Færsluflokkur: Menning og listir

Bjarni á Fönix í Faktorshúsinu

Sögulegi einleikurinn Bjarni á Fönix verður sýndur í Faktorshúsinu á Ísafirði. Leikurinn var frumsýndur í upphafi síðasta leikárs við úrvals viðtökur. Eftir það var leikurinn sýndur víða en sökum anna hinna kómísku hafa sýningar leigið niðri um nokkurn tíma. Loksins er ævintýrið hafið að nýju og hafa verið ákveðnar tvær sýningar sem verða á hinum sögulega veitingastað Faktorshúsið á Ísafirði. Sýnt verður tvo fimmtudaga í röð og boðið uppá sérstakan leikhúsmatseðil í tengslum við sýninguna en einnig er hægt að kaupa miða bara á sýninguna. Sýningarnar verða fimmtudaginn 21. júlí og svo viku síðar 28. júlí. Miðasala er þegar hafin og fer fram í Faktorshúsinu.

Söguhetjuna Bjarna leikur Ársæll Níelsson, Elfar Logi Hannesson leikstýrir og saman eru þeir höfundar leiksins. Verkið fjallar um skipherrann Bjarna Þorlaugarson á skútunni Fönix er háði frækinn bardaga við hátt í 30 Fransmenn um miðja nítjándu öld. Bardaginn stóð yfir í heila fjóra klukkutíma, að vísu tóku menn sér stutta pásu í miðjum átökum, og gekk Bjarni óskaddaður af vettvangi. Skömmu síðar fannst sjórekið lík af einum Fransmanni og voru uppi kenningar um að Bjarni hafi orðið hans bani. Mál var dómtekið og þurfti Bjarni þá að spyrja sig þeirrar samviskuspurningar: Drap ég mann eða drap ég ekki mann?

Sagan af Bjarna skipherra á Fönix er sönn vestfirsk hetju- og þroskasaga. Í þessu leikverki skipstast á ástir og átök úr íslenskum raunveruleika. Bjarni á Fönix er kraftmikil sýning sem lætur engan ósnortinn.

Act alone 2011

Það styttist í hátíðina einleiknu í einleikjabænum Ísafirði. Act alone verður haldin dagana 12. - 14. ágúst og verður boðið uppá úrval innlendra leikja og erlendan gestaleik. Þetta er áttunda árið í röð sem Act alone er haldin en hátíðin er án efa ein flottasta listahátíð landsbyggðarinnar auk þess að vera eina einleikjahátíð landsins. Lengi vel var Act alone eina árlega leiklistarhátíðin á Íslandi en fyrir skömmu varð til önnur hátíð sem haldin er í borginni og nefnist Lókal. Að vanda verður aðgangur að öllum sýningum á Act alone ókeypis enda er þetta hátíð og mikilvægt að sem flestir geti tekið þátt í ævintýrinu. Fjölmörg fyrirtæki haft styrkt hátíðina nú sem endranær auk þess sem Menningarráð Vestfjarða setur slatta af monnípeningum til handa hátíðinni og við eigum einnig von á aurum frá Ísafjarðarbæ. Dagskrá Act alone 2011 verður birt allra næstu daga á heimasíðunni www.actalone.net En til að kitla smá má nefna að meðal sýninga á Act alone í ár er Mamma ég!, Jón Sigurðsson strákur að vestan, Bjarni á Fönix, Skjalbakan og síðast en ekki síst mun Prinsessan á Bessastöðum koma í opinbera heimsókn á Ísafjörð sem verður á sjálfu Silfurtorginu. Sýningar verða annars í Edinborgarhúsinu en á lokadegi hátíðarinnar verða sýningar á höfuðbóli Vestfjarða á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Eitt er víst Act alone verður alveg einleikin og nú er bara að taka dagana frá (12. - 14. ágúst) og taka þátt í ævintýrinu.

Menningin og mannlífið blómstrar á Þingeyri

Það hefur verið mikið líf og fjör í þorpinu Þingeyri við Dýrafjörð síðustu vikur. Um síðustu helgi fór fram hin árlega bæjarhátíð Dýrafjarðardagar með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla familíuna. Á mánudag hófst svo risastórt Norrænt handverknámskeið en alls tengjast 150 manns þessu námskeiði bæði nemendur og kennarar. Fjölbreytt námskeið í boði allt frá brúðugerð til eldsmíði og allt þar á milli. Lokadagur námskeiðsins er í dag og að sjálfsögðu verður gert mikið úr deginum. Í kvöld verður heljarmikil veisla á víkingasvæðinu þar sem grillaðir verða nokkrir skrokkar. Nýjasti leikhópur Vestfjarða Zurgur sýnir leikinn Dýri og félagar sem var einmitt frumsýnt á Dýarfjarðardögum og hefur verið sýnt nokkrum sinnum í vikunni við mjög góðar viðtökur. Verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson verður einnig sýndur á Víkingasviðinu og svo eru nætur bjartar og aldrei að vita hvað gerist eftir það. Hellingur er framundan í menningunni í Dýrafirði nú í sumar og óhætt að taka undir með fornkappanum Vésteini:
Nú falla vötn öll til Dýarfjarðar.

