FYRSTI KÓMÍSKI JÓLASVEINNINN HEILSAR
12.11.2007 | 11:58
Það styttist óðum í frumsýningu á splunkunýjum jólaleik Kómedíuleikhússins sem er um leið sá fyrsti af þeirri sortinni sem leikhúsið setur á svið. Leikurinn heitir Jólasveinar Grýlusynir og er einleikur nema hvað. Hér er fjallað um gömlu íslensku jólasveinanna á skemmtilegan máta og inní jólasveinaævintýrið fléttast svo allt annað ævintýri um unglingspilt sem er að leita að sköldóttri kú sem heitir, nema hvað, Búkolla. Kómedíuleikarinn leikur og er jafnframt höfundur ásamt Soffíu Vagnsdóttur sem einnig sér um leikstjórn. Í þessum bráðfjöruga jólaleik Jólasveina Grýlusona eru nýjar vísur um jólasveinanna. Næstu daga verður vísurnar birtar hér á blogginu ásamt mynd af viðkomandi sveini en það er listakonan Marsibil G. Kristjánsdóttir sem er hönnuður kómísku jólasveinanna. Vísurnar eru birtar í þeirri röð sem sveinarnir koma við sögu í leiknum og er röðin nokkuð kómísk. Sá sem kemur alltaf fyrstur til byggða samkvæmt jólasveinadagatalinu er hann Stekkjastaur en í Jólasveinar Grýlusynir er hann síðastur. Frumsýning er eftir aðeins sex daga og því verða einhverja daga sem tveir eða fleiri sveinar birtast hér. Og af því frumsýning er nefnd þá er gaman að segja frá því, aftur, að það er uppselt á frumsýningu á laugardag. En laus sæti á 2 sýningu sem er á sunnudag 18. nóvember kl.14. Til að panta miða kikkið á www.komedia.is Best að vera ekkert að draga þetta neitt heldur kynna til sögunnar fyrsta kómíska jólasveininn. Og við byrjum á toppnum því hér er kominN einn sá allra vinsælasti sveinn allra barna. STÚFUR og svona er vísan hans.
STÚFUR
Ég er jólasveinn og heiti Stúfur
og ég er alveg einstaklega ljúfur.
Ég læt nú ekki mikið á mér bera
en samt er ég þó ýmislegt að gera.
Þótt ég sé smár er margt mér lagt til lista,
ég kann til dæmis feiknavel að tvista.
Þá beygi ég mig örlítið í hnjánum
og teygi síðan vel úr öllum tánum.
Um leið og jólatjútt - og tvist ég heyri,
þá tvista ég og allt um kollinn keyri.
Já ég er nú meiri
kallinn!
Í Grýluhelli heppilegt það er
hversu lítið þar fer fyrir mér.
Ef einhver missir tölu undir borðið
þá beinist næstum alltaf til mín orðið:
,,Stúfur litli viltu hjálpa mér?"
Það er segin saga, - þá undir borð ég fer.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.