Færsluflokkur: Menning og listir

Myndlistin blómstrar fyrir vestan

Það hefur verið gaman að fylgjast með uppgangi myndlistarinnar fyrir vestan á þessu ári. Fjölmargar sýningar hafa verið í gangi það sem af er árinu og mikið framundan. Mánaðarlega eru opnaðar sýningar í hinni einstöku verslun Hamraborg á Ísafirði, nýtt gallerý var opnað í Listakaupstað fyrir páska og myndlistarverkefnið Menningarhvellur var haldið í fyrsta sinn um páska með sýningum um allan bæ. Fyrir skömmu opnaði Marsibil G. Kristjánsdóttir sýningu í minnsta gallerý þjóðarinnar er nefnist Búrið og er staðsett í miðbæ Ísafjarðar. Sýningin ber nafnið Tröll í búri og hefur vakið mikla athygli. Búrið er opið alla daga ársins allan sólarhringinn. Í sumar verður svo hið flotta myndlistarverkefni Æringi haldið fyrstu vikuna í júlí í Bolungarvík. Fjölmargt annað er framundan í myndlistinni fyrir vestan í júlí verður t.d. opnuð sýningin Einstakir listamenn - Listamaðurinn með barnshjartað á Gíslastöðum í Haukadal. Einsog mörgum er kunnugt er hér um að ræða alþýðulistamanninn Samúel Jónsson í Selárdal. Einnig verða á sýningunni myndir eftir listahjónin á Hofi í Dýrafirði sem einnig skipa flokk vestfirskra einfara í íslenskri myndlist. Aðgangur að sýningunni er ókeypis. Vorið í íslenskri myndlist er sannarlega fyrir vestan árið um kring og ég hvet landsmenn alla að upplifa kraftinn og sköpunarkarft vestfirskra myndlistamanna. Það er alveg þess virði og vel það. Verið velkomin vestur og njótið vel.

Einstakir vestfirskir listamenn

Það er ekkert djók né miklar ýkur hve margir listamenn koma frá Vestfjörðum. Listinn er svo langur að það yrði mjög langt kómedíublogg. Ég hef lengi verið áhugamaður um að kynna þennan fjölbreytta hóp vestfirskra listamanna og er nú með í pípunum bók hvorki meira né minna. Fyrst langaði mig að búa til svona einskonar uppfletti rit þar sem fjallað væri í stuttu máli um alla vestfirsku listamennina. En eftir stuttan göngutúr og kúnst hugsun ákvað ég heldur að afmarka hópinn. Niðurstaðan er hópur listamanna sem hafa allir farið sína eigin leið í listinni án þess þó að vera sífellt á vörum fólks né í öllum glanstímaritum þjóðarinnar. Alls hef ég gert mér lista með tíu einstökum vestfirskum listamönnum sem fylla þennan flokk auk þess sem list viðkomandi listamanna hafa haft mikil áhrif á mig sem listamann. Hugmyndin er meira að segja komin það langt að ég er byrjaður að skrifa og búinn að tryggja mér frábæran hönnuð við bókina. Form bókarinnar verður á þá leið að sagt verður frá hverjum listamanni í stuttu máli en svo list þeirra gerð skil á veglegan máta með myndasíðum. Hvenær verkið verður tilbúið til útgáfu veit ég ekki en gaman væri ef það gerðist á þessu ári.
Til gamans birti ég hér grein um einn af Einstöku vestfirsku listamönnunum, Hjálmar Þorsteinsson eða Hjálmar goggur eða ölluheldur Pilsa-Hjálmar:

Hjálmar goggur eða Pilsa-Hjálmar
Nafn Hjálmars Þorsteinssonar hringir kannski ekki mörgum bjöllum hjá fólki í dag. Kappinn sá var hæfileikamaður sem flakkaði milli bæja og skemmti fólki. En hér á öldum áður voru menn sem flökkuðu um Ísland og þar sem þeir áðu unnu þeir sér fyrir fæði og húsnæði. Voru einskonar farandverkamenn en fengu þó sjaldan aura fyrir starfið aðeins þak yfir höfuðið og mat í askinn. Sumir flakkaranna voru einnig skemmtikraftar, sögðu sögur í baðstofunni á kvöldin eða tóku lagið. Þeir sem kunnu eitthvað í listinni gerðu sumir hverjir sérstaklega út á það og þáðu greiðslu fyrir skemmtunina. Dagskrá þessara íslensku flökku einleikara var fjölbreytt þeir sögðu sögur, fóru með þulur og vísur og léku á alls oddi. Einn þekktasti flökku einleikari 19 aldar á Íslandi er án efa Hjálmar Þorsteinsson er kallaður var Hjálmar goggur þar sem hann hafði bogið nef líkt fuglsgoggi. Einnig hafði hann viðurnefnið Pilsa-Hjálmar sökum þess að hann sagðist ekki geta sofið nema hafa pils ofan á sér. Frægð hans má kannski rekja til þess að hann er sagður vera fyrirmyndin af Hjálmari tudda í skáldsögu Jóns Thoroddsen Maður og kona. Jón samdi einnig ásamt fleirum ljóðabálk um Hjálmar er nefnist Goggsraunir en vísur skáldsins má finna í kvæðasafni hans. Fjallað er um Hjálmar í vestfirskum sögnum og þar er honum lýst þannig ,,að hann hafi verið svartur á brún og brá, fyllilega meðalmaður á hæð, heldur óliðlegur í vexti, en grannvaxinn, toginleitur í andliti, með hýjungs-skegg á vöngum og nefið beygt niður að framan.” Hjálmar var frá Arnarfirði og á fyrstu árum æviskeið síns þótti hann ekki vera neitt öðruvísi en önnur börn. Þegar hann náði fjögura ára aldri þótti hins vegar breytingar á háttum og hegðun piltsins töldu margir hann jafnvel vera umskipting. Ekki þótti hann þó vera heimskur bara hagaði sér öðruvísi en aðrir. Hann lagðist fljótlega í flakk um Vestfirðina þó einkum um sína heimasveit í Arnarfirði. Birtist hann mönnum á bæjunum þannig að hann bar askinn á bakinu og næturgangið fyrir. Mönnum líkaði nú ekki allskostar vel gesturinn sumir buðu honum ekki gistingu en aðrir tóku við honum í skamman tíma. Ekki þótti hann góður í skapi og var orðaforðinn frekar dónalegur einkum ef honum mislíkaði eitthvað. Það var svosem ekki undarlegt að bændur tækjum þessi gesti ekki fagnandi því hann þótti ekki duglegur til vinnu einna helst var hægt að nota hann í að mala korn. Æskan var hrædd við Hjálmar og kvenfólkið var ekki heldur spennt fyrir honum. Sem er ekki að undra því hann átti það til að vilja ,,sjúga blessuð konubrjóstin.” Hann var hinsvegar trúr í sumum verkum og meira að segja var hægt að senda trúa honum fyrir bréfi með peningum í sem ætti að sendast með á einhvern bæinn. Þegar vel lá á Hjálmari skemmti hann heimilsfólki með leik og söng. Hann þótti stálminnugur kunni m.a. alla Passíusálmana utanbókar sem og margar vísur. Sögur voru í miklu uppáhaldi hjá honum og sátu svo fastar í kollinum að honum nægði að heyra söguna einu sinni til að geta farið með hana nánst orðrétta strax á eftir. Eftir að hafa flakkað um tíma um Vestfirði hélt hann norður í land en þar var honum tekið fálega og sendur til baka í sína heimasveit. Eigi líkaði honum allskostar vel í heimahéraði og kvaraði við Jón Thoroddsen sýslumann í Haga á Barðaströnd um hve fálega honum væri tekið á heimaslóð. Sýslumaður kemur honum þá fyrir á Litlu Eyri sem dugði þó skammt því aftur kvartaði Hjálmar til sýslumanns um illa viðgjörning þar á bæ. Eftir það brá sýslumaður á það ráð að koma honum fyrir viku og viku í senn á bæjum í Arnarfirði. Hjálmar stóð einnig fyrir sérstökum skemmtunum á bæjum í firðinum þar sem áhorfendum var gert að greiða fyrir skemmtunina sérstaklega. Kostaði áheyrnin 4 skildinga á mann og fékk hann ósjaldan marga til að hlýða á sig. Einu sinni gortaði hann sig af því að hann hafi fengið fleiri áheyrendur en presturinn í Otradal. Klerkur fékk 4 en Hjálmar 20 fleiri. Í heimildum er sagt frá því að Hjálmar hafi skemmt eitt sinn í Selárdal fjölda manns sem allir greiddu 4 skildinga fyrir sýninguna. Sat Hjálmar þá uppi á elhússtrompnum í Selárdal og flutti þar m.a. kvæðið Í fögrum dal hjá fjallabláum straumi. Eins og áður var getið samdi Jón Thoroddsen sýslumaður vísur um Hjálmar og nefndi þær Goggsraunir. Lærði Hjálmar braginn utanbókar og flutti á ferðum sínum. Hjálmar Þorsteinsson andaðist á Bíldudal 3. október 1876, 67 ára að aldri.
Heimildir:
Vestfirzkar sagnir. Safnað hefir Helgi Guðmundsson. 1. bindi. Bókaverzlun Guðm. Gammalíelssonar 1933 – 1937


