LJÓÐ DAGSINS - ÉG BIÐ AÐ HEILSA
7.11.2007 | 13:09
Kómedíuleikhúsið frumsýnir í kvöld splunkunýjan ljóðaleik Ég bið að heilsa á veitingastaðnum Við Pollinn á Hótel Ísafirði. Leikurinn er settur á svið í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar, Listaskáldsins góða. Allur texti sýningarinnar er eftir skáldið eða um 22 ljóð og eru þau flutt í leik og tali af Kómedíuleikaranum og Þröstur Jóhannesson flytur frumsamin lög við ljóð skáldsins góða. Síðustu daga hafa verið flutt hér á Kómedíublogginu ljóð úr leiknum og nú er komið að loka ljóð verksins sem er auðvitað og nema hvað slagarinn Ég bið að heilsa. Enn er hægt að panta miða á sýninguna í kvöld sem hefst með borðhaldi kl.19.00. Tvírétta máltíð úr meistaraeldhúsi Pollsins. Sýningin hefst klukkustund síðar eða kl.20.00. Miðaverð fyrir mat og leiksýningu er aðeins 2.900.-kr. Einnig er hægt að fara bara á sýninguna og kostar miðinn 1.500.krónur. Þá að ljóði dagsins Ég bið að heilsa:
ÉG BIÐ AÐ HEILSA
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.
Á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.
Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði.
Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.
Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.
Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr, sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!
Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu.
Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.