Færsluflokkur: Menning og listir

Morrinn á Ísafirði

Morrinn, atvinnuleikhús ungs fólks í Ísafjarðarbæ, var að hefja sitt 13. leikár. Þetta stórmerkilega leikhús sem var stofnað af ungu fólki á Ísafirði hefur enn á ný hafið leik. Upphafið má rekja til þess að ungir Ísfirðingar starfræktu sitt eigið leikhús er þau nefndu Fargogfjör yfir sumartímann. Þau fóru víða og skemmtu um allan bæ m.a. sýndu þau þjóðlega dagskrá fyrir gesti skemmtiferðaskipa er lögðu leið sína inn í Skutulsfjörðinn fagra. Ári síðar ákvað Ísafjarðarbær að taka leikhúsið upp á sína arma og þá varð Morrinn til. Sá sem þetta párar var svo heppinn að fá að leikstýra Morranum fyrstu þrjú starfsárin. Sá tími var stórkostlegur. Leikhúsið stækkaði og dafnaði mjög hratt og sýndi ekki bara í heimabyggð heldur um land allt. Fyrir fjórum árum var svo Kómedíuleikhúsinu boðið að taka við listrænni stjórn Morrans og tókum við það að okkur með þökkum. Leikhúsið hefði reyndar lent í smá öldudal árunum áður en er nú aftur komið á góðan skrið. Leikstjóri Morrans á þrettánda leikári er Elín Sveinsdóttir en gaman er að geta þess að hún er að hefja leiklistarnám í Bretlandi í haust. Verkefni Morrans á 13. leikári eru mörg en þó fer mest fyrir þjóðlegri skemmtidagskrá fyrir gesti skemmtiferðaskipa. Ísafjarðarbær getur verið stolltur af Morranum sínum sem mun enn á ný gleðja gesti okkar í allt sumar.

Harpan flott að utan en að innan uuuuuuuuu............flugstöð

Familían skellti sér í Hörpuna í síðustu borgarferð einsog ég nefndi reyndar í síðasta bloggpári. Þá lentum við reyndar í því óhappi að fá stöðumælasekt þar sem það má ekki leggja fyrir framan höllina þó það sé hvergi merkt. Reyndar er það víst svo samkvæmt yfirdeild stöðumælamambósins þá hefur verið fjallað um þetta bílastæðabann svo mikið í fjölmiðlum að við íbúar þessa lands ættum nú að vita þetta - kannski ekki rétti aðilinn þar á bæ í svonefndum pr málum, en nóg um þetta. Ferðin í Hörpuna var samt ágæt og byrjaði mjög vel. Höllin er flott að utan mikið listaverk og á án efa eftir að verða vinsælt myndefni og Hörpupóstkort verða ábyggilega alveg jafnvinsæl og Geysir eða Gullfoss. Þegar inn er komið er samt ekkert voða næs. Gífurlega stórt gímald minnir mann soldið á flugstöð með verslunum á göngum og hellings pláss til að ganga um en fátt að sjá nema reyndar flott að horfa útum hina ótalmörgu glugga. En að innan fátt spennó að sjá. Þegar við vorum á leið út vorum við svo heppinn að hitta á vin okkar sem vinnur í húsinu og hann bauð okkur að kikka betur á pleisið. Fórum í stóra salinn, Eldborg, heitir hann það ekki? Og það er sko næs skal ég segja ykkur. Vel heppnaður salur með karakter og sál. Skrítið að salurinn hafi heppnast svona vel miðað við kuldalega og karakterslausa gangana - flugstöðvamambóið. Maður verður að setja það á stefnuskrána að fara á konsert þar en þegar ég geri það ætla ég bara að mæta rétt fyrir tónleika, arka í gegnum flugstöðina einsog maður er reyndar vanur að gera og njóta þess að sitja í sal með sál.

Ekki leggja við Hörpu

Familían kikkaði í Hörpu í gær meira um það síðar, nú skiptir meira máli að láta vita af því að það MÁ EKKI LEGGJA VIÐ HÖRPUNA. Við vorum svo óheppinn að leggja þar fyrir utan og þegar við komum út voru tveir stöðumælaverðir að sekta alla bílana sem voru fyrir utan bygginguna. Ég skildi ekki alveg enda hvergi merkt að það megi ekki leggja þarna. En þegar ég spurði bílastæðagæjanna svaraði hann heldur þurr á manninn og stuttur í spuna: Þú átt að leggja hinu megin t.d. í Kolaportinu. " Svo var hann rokinn að skrifa næstu sekt. Þetta finnst mér alveg útí hróa. Byrjið á því að setja upp merkingar um að það megi ekki leggja þarna ekki fara svona illa með náungann nóg er nú samt. Minnir mann á eitthvað land í austri svona framkoma.

Ertu að leita að sýningarstað á Vestfjörðum?

Í gegnum tíðina hafa margir haft samband við mann til að fá ábendingar um hvar sé hægt að vera með listviðburði á Vestfjörðum. Skiptir engu hvort verið er að tala um leik- mynd- eða kvikmyndasýningu og allt þar á milli. Það ánægjulega er að maður getur nefnt fjölmarga staði og það um alla Vestfirði, allsstaðar eru hús bara spurning um hvað hentar þínum viðburði best. Hinsvegar væri nú mjög sneddý ef upplýsingar um öll þessi hús væri einhversstaðar aðgengilegur væri t.d. mjög sniðugt að hafa upplýsingar um þetta í væntanlegu tímariti Félags Vestfirskra listamanan sem kemur út í haust. Því er hér með komið á framfæri. Einnig væri sniðugt ef sveitarfélögin sjálf mundu hafa upplýsingar um sín hús á heimasíðum sínum. Treysti mér nú ekki til að pára svona upphátt og nefna alla þá sýningarstaði sem eru í boði hér á Vestfjörðum. En það mikilvægasta er að hefjast handa og hér koma fyrstu drög af sýningarstaðakorti Vestfjarða:

Bíldudalur:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Veitingastofan Vegamót - tónleikar, litlar leiksýningar
Skrímslasetrið, salur - tónleikar, leiksýningar

Tálknafjörður:
Dunhagi, félagsheimili - tónleikar, litlar leiksýningar

Patreksfjörður:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Skjalborg - kvikmyndasýningar, tónleikar, leiksýningar
Sjóræningjasetrið - tónleikar, leiksýningar

Barðaströnd:
Félagsheimilið Birkimel - tónleikar, leiksýningar

Reykhólar:
Samkomuhúsið - tónleikar, leiksýningar

Hólmavík:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Café Riis - tónleikar, litlar leiksýningar
Bragginn - tónleikar, leiksýningar
Galdrasafnið - tónleikar, litlar leiksýningar

Súðavík:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Melrakkasetrið - tónleikar, litlar leiksýningar

Ísafjörður:
Edinborgarhúsið - tónleikar, leiksýningar, myndlistarsýningar
Alþýðuhúsið, Ísafjarðarbíó - kvikmyndasýningar
Hamrar, Tónlistarskóla Ísafjarðar - tónleikar, leiksýningar
Gallerý Fjör Tíu Þrep, Listakaupstað - myndlistarsýningar
Langi Mangi - tónleikar, myndlistarsýningar
Hamraborg, verslun - Myndlistarsýningar

Hnífsdalur:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar

Bolungarvík:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Einarshúsið - tónleikar, myndlistarsýningar, litlar leiksýningar

Suðureyri:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Talisman - tónleikar, litlar leiksýningar

Flateyri:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Vagninn - tónleikar, litlar leiksýningar

Þingeyri:
Félagsheimilið - tónleikar, leiksýningar
Simahöllin, kaffihús - tónleikar

Haukadalur Dýrafirði:
Gíslastaðir, félagsheimili - tónleikar, litlar leiksýningar

Auðvitað vantar helling inná þennan lista, megið gjarnan hjálpa mér við að bæta úr því. Einnig vantar þarna inn símanúmer á viðkomandi stöðum og nöfn á húsvörðum og svona, en bætum úr því síðar.
Einnig væri gaman að gera annan svona lista um vinnuaðstöðu fyrir listamenn og hópa sem er hægt að fá lánað hér fyrir vestan. Set það á verkefnalistann.


