ÞORGRÍMUR ÞRÁINSSON TÖFF RITHÖFUNDUR
20.4.2008 | 13:11
Gaman af góðum fréttum úr hinum fjöruga og gróskumikla menningarlífi á Vestfjörðum. Hér kemur ein vestfirsk menningarfrétt sem er á hinum stórgóða vef www.vikari.is
Rithöfundurinn, Þorgrímur Þráinsson, heimsótti nemendur 6. bekkjar Grunnskólans í dag. Að sögn Guðbjargar St. Hafþórsdóttur umsjónarkennara bekkjarins var aðdragandi heimsóknarinnar sá að hún las fyrir nemendurna bókaröðina: Með fiðring í tánum, Tár, bros og takkaskór og Mitt er þitt. Þegar síðastu bókinni var lokið ákváðu nemendurnir að skrifa Þorgrími bréf og lýstu þeir yfir aðdáun sinni á bókunum auk þess sem þeir komu með uppástungur um efni í næstu bækur. Þorgrímur brást skjótt við bréfi nemendanna og svaraði þeim um hæl og sagði m.a. að hann hefði áhuga á koma vestur og hitta þau og gefa þeim bækur.
Draumurinn um komu Þorgríms rættist í dag þegar hann kom færandi hendi og gaf nemendunum 6. bekkjar bókina Undir 4augu. Hann hitti einnig 7.-10. bekk og ræddi við þau um heima og geima. Í frímínútum brá Þorgrímur á leik með krökkunum í skólanum og skellti sér með þeim út og fór í snú snú. 6. bekkur bauð honum síðan í göngutúr þar sem þau gengu um bæinn og kíktu meðal annars á Kjallarann og á höfnina þar sem alltaf er líf og fjör.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.