EKKERT LJÓÐ DAGSINS Í DAG
8.11.2007 | 17:38
Jæja þá verður smá pása á Ljóði dagsins hér á Kómedíublogginu. Reynar stóð til að byrja að birta nokkur splunkuný jólakvæði í dag sem eru í jólaleik Kómedíu Jólasveinar Grýlusynir. Hinsvegar er nú soldið í kómísk jól því frumsýning er ekki fyrr en 17. nóvember. Síðan páraði nú einn besti vinur jólasveinanna meistari Ómar Ragnarsson Gáttaþefason pistil um hve snemma við erum orðin í jólaæðinu. Ég meina fyrir tveimur vikum auglýsti eitt kompaní,,Jólasveinar á staðnum" í október kommon. Hefði verið í lagi ef jólahúsið á Akureyri hefði verið að auglýsa hefði alveg keypt það enda frábært framtak þar á ferð og vel að verki staðið í alla staði. Kómedíuleikarinn vill því hlusta á læriföður sinn í jólasveinafræðum og bíða með að hringja inn Kómísk jól enn um sinn. En í næstu viku getið þið lesið ný kvæði um gömlu íslensku jólasveinanna og ef til vill mun því fylgja myndir af köppunum. Hönnuður Kómísku jólasveinanna er Marsibil G. Kristjánsdóttir og hefur hún verið í jólaskapi síðustu mánuði enda ekkert grín að búa til alvöru jólasveina. Gerðir sveinanna eru af ýmsum toga bæði brúður og grímur og allt þar á milli. En nú er ég farin að fjalla of mikið um joð orðið hér eitthvað sem ég ætlaði ekki að gera en það er bara svona þegar spenningur er komin. Æfing í kvöld í Tjöruhúsinu á Ísafirði og þar er leikmyndin óðum að taka á sig mynd. Komin upp þessi flotti hellir og fleira fjallskemmtilegt. Þar sem ég ætla ekki að birta strax mynd af kómsíkum jólasveini höfum við hér í staðinn mynd frá frumsýningu í gær á ljóðaleiknum Ég bið að heilsa.
Að lokinni frumsýningu. Kómedíuleikarinn, Jónas Tómasson, tónskáld, og Þröstur Jóhannesson, tónlistarmaður.
ÉG BIÐ AÐ HEILSA VAR VEL HEILSAÐ Á FRUMSÝNINGU
8.11.2007 | 12:09
Í gærkveldi frumsýndi Kómedíuleikhúsið nýjasta verk sitt, Ég bið að heilsa, sem er ljóðaleikur byggður á verkum Jónasar Hallgrímssonar. Það var sannkölluð leikhúsljóðastemning á frumsýningu fullur salur áhorfenda og á stundum mátti heyra saumnál detta enda á ferðinni magnaður texti listaskáldsins. Það má því segja að Ég bið að heilsa hafi verið vel heilsað og gerður mjög góður rómur að sýningunni. Einsog alþjóð veit þá er árið 2007 sannkallað Jónasar Hallgrímssonar ár og ekki að ástæðulausu því þann sextánda nóvember er 200 ára fæðingarafmæli skáldsins. Víða um land hefur þess verið minnst og nú eru Vestfirðirnir komnir á Jónasarkortið líka með þessari vönduðu uppfærslu á Ég bið að heilsa. Næsta sýning verður á miðvikudaginn kemur, 14. nóvember, á veitingastaðnum Við Pollinn. Boðið er uppá sannkallaða ljóðaveislu í mat og skemmtan því í boði er tvírétta máltíð og leiksýning á aðeins tvö þúsund og níu hundruð krónur. Borðhald hefst kl.19.00 og sýningin klukkustund síðar. Miðasölusími er 456 - 3360. Allir í leikhús.
Ljóðastemningin fönguð á frumsýningu í gær af ljósmyndaranum Halldóri Sveinbjörnssyni. Þarna má sjá Kómedíuleikaranna sjússa sig og Þröst Jóhannesson í góðum fíling.
Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson, www.bb.is