Harpa Vestfjarða

Það var stór dagur í menningar- og listalífi þjóðarinnar í gær þegar músíkhúsið Harpa var formlega opnað. Því miður var maður ekki á staðnum upptekinn við listsköpun fyrir vestan. Hef því ekki séð höllina nema af myndum í sjónvarpi og já talandi um Sjónvarpið það hefði nú verið allt í lagi ef þeir hefðu sýnt frá opnuninni í Sjónvarpi (allra landsmanna) fyrir alla þá sem komust ekki en hefðu svo gjarnan viljað vera á pleisinu. Svona stórir dagar í listlífinu og lífinu almennt eru mikilvægir eftir nokkur ár spyr maður sig ,,Hvar varst þú þegar Harpa opnaði?". Þegar ég fer næst suður mun ég pottþétt kíkja í Hörpu og hlakka mikið til að sjá. Reyndar má segja að maður hafi fengið smá forsmekk af dæminu sem sýnir hve mikilvægt er að eiga vönduð og vegleg menningarhús hvar sem er á landinu. Fyrir skömmu var nefnilega Félagsheimilið í Bolungarvík opnað að nýju eftir miklar endurbætur sem hafa staðið í nokkur ár. Vissulega voru miklar umræður um framkvæmdina líkt einsog með Hörpu. En núna þegar húsið er tilbúið þá eru allir sáttir að ég tel líka þeir sem voru á móti tiltektinni á húsinu. Þannig er þetta nú bara sama verður ábyggilega með Hörpuna. Endurbyggingin á Félagsheimili Bolungarvíkur er líka mjög vel heppnuð og voru gárungarnir fljótir að nefna höllina Hörpu Vestfjarða. Mikið líf hefur verið í húsinu allt frá því það var opnað á nýjan leik og ég tel að það eigi bara eftir að aukast. Þarna er allt til alls, bæði hljóðgræjur og ljós og húsið almennt mjög snyrtilegt og með flottan karakter. Manni líður vel um leið og maður kemur inní húsið. Bolvíkingar, Vestfirðingar og landsmenn allir til hamingju með Hörpurnar fyrir sunnan og vestan. Framundan eru spennandi tímar í listalífi þjóðarinnar.

Þrítugur táningur

Það er stór dagur í menningarlífinu á Hólmavík í dag því fyrir 30 árum var þar stofnað hið stórskemmtilega Leikfélag Hólmavíkur. Til lukku með daginn Hólmvíkingar sem og Vestfirðingar allir. Félagið hefur verið afskaplega duglegt og heldur betur puntað uppá lista- og menningarlífið á Ströndum síðustu þrjá ártatugina. Krafturinn í Leikfélagi Hólmavíkur er slíkur að þau hafa sett upp fleiri verk en árin segja til um því verkefnaskráin spannar yfir 30 leikverk geri aðrir betur. Fyrir skömmu frumsýndi félagið svo enn einn leikinn Með táning í tölvunni sem hefur verið sýndur við fanta góðar viðtökur eftir því sem mér skilst. En gaman er að segja frá því að félagið ætlar að fara í leikferð um Vestfirðina með leikinn og er óskandi að sem flestir mæti á sýningar þrítuga táningsins á Hólmavík. Enn og aftur til lukku með daginn Leikfélag Hólmavíkur þið eruð rétt að byrja og það verður gaman að fylgjast með ykkur næstu þrjá áratugina.

