Ekkert internet nú þá er bara að flytja

Internetið eða alnetið einsog margir vilja kalla það og er eiginlega fallegra orð og jafnvel bara réttnefni. Nútíminn er nefnilega engin trunta heldur alnet. Það er bara allt á netinu í dag og allir eru þar. Hér vestra er þetta ekkert öðruvísi meira að segja sjónvarpið er í gegnum netið. Reyndar virðist okkar net vera með miklu fleiri götum en nokkur sjómaður mundi sætta sig við. Þannig er útsendingin alltaf höktandi hér hjá okkur í Strætinu á Ísó. Nú mætti benda frjóum busnesmanni að fara nú að hanna sveifar á sjónvörp já þið vitið svona einsog var notað á bifreiðarnar í árdaga. 

Það er ekki nóg með að útsending sjónvarpsins sé höktandi því þetta smitast einnig yfir í tölvuna mína. Stundum dettur mér eitthvað geggjað í hug til að rita sem stöðu á Facebook sem byrjar kannski svona: 

Ég er ó....

 

Já, þarna datt netið út og ég óa og æpi. Þegar ég nefndi þetta við einn netverja þá sagði hann einfaldalega:

Nú, þá er bara að flytja.

 

Eitthvað rámar mig í að einhver hafi sagt eitthvað þannig um daginn og einhvern veginn rámar mig í að það hafi ekki notið mikilla vinsælda. 


Hin glæpsamlega Yrsa með göfugan hug

Ég hef mikið yndi af glæpasögum og þá sérstaklega íslenskum. Drekk þær í mig einsog forboðnar veigar á miðalda hlaðborði. Ég er svo heppinn að vera félagi í Glæpafélagi Vestfjarða og þar er sérlega glæpsamleg meðferð á meðlimum ár hvert. Það er að lesa allar íslensku glæpasögur ársins. Í upphafi næsta árs, á versta degi ársins, sem ku vera 24. janúar afhendir Glæpafélag Vestfjarða síðan Tindabikkjuna fyrir bestu glæpasögu liðins ár.

Nú er einn eitt glæpatímabilið runnið upp. Nýjir glæpir hrannast upp á náttborði mínu í Strætinu á Ísó. Þetta er alveg glæpsamlega gott ár allavega hve fjölda verka ræðír yfir tuginn sem telst gott í jafn friðsömu landi og vér búum í. Oft verð ég andvaka og þá yfirleitt ef ég fæ hugmyndir um miðjar nætur. Það er það versta. Þá þráttast maður við að fara á fætur til að fá sér göngutúr að hætti Laxnessa til að melta pælinguna sem vakti mann upp. Því ef undir sænginni er skriðið þá verður eigi skriðið heldur stikað ganga og tröppur Strætisins. Sest síðan við skriftir og næsti dagur er ónýtur sökum þreytu. Þetta er bara svona maður fær víst eigin þreytu eigi læknaða nema að halda sig undir feldi. Nú hinsvegar hef ég annað vopn í hendi á andvöku nóttum. Í stað Laxagöngu teigi ég mig í glæpi ársins. Þannig náði ég í nýjan glæp um miðja nótt í nótt. Eftir Ragnar Jónasson einn af geggjuðu glæpaskáldum vorum,  og losnaði um leið við alla löngun til göngu. Ekki sakaði titill bókarinnar sem var í stíl við stemmara næturinnar.Nefnilega, Dimma.

Á liðinni helgi var ég á hinni árlegu Bókamessu í bókmenntaborginni. Var að kynna bækurnar mínar, já allt í einu er mar' bara búinn að rita tvær bækur, Bíldudals bingó og Bíldudals leiklist. Já, ég veit ég er voðalega einfaldur allar mínar bækur snúast um Bíldudal. Nema hvað þegar ég ók til baka vestur í paradís á mánudag þá var Rás eitt ferðafélaginn. Einn vinsælasti glæpasöguhöfundur þjóðarinnar Yrsa Sigurðardóttir var þar í viðtali hjá Sigurlaugu Jónasar. Flottur penni og ekki síður einstök sál með göfugan hug. Hún vildi t..d tala miklu frekar um ágæti annarra en síns eigin. En það er mjög sjaldgæfur eiginleiki meðal listamanna. Yfirleitt snýst umræðan eingöngu um þá sjálfa og stundum svo mikið að þeir grípa frammí fyrir sjálfum sér. Því er alldeilis ekki farið með Yrsu. Flottast fannst mér þegar hún sagði að það væri alltof mikið um að fjölmiðlar tæku viðtöl við þá þekktustu í hverri grein. Þetta þekkja nú listamenn í öllum greinum og geta tekið undir. Til stuðnings sínu máli nefndi hún að það væri alltof mikið verið að taka viðtöl og fá þau í viðtöl hana og Arnald Indriðason. Það væru nefnilega svo margir fleiri að rita glæpasögur hér á landi. 

