Færsluflokkur: Menning og listir

Þjónustufyrirtæki á Ísafirði græddu 275.500.- um helgina

Það var sannkölluð menningarhelgi á Ísafirði núna um helgina frekar mætti kannski segja að þetta hafi verið menningarárás. Á föstudag frumsýndi Litli leikklúbburinn á Ísafirði nýja sýningu Á skíðum skemmti ég mér fyrir troðfullu húsi. Önnur sýning var í gærkveldi. Í dag opnaði svo nýtt gallerý á Ísafirði Fjör 10 þrep sem er til húsa í Listakaupstað. Opnunarsýningin nenfist Ein stök hús en þar sýna dýrfirsku listamennirnir Jóhannes Frank Jóhannesson og Marsibil G. Kristjánsdóttir. Eins og nafnið gefur til kynna er hér um að ræða eyðibýli sem þau túlka í ljósmyndum og teikningum. Hátt í 80 manns mættu í opnuna. Í heildina sóttu 290 manns þessa menningarviðburði um helgina á Ísafirði. Ekki slæmt það. En það er einn mikilvægur þáttur sem alltof sjaldan er velt upp og enn færri átta sig á en það er hvað menningin gefur í monnípeningum fyrir þjónustufyrirtæki á svæðinu. Það er nefnilega ekki svo einfalt að fólk mæti bara á viðkomandi viðburð og borgar sig inn. Nei, það er fjölmargt annað sem menningin skapar. Alltof langt væri að nefna þann langa lista sem tengist hverjum menningarviðburði í utanaðkomandi verslun. En sem dæmi má nefna að sumir fara í klippingu og láta lappa uppá sig fyrir kvöldið, aðrir panta sér pizzu áður en þeir fara í leikhúsið eða fara jafnvel út að borða, margir fara akandi á menningarstaðinn og það kostar nú bensíndropinn í dag þó stutt sé á milli staða hér vestra, sumir eru með barnapíu og hún þarf að fá sitt snakk og appelsín, á staðnum eru stundum veitingar til sölu og líklegt að flest fái sér eitthvað, að loknum viðburði er ósjaldan farið til að krifja menninguna og þá er gott að fara á kaffihús eða á næsta bar og þannig mætti lengi telja. Ef við segjum að hver gestur menningarhelgarinnar á Ísafirði hafi eytt 950 krónum í utanaðkomandi kostnað þá gerir það heilar 275.500.- krónur sem þjónustufyrirtæki á Ísafirði fengu í sinn hlut. Það er nú þokkaleg tala.

Menningarárás á Ísó

Það verður sannkölluð menningarárás í menningarbænum Ísafirði núna um helgina. Í kvöld frumsýnir litli leikklúbburinn leik-og söngvasjóvið Á skíðum skemmti ég mér í Edinborgarhúsinu svo gott sem uppselt er í kvöld þegar þetta er párað. Hér er á ferðinni leikandi hress sýning þar sem brugðið er upp mynd af stemmaranum á Íslandi á sjöunda áratugnum í gegnum músíkina og leik og sprell. Þeir eru ófáir dægurlagasmellirnir á sjöunda áratugnum og margir þeirra eru enn hittarar í dag. Nægir að nefna lög á borð við Segðu ekki nei, María Ísabell, Í sól og sumaryl, Spánardraumur, Í kjallaranum, Þú ert minn súkkulaðiís, Hoppsa bomm eða Á skíðum skemmti ég mér einsog við þekkjum það betur og hér eru aðeins nokkrar dægurflugur nefndar. Stór hópur listamanna stígur á stokk sjö leikarar og söngvarar og jafnmargir eru í hljómsveit hússins. Önnur sýning er á morgun og svo verður sýnt allar helgar alveg fram yfir páska. Þetta er 81. verkefni Litla leikklúbbsins en félagið hefur verið á miklu flugi síðustu ár og sýndu meðal annars fyrir áramót Emil í Kattholti sem var sýnt við fádæma vinsældir. En það er meira í gangi í menningunni á Ísó um helgina því á sunnudag opnar nýtt gallerý er nefnist Fjör 10 þrep. Gallerýið er til húsa í Listakaupstað, Norðurtanga, á þriðju hæð. Opnunarsýning gallerýsins er Ein stök hús. Þar sýna dýrfirsku listamennirnir Marsibil G. Kristjánsdóttir verk sín byggð á eyðibýlum á Vestfjörðum. Marsibl sýnir teikningar en Jóhannes ljósmyndir en hvert eyðibýli er fangað útfrá sama sjónarhorninu. Eyðibýli á Vestfjörðum eru fjölmörg og má í þessari sýningu sjá fyrrum mannabústaði frá Arnarfirði, Dýrafirði og Ísafjarðardjúpi. Sýningin Ein stök hús opnar kl.14.01 á sunnudag og allir velkomnir. Boðið verður uppá veitingar að hætti efnisins rúgbrauð með kæfu og brauð með púðusykri og svar kaffi til að skola þessu niður með. Eftir opnunina verður sýningin opin á fimmtudögum og föstudögum frá kl. 15 - 17 og á laugardögum frá kl. 13 - 15. Já, þetta er nú bara svona einsog maðurinn sagði - menningin er málið og hér vestra er menningin okkar stóriðja. Góða menningarlega helgi og velkomin á ísó.