Svo kom ,,Aldrei"

Fyrir tæpum áratug eða árið 2002 var ég í Skíðavikunefnd á Ísafirði. Þessi merka hátíð á sér marga sögu og hefur laðað margan manninn í bæinn. Þeir sem sóttu Skíðaviku á þeim tíma voru í raun fastur kjarni mest brottfluttir Ísfirðingar og einn og einn annar. Hinsvegar kom lítið af fólki er tengdist ekki Ísó eða Vestfjörðum. Við í Skíðavikunefnd veltu mikið fyrir okkur hvað væri hægt að gera til að ná til þessa hóps. Boðið var uppá fjölbreytta menningar og skíðadagskrá alla páskahelgina og lukkaðist allt vel. Árið eftir var ég einnig í Skíðavikunefnd og aftur var þetta rætt hvernig getum við stækkað hátíðina og náð til allra landsmanna. Enn og aftur var boðið uppá fína dagskrá og allt lukkaðist vel en náðum samt ekki útfyrir rammann. Svo kom 2004. Feðgar skelltu á rokkhátíð alþýðunnar er bar heitið Aldrei fór ég suður. Þarna var svarið komið - nú náðum við til allra ekki bara Vestfirðinga og Ísafirðinga heldur allra landsmanna. Framhaldið þekkja allir. Hátíðin er nú haldin áttunda árið í röð og hefst rokkið í kvöld. Samspil Skíðaviku og Aldrei fór ég suður er flottur kokteill og ekkert verri þó hann sé vel hristur. Fullur bær af fólki og dagskráin fjölbreytt ekki bara rokk heldur einnig myndlist útum allan bæ og leiksýningar í Edinborgarhúsinu. Áhrif hátíðar sem þessarar hefur gífurlega mikil áhrif á allt menningar og mannlíf á norðanverðum Vestfjörðum. Ekki skilar þetta okkur bara góðum minningum heldur og þá ekki síst slatta af monnípeningum í samfélaginu. Öll gistiheimili eru full á svæðinu og mikið líf í öllum þjónustufyrirtækjum. Mikill er máttur listarinnar.

Þjóðlegar hljóðbækur

Kómedíuleikhúsið hefur jafnt og þétt verið að hasla sér völl á hinum íslenska hljóðbókamarkaði. Þó ekki með einhverjum 2007 látum heldur höfum við unnið markvist að því að gefa út vandað efni sem hefur líka fengið þessar fínu móttökur. Síðan 2007 höfum við gefið út sex hljóðbækur og sú sjöunda er væntanleg á allra næstu dögum. Hljóðbækurnar okkar nefndum við einu nafni Þjóðlegar hljóðbækur því allar eru þær sprottnar uppúr hinum magnaða þjóðsagnaafi okkar. Þjóðlegu hljóðbækurnar fást á heimasíðu okkar www.komedia.is og í verslunum um land allt. Einnig starfrækjum við sérstakan Þjóðlegan hljóðbókaklúbb þar sem félagar fá árlega tvær hljóðbækur á mjög svo kómísku verði. Árgjaldið er 2.999.-krónur fyrir tvær hljóðbækur og er það afslátturinn 25% munar um það. Einnig fá félagar í Þjóðlega hljóðbókaklúbbnum 25% afslátt af öllum hljóðbókum okkar þannig er hægt að eignast allt safnið á kómsísku verði sem og versla vandaðar gjafir sem henta við öll tækifæri. Það er einfalt að skrá sig í Þjóðlega hljóðbókaklúbbinn sendið bara tölvupóst á netfangið komedia@komedia.is og þú færð hljóðbækurnar sendar heim með það sama. Gaman að segja frá því að það er ekkert sendingargjald í hljóðbókaklúbbnum og því skiptir ekki máli hvar þú býrð á landinu eða útí heimi eitt verð fyrir alla. Einsog áður gat er ný Þjóðleg hljóðbók væntanleg og enn er sótt í hinn þjóðlega sagnaarf nú eru það Bakkabræður og Kímnisögur. Hinar þjóðlegu hljóðbækurnar eru:
Þjóðsögur úr Vesturbyggð
Þjóðsögur úr Ísafjarðarbæ
Þjóðsögur úr Bolungarvík
Þjóðsögur af Ströndum
Þjóðsögur frá Súðavík
Þjóðsögur frá Hornströndum og Jökulfjörðum.

Hvernig væri nú að vera svolítið þjóðlegur og næla sér í Þjóðlega hljóðbók? Eða enn betra ganga í Þjóðlega hljóðbókaklúbbinn og eignast þær allar á besta fáanlega verðinu.


Félag vestfirskra listamanna

Um helgina var haldið Listamannaþing Vestfjarða í þriðja sinn. Þingið var haldið í Listakaupstað á Ísafirði og var þema þingsins menningartengd ferðaþjónusta. Mæting á þingið var með allra besta móti og voru fjörugar umræður um hina fjölbreyttu menningu á Vestfjörðum, strauma og stefnur og síðast en ekki síst framtíð. Flestir voru sammála um það að framtíðin væri björt. Einnig var sérstaklega fjallað um listahátíðirnar á Vestfjörðum sem eru hvorki fleiri né færri en fjórar og hafa allar náð að festa rætur í hinu íslenska menningarlífi. Síðast en ekki síst var lagt til að stofnað yrði Félag vestfirskra listamanna og var sú tillaga samþykkt. Vestfirski hátturinn var á málum starx var kosið í þriggja manna stjórn sem mun funda í fyrsta sinn eftir akkúrat viku á Þingeyri við Dýrafjörð. Einsog segir í 1. grein Félags vestfirskra listamanna þá eru þetta ,,samtök sem starfa að eflingu menningar og lista á Vestfjörðum. Félagar geta verið einstaklingar, félög, fyrirtæki, stofnanir eða sveitafélög. Fullgildur félagi telst sé er sótt hefur um aðild til stjórnar og hún samþykkt og fært á félagaskrá." Árgjald í félagið er 1.000.- krónur fyrir einstaklinga en 2.000.- krónur fyrir félög og fyrirtæki. Allir geta skrá sig í félagið hvort heldur menntaðir eða ómenntaðir listmenn sem og allir þeir sem unna vestfirskri list. Þeir sem vilja skrá sig í félagið sendi netpóst á komedia@komedia.is.
En hvert er hlutverk þessa félags í 2. grein félagsins stendur: ,,Hlutverk félagsins er að vinna að hagsmunamálum vestfirskra listamanna, efla lista- og menningarstarf á Vestfjörðum, stuðla að kynningu og markaðssetningu á vestfirskri list og listamönnum, stuðla að umræðu og fræðslu og vinna að auknu samstarfi iannan svæðis sem utan."
Það er sannarlega mikill hugur í vestfirsku listafólki og gaman verður að fylgjast með hvernig ævintýrið mun vinda uppá sig og þróast í framtíðinni.

Listamannaþing Vestfjarða í Listakaupstað

Á morgun, laugardaginn 9. apríl verður Listamannaþing Vestfjarða haldið í Listakaupstað á Ísafirði. Þema þingsins í ár er menningartengd ferðaþjónusta en einnig verður pælt og spegulerað um framtíð listagiðjunnar á Vestfjörðum almennt. Síðast en ekki síst verður lagt til að stofnað verði félag listamanna á Vestfjörðum. Listakaupstaður og Menningarráð Vestfjarða boða til þingsins í samstarfi við listamenn á Vestfjörðum. Þingið hefst kl.13 í Listakaupstað á Ísafðirði sem er til húsa í fyrrum frystihúsi Norðurtanga. Þingið er öllum opið bæði listamönnum, félögum sem og ekki síður njótendum listarinnar á Vestfjörðum. Hér að neðan er dagskrá Listamannaþings Vestfjarða:

Dagskrá Listamannaþings Vestfjarða

13:00 Ólíkar listgreinar á Vestfjörðum og framtíð þeirra
- Fulltrúar heimamanna tala um ólíkar listgeinar

13:35 Vestfirskar listahátíðir kynntar:
- Leiklistarhátíðin Act Alone
- Tónlistarhátíðin Við Djúpið
- Heimildamyndahátíðin Skjaldborg
- Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður!

14:05 Skoðunarferð um Listakaupstað á Ísafirði
- Menningarráð Vestfjarða býður upp á kaffi og bakkelsi á Listamannaþinginu.

14:20 Málstofa um menningartengda ferðaþjónustu
- Hildur Magnea Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Brúðuheima í Borgarnesi
- Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða

15:00 Listin og landsbyggðin
- Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) flytur hugvekju

15:40 Stofnfundur félags vestfirskra listamanna
- Formlegur félagsskapur vestfirskra listamanna stofnaður á mettíma

Gönguferð um menningarbæinn Ísafjörð, kíkt við á nokkrum sýningarstöðum. Menningarlífið á Ísafirði er í blóma og mikið um að vera um helgina. Gestir á Listamannaþingi Vestfjarða eru hvattir til að staldra við á Ísafirði og njóta lífsins og listarinnar.


Vorið er komið í menn og menningu

Held bara að vorið sé komið sólin búin að skýna hér allan daginn fuglar syngja og bara næs. Líka farið að birta svo mikið og mikið er það nú gott. Vorið hefur líka áhrif á menninguna sem springur út hér í menningarbænum Ísó nú sem aldrei fyrr. Menningarhelgin var í essinu sínu um helgina tvær sýningar voru á söngskemmtuninni vinsælu Á skíðum skemmti ég mér, klarlakór tónleikar voru í kirkjunni, Vinjettu hátíð var haldin í Arnardal, Börn og menning dagskrá í Edó, sýningin Ein stök hús í Gallerý Fjör 10 þrep var opin og nú er ég örugglega að gleyma einhverju. Allt stefnir í enn meira fjör um næstu menningarhelgi á Ísó því þá verður m.a. haldið Listamannaþing Vestfjarða í þriðja sinn. Þingið verður haldið í Listakaupstað á Ísafirði laugardaginn 9. apríl kl.13 - 16. Þema þingsins í ár er Menningartengd ferðaþjónusta. Tveir sérstakir gestafyrirlesarar halda erindi um þema þingsins, fulltrúar allra listgreina koma með sýna framtíðarlýsingu á sinni listgrein á Vestfjörðum og fulltrúar listahátíðina fjögurra kynna sitt festival. Hátíðirnar eru leiklistarhátíðin Act alone, rokkfestivalið Aldrei fór ég suður, kvikmyndahátíðin Skjaldborg og tónlistarhátíðin Við Djúpið. Síðast en ekki síst verður Félag listamanna á Vestfjörðum stofnað og kosið í stjórn félagsins. Þingið er öllum opið og vonanst til að fá sem allra flesta bæði listamenn sem og njótendur og áhugafólk um listalíf á Vestfjörðum.

Strax farið að hlakka til menningarhelgarinnar á Ísó og óskandi að sem flestir njóti lífsins og menningarinnar fyrir vestan.


Galdur listarinnar

Mikið er það nú magnað hve listin er mikill galdur. Að upplifa góða list er ekki ósvipað og tilfinningin þegar maður drekkur fyrsta kaffibolla dagsins, helst nýmalað og rótsterkt. Tónlistin hefur verið mér mjög hugleikinn hin seinni ár og í raun hef ég sótt langmest í músíkina til að fá ,,yfir mig andann” einsog skáldið sagði. Þegar ég er til dæmis að pára niður handrit eða reyna að detta eitthvað ,,sneddý” í hug þá finnst mér fátt betra en að hlusta á tónlist. Misjafnt hvað verður fyrir valinu hverju sinni einu sinni fannst mér lang best að hugsa og skrifa þegar ég hlustaði á brot af því besta með norsku drengjasveitinni Aha, trúi hver sem vill. Músíkin hefur líka þann galdur að hún getur flutt okkur í tíma og stundum man maður meira að segja hvar maður var þegar maður heyrði eitthvað ákveðið lag eða hljómplötu. Tónlist sjöunda áratugsins á Íslandi hefur löngum verið mér hugleikinn enda hef ég ávallt verið talin gömul sál og jafnvel líka líkamlega aldraður fyrir tímann, þegar ég fermdist var ég strax kominn með skegghíung og byrjaður að grána í vöngum. Þegar ég hlustaði á þessa flottu músík í æsku heima í Birkihlíðinni á Bíldudal þá var máttur þessarar músíkur það mikill að ég sá oft lögin fyrir mér gerði einskonar myndbönd í huganum. Enn í dag hlusta ég þannig á músík í dag og það sem meira er þegar ég hlusta á þessa mögnuðu músík sjöunda áratugsins þá er tímaflakkið það áhrifaríkt að ég sé fyrir mér tískuna á þessum árum, ákveðna viðburði sem gerðust í litla þorpinu mínu og sé fyrir mér íbúana bæði lífs og liðna. Svona er músíkin áhrifarík og mögnuð þetta er náttúrulega bara galdur.

(Þessi pæling mín er í leikskrá Á skíðum skemmti ég mér sem er nú sýnt við miklar vinsældir í Edinborgarhúsinu á Ísafirði)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband