LJÓÐ DAGSINS - MÁNUDAGSMORGUNN
29.10.2007 | 11:25
Við höldum áfram að veiða uppúr vestfirskum ljóðapotti en hann er alveg ótrúlega djúpur nánast botnlaus og fullt af geggjuðum ljóðum. Nú kynnum við til sögunnar Guðmund Inga Kristjánsson ljóðabóndann frá Önundarfirði. Í ár er 100 ára fæðingarafmæli hans en hann fæddist 15. janúar árið 1907á Kirkjubóli í Bjarnadal í Önundarfirði. Og á þeim degi var einmitt haldið uppá aldar afmæli skáldsins í Holti í firði Önundar. Sami hópur stóð einnig að heildar ljóðaútgáfu sem kom út í sumar. Ljóðasafnið heitir Sóldagar og er gefið út af Holt friðarsetri, Ingastofu. Gaman að geta þess að orðið sól var í uppáhaldi hjá skáldinu og báru bækur hans öll það nafn einsog Sólstafir, Sólbráð og Sólborgir. Það er við hæfi að byrja vikuna með ljóði um mánudagsmorgunn eftir Guðmund Inga. Ljóðið var ort 3. janúar árið 1938 en skáldið merkti öll ljð sín höfundardegi, flott sístem það:
MÁNUDAGSMORGUNN
Ég er glaður á mánudagsmorgni
við hin margbreyttu verkefni hans,
þegar athöfnin örvar og styrkir
þá er árdegi starfandi manns.
Þegar hátíð er liðin og helgi
tek ég hugreifur störfunum við
meðan vikan er öll fyrir augum
eins og ónumið, heillandi svið.
Ef þín helgi til gæfu var haldin
ferðu hraustur í mánudagsverk,
fylgir hamingja handtökum þínum,
og þín hugsun er falleg og sterk.
Og í vikunnar byrjaða verki
eiga vonirnar hjarta þíns sjóð.
Og á hálfbjörtum mánudagsmorgni
eru mótuð hin fegurstu ljóð.
Heyr mig, starfandi líf, þú sem líður.
Ég á löngun og heilbrigða von
að til mánudagsverka ég vakni
eins og vikunnar snemmborni son.
Meðan höndin er hraustleg og þolin,
meðan hugur er athafnagjarn,
meðan verkefni vinnunnar bíða
skal ég verða þitt mánudagsbarn.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.