Barnaleikhús á Íslandi í útrýmingahættu

Í dag er Alþjóðlegi barnaleikhúsdagurinn sem haldin er árlega um heim allan og líka hér en kannski verður það einsog í kvæðinu eftir Stein Steinarr ,,ekki meir, ekki meir". Því miður er skilningur á barnaleikhúslistinni í menningarráðuneytinu við Sölvhólsgötu minni en pínulítið. Nýjasta dæmið er síðasta úthlun Leiklistar(vina)ráðs þar sem engar barnaleiksýnignar fengu úthlutun ekki einu sinni Möguleikhúsið sem hefur starfað ötulega og í raun rutt brautina fyrir barnaleikhúsmenningu á Íslandi í gengum síðustu áratugi. Hvað veldur? Kannski einkum það að stefna í þessum málum einsog ég nefndi í síðustu blogg færslu er engin. Svo fáranlegt sem það er. Síðustu árin hafa Möguleikhúsið og fleiri hópar t.d. mitt Kómedíuleikhús heimsótt leik-grunn- og framhaldsskóla með leiksýningar. Já bara komið með leikhúsið í skólana sjálfa. Þannig hafa margir kynnst leikhúsinu í fyrsta sinn. En einsog háttur er í pólitíkinni þá er náttúrulega byrjað á því að skera niður í menningar og menntamálum og í dag eru þessar sýningar í skólum ,,ekki meir, ekki meir" því liðurinn í skólanum ,,kaup á leiksýningum" fór undir pennastrikið. Og um leið er kippt fótunum undir starfsemi fjölmarga sjálfstæðraleikhópa. Sem er nú samt ekki alvarlegasti þátturinn í þessum niðurskurði heldur miklu frekar það að nú er leikhús fyrir æskuna orðinn munaðarvara og aðeins þeir sem eiga eitthvað aflögu af monnípeningum fá tækifæri til að ,,borga" sig inná sýningar. Eða raunar er það nú ekki undir þeim komið heldur frekar okkur uppalendum. Það hefði verið gaman að fagna og gleðjast á þessum Alþjóðlega barnaleikhúsdegi en því miður er það ekki í boði og enn sem komið er höfum við ekki heyrt nein gleðitíðindi frá Sölvhólsgötu. Nú er bara að vona að barnaleikhús á Íslandi hljóti ekki sömu örlög og Geirfuglinn.

Stefnulaus menningarpólitík á Íslandi

Var að fá í hendur spennandi bók Íslensk menningarpólitík eftir Bjarka Valtýsson Nýhil gefur út. Hef aðeins verið að blaða í skruddunni og margt mjög intresant. Það er óskandi að leikarar Austurvallaleikhússins kynna sér þetta rit því nú loksins fá þeir þetta á blaði sem virðist skipta miklu máli hjá þeim en þó mætti vera meira af súluritum og slíku því það skilja þeir víst best. Það verður að viðurkennast að stefna í menningarmálum hjá hinu opinbera sem og flestum sveitarfélögum er nánast engin. Meira að segja sjálft setrið Menntamálaráðuneyti er mest stjórnað af tækifærisdútlungum í stað þess að móta sér markvissa stefnu. Ég hef reynt að berjast fyrir því í gegnum árin að efla atvinnulistina á landsbyggð en við Sölvhólsgötu er engin skilningur né áhugi á slíku. Þar á bæ átta menn sig ekki á hve stórt tækifæri er fólgið í listinni á landsbyggðinni þar sem hvert starf er mjög mikilvægt og þegar um list er að ræða eru utanaðkomandi störf oft mörg. Einni lítilli leiksýningu fylgir nebblega ekki bara bisness fyrir leikararna heldur og fyrir fjölmarga þjónustu aðila í bæjarfélaginu. En því miður eru ekki til haldbærar tölur súlurit og solleiðs sem sýna fram á það. Ég veit ekki hvort mitt góða bæjarfélag Ísafjarðarbær er með einhverja stefnu í menningarmálum ef svo er þá hef ég ekki séð hana. Fyrir síðustu kosningar var ég boðaður á fund hjá einu stjórnmála apparatinu til að ræða menningarmál og hvað flokkurinn gæti gert í þeim málum. Það var meira en velkomið og lét ég bununa ganga enda lista og menningarlíf sérlega öflugt hér í bæ öflug félög starfandi, kórar og fjölmargir sjálfstæðir listamenn sem krydda lífið í bænum svo um munar. Því miður var ég ekki með neitt súlurit eða tölur á blaði til að sýna hve mikið listalífið skilar til bæjarins og sýna þeim t.d. að á leiklistarhátíðinni Act alone sem er haldin árlega hér þá eru nánast öll gistirími full, velta veitingastaðana er sérlega góð, kaffihúsin vel sótt enda lattefólk á ferðinni, það fílar líka föt og kaupir sér eitthvað smúkt í þess háttar verslunum, svo þarf það að borða og fer á matsölustaði í bænum, stundum í sjoppu þjóðarinnar Hamraborg og fær sér pylsu og kóla, í Samkaup og kaupir sér ávexti, fer í bókaverslanir og sjoppar þar eitthvað hámenningarlegt og þannig mætti lengi telja. En viti menn eftir þennan menningarpólitíska fund þá hefur það eina gerst að ákveðið var að skera niður hina árlega menningarviðburð bæjarins er nefnist Bæjarlistamaður. Viðburður sem kostar sirka 300 þúsund krónur plús nokkrar snittur og Sprite. En hefur haft gífurlega mikil áhrif auglýsingalega séð og þar að auki á jákvæðan hátt sem er nú sjaldgæft hér á landi í dag. Allir fjölmiðlar voru vanir að birta árlega hver væri bæjarlistamaður ársins já í öllum fjölmiðlum - sem þýðir á súluritinu - að þú næðir ekki einu sinni að auglýsa í öllum fjölmiðlum fyrir þessa monninga. Og vitanlega varð það svo sérstök frétt þegar ákveðið var að skera Bæjarlistamanninn niður og birt í öllum fjölmiðlum. Niðurstaðan mjög neikvæð frétt um bæjarfélagið - og þú þarft að auglýsa mega feitt til að bæta ýmyndina, ef það er þá hægt. Nóg párað í bili best að hefja lesturinn á Íslenskri menningarpólitík og óskandi að hið opinbera geri það líka.

Afskekt hugsun

Í Mogganum í gær er grein frá konu sem biður rithöfunda vinsamlegast að þeir láti sögur sínar ekki gerast á stöðum sem séu til heldur frekar tilbúnum stöðum eða jafnvel bara á eigin stöðum heimili og láti helst fylgja með heimilsfang höfundar. Beinir þessu einkum til þeirra er rita glæpa- og draugasögur. Gott og vel. Fyrir jólin kom einmitt út mögnuð glæpa- og draugasaga sem gerist á eyðijörðinni Hesteyri, verulega spúkí saga sem maður vill helst ekki lesa þegar maður er einn heima. Fyrir mér finnst mér áhrifaríkt þegar sögurnar gerast á ákveðnum stöðum og hvað þá stöðum sem ég þekki, og ef ég þekki ekki staðinn eða hef ekki komið þangað þá langar mig til að fara þangað eftir að hafa lesið viðkomandi sögu. Auðvitað veit ég að þetta er skáldskapur og þessir hlutir gerðust ekkert þarna en umhverfið er þarna og það er það sem gerir þetta að ævintýri. Restin er bara ýmunduarafl lesandans og höfundarins. Nú veit ég að þegar eru erlendir ferðamenn farnir að fara á tilbúna söguslóðir íslenskra glæpasagna og þá einkum slóðir Arnaldar, ég væri sko alveg til í að fara upp á fjall fyrir austan á heiðina þar sem atburðir bræðranna gerðust sem hafa fylgt sögupersónunni Erlendi í gegnum nánast allar sögurnar. Vá það yrði intresant ferð. Þetta er í raun stórt tækifæri í því sem nefnt er Menningartengd ferðaþjónusta. Undanfarin ár hafa margir gengið á söguslóðir Íslendingasagnanna og því ekki að fara líka á skáldsöguslóðir. Ég er alveg pottþéttur á því að strax í sumar munu fjölmargir leggja leið sína á Hesteyri sem hafa lesið hina mögnuðu drauga og glæpasögu sem kom út fyrir þessi jól, og það verður allt fólk sem hefur ekkert velt fyrir sér að fara á þennan stað fyrr en eftir að viðkomandi las umrædda sögu. Hér er komið mangað tækifæri fyrir Menningartengda ferðaþjónustu sjáum og nýtum tækifærin sem eru í okkar nánasta umhverfi.

Einelti er ljótur leikur

Undanfarið hafa verið talverðar umræður um þann ljóta löst okkar mannfólksins sem kallað er einelti. Öll umræða er af hinu góða og sannarlega er mikilvægt að reyna að stoppa þennan ljóta leik sem einelti er. Sjálfur viðurkenni ég að hafa tekið þátt í þessum rudda leik þegar ég var strákpolli vestur á Bíldudal fyrir þremur áratugum. Samt man ég það allt enn og var ég þó ekki þolandinn. Sú sem var tekinn fyrir lenti í því alla daga eftir skóla að við samnemendur hennar höfðum hana að spotti. Eina sem ég get sagt í dag er : Hvað vorum við að pæla? Ég mun aldrei gleyma þessu og sé eftir þessum ofleik mínum alla mína ævi. Við viðkomandi aðila get ég aðeins sagt: ,,Fyrirgefðu"

Hvað er til ráða? Vild ég hefði svarið. Fyrir nokkrum árum var reyndar kollegi minn Stefán Karl með herferð gegn einelti og kom það góða starf hans hreyfingu á málefnið. Kannski eitthvað slíkt þurfi að eiga sér stað í þessum leiðinda bardaga við það mein þjóðarinnar sem einelti er. Það hafa allt of margir reynslu af þessu meini hvort heldur það eru þolendur eða gerendur - við öll þurfum að standa að þessu átaki og útrýma einelti fyrir fullt og allt.


Lottó fyrir listina

Intresant hugmynd hjá einum leikara Austurvallaleikhússins að hluti af hagnaði Lottó monningana renni til lista á Íslandi. Viðkomandi Austurvallaleikari nefndi þetta á hinum einstöku DV menningarverðlaunum sem voru afhend um daginn. Ég er aldrei þessu vant hlyntur þessari hugmynd Austurvallaleikarans. Skilst að þetta sé gert víðar gott ef ekki í Bretlandi þar sem hluti Lottó monningana renna til listagyðjunnar. Vissulega og skiljanlega eru íþróttakappar og konur ekkert voða spennt fyrir þessu sem er alveg skiljanlegt. Ef maður hefur eitthvað þá vill maður halda því og ekkert minna. En það er nú samt ekkert hollt að hafa hlutina alveg eins til eilífðar þekkjum það að ef einhver kemst á spenann þá vilja hlutirnar drabbast niður og verða bara að einhverju apparati þar sem upphaflega hugmyndin og hugsjónin fjarar út með árunum. Einn sport kappinn benti nú á það í Sjónvarpinu í gær að íþróttir væru líka menning og listir, gott og vel, stígum þá skrefið til fulls og hleypum öllum listum inní lottóið. Ef allt spilast einsog ráðamenn Austurvallaleikhússins vinna þessa dagana, að hlusta ekki á fólkið heldur bara gera það sem þeir vilja, þá verður þessi breyting gerð á Lottóinu - þannig að, já, það eru ekki allir hlutir alslæmir þó þeir séu reyndar mjög slæmir núna í Austurvallaeinleikhúsinu.

JÓLASKRÆÐUR Á ÍSÓ 1. - 23. DES.

Undanfarin ár hefur Kómedíuleikhúsið tekið þátt í jólabókaflóðinu hér vestra með því að bjóða uppá Jólaskræður þar sem lesið er uppúr völdum bókum flóðsins. Í ár verður mikið lesið en það er Bókhlaðan á Ísafirði sem skaffar lestrarefnið. Jólaskræður hefjast 1. desember á veitingastaðnum Við pollinn kl.12.15 en gaman er að geta þess að boðið er uppá úrvals ,,smörrebröd" á staðnum sem er einn gamall og góður jólasiður hér á Ísó. Á fimmtudaginn tekur Kómedíuleikhúsið einnig þátt í fyrsta upplestrakvöldi Vestfirska glæpafélagsins sem verður haldið á Ömmu Habbý og hefst kl.21. Einsog nafn félagsins gefur til kynna eru glæpasögur í aðalhlutverki og verður lesið uppúr úrvali íslenskra krimma. Jólaskræður verða einnig í Bókhlöðunni á laugardag 5. des. kl.21 en þá verður mikið stuð á Ísó því þá verður einnig kveikt á jólatrénu á Silfurtorgi. Rétt er að geta þess að aðgangur að Jólaskræðum er að sjálfsögðu ókeypis einsog verið hefur frá upphafi. Jólaskræður Kómedíu annó 2009 eru:

1. des. kl.12.15 Veitingastaðurinn Við pollinn.

3. des. kl.21.00 Vestfirska glæpafélagið Amma Habbý

5. des. kl.14.00 Bókhlaðan Ísafirði

8. des. kl.12.15 Veitingastaðurinn Við pollinn

15.des. kl.12.15 Veitingastaðurinn Við pollinn

23.des. kl.12.15 Veitingastaðurinn Við pollinn

HEILSUGÆSLAN Í KÓPAVOGI

Tvær aukasýningar á Heilsugæslunni verða á Café Catalinu í Kópavogi um helgina. Leikurinn var sýndur fyrir skömmu á Catalinu fyrir troðfullu húsi og því hefur verið bætt við aukasýningum. Fyrri aukasýningin er á föstudag 27. nóvember og svo önnur strax daginn eftir á laugardag 28. nóvember, báðar sýningarnar hefjast kl.21.30. Miðasala er hafin á Café Catalinu í Hamraborg Kópavogi. Miðasölusími er: 554 2166 og miðaverðið það sama gamla góða aðeins 1.900.krónur.


Um Heilsugæsluna
Við hrósum okkur yfir háum meðalaldri, þjónustu í hæsta gæðaflokki og frábærum læknum. En er kerfið eins gott og af er látið? Er það hugsanlega farið að vinna gegn tilgangi sínum? Er aukinni eftirspurn sjúkdóma svarað með meira framboði? Hvaða tilgangi þjónar góð heilsa? Metum við líf í magni eða gæðum?
Leikritið, Heilsugæslan, er samið af lækni, Lýð Árnasyni, og gefur áhorfandanum sýn inn í þetta völundarhús og það sem býr að tjaldabaki.
Heilsugæslan er gamanleikur og öll hlutverk í höndum tveggja leikara, þeirra Elfars Loga Hannessonar og Margrétar Sverrisdóttur. Sýningin er ein klukkustund.
Heilsugæslan er hápólitískt leikrit og umfjöllunarefnið brennandi á íslenzku þjóðfélagi, ekki sízt núna, í skugga niðurskurðar.
Heilsugæslan fyrir alla!

HEILSUGÆSLAN UM HELGINA

Hápólitíski gamanleikurinn Heilsugæslan verður sýndur víða um helgina. Leikurinn hefst í Búðardal á fimmtudag 12. nóvember. Sýnt verður í Dalabúð og hefst sýningin kl.20.30. Daginn eftir föstudaginn 13. nóvember verður Heilsugæslan í Grundarfirði. Sýnt verður á hinum geggjaða stað Kaffi 59 og hefst leikurinn kl.20.30. Miðasala á báðar sýningarnar opnar hálftíma fyrir sýningu. Á laugardag 14. nóvember verða tvær sýningar á Vestfjörðum. Fyrri sýningin er í Arnardal og hefst kl.20.30. Heislugæslan flytur sig svo yfir í Súgandafjörð og verður með miðnætursýningu í Félagsheimilinu. Sýningin hefst kl.23.30 og er gaman að geta þess að þetta er jafnframt tuttugasta sýningin á Heilsugæslunni. Heilsugæsluhelginni lýkur svo í Arnardal á sunnudag 15. nóvember með sýningu kl.20.30. Miðasala á sýningarnar í Arnardal er þegar hafin í síma 860 6062 einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið arnardalur@arnardalur.is

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband