AUMINGJA LITLA LJÓÐIÐ
9.10.2007 | 15:14
Kómedíuleikhúsinu hefur verið boðið á ljóðahátíðina Glóð með ljóðaleikinn Aumingja litla ljóðið eftir Hallgrím Oddsson. Hátíðin verður haldin dagna 18. - 20. október á Siglufirði en það er einmitt ungmennafélagið Glói á Siglufirði sem stendur fyrir ljóðahátíðinni í samstarfi við Herhúsfélagið og Þjóðlagasetur Séra Bjarna Þorsteinssonar. Aumingja litla ljóðið verður á dagskránni laugardagskvöldið 20. október og hefst sýningin kl.19.30. Meðal annarra gesta á ljóðahátíðinni eru Sigurður Skúlason, leikari og ljóðskáld, og Þórarinn Torfason, ljóðskáld. Sérstaka athygli vekur að aðgangur að hátíðinni er ókeypis og öllum opin. Ljóðaleikur Kómedíuleikhússins Aumingja litla ljóðið hefur verið sýndur nokkrum sinnum vestra m.a. á Krikjubóli í Önundarfirði sem mætti með réttu kalla Ljóðaból Vestfjarða því þar bjó eitt helsta skáld Vestfirðinga Guðmundur Ingi Kristjánsson. Leikurinn var einnig sýndur á leiklistarhátíðinni Act alone í sumar. En þetta er í fysta sinn sem leikurinn fer útfyrir kjálkann. Í leiknum er fjallað um stöðu ljóðsins allt frá upphafi til vorra daga og eru fjölmörg ljóð úr smiðju vestfirskra skálda í verkinu m.a. eftir Guðmund Inga, Stein Steinarr og Steingerði Guðmundsdóttur. Höfundur er Hallgrímur Oddsson og að vanda er það Kómedíuleikarinn Elfar Logi Hannesson sem leikur.
Hér kemur mynd sem var tekin á sýningu á Ljóðabóli Vestfjarða.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.