Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

KÓMEDÍUFRÚIN OPNAR MYNDLISTARSÝNINGU Á KAFFI EDINBORG Á ÍSÓ

Í dag klukkan 17. opnar Kómedíufrúin, Marsibil G. Kristjánsdóttir, myndlistarsýningu á Kaffi Edinborg á Ísafirði. Um sölusýningu er að ræða og verður sýningin opin út nóvember mánuð. Kómedíufrúin hefur verið í miklu stuði þetta árið og er þetta sjötta einkasýning hennar á þessu ári.

PÉTUR OG EINAR AFTUR Á SVIÐ

Sýningar á leikritinu vinsæla Pétur og Einar hefjast að nýju í kvöld eftir stutt hlé. Leikurinn var sýndur alls 14 sinnum í sumar við fádæma vinsældir. Í kvöld kl.20 fer leikurinn aftur á fjalirnar og að vanda er sýnt í Einarshúsi í Bolungarvík. Miðasala fer fram í Einarshúsi einnig er hægt að panta miða með því að senda tölvupóst á ragna@einarshusid.is Sýningarstaðurinn er vel við hæfi því sögupersónur leiksins bjuggu einmitt í þessu húsi sem er nú orðinn vinsæll veitingastaður og kaffihús. Í þessari sýningu túlkar Elfar Logi Hannesson líf og störf þeirra manna sem settu hvað mestan svip á Bolungarvík á miklum uppgangstímum og sveipar sögu þeirra ævintýraljóma. Frumkvöðlarnir Pétur Oddsson og Einar Guðfinnsson voru miklir athafnamenn hvor á sínum tíma og stjórnuðu stórveldum sínum af skörungsskap. Þeir bjuggu báðir í húsi harma og hamingju, Péturshúsi sem síðar var nefnt Einarshús. Höfundur og leikstjóri er Soffía Vagnsdóttir og tónlistarstjóri er Hrólfur Vagnsson. Fleiri sýningar verða á Pétri og Einar í nóvember og er rétt að benda sérstaklega á sýninguna laugardaginn 29. nóvember en þá verður einnig boðið uppá veglegt jólahlaðborð með sýningunni. Þegar skammdegismyrkur skellur á er gott að skella sér í leikhús. Það hressir og kætir.


SIGRÍÐUR RAGNARSDÓTTIR BÆJARLISTAMAÐUR ÍSAFJARÐARBÆJAR

Á lokadegi menningarhátíðarinnar Veturnætur, í gær, var tilkynnt hver væri Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar næsta árið. Það var sannarlega mikill spenningur í Edinborgarhúsinu í gær þegar Bæjarlistamaðurinn var kynntur, hver skyldi nú verða Bæjarlistamaður? Fjölmargir koma til greina hverju sinni því staðreyndin er sú að hér í Ísafjarðarbæ er heill hellingur af flottum listamönnum. Óhætt er að segja að valið á bæjarlistamanni þessa árs sé sérlega glæsilegt og er viðkomandi vel að Bæjarlistanafnbótinni komin. Bæjarlistamaður ársins er Sigríður Ragnarsdóttir tónlistarmaður og skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar. Sigga, einsog við köllum hana alltaf, hefur gert hvert kraftaverkið á fætur öðru í listalífinu hér fyrir vestan. Hún hefur stjórnað Tónlistarskólanum með miklum bravúr enda er skólinn einn sá besti hér á landi. Ávallt er Sigga tilbúin að aðstoða listafólk hér á svæðinu og er Kómedíuleikhúsið þar ekki unandskilið. Sigga hefur aðstoðað Kómedíuleikhúsið á svo margan hátt að seint verður full þakkað fyrir það. Mörg Kómísk verkefni hefðu örugglega ekki komist á koppinn ef hjálp Siggu hefði ekki komið til og má þar nefna fyrst og fremst leiklistarhátíðina Act alone. Sigga opnaði dyr Tónlistarskólans fyrir hátíðinni þegar hún var haldin í fyrsta sinn og þær dyr hafa ávallt verið opnar síðan. Einnig hefur Kómedía marg oft fengið að sýna verk sín í Hömrum sal Tónlistarskóla Ísafjarðar. Listamenn sem sækja Ísafjörð heim hafa jafnan leitað til Siggu sem hefur ávallt tekið þeim vel enda hefur Tónlistarskólinn alla tíð verið öflugur í að flytja hingað framsækið listafólk. Hér hefur aðeins lítið verið nefnt um Bæjarlistamanninn Siggu og vantar alveg helling hér inní þessa mynd. Kómedíuleikhúsið óskar Siggu innilega til hamingju og þökkum kærlega alla veitta aðstoð og góðan skilning í gegnum árin.

KNALL Í TJÖRUHÚSINU UM HELGINA

Á sunnudag hefst nýr dagskrá liður hjá Kómedíuleikhúsinu á Ísafirði en í vetur munum við bjóða uppá Einleikna leiklestra þar sem fluttir verða kunnir og ókunnir einleikir. Fyrsti Einleikni leiklesturinn er helgaður leikskáldinu Jökli Jakobssyni en í ár eru 75 ár frá fæðingu hans. Fluttur verður einleikurinn Knall eftir Jökul og hefst leikurinn kl. 14 á sunnudag í Tjöruhúsinu á Ísafirði en þar hefur Kómedía fengið inni í vetur. Það er leikarinn Árni Ingason sem flytur leikinn. Einnig mun Kómedíuleikarinn flytja erindi um leikskáldið Jökul Jakobsson. Aðgangur er ókeypis en boðið verður uppá kaffi og pönsur á Kómísku verði.

GÍSLI SÚRSSON HEFUR NÚ VERIÐ SÝNDUR 180 SINNUM

Það var stór dagur í sögu Kómedíuleikhússins í morgun því þá var einleikurinn Gísli Súrsson sýndur í 180 sinn. Já, alveg rétt það eru komnar 180 sýningar sem er bara alveg geggjað. Þessi sögulega sýning var í Kársnesskóla í Kópavogi og voru undirtektir nemenda mjög góðar. Það var vel við hæfi að 180 sýningin væri einmitt í skóla því leikurinn hefur einmitt oftast verið sýndur í skólum um land allt. Vart þarf að taka það fram að þetta er nýtt sýningarmet hjá Kómedíuleikhúsinu. Gísli Súrsson er þó hvergi nærri hættur næsta sýning er í fyrramálið í Foldaskóla. Eftir áramótin mun Gísli herja á skóla á höfuðborgarsvæðinu á nýjan leik og hafa þegar verið bókaðar fjölmargar sýningar. Sýningin um útlagann Gísla Súrsson hefur annars farið mjög víða og verið sýnd hringinn í kringum landið og einnig erlendis í Albaníu, Lúxembúrg og Þýskalandi. Sýningin hefur tvívegis fengið verðlaun á erlendum leiklistarhátíðum. Loks er rétt að geta þess að leikurinn hefur einnig verið sýndur í enskri útgáfu m.a. fyrir erlenda nemendur við Háskólasetur Vestfjarða. Erfitt er að spá um það hve leikurinn verður sýndur lengi allavega út næsta ár og vonandi lengur. Regla Kómedíuleikhússins er sú að á meðan leikarinn hefur gaman af því að sýna verkið þá mun leikurinn vera á dagskránni jafn lengi og leikgleðin ræður ríkjum. Þetta er nú engin ný kenning í heimi leiklistarinnar því það sem skiptir mestur máli í leikhúsinu er að leikarinn hafi gaman af því sem hann er að gera og það höfum við svo sannarlega hér í Kómedíuleikhúsinu og ja kannski verður Gísli Súrsson bara á fjölunum eins lengi og sá Kómíski tórir. Kómedíuleikhúsið vill að lokum þakka öllum þeim fjölda áhorfenda sem hafa séð sýninguna um Gísla Súrsson kærlega fyrir góða stund í leikhúsinu. Við hlökkum svo til að hitta alla hina sem eiga eftir að sjá Gísla Súrsson.

AFMÆLISTILBOÐ - STEINN STEINARR Á 500 KALL

Í dag er afmælisdagur vestfirska ljóðskáldsins Steins Steinars en hann fæddist 13. október árið 1908 á Laugalandi í Nauteyrarhreppi. Steinn Steinarr hefur verið í miklu uppáhaldi hjá Kómedíuleikhúsinu fyrr á árinu frumsýndi leikhúsið ljóðaleikinn Búlúlala - Öldin hans Steins í tilefni af aldarafmæli skáldsins. Leikurinn hefur verið sýndur víða um land og fengið afbragðs viðtökur. En þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kómedía setur Steins Steinar verk á svið. Því árið 2003 frumsýndi leikhúsið einleikinn Steinn Steinarr og var leikurinn bæði sýndur á Ísó og í Borgó. Einleikurinn Steinn Steinarr var síðan gefin út á mynddiski. Í tilefni af afmælisdegi Steins Steinars verður mynddiskurinn Steinn Steinarr á sérstöku tilboði í dag aðeins 500 kall sem er þúsund króna afsláttur af útsöluverði. Nú er lag að gera góð kaup, sendum hvert á land sem er og það er auðvelt að panta sendið bara tölvupóst á komedia@komedia.is og diskurinn er þinn. Hér að neðan eru nánari upplýsingar um einleikinn Steinn Steinarr.

STEINN STEINARR - EINLEIKUR Á DVD
DVD
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Handrit: Elfar Logi Hannesson, Guðjón Sigvaldason
Leikstjórn: Guðjón Sigvaldason
Verð: 500. kr (var áður 1.500)
Panta:
komedia@komedia.is
Einleikur Kómedíuleikhússins Steinn Steinarr er nú loksins fáanlegur á DVD. Leikurinn er byggður á verkum og ævi skáldsins en 98% textans er eftir Stein sjálfan. Þetta er mjög áhugaverð, vel gerð og skemmtileg sýning sem hlaut mikla athygli þegar hún var frumsýnd árið 2003. Ekki má heldur gleyma fræðslugildi verksins sem er mjög mikið.
Steinn Steinarr er eitt þekktasta ljóðskáld Íslendinga á 20. öld. Hann hét réttu nafni Aðalsteinn Kristmundsson og fæddist árið 1908. Þegar Steinn kom fram á ritvöllinn hóf hann þegar að brjóta reglur sem ríkt höfðu í skáldskap um langa hríð og varð mjög umdeildur fyrir vikið. Harðorðar greinar birtust í blöðum um Stein og skáldskapur hans var kallaður tómvitleysa af sumum. Aðrir á hinn bóginn fögnuðu framlagi hans og töldu að loksins væri komið fram skáld sem þyrði að breyta staðnaðri, íslenskri ljóðlist. Núna hrífast flestir af skáldskap Steins. Ljóð hans eru þjóðinni mjög kær og við mörg þeirra hafa verið samin lög. Steinn Steinarr andaðist árið 1958, rétt tæplega fimmtíu ára að aldri.


NEGUS NEGUSI Í REYKJAVÍK KL.16

Kómedíuleikarinn flytur úrval ljóða úr smiðju Steins Steinars í gömlu kafffibrennslu Ó Johnson og Kaaber Sætúni. Í gær var opnuð í húsinu myndlistarsýning Sigurðar Þóris sem hann byggir á ljóðabálki skáldsins Tíminn og vatnið en rétt er að geta þess að vegleg bók hefur komið út með verkunum í tengslum við sýninguna. Kómedíuleikarinn mun flytja ljóð úr ljóðaleiknum Búlúlala í dag m.a. samnefnt ljóð sem segir af Negus Negusi önnur ljóð sem flutt verða eru m.a. Kvæðið um veginn, Að frelsa heiminn, Í tvílyftu timburhúsi og Tindátarnir. Lesturinn hefst kl.16 í dag og er aðgangur ókeypis.

STEINS HÁTÍÐ Í GÖMLU KAFFIBRENNSLUNNI

Myndlistarmaðurinn Sigurður Þórir opnar myndlistarsýningu kl.15 á morgun, laugardag, í gömlu kaffibrennslunni Ó Johnson & Kaaber Sætúni 8. Sýningin er byggð á ljóðabálki vestfirska skáldsins Steins Steinars Tíminn og vatnið og hefur listamaðurinn unnið að þessari sýningu í nokkur ár. Í tilefni af þessari merku sýningu og aldarafmæli Steins, sem er á mánudaginn, verður boðið uppá sannkallaða listaveislu og Kómedíuleikhúsið tekur þátt enda Steinn uppáhalds skáld leikhússins. Sýningin opnar á morgun og verður strax boðið uppá veglega Steins dagskrá. Leikin verður upplestur Steins á Tímanum og vatninu. Klukkan fjögur verður sérstök dagskrá sem Vernharður Linnet kynnir en þar koma fram Hjalti Rögnvalsson, leikari, og meistari Raggi Bjarna sem mun flytja lag sig Barn við ljóð Steins, sem er að margra mati eitthvert fallegast íslenska ljóðalagið. Á sunnudeginum mun síðan Kómedíuleikarinn flytja úrval ljóða eftir Stein Steinarr og hefst dagskráin kl.16. Daginn eftir á afmælisdegi Steins mun Hörður Torfa vera með tónleika þar sem hann flytur lög er hann hefur samið við ljóð Steins. Tónleikarnir hefjast kl.20.30 og er aðgangseyrir aðeins 2.000.kr. Sýning Sigurðar Þóris stendur til 26. október og er opið alla daga frá 14. - 18.


AFHVERJU HEITIR ÞÁTTURINN EKKI SÖNGFLUGAN FREKAR EN SINGING BÍ

Yngsta Kómedíudóttirin er sérlega orðheppinn enda algjör prinsessa. Um daginn var verið að horfa á Skjá einn í Túninu heima og þá akkurart byrjar þátturinn með Jónsa sem heitir Singin Bí. Og þá segir prinsessan: Jibbý, Söngflugan er að byrja.

Já, einmitt afhverju heitir þátturinn ekki Söngflugan, miklu flottara nafn. Íslenskt og þetta er jú íslensk stöð þó hún sýni aðllega erlenda raunveruleikaþætti og annað léttmeti. Nafnið Söngflugan gæti líka tengt þáttinn óbeint við dægurlagasmellinn Litla flugan eftir Sigfús Halldórs og er því alveg tilvalið nafn á íslenskum tónlistarþætti. Ég mælist því til þess að Skjár einn breyti nafni þáttarins hið snarasta í hið músíkalska nafn Söngflugan. Enda er nú verið að hvetja landann til að kaupa íslenskt og þá þurfum við nú líka að hugsa um það að tala íslensku og nota íslensk nöfn sérstaklega á svona þáttum sem einmitt æskan hefur áhuga á. Já, prinsessan veit hvað hún syngur í þessu sem öðru.


KÓMEDÍA Í REYKJAVÍK

Kómedíuleikhúsið er nú komið til borgarinnar og mun næstu dagana flakka á milli skóla á höfuðborgarsvæðinu. Leikurinn hefst í fyrramálið með sýningu á Dimmalimm á Leikskólanum Bakka. Um helgina mun Kómedíuleikarinn síðan les úrval ljóða eftir Stein Steinarr á myndlistarsýningu Sigurðar Þóris. Listamaðurinn hefur lengi unnið að myndskreytingu ljóðabálksins Tímans og vatnsins eftir Stein. Upplesturinn á sunnudaginn hefst kl.16. Gísli Súrsson verður svo á ferð og flugi milli skóla í næstu viku en fyrsta sýning verður í Árbæjarskóla. Kómedíuleikhúsið hefur síðustu árin farið reglulega til borgarinnar til að heimsækja skóla með sýningar sínar og hefur ávallt verið vel tekið. Suður leikferðirnar verða að vísu tvær þetta haustið því í desember verður Kómedíuleikhusið með Jólasveina Grýlusyni á höfuðborgarsvæðinu.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband