Söfn og setur á Vestfjörðum
24.5.2011 | 11:49
Jæja sólin mætt aftur á Ísafjörðinn og snjórinn sem hefur sest í fjöllin síðustu dagana er óðum að hverfa. Ætli sumarið sé ekki bara að koma. Ferