GÍSLI SÚRSSON HEFUR NÚ VERIÐ SÝNDUR 180 SINNUM
14.10.2008 | 14:14
Það var stór dagur í sögu Kómedíuleikhússins í morgun því þá var einleikurinn Gísli Súrsson sýndur í 180 sinn. Já, alveg rétt það eru komnar 180 sýningar sem er bara alveg geggjað. Þessi sögulega sýning var í Kársnesskóla í Kópavogi og voru undirtektir nemenda mjög góðar. Það var vel við hæfi að 180 sýningin væri einmitt í skóla því leikurinn hefur einmitt oftast verið sýndur í skólum um land allt. Vart þarf að taka það fram að þetta er nýtt sýningarmet hjá Kómedíuleikhúsinu. Gísli Súrsson er þó hvergi nærri hættur næsta sýning er í fyrramálið í Foldaskóla. Eftir áramótin mun Gísli herja á skóla á höfuðborgarsvæðinu á nýjan leik og hafa þegar verið bókaðar fjölmargar sýningar. Sýningin um útlagann Gísla Súrsson hefur annars farið mjög víða og verið sýnd hringinn í kringum landið og einnig erlendis í Albaníu, Lúxembúrg og Þýskalandi. Sýningin hefur tvívegis fengið verðlaun á erlendum leiklistarhátíðum. Loks er rétt að geta þess að leikurinn hefur einnig verið sýndur í enskri útgáfu m.a. fyrir erlenda nemendur við Háskólasetur Vestfjarða. Erfitt er að spá um það hve leikurinn verður sýndur lengi allavega út næsta ár og vonandi lengur. Regla Kómedíuleikhússins er sú að á meðan leikarinn hefur gaman af því að sýna verkið þá mun leikurinn vera á dagskránni jafn lengi og leikgleðin ræður ríkjum. Þetta er nú engin ný kenning í heimi leiklistarinnar því það sem skiptir mestur máli í leikhúsinu er að leikarinn hafi gaman af því sem hann er að gera og það höfum við svo sannarlega hér í Kómedíuleikhúsinu og ja kannski verður Gísli Súrsson bara á fjölunum eins lengi og sá Kómíski tórir. Kómedíuleikhúsið vill að lokum þakka öllum þeim fjölda áhorfenda sem hafa séð sýninguna um Gísla Súrsson kærlega fyrir góða stund í leikhúsinu. Við hlökkum svo til að hitta alla hina sem eiga eftir að sjá Gísla Súrsson.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Þetta er æðislegt til hamingju með þennan áfanga Elvar Logi minn. Þú ert frábær.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.10.2008 kl. 19:48
Þakka góð orð þau eru okkar bestu laun í leikhúsinu
Elfar Logi Hannesson, 16.10.2008 kl. 12:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.