Hafliði Magnússon - Minning

Vinur og kollega Hafliði Magnússon listamaður frá Bíldudal hefur yfirgefið sviðið. Hafliði var merkur listamaður sem hefur heldur betur puntaði uppá menningarlífið á Bíldudal í áratugi. Fjölhæfur með afbrigðum úrvals rithöfundur samdi leikrit, smásögur og skáldsögur. Hann gerði leikmyndir fyrir Leikfélagið Baldur á Bíldudal, leikstýrði og var hirðskáld leikfélagsins. Ég var svo heppinn að fá að kynnast honum og starfa með honum. Mín fyrsta minning af Hafliða er þegar ég og æskufélagi minn, Jón Sigurður, bönkuðum uppá hjá ,,Skáldinu" einsog hann er jafnan nefndur á Bíldudal. Listamaðurinn opnaði dyrina og við spurðum einfaldlega ,,megum við koma í heimsókn?". Skáldið bauð okkur inn með það sama. Bauð okkur til stofu tók fram djús og mjólkurkex. Svo hófst sögustundinn hjá skáldinu. Þvílíkur sögumaður og fróðleiksnáma sem hann var. Hann sagði okkur sögur sem flestar tengdust menningu og listum, ræddi við okkur einsog jafnoka sína - heiðarlegur og sannur maður. Loks stóð hann upp, settist við rafmagnspíanóið sitt og byrjaði að spila nokkra slagara fyrir okkur. Minnisstæðast er þegar hann lék fyrir okkur músík úr Tomma og Jenna teiknimyndunum sem voru aðalsjónvarpsefni unga fólksins í þá daga og er kannski enn. Eftir þetta átti ég oft eftir að heimsækja Skáldið og eftir því sem tíminn leið voru veitingarnar aðrar en djús. Leikfélagið Baldur á Bíldudal stóð í blóma á mínum æskuárum og þar sem faðir minn var í leikfélaginu að leika og mamma að sauma búninga fékk maður að fara með á æfingar. Þar ríkti ávallt mikil gleði og kátína og þetta skemmtilega sem fylgir leikhúsinu þar voru allir jafnir. Við púkar leikaranna vorum á öllum æfingum í þær sex vikur sem tók að undirbúa ævintýri. Og ávallt var Hafliði á æfingum að mála og smíða leikmyndir eða að leikstýra og stundum var hann höfundur leiksins líka. Þegar hlé var gert á æfingum var Hafliði jafnan hrókur alls fagnaðar enda mikill húmoristi og gleðigjafi. Seinna fékk ég að stíga á stokk með leikfélaginu og þá náttúrulega í verki eftir Hafliða. Það eru bara forréttindi að fá svona leiklistar- og menningareldskírn sem maður fékk með samstarfi við Hafliða og félaga í Leikfélaginu Baldri á Bíldudal. Svo áhrifaríkt að allar götur síðan hef ég unnið við leikhúsið og listina. Hafliða verður sárt saknað en verk hans munu lifa og minning um góðan mann. Ég sendi aðstandendum Skáldsins mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Zurgur á Þingeyri

Það verður mikið stuð og húllumhæ á Þingeyri núna um helgina en þá fer fram hin árlega bæjarhátíð Dýarfjarðardagar. Að vanda er boðið uppá fjölbreytta dagskrá fyrir alla familíuna. Kómedíuleikhúsið sýnir m.a. verðlaunaleikinn Gísli Súrsson á útivíkingasviðinu og vinsælasta ábreiðusveit Vestfjarða Megakukl verður með megakonsert í Hallargarðinum. Síðast en ekki síst mun nýjasta leikhús Vestfjarða frumsýna sitt fyrsta verk. Leikhúsið er skipað æskunni í vinnuskólanum á Þingeyri og heitir því skemmtilega nafni Zurgur. Hver er nú það spyrja eflaust margir? Jú, Zurgur er persóna úr hinni frábæru teiknimynd Leikfangasaga og er kappi þessi faðir Bósa ljósárs. Frumsýningin verður í grillveislunni á útivíkingasvæðinu á laugardeginum. Leikurinn nefnist Dýri og félagar og fjallar um landnámsmennina fjóra í Dýrafirði. Þá Dýra, Eirík, Véstein og Þórð. Leikstjóri og höfundur er Elfar Logi Hannesson.
Sýningar á Dýri og félagar verða á dagskrá þrisvar í viku í júlí á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl.20.30 alla dagana. Sýnt er á útivíkingasviðinu og er aðgangur að öllum sýningunum er ókeypis.

Zurgur á Þingeyri

Það verður mikið stuð og húllumhæ á Þingeyri núna um helgina en þá fer fram hin árlega bæjarhátíð Dýarfjarðardagar. Að vanda er boðið uppá fjölbreytta dagskrá fyrir alla familíuna. Kómedíuleikhúsið sýnir m.a. verðlaunaleikinn Gísli Súrsson á útivíkingasviðinu og vinsælasta ábreiðusveit Vestfjarða Megakukl verður með megakonsert í Hallargarðinum. Síðast en ekki síst mun nýjasta leikhús Vestfjarða frumsýna sitt fyrsta verk. Leikhúsið er skipað æskunni í vinnuskólanum á Þingeyri og heitir því skemmtilega nafni Zurgur. Hver er nú það spyrja eflaust margir? Jú, Zurgur er persóna úr hinni frábæru teiknimynd Leikfangasaga og er kappi þessi faðir Bósa ljósárs. Frumsýningin verður í grillveislunni á útivíkingasvæðinu á laugardeginum. Leikurinn nefnist Dýri og félagar og fjallar um landnámsmennina fjóra í Dýrafirði. Þá Dýra, Eirík, Véstein og Þórð. Leikstjóri og höfundur er Elfar Logi Hannesson.
Sýningar á Dýri og félagar verða á dagskrá þrisvar í viku í júlí á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum kl.20.30 alla dagana. Sýnt er á útivíkingasviðinu og er aðgangur að öllum sýningunum er ókeypis.

Einstök sýning á Gíslastöðum í Haukadal

Á Gíslastöðum í Haukadal Dýrafirði verður listsýningin Einstök sýning – Listamaðurinn með barnshjartað. Sýningin opnar föstudaginn 1. júlí kl.14 og eftir það verður sýningin opin frá kl.14 – 16 allt til sunnudagsins 24. júlí. Á sýningunni er einstakri myndlist og leiklist gerð skil. Í myndlistinni verða sýndar myndir eftir þrjá vestfirska einfara í íslenskri myndlist. Fyrst ber að nefna Samúel Jónsson í Selárdal sem þekktur er undir viðurrefninu Listamaðurinn með barnshjartað. Einnig verður viðamikil sýning á verkum listahjónanna frá Hofi Dýrafirði þeirra Gunnars Guðmundssonar og Guðmundu Jónu Jónsdóttur. Síðast en síst er sérstök sýning um sögu einleikjalistarinnar á Íslandi. Þetta sérstaka form leiklistarinnar á sér langa og merka sögu hér á landi. Síðustu ár hefur einleikjaformið verið áberandi í vestfirsku leikhúslífi en þar starfar Kómedíuleikhúsið sem hefur sett upp fjölmarga einleiki síðasta áratuginn og einnig er árlega haldin sérstök einleikjahátíð Act alone í Haukadal og Ísafirði. Saga einleikjalistarinnar er sögð á stórum söguspjöldum en einnig eru til sýnis kynningarefni um einleiki á Íslandi s.s. leikskrár sem og handrit einleikja og marskonar einleikin fróðleikur um einleiksformið. Ýmis varningur er til sölu á sýningunni s.s. bókin Einfarar í íslenskri myndlist á ensku, Þjóðlegar hljóðbækur og fjölbreytt handverk frá ömmu og afa barni Listahjónanna á Hofi, Marsbil G. Kristjánsdóttur. Aðgangur að sýningunni er ókeypis.

Gísli Súrsson alls ekkert kominn í súr

Verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson er enn í fullu fjöri og eru fjölmargar sýningar framundan. Leikurinn verður sýndur í 221 sinn og er vel við hæfi að sú sýning fari fram á söguslóðum Gísla nánar tiltekið í Arnarfirði. Þar fer nú fram hin skemmtilega hátíð Bíldudals Grænar og verður Gísli sýndur í Baldurshaga í kvöld kl.21.