Bæjar- og listahátíðir á Vestfjörðum í sumar

Það ætti engum að þurfa að vanta eitthvað að gera sem heimsækir Vestfirði þetta sumarið. Fjölmargar fjölbreyttar bæjar- og listahatíðir eru um allan kjálkann nánast hverja helgi í allt sumar. Til að nefna það helsta, en gleymi þá öruggulega einhverju og glöggir lesendur mega þá bæta því við, þá kemur hér yfirlit yfir bæjar- og listahátíðir á Vestfjörðum sumarið 2011.

2. - 5. júní Patreksfjörður
Sjómannadagshelgin - flottasta hátíðin er án efa á Patreksfirði, þar hefur markvist verið unnið að því að efla þennan merkilega dag sjómanna og hefur hátíðin bara stækkað.

10. - 12. júní. Patreksfjörður.
Skjaldborg hin einstaka heimildarmyndahátíð sem vakið hefur mikla athygli enda bara flott hátíð, heiðurgestur í ár er meistari Ómar Ragnarsson.

17. júní. Hrafnseyri við Arnarfjörð
Hvað er meira viðeigandi en vera á heimabæ Forsetans á fæðingardegi hans en í ár er kappinn 200 ára. Fjölbreytt hátíð m.a. mun yðar einlægur frumsýna leikverk um Nonna sem er sérstaklega saminn fyrir festivalið.

21. - 26. júní. Ísafjörður
Klassíska tónlistarhátíðin Við Djúpið vönduð dagskrá með intresant masterclössum - hátíð sem hefur fyrir löngu sannað gildi sitt og ágæti.

23. - 26. júní. Bíldudalur
Í ár er heil baun og þá er haldin hátíðin Bíldudals grænar baunir, dagskrá í höndum heimamanna og veðrið - það verður magnað enda veðursældin þar allra best á landinu öllu.

1 - 3. júlí. Hólmavík
Sjöunda árið í röð fara fram Hamingjudagar á Hólmavík, geggjað stuð.

1. -3. júlí. Dýrafjarðardagar
Dúndurskemmtileg fjölskylduhátið og næsta víst að þú hittir víkinga.

2. júlí Bolungarvík
Markaðsdagar eru skemmtilegir og í ár mun Listahátíðin Æringur setja svip sinn á markaðinn.

9. - 10. júlí. Selárdalur í Arnarfirði
Ef þú hefur ekki komið í Selárdal þá áttu mikið eftir. Eitt flottasta félag þjoðarinnar Félag um endurreisn listasafns Samúels í Selárdal blæs til menningarhátíðar í dalnum.

22. - 24. júlí. Tálknafjörður
Tálknafjör og þar verður pottþétt fjör.

6. ágúst. Holtsfjara í Öndundarfirði
Eitt af trompu hátíðanna. Sandkastalakeppni í Holti. Þarf að segja meira.

12. - 14. ágúst. Ísafjörður - Hrafnseyri Arnarfirði
Eina einleikjahátíð landsins og ein flottasta listahátíð landsbyggðarinnar ACT ALONE haldin áttundar árið í röð. Fjöldi innlendra og erlendra einleikja. OG það einleikna er að það er ÓKEYPIS INNÁ ALLAR SÝNINGAR HÁTÍÐARINNAR.

26. - 28. ágúst. Súðavík
Má ég kynna Bláberjadagar - þarna verður maður sko að vera.

Velkomin vestur og góða skemmtun í allt sumar.


Gaggað í Melrakkasetrinu Súðavík

Í kvöld, fimmtudag, hefjast sýningar að nýju á sagnastykkinu Gaggað í grjótinu í Melrakkasetrinu. Leikurinn var frumsýndur 16. júní í fyrra og var sýndur allt sumarið í Melrakkasetrinu við góðar undirtektir. Sérstakakt tilboð er á fyrstu sýningu sumarsins og kostar miðinn aðeins 1.000.- krónur alveg gaggandi góður prís. Alls eru áætlaðar sex sýningar á Gaggað í grjótinu í Melrakkasetrinu í Súðavík í sumar. Rétt er að geta þess að hópar geta einnig pantað sýninguna sérstaklega. Gaggað í grjótinu er fróðleg og skemmtileg sýning fyrir alla fjölskylduna.
Leikurinn er sérstaklega saminn fyrir Melrakkasetrið í Súðavík en þar er sögð saga refsins sem hefur lifað lengur en elstu menn muna.

Í Gaggað í grjótinu fáum við einstakt tækifæri til að bregða okkur á greni með ónefndri refaskyttu sem kallar ekki allt ömmu sína. Saga skyttunnar er nefnilega ekki síður merkileg en skolla sjálfs. Meðan skyttan liggur og vaktar grenið styttir hann sér stundir og segir sögur af sjálfum sér og öðrum refaskyttum. Ævintýrin sem skyttunar hafa lent í í viðureigninni við melrakkann eru kannski lygilegar eða hvað...


137 ára skóli

Á föstudag var Grunnskóla Ísafjarðar slitið í 137 sinn. Þetta var sérstaklega stórdagur hér hjá okkur í Túninu heima því miðburður okkar hjóna var að útskrifast úr grunnskólanum, já hvað tíminn líður. Stoltur er ég af dömunni minni og veit að hún mun plumma sig vel í framtíðinni. Sannarlega spennandi tímar framundan hjá henni. Skólaslitin voru að vanda hátíðleg og fóru fram í kirkjunni. Ræða skólastýru var mjög góð og einlæg en eitt stakk mig mikið og hefur fengið kollinn til að hugsa. Það er hve það hefur fækkað mikið í skólanum á allra síðustu árum og enn mun víst fækka á komandi skólaári en þá verða nemendur væntanlega 400 sem er fækkun um 16 nemendur ef ég man rétt. Þetta er rosalegt. Við sem hér búum verðum að taka höndum saman og gera eitthvað í þessari þróun. Það er nebblega þannig að við erum með úrvals góðan grunnskóla hér með góðum kennurum og flottu félagslífi. Við erum með góðan Menntaskóla, tipptopp Tónlistarskóla og meira að segja Háskóla. Einsog löngu frægt er orðið þá er afþreying hér mjög mikil og fjölbreytt, eitthvað fyrir alla aldurshópa og já alla fjölskylduna. Við erum með atvinnuleikhús, áhugaleikhús, gallerý, kvikmyndahús ofl ofl. Hér eru haldnar hvorki fleiri né færri en þrjár listahátíðir árlega, hver hefur sitt sérsvið. Einleikjahátíðin Act alone er haldin um miðjan ágúst, í júní er klassíska músíkhátíðin Við Djúpið og um páska tekur rokkhátíðin Aldrei fór ég suður öll völd. En afhverju er okkur að fækka? Hvað vantar? Það þurfum við að finna sem hér búum og það mikilvægasta að öllu við verðum að hefjast handa við að bæta úr þessu og fylla í eyðurnar. Því sjálfum finnst mér gott að búa hér og skil ekkert í þessari stöðu sem við stöndum í. Þegar ég er spurður hvar ég eigi heima segi ég stoltur frá því að ég eigi heima á Ísafirði og svo koma jafnan smá upplýsingar um hið öfluga lista- og menningarlíf hér, svona í kaupæti. Nú hefst leitin að bættum stað og vona ég að við öll sem hér eigum heima hjálpumst að við að bæta okkur og kannski það mikilvægasta líka að segja frá okkkur sjálfum og vera soldið stolt að því - enda megum við það alveg.

Söfn og setur á Vestfjörðum

Jæja sólin mætt aftur á Ísafjörðinn og snjórinn sem hefur sest í fjöllin síðustu dagana er óðum að hverfa. Ætli sumarið sé ekki bara að koma. Ferðamenn eru þegar farnir að láta sjá sig hér vestra og nú þegar hefur eitt skemmtiferðaskipi komið en það er bara byrjunin því metfjöldi verður í komu skemmtiskipa á Ísafjörð. Það hefur verið vel staðið að uppbyggingu í þessum málum og eiga Muggi hafnarstjóri og allir þeir sem hafa ljáð fram töfra sína miklar þakkir skildar. Hér á Vestfjörðum eru fjölmörg söfn og setur. Til gamans langar mig að nefna nokkur þeirra sem vert er að heimsækja en þar sem þau eru orðin svo mörg gæti vel verið að ég gleymi að nefna einhver þeirra. Ef við byrjum á Ströndum þá eru þar tvö geggjuð en ólík söfn. Hið margverðlaunaða Galdrasafn og litla leyndarmálið, Sauðfjársetrið sem er bara gullmoli og óvæntur gleðigjafi. Á Suðurfjörðum Vestfjarða ber fyrst að nefna safnið á Hnjóti sem er vert að heimsækja. Þegar leiðin liggur í hinn fagra Arnarfjörð, sem er án vafa einn flottasti fjörður Vestfjarða, er vissara að gefa sér góðan tíma. Því þar eru hvorki fleiri né færri en fjögur söfn. Inná Bíldudal er hið magnaða músíksafn Melódíur minningana sem söngvari þjóðarinnar Jón Kr Ólafsson hefur byggt upp af mikilli hugsjón og elju. Ekki má gleyma Skrímslasafninu sem er í gömlu matavælaverksmiðjunni þar sem hinar sögufrægu Bíldudals grænu baunir voru framleiddar að ógleymdum handsteiktum kjötbollum. Flottasta safnið að mínu mati er þó Listasafn Samúels í Selárdal, Listamannsins með barnshjartað einsog hann er nefndur. En til gamans má geta þess að það var víst Hannibal Valdimarsson sem gaf listamanninum þetta viðeigandi viðurnefni. Þetta safn er alveg einstakt og síðustu árin hefur Félag um endurreisn safnsins hans Samúels lift þar miklu grettistaki. Fyrir nú utan hve náttúrufegurðin er mikil í Selárdal og saga í hverjum hól. Þarna bjuggu jú m.a. Gísli á Uppsölum, síra Páll Björnsson, Árum Kári, Jón Þorláksson skáld, Hannibal ofl ofl. Hinu megin í Arnarfirði er svo safn frægasta Arnfirðingsins nebblega Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Þar er nú unnið hörðum höndum við endurgerð safnsins enda er í ár fagnað 200 ára afmæli ,,forsetans". Á Ísafirði er Byggðasafn Vestfjarða í Neðstakaupstað hér er um að ræða skemmtilegt sjóminjasafn og konfektmolinn er einstakt harmonikkusafn. Í Bolungarvík er einnig sjórinn í aðalhlutverki í safninu í Ósvör og ekki má gleyma Náttúrgripasafni Vestfjarða í Bolungarvík. Síðast en ekki síst má nefna Melrakkasetur í Súðavík þar sem rakkanum eru gerð góð skil. Að lokum má geta þess að á Flateyri er einn ofurhugi að undirbúa stofnun Dellusafns. Nú hef ég örugglega gleymt einhverju safni eða setri en þið bætið því þá bara við hér að neðan. Einsog lesa má eru söfnin og setrin mörg og fjölbreytt og engum ætti að þurfa leiðast er þeir ferðast um hina sögulegu Vestfirði. Verið velkomin og njótið vel.

Börn og menning

Innum lúguna í Túninu heima var að koma hið ágæta tímarit Börn og menning. Blaðið er gefið út af IBBY á Íslandi sem er félagsskapur áhugafólks sem vill efla barnamenningu og er ég stoltur félagi þessa merka félagsskapar. Blaðið er að vanda stútfullt af vönduðu efni um barnamenningu en að þessu sinni eru Múmínálfar Tove Jansson í aðalhlutverki. Sögurnar um Múmínálfana eru meðal þess besta sem komið hefur út í norrænum barnabókmenntum að mínu mati kannski næst á eftir verkum Astrid Lindgren. Einnig er fjallað um leiksýningar fyrir börn í blaðinu. Að mínu áliti er barnamenning ein mikilvægasta menningin í landinu okkar og já líka bara í heiminum öllum. Hvað er það sem skiptir okkur mestu eru það ekki litlu króarnir okkar og fjölskyldan öll. Ekkert er skemmtilegra en að skella sér í leikhús öll fjölskyldan eða þá að lesa bækur saman. Þessa dagana er sannkallað Kaftein ofurbrókar æði heima en ofurbrókarbækurnar eru á náttborðinu hjá yngstu dóttur minni. Þessar sögur eru algjör gullmoli og ég og frúin keppumst um að fá að lesa á kvöldin. Það skiptir mjög miklu máli að við getum boðið æskunni uppá vandaða og fjölbreytta menningu um land allt. Því ef þau fá ekki að kynnast menningunni í æsku hvenær þá? Þrátt fyrir að barnamenning eigi rétt á sér þá verð ég að viðurkenna að hið háa Menntamálaráðuneyti hefur staðið sig miður vel í að stiðja við bakið á henni. Nægir að nefna hve illa ráðuneytið stendur sig í að stiðja við leiksýningar fyrir börn. Ár eftir ár dissar Leiklistarráð leiksýningar fyrir börn, mesta lagi að ein sýning fái nokkrar kúlúr - en bara nokkrar - það kostar jú svo lítið að búa til leiksýningu fyrir börn. Í tuttugu ár hafa hugsjónaaðilar barist við að reka sérstakt barnaleikhús hér á landi sem stjórnvöld hafa í raun hafnað. Hafnað pælið í því - sjálft Menntamálaráðuneyti vill ekki að æskan í landinu fái tækifæri til að upplifan þann mikla galdur sem fram fer á leiksviðinu. Hvers konar stefna er það? Já, alveg rétt það er engin stefna í þessu ráðuneyti var búinn að gleyma því. Ég er bara alls ekki sáttur við gang mála í þessu efni og krefst þess að ráðuneytið geri veigamiklar breytingar en byrji samt á því að móta sér stefnu. Annars verður engin breyting. Það er engin sparnaður í því að skera niður í barnamenningu alveg einsog það er engin sparnaður í að skera niður í skólamálum. Ef þannig á að halda áfram þá þori ég ekki að spá í framtíðina. Ráðamenn setjist niður og forgangsraðið rétt. Eða viljum við ekki börnum okkar það besta?

Sundlaugamenning

Um helgina skellti ég mér í sund með tvær af prinsessum mínum. Sem er svosem ekki í frásögur færandi alltaf jafn hressandi að fara á þessa heilsubætandi staði og ávallt segir maður við sjálfan sig að lokinni heitapottssetu ,,af hverju fer maður ekki oftar". Að þessu sinni fórum við í sundlaugina í Bolungarvík sem er í miklu uppáhaldi hjá prinsessunum því þar er nefnilega rennibraut. Hún hefur reyndar verið lokuð uppá síðkastið en nú er hægt að renna sér að nýju og var heldur betur tekið á því ætli ferðirnar hafi ekki náð hátt í þriðja tuginn. Sundlaugin á Suðureyri er líka vinsæl hér á heimilinu en þar er úrvalsfín útisundlaug ásamt sér barnalaug að ógleymdum heitum potti. Laugin á Þingeyri er líka mjög góð en þar er innilaug, góður heitur pottur og ávallt heitt á könnunni líkt og á hinum stöðunum. Að vísu var ekki boðið uppá kaffi í Bolungarvík um helgina við heitapottinn en það hefur líklega bara gleymst. Hér á norðurfjörðum Vestfjarða er því gott úrval sundstaða og engin ástæða til að bæta við fleirum, finnst mér. En öðrum sjálfsagt ekki. Auðvitað væri gaman að hafa stóra og góða sundlaug á hverjum einasta stað. Hinsvegar hafa samgöngur batnað talsvert á okkar norður svæði og nú síðast með Bolungarvíkurgöngum og því lítið mál að þurfa að aka í 20 mín til að baða sig. Byggjum heldur enn frekar upp þá góðu sundstaði sem við höfum í dag í stað þess að ætla að reka marga við erum ekki það mörg heldur að það beri sig. Fyrir skömmu var tekið upp alveg stórniðugt kerfi hvað varðar sundstaði í Ísafjarðarbæ. Nú getur þú keypt þér sérstakt kort sem gildir í allar sundlaugar bæjarins. Þetta er auðvitað málið og nú er bara að stækka dæmið enn frekar og hvetja sundlaugar Vestfjarða til að taka upp víðtækt samstarf í formi Sundlaugarkorts Vestfjarða. Þú keyptir þér bara eitt kort, gæti verið árskort eða 10 sundferðakort eða hvernig sem menn vilja, sem gildir í allar sundlaugar á Vestfjörðum. Alveg er ég sannfærður um að þetta mundi vera vinsælt og án efa fjölga gestum í sundlaugum Vestfjarða sem og auka sundlaugarmenninguna sem er bara skemmtilegt. Auk þess færi maður án efa oftar í sund á á fjölbreyttari stöðum ég hef t.d. aldrei farið í sundlaugina á Patreksfirði sem mér skilst að sé mjög flott.
Það rifjaðist lika upp fyrir mér um daginn þegar ég fann ekki kaffið í Bolungarvík þegar ég fór í ferðalag til Belgíu fyrir mörgum árum. Fór með frábærum hópi starfsfólks í Frystihúsi Bíldudals sem þá var og hét. Þar sem við vorum í Belgíu var stór og mikil sundlaugarhöll. Geysistór sundlaug sem var með öldum, já þegar heyrðist lúðrablástur í höllinni var það merki um að nú væri settur af stað öldugangur í lauginni sem varði í nokkrar mínútur. Það var voða sport að vera þá á sundi. Mest þótti mér þó varið í það að þarna var einnig hægt að tilla sér við borð og panta sér veitingar. Franskar og öl til að mynda og meira að segja höfðu þeir fyrir því að gera fyrir okkur Íslendingana kokteilsósu, eftir að við höfðum gefið þeim upp hina leyndardómsfullu uppskrift. Nú stoppa örugglega margir og hrópa haleljúa. Á nú að fara að selja vín og bús í sundlauginni líka. Já afhverju ekki? Íslensk drykkjumenning hefur breyst umtalsvert síðustu árin nú er allt í lagi að fá sér bara tvo í stað þess að fara alltaf á fyllerí einsog var hér áður og fyrrum. Þannig var þetta einmitt í Belgíunni þegar ég dvaldi í sumarparadísinni þar aldrei var neinn þarna öfurölvi ekki einu sinni við Íslendingarnir. En þetta var nú bara aukapæling margt annað mætti hugsa sér í sundlaugarmenninguna t.d. tónleika, ljóðaupplestur þar sem flytjendur eru í sundlauginni gestir á bakkanum - já það er mikilvægt að hafa gaman og njóta lífsins og það eigum við líka að gera í sundlaugunum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband