetta er bara svona maður fær víst eigin þreytu eigi læknaða nema að halda sig undir feldi. Nú hinsvegar hef ég annað vopn í hendi á andvöku nóttum. Í stað Laxagöngu teigi ég mig í glæpi ársins. Þannig náði ég í nýjan glæp um miðja nótt í nótt. Eftir Ragnar Jónasson einn af geggjuðu glæpaskáldum vorum, og losnaði um leið við alla löngun til göngu. Ekki sakaði titill bókarinnar sem var í stíl við stemmara næturinnar.Nefnilega, Dimma.
Á liðinni helgi var ég á hinni árlegu Bókamessu í bókmenntaborginni. Var að kynna bækurnar mínar, já allt í einu er mar' bara búinn að rita tvær bækur, Bíldudals bingó og Bíldudals leiklist. Já, ég veit ég er voðalega einfaldur allar mínar bækur snúast um Bíldudal. Nema hvað þegar ég ók til baka vestur í paradís á mánudag þá var Rás eitt ferðafélaginn. Einn vinsælasti glæpasöguhöfundur þjóðarinnar Yrsa Sigurðardóttir var þar í viðtali hjá Sigurlaugu Jónasar. Flottur penni og ekki síður einstök sál með göfugan hug. Hún vildi t..d tala miklu frekar um ágæti annarra en síns eigin. En það er mjög sjaldgæfur eiginleiki meðal listamanna. Yfirleitt snýst umræðan eingöngu um þá sjálfa og stundum svo mikið að þeir grípa frammí fyrir sjálfum sér. Því er alldeilis ekki farið með Yrsu. Flottast fannst mér þegar hún sagði að það væri alltof mikið um að fjölmiðlar tæku viðtöl við þá þekktustu í hverri grein. Þetta þekkja nú listamenn í öllum greinum og geta tekið undir. Til stuðnings sínu máli nefndi hún að það væri alltof mikið verið að taka viðtöl og fá þau í viðtöl hana og Arnald Indriðason. Það væru nefnilega svo margir fleiri að rita glæpasögur hér á landi.
Þessi skoðun er bara alveg glæpsamlega sönn um vort einstaka listalíf.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.