En Gísli er ekkert að leggjast í súr því á mánudag verður sýning á Gíslastöðum í Haukadal Dýrafirði og er þegar orðið uppselt á þá sýningu. Ekki þarf þó að örvænta því Gísli Súrsson verður einnig sýndur á bæjarhátíðinni Dýrafjarðardagar sem fer fram um næstu helgi. Sú sýning verður á hinu magnaða útivíkingasviði á Þingeyri. Þó Gísli sé þétt bókaður þá er alveg hægt að bæta við fleiri sýningum. Áhugasamir sendi okkur póst á netfangið 

Af hverju er Trostan ávallt útundan?

Trostansfjörður í Arnarfirði er fallegur en hefur samt ávallt verið útundan í heimi Vegagerðar ríkissins. Sérstaklega Trostansfjarðarheðin hún er skelfilega slöpp enda má ábyggilega telja á fingrum annarar handar hve oft hefill eða annað vegavinnutæki hefur verið þar að ströfum. Þetta er svosem ekkert nýtt að Vestfirðir hafa ávallt verið útundan í allri vegagerð og maður veltir fyrir sér nei hver helv...er pólitík líka í vegagerðinni? Samt eru nokkrir þingmenn farnir að viðurkenna að ástand vega á Vestfjörðum sé slappt og að nú sé sko röðin komin að Vestfjörðum. En samt gerist ekkert. Reyndar hafa smá vegaumbætur verið á Hrafnseyrar og Dynjandaheiði? En afhverju var það? Jú, pólitík. 17. júní á Hrafnseyri og fyrirmenn mættu á pleisið. Sem var bara gaman en samt ég meina er ekki tímasetningin skrítin. Og nokk efast ég um að áframhald verði á vegaframkvæmdum á þessum ágætu heiðum enda hátíðarhöldum lokið á Hrafnseyri og allir farnir suður sem taka ákvarðanir. Og hvað þá að eitthvað verði gert á Trostansfjarðarheiði allavega voru engin vegavinnutæki sjáanleg þegar ég ók þarna um fyrr í dag. Hvað veldur - hef ekki hugmynd?
Til að ljúka þessu Trostansmáli þá er ég ekki alveg sammála hinni ágætu Vikipediu sem er þó oft góð. En hún segir að fjörðurinn sé nefndur af seinni tíma Arnfirðingum: Trosnasfjörður.
Ég sem hef talið mig með seinni tíma Arnfirðingum. En hér er annars vikipediupistill um Trostansfjörð:

Trostansfjörður er fremur stuttur fjörður, sem gengur til suðausturs inn úr Arnarfirði og er einn af Suðurfjörðum. Fjörðurin er sunnan við Geirþjófsfjörð og austan við Reykjafjörð. Samnefndur bóndabær í firðinum er nú í eyði. Það eru um fjórir kílómetrar frá Ófærunesi þar sem Trostansfjörður mætir Geirþjófsfirði inn í fjarðarbotn, og er fjörðurinn tveir og hálfur kílómeter á breidd. Austanmegin í firðinum er Norðdalur birki vaxinn en þar er einnig áberandi mikið af reyni. Trostansfjörður hefur ævinlega var nefndur Trosnasfjörður af seinni tíma Arnfirðingum og er nafnið sennilega af keltneskum uppruna.


Nýtt leikrit um Jón Sigurðsson frumsýnt á Hrafnseyri 17. júní kl.17

Kómedíuleikhúsið frumsýnir á Þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní kl.17 nýtt leikverk um Jón Sigurðsson. Einsog öllum er kunnugt er 200 ára afmæli þjóðhetjunnar nú í ár og er leikurinn sérstaklega saminn í tilefni þess. Sýnt verður á söguslóðum á Hrafnseyri nánar tiltekið í kapellunni. Önnur sýning verður sunnudaginn 19. júní kl.17 og gaman er að geta þess að aðgangur að sýningunni er ókeypis í boði Afmælisnefndar Jóns Sigurðssonar.
Afmælisleikurinn nefnist Jón Sigurðsson strákur að vestan. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson, búninga og leikmuni gerir Marsibil G. Kristjánsdóttir og leikstjórn er í höndum Ársæls Níelssonar.
Sómi Íslands sverð og skjöldur. Frelsishetjuna Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri þekkja allir og þá einkum afrek hans í Danaveldi. En hver var Jón Sigurðsson og hvaðan kom hann? Hvað var það sem mótaði hann og gerði hann að öflugum talsmanni þjóðarinnar? Í þessu verki fáum við að kynnast piltinum Jóni Sigurðssyni, æskuárunum á Hrafnseyri og tímanum áður en hann hélt úr Arnarfirði á vit nýrra og sögulegra ævintýra.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband