Skyrgámur kom til byggða í nótt og læddi góðgæti í skó allra barna á landinu og víðar. Skyrgámi finnst skyr afskaplega gott og áður fyrr stalst hann gjarnan í skyrtunnuna og hámaði í sig þangað til hann stóð á blístri. Skyrgámur er stór og sterkur enda er skyr afar hollt eins og allir vita. Reyndar er hann ekki alveg sáttur við skyrflóruna í dag, eins og fram kemur í jólaleikritinu Jólasveinar Grýlusynir. Hann fílar ekki karamellu-, jarðaberja- eða súkkulaðimintuskyr heldur vill hafa skyrið einsog í gamla daga, þykkt, súrt og bragðsterkt og mikið af því. Útlitið er líka í stíl við matarvenjurnar því hann lítur út einsog tunna eða einsog hann segir sjálfur frá í vísunni sem er að finna í leikritinu:
SKYRGÁMUR
Líttu' á mig, - ég lít út einsog tunna!
Já - eitt er það sem fáir aðrir kunna:
að tæma aleinn ámu risastóra
sem venjulega dugar fyrir fjóra.
Hún troðfull er af skyri beint frá bænum
ég tæmi'ana til botns í einum grænum.
Svo sit ég bara afvelta og get mig ekki hreyft,
ég veit það bara að þetta hefði Grýla aldrei leyft,
hvort sem skyrið hefði verið gefins eða keypt!
Skyrrrrrrr
Skyrrrrrrr
Skyrrrrrr
Jólasveinar Grýlusynir verða sýndir í Tjöruhúsinu núna um helgina á laugardag og sunnudag og hefjast sýningarnar kl.14. Miðasala á www.komedia.is
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.