Galdur listarinnar
29.3.2011 | 21:07
Mikið er það nú magnað hve listin er mikill galdur. Að upplifa góða list er ekki ósvipað og tilfinningin þegar maður drekkur fyrsta kaffibolla dagsins, helst nýmalað og rótsterkt. Tónlistin hefur verið mér mjög hugleikinn hin seinni ár og í raun hef ég sótt langmest í músíkina til að fá ,,yfir mig andann einsog skáldið sagði. Þegar ég er til dæmis að pára niður handrit eða reyna að detta eitthvað ,,sneddý í hug þá finnst mér fátt betra en að hlusta á tónlist. Misjafnt hvað verður fyrir valinu hverju sinni einu sinni fannst mér lang best að hugsa og skrifa þegar ég hlustaði á brot af því besta með norsku drengjasveitinni Aha, trúi hver sem vill. Músíkin hefur líka þann galdur að hún getur flutt okkur í tíma og stundum man maður meira að segja hvar maður var þegar maður heyrði eitthvað ákveðið lag eða hljómplötu. Tónlist sjöunda áratugsins á Íslandi hefur löngum verið mér hugleikinn enda hef ég ávallt verið talin gömul sál og jafnvel líka líkamlega aldraður fyrir tímann, þegar ég fermdist var ég strax kominn með skegghíung og byrjaður að grána í vöngum. Þegar ég hlustaði á þessa flottu músík í æsku heima í Birkihlíðinni á Bíldudal þá var máttur þessarar músíkur það mikill að ég sá oft lögin fyrir mér gerði einskonar myndbönd í huganum. Enn í dag hlusta ég þannig á músík í dag og það sem meira er þegar ég hlusta á þessa mögnuðu músík sjöunda áratugsins þá er tímaflakkið það áhrifaríkt að ég sé fyrir mér tískuna á þessum árum, ákveðna viðburði sem gerðust í litla þorpinu mínu og sé fyrir mér íbúana bæði lífs og liðna. Svona er músíkin áhrifarík og mögnuð þetta er náttúrulega bara galdur.
(Þessi pæling mín er í leikskrá Á skíðum skemmti ég mér sem er nú sýnt við miklar vinsældir í Edinborgarhúsinu á Ísafirði)
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Flott pæling, músikin gefur manni mikin innblástur, þó finnst mér klassisk tónlist gefa mér meira ef ég er að hugsa um andleg málefni, rokkið er svo annað batterí fyllir mann af orku. Tónlist og önnur list nærir andann.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.3.2011 kl. 11:18
já stundum er músíkin svo flott að ég á erfitt með að vinna ég get t.d. ekki hlustað á Bob Dylan, Nick Cave eða Lou Reed ef ég þarf að vera að vinna - en til að slaka á og láta sig dreyma þá eru þessir gæjar settir undir. Já á tímabili hlustaði ég mikið á klassíska tónlist einkum Brams sem mér finnst flottastur í þeirri deildinni
Elfar Logi Hannesson, 30.3.2011 kl. 19:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.