Þessi skoðun er bara alveg glæpsamlega sönn um vort einstaka listalíf.


Grettisstund með Einari Kára og Elfari Loga

einar káraSérstök Grettisstund verður haldin í paradísadalnum á Gíslastöðum í Haukadal Dýrafirði í lok júní. Þá munu þeir Einar Kárason, rithöfundur, og Elfar Logi Hannesson, leikari, leiða saman hesta sína og leika með eina þekktustu Íslendingasöguna Grettis sögu Ásmundarsonar. Grettisstundin verður sunnudaginn 28. júní kl.20.00. Einar Kárason hefur leik og fjallar um Gretti á sinn magnaða hátt en Einar er mikll sögumaður sem unun er að hlýða á. Að Einars þætti loknum mun Elfar Logi Hannesson sýna einleikinn Grettir sem hefur sannarlega slegið í gegn og verið sýndur víða. Rétt er að geta þess að á milli þeirra félaga verður gert stutt hlé þar sem gestum gefst kostur á að bragða á hinum magnaða rabbabaragraut húsfreyjunnar. Miðasala á Grettisstund á Gíslastöðum í Haukadal Dýrafirði er þegar hafin. Miðasölusíminn er 891 7025, einnig er hægt að panta miða með því að senda tölvupóst á komedia@komedia.is Miðaverð er aðeins 3.500.- kr


Hinn dásamlegi hljóðheimur hljómplötunnar

Fátt er betra en að eiga góða stund með sjálfum sér og hlýða á tónlist. Hvað þá ef hlustað er á hinn einstaka hljóðheim hljómplötunnar. Sannarlega hljómar engin hljómplata eins og er þá ekki meint tónlistin sjálf heldur hljóðin. Eftir því sem gripurinn snýst oftar og nálin leikur um hann fara stundum að bætast við önnur hljóð. Smá sarg. Verra þó ef skífan stoppar í sama farinu en það getur samt verið ágætt því þá þarf maður að standa aðeins uppúr hægindastólnum og gefst þá gott tækifæri til að liðka eigin líkama. Í raun er hljómplatan ekki ósvipuð og hellu espresso kaffikannan. Eftir því sem oftar er helt uppá þeim mun betri og sterkari verður sopinn. Þannig er því einnig farið með hljómplötuna því oftar sem hún snýst þeim mun betri verður ekki bara tónlistin heldur gripurinn sjálfur. Sem heldur áfram að þróast og verður því meira lifandi þarna liggur einmitt munurinn á hljómplötunni og geisladisknum. Ef hann stoppar þá stoppar hann bara og snýst síðan bara endalaust í sama farinu og um sjálfan sig sama hvað er skrollað fram og aftur. 

Um jólin var ég svo heppinn að fá plötuspilara í jólagjöf en gamli Grundig hafði gefist upp á nálinni fyrr á árinu. Þessi nýji heitir Lenco og sómir sér heldur betur vel í borðstofunni í Strætinu. Nú þeytir maður skífum sem aldrei fyrr og mikið er gott að fá aftur að heyra þennan dásamlega hljóðheim hljómplötunnar. Safnið hefur nokkuð staðið í stað eftir að Grundig gaf upp öndina en strax í gær var þremur hljómplötum bætt í safnið. Þar fremst í flokki er Sóleyjarkvæði. Gefið út af Æskulýðsfylkingunni sambandi ungra Sósíalista, því miður er ekkert ártal ritað á umslagið. Hér er á ferðinni ljóðabálkur Jóhannesar úr Kötlum í tóngerð Páls Pálssonar. Ég segi ykkur það bara alveg strax að þetta er mikið snildarverk. Enda bjóst ég nú ekki við öðru þar sem einvalalið listamanna leiðir þarna saman hesta sína. Stjórnandi er vinur minn góður og lærifaðir í listinni Eyvindur Erlendsson. Meðal flytjanda má nefna Arnar Jónsson, Karl Guðmundsson og góðan vin minn Eyvind Eiríksson. 

Ef ég yrði spurður á götu hvort ég væri til í að taka þátt í flutningi á þessu verki þá mundi ég hoppa tvisvar í loft upp. Bara að nefna þetta ef svo skemmtilega vildi til að einhver sé að pæla í að dusta rykið af þessu einstaka listaverki. 

Afþví að það er ný hafið nýtt ár og vinsælt er að setja sér heit og markmið. Þá hef ég þegar gert mitt áramótahljómplötumarkmið en það er að halda áfram að safna SG hljómplötunum. Er þá að tala um þessar 33 snúninga. Vissulega er þetta stórt markmið því ég á aðeins 18 hæggengar SG en alls komu út 180. 


Happasælt prúðmenni

Ef ég væri mín eigin völva þá væri ég löngu fallin á spámannsprófinu. Hvernig átti ég líka að geta séð það að púki, einsog krakkar eru oft kallaðir vestra, sem hugasaði bara um eitt í sínum uppvexti og það var fótbolti. Svo komu unglingsárin og enn var boltinn í aðalhlutverki en tónlist tók að taka meira af tímanum sérlega þegar kynni hófust við David nokkurn Bowie. Um tvítugut var boltinn langt innan við 50 prósentin og leikhúsið og listin með rest. Í dag hef ég ekki sparkað í knött í tæpa tvo áratugi. Nú er enn eitt breytingaskeyðið að taka yfir á mínu æviskeiði það er ahugi á íslenskri tungu. Þessum dásamlegu orðum sem við eigum og það að lesa fallegan texta er alveg á við það þegar maður tók hjólahestaspyrnu beint í mark í gamla daga. Þessu viðsnúningi míns áhugasvðis hefði engin getað spáð fyrir. Nóg væri að spyrja minn góða skólastjóra æskuáranna á Bíldudal sem er reyndar mikill og góður íslenskumaður. Já, nú hefði verið gott ef maður hefði hlustað í tímum í stað þess að fela erlendu knattspyrnublöðin inní skólabókunum og lesa fréttir af ,,Kampavíns Kalla" og félögum. Kampavíns Kalli var mín sparkhetja. Réttu nafni Charlie Nicholas sprækur Skoti sem lék með ,,fallbyssunum", Arsenal. Þar sem hann var svo flottur á vellinum þá átti hann það til að vera flottur utanvallar og gjarnan nokk þyrstur og því fékk hann kampavíns viðurnefnið. 

Svona er lífið. Alltaf að koma á óvart og þá sérílagi framtíðin. Enda væri það nú ekki gaman ef maður vissi þetta allt strax í móðurkviði. Vissulega vill maður ýmislegt með sitt líf en einsog einhversstaðar stendur þá fær maður ekki allt og ekki er nú óskastjarnan allsstaðar og alla daga yfir okkur. Oftar en ekki fær maður ekki það sem maður vill. Margir hafa til dæmis þegar gert sér skoðanir um ákveðið verk áður en þeir njóta þess og vilja að það sé svona og svona. Þegar þeir svo hafa séð verkið eru þeir náttúrulega ekki sáttir því það er ekki einsog þeir höfðu viljað hafa það.

Við áramót er við hæfi að kasta kveðju á samferðamenn sína. Vort ilhýra býður þar uppá sannkallað hlaðborð orða sem má nota. Gleðilegt ár. Árið. Farsælt nýtt ár og þakka liðið. Möguleikarnir eru margir kannski er þetta bara einsog einn meistari orðsins sagði ,,aðeins smekksatriði.". Mín uppáhalds áramótakveðja er: Happasælt ár. Þessi kveðja finnst mér alveg mögnuð og svo vel við hæfi. Tekur í raun yfir svo mikið í voru lífi sem framundan er hvort heldur er í leik eða starfi. Við áramót eru líka allir svo meirir og vilja að allir eigi happsæla tíð framundan. Sama í hvaða liði þeir eru en mikið væri nú gaman ef sú hugsun næði aðeins lengur en til 3. janúar ár hvert.

Annað orð sem ég hef í miklum metum í dag er: Prúðmenni. Þetta er verulega smart orð einsog álitsgjafar nútímans mundu gjarnan segja. Hver vill ekki vera prúðmenni? Hvað þá að vera kallað prúðmenni af sínum samferðamönnum. Líklega einn besti vitnisburður sem maðurinn getur fengið. Það er samt ekki langt síðan ég féll fyrir þessu orði. Samt stendur prúðmennið mér mjög nærri. 

Eitt af því sem fylgir því að vaxa uppúr knattskónum er áhugi á eigin ætt og fólki. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá er aðeins eitt sem skiptir máli og stendur fremst í flokki. Það er fjölskyldan.Nei, afsakið gott betur. Stórfjölskyldan. 

Á haustdögum fór ég að lesa mér til um mína stórfjölskyldu og þá einkum langafa minn á Bíldudal. Prúðmennið Hannes Bjarnason Stephensen. Var hann kaupmaður á Bíldudal og fékk það erfiða hlutverk að taka við af Bíldudalskónginum svonefnda Pétri Jens Thorsteinsson. Saga kóngsins hefur verið rituð í stórkostlegri bók sem heitir nefnilega Bíldudalskóngurinn og er eftir Ásgeir Jakobsson. Vissulega var það ævintýri en ævintýrið hélt áfram jafnvel þó konungurinn hafi yfirgefið ríkið. Fljótlega eftir að ég byrjaði að kynna mér söguna af langafa mínum fer þetta orð, prúðmenni, að koma við sögu í hvert sinn sem nafn hans kemur upp. Í hvert sinn hlýnaði mér um hjartarætur og fylltist um leið stolti. Um leið var mér hugsað til hins stórkostlega söngvara Louis Prima sem söng svo snildarlega í Skógarævintýri Mogla: Ég vil vera einsog þú.

Svona er galdur tungunnar mikill og mín býður eitt stærsta verkefni lífsins. Eins gott að hefjast handa strax í dag. 

Happasælt komandi ár.


Annáll eina atvinnuleikhús Vestfjarða og það eru blikur á lofti

Árið 2014 var sannarlega kómískt. Nýtt íslenskt leikrit var frumsýnt og við gáfum út kennslubókina Leikræn tjáning. Síðast en ekki síst settum við nýtt met. Sýningarmet. Já, aldrei áður höfum við sýnt jafnmargar sýningar á árinu eða alls 81 talsins. Sannarlega kómískt og enn kómískara er að segja að þrátt fyrir allar þessar góðu fréttir þá gengur dæmið ekki upp. Við náum ekki endum saman. Ljóst er að breyta þarf miklu í rekstri Kómedíuleikhússins og leita nýrra leiða. Það verkefni býður okkar nú við áramót og ljóst er að árið 2015 verður ár breytinganna hjá okkur. Nóg af komandi ævintýri hugum frekar af því sem er að kveðja.
Kómedíuleikhúsið er líklega duglegast allra leikhúsa á Íslandi við að frumflytja ný íslensk leikverk. Enn eitt bættist við á árinu Halla byggt á samnefndri sögu eftir vestfirska skáldið Stein Steinarr. Frumsýnt var 12. apríl í Safnahúsinu Ísafirði. Eftir það var sýnt víða um land m.a. í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði og í skólum fyrir vestan, norðan og austan. Alls urðu sýningar 11 talsins. Höfundar leikgerðar Elfar Logi Hannesson og Henna-Riikka Nurmi. Þau sáu einnig um leik og dans. Tónlist samdi Guðmundur Hjaltason og Marsibil G. Kristjánsdóttir sá um leikmynd, búninga og leikstjórn.
Við vorum víðförul í ár og höfum aldrei sýnt jafnmargar sýningar á einu ári eða 81. Sú sýning sem oftast var sýnd eða 33 sinnum var verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson. Til stóð að hætta með sýninguna nú í haust en það hefur alfarið verið sett á ís því við erum þegar búin að bóka margar sýningar á komandi ári. Sýningarnar á Gísla eru nú orðnar 291 og fyrst við erum að nálgast þriðja hundraðið þá er alveg óhætt að taka hundrað í viðbót, eða þar um bil.
Hinn útlaginn okkar, Fjalla-Eyvindur, var einnig í fanta stuði og á fleygiferð um landið. Alls var hinn gamansami fjallaleikur sýndur 24 sinnum. Loks má geta hinnar vinsælu jólasýningar Bjálfansbarnið og bræður hans sem var sýnd 7 sinnum núna fyrir jól. Hinum vestfirsku jólasveinum hefur nú verið skuttlað aftur í helli inn og skellt lokunni fyrir. Enda hafa þeir málað bæinn rauðann síðustu fjögur ár. Kannski eftir einhver ár opnum við helli jólasveinanna að nýju. Nokkrir góðkunningjar Kómedíu voru og sýndir á leikárinu. Svo alls enduðum við í 81 sýningu á leikárinu sannarlega kómískt.
Kómedíuleikhúsið réðst í það þarfaverk að gefa út kennslubók um leiklist á árinu. Mikill skortur er á þess háttar bókum á hinum íslenska markaði sem er sannarlega synd. Því leiklistin hefur einmitt verið að hasla sér völl í skólum landsins síðustu ár og er það bara frábært. Bókin nefnist einfaldlega Leikræn tjáning og er eftir Kómedíuleikarann Elfar Loga Hannesson. Drengurinn sá hefur kennt leiklist um land allt í um tvo áratugi og miðlar hér af reynslu sinni. Bókin Leikræn tjáning er í raun æfingabanki í leiklist sem nýtist kennurum í faginu á öllum stigum listarinnar. Efnið er fjölbreytt allt frá leikjum til spuna og leikhússlagsmála. Það er ekki auðvelt að gefa út bækur á Íslandi og því þarf að leita leiða til að ná fyrir ævintýrinu ná þessu fræga núlli sem verið erum alltaf að berjast fyrir í listinni. Fyrir nokkru kom góð leið fyrir okkur litlu spámennina í listinni. Það er apparat að nafni Karolinafund.com. Þetta er síða á alnetinu þar sem notendur geta fjárfest í verkefnum og komið þeim þannig á koppinn. Þessa leið fórum við og náðum okkar markmiði svo bókin Leikræn tjáning komst alla leið úr prentvélum og í hendur notenda um land allt.
Ár Kómedíuleikhússins hefur sannarlega verið kómískt og sögulegt. Það verður þó að segjast að þrátt fyrir allar góðu fréttirnar þá gengur reksturinn ekki vel. Við náum ekki endum saman. Ljóst er að við verðum að breyta miklu til að ná áttum og tryggja okkar brothættu stoðir. Það er verkefni komandi árs og hlökkum við til að takast á við verkefnið.
Árið 2015 verður sannarlega ár breytinga hjá Kómedíuleikhúsinu og í því felast bara tækifæri, ekkert gaman að vera alltaf að gera það sama. Lífið er jú kómedía þegar öllu er á botninn hvolft.

Hemma Gunn stund í Haukadal

Mikið sakna ég vinar míns Hemma Gunn mikið. Í dag er ár liðið frá lokakveðju hans. Við fjölskyldan áttum einstakar stundir með Hemma í paradís okkar Haukadal í Dýrafirði í mörg ár. Á morgun fimmtudaginn 5. júní kl.20 verður sérstök Hemma Gunn Stund á Gíslastöðum í Haukadal. 

Sýnt verður verðlaunaleikritið Gísli Súrsson og er aðgangur ókeypis. Megin tilgangur stundarinnar er að koma saman, hlæja og hafa gaman saman að hætti Hemma. Gaman er að geta þess að Hemmi átti einmitt sinn þátt í þessu vinsæla leikriti Gísla Súrssyni því hann ritaði einstaka grein í leikskrána. Sá pistill er alveg einstakur og því finnst mér rétt að birta hann í heild sinni hér. Um leið hlakka ég til að sjá ykkur öll á Hemma Gunn stund á Gíslastöðum í Haukadal fimmtudaginn 4. júní kl.20.  

Á slóðum Gísla Súrssonar

Gísli Súrsson og örlagasaga hans hefur verið mér hugleikin allt frá þeirri tíð er ég komst í sveit á sjötta áratug síðustu aldar til þeirra Unnar og Valdimars á Húsatúni í Haukadal í Dýrafirði.

Íþróttir voru stundaðar grimmt er tími gafst frá því að fara með og sækja kýrnar og fleiri búskaparönnum; knattspyrna og frjálsar á grundinni við ána, alveg hliðstætt og á tímum Gísla, en þá voru einnig knattleikar sem voru efst á baugi á ísilagrði Seftjörninni og alls konar aðriri leikir. Þetta var alveg sama sviðið með Gíslahól í bakgrunni. Svo er þess að minnast frá þessum Gíslaslóðum þegar við strákarnir fórum gangandi úti í Svalvoga og þurftum að sæta sjávarföllum á leiðinni. þar lék undirritaður sinn fyrsta landsleik í knattspyrnu, þann eina sem þar hefur farið fram eftir því sem best er vitað. það voru miklir kappar sem voru í Haukadalsliðinu á þeim árum, allt ljóshærðir og spengilegir víkingar, sem erfitt var að standast snúning, líkt og Gísla forðum.

Siggi Þói, sem hefði örugglega náð langt í íþróttum, ef heimahagar hefðu ekki ríghaldið honum, Stjáni kaldi bróðir hans, Hafsteinn útgerðabóndi Aðalsteinsson varð netjum strengda karma af mikilli snilld. Þetta harðsnúna lið keppti undir merkjum Ungmennafélags Gísla Súrssonar, sem stofnað var í Haukadal skömmu fyrir 1950 til að halda á lofti merki fornkappans fræga.

Áhorfendur voru meðal annars heimasæturnar af bæjunum í kring, (þær voru fleiri í þá daga, alveg einsog á tímum Gísla, en núna er ekki ein einasta heimasæta eftir, ef undan er skilin drottningin Unnur á Húsatúni!)

Þau Gísli Súrsson og Auður Vésteinsdóttir, kona hans, lifðu sína sælustu og mestu hamingjudaga í Haukadal. En ei má sköpum renna. Fyrir Gísla átti það að liggja að vera í útlegð árum saman og fara huldu höfði. Þá var það Auður sem studdi mann sinn í hverri raun sem frægt er og mun halda nafni hennar á lofti meðan Ísland er byggt. ,,Skaltu það muna, vesall maður, að kona hefur barið þig" sagði Auður og er setning sem allir Íslendingar ættu að kannast við.

Ég leit alltaf með virðingu að Gíslahólnum á hverjum morgni þegar ég rak kýrnar á dalinn, nánast að þeim stað sem Gísli hafði fataskipti við þrælinn og hljóp upp í kjarrivaxnar hlíðar Haukadalsins, söguríkasta dals Vestfjarða og náði að komast undan. Já, sagan lifnaði við á hverjum degi. Hins vegar tel ég fullvíst, einsog Þórir Guðmundsson fræðimaður, að bær Gísla hafi staðið í dæld fyrir norðan við hólinn sjálfan í skjóli suðvestanáttar! Það er svo merkilegt að með mér hefur þróast sú hugsun eða ímyndun, eftir því hvernig á er litið, frá þessum árum í Haukadal, að ég hafi verið uppi á tímum Gísla í fyrra lífi, svo gjörkunnugur var ég öllum staðháttum þegar ég kom þangað sjö ára gamall!

Merkiskona ein og spámiðill fullyrðir hins vegar að ég hafi verið Gísli Súrsson! Einnig hefur kæri vinur minn og landsfrægur skemmtikraftur tjáð mér að hann telji sig hafa verið Véstein mág Gísla í fyrra lífi! Hvað sem um það má segja, er tilvist okkar hér á jörðu margslungin og ekki allt sem sýnist í þeim efnum! Eitt er víst að enginn verður ánægðari en ég, þegar leikverk úr sögu Gísla Súrssonar með þátttöku kraftajötna úr Sæbóli verður flutt í sinni upprunnalegu leikmynd! Hóllinn bíður og höldum minningu Gísla Súrssonar hátt á lofit um alla framtíð.

hemmi gunn 


Þekktustu útlagar þjóðarinnar loksins saman á leiksviðinu

Þeir eru margir útlagarnir á Íslandi en líklega er óhætt að segja að þeir þekktustu séu Gísli Súrsson og Fjalla-Eyvindur. Svo skemmtilega vill til að sá sem hér pikkar inn texta hefur gert leikrit um báða þessa kappa. Enn skemmtilegra er frá að segja að báðar sýningarnar hafa slegið í gegn. Enn er svo hægt að toppa það með því að segja að loksins verða Gísli Súrsson og Fjalla-Eyvindur á fjölunum í Reykjavík. Til að kóróna það þá verða sýningarnar í 101 nánar tiltekið í Gamla bíó.  

Sýningarnar verða sýndar saman og þannig gefst einstakt tækifæri til að sjá sannkallaða útlagatvennu. Fyrsta sýning á Gísla Súra og Fjalla-Eyvindi verður eftir viku eða fimmtudaginn 29. maí kl.20. Miðasala er þegar hafin á midi.is.

Tvær sýningar til viðbótar verða á útlagatvennunni í Gamla bíó. Á Hvítasunnudag 8. júní kl.20 og loks mánudaginn 16. júní kl.20. 

Verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson sem hefur verið sýndur um 300 sinnum verður einnig sýndur á ensku í Gamla bíó. Fyrsta sýning á ensku verður miðvikudaginn 28. maí kl.20.

Miðasala á allar sýningar er í blússandi kómískum gangi á midi.is  


Fyllum eyðina með listamannaíbúðum

Það er eitthvað sérlega heillandi við eyðibýli. Einhverjir töfrar og sannarlega saga og oftar en ekki gleymd saga. Hvernig væri nú að breyta einsog 20 eyðibýlum af þessum 160 í listamannaíbúðir. Vissulega þarf að velja þau sem eru best með farin haldi allavega vatni og vindum. Líklega þarf að stinga rafmagni aftur í samband við bæinn og svo náttúrulega mubla bæinn upp. Semsé einhver kostnaður en á móti kæmu tekjur inná íbúðina vegna leigu til listamanna. Tæki líklega nokkur ár að ná núllinu en þannig er það einmitt í listinni. Fyrstu árin er mínus á dæminu en svo stefna allir að stóra núllinu og það ætti alveg að takast í þessu tilfelli.

Sjálfur væri ég meira en til í að dvelja á eyðibýli til að skapa og vinna við mína list. Nokk viss um að fleiri væru til í það líka. Svo fyllum eyðbýlin af lífi og sköpun.  


mbl.is Ríkið á 160 eyðijarðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rommí á Bíldudal

Það má vel segja að leiklistarlífið hafi verið í góðum gangi á Vestfjörðum síðustu ár. Áhugaleikfélögin hafa sett upp hvert stykkið á fætur öðru og það sem enn betra er að mörg félög hafa verið að vakna af sínum Þyrnirósadvala. Nú hefur hið fornfræga Leikfélagið Baldur á Bíldudal vaknað á nýjan leik og er að frumsýna núna á helginni. Um er að ræða hinn vinsæla gamanleik Rommí. Það eru stórleikarar staðarins þau Hannes Friðriksson og Þuríður Sigurmundsdóttir sem fara með hlutverkin. Leikurinn gerist á dvalarheimili eldri borgara og má segja að fast sé skotið, enda er gamanleikurinn einmitt beittastur og bestur í að stinga á kílum samfélagsins.

Rommí verður frumsýnt í Baldurshaga á Bíldudal núna á laugardag 17. maí kl.20. Önnur sýning verður á fimmtudag 22. maí kl.20. Leikstjóri sýningarinnar er yðar einlægur en gaman að geta þess að það var einmitt þarna sem leikferillinn hófst. Einmitt með Leikfélaginu Baldri í Baldurshaga í janúar 1977. Þetta er í fyrsta sinn sem ég leikstýri á senuæskuslóðum og þið getið rétt ímyndað ykkur stemmarann í mínu hjarta.

Leikfélagið Baldur á Bíldudal á sér langa og merka sögu. Félagið var stofnað í lok janúar árið 1965 og fagnar því hálfrar aldar afæmli á næsta ári. Félagið hefur sett á svið yfir 20 leikverk það fyrsta var á Vængstýfðum englum árið 1966. Meðal annarra verka sem Baldur hefur sett á svið má nefna Maður og kona, 1968, Mýs og menn, 1971, Skjaldhamrar, 1978, Höfuðbólið og hjálegan, 1992, Jóðlíf, 1995, og Sviðsskrekkur, 2000. Auk þess stóð Leikfélagið Baldur lengi fyrir árshátíð þar sem ávallt var boðið uppá heimasamin stykki oftast úr smiðju meistara Hafliða Magnússonar.

Það er til marks um endurnýjun lífdaga Baldurs að það er einmitt allt í gangi hér á Bíldudal. Þorpið yðar að lífi og allt er þetta jú einsog spilaborg. Atvinna og skemmtun fara afar vel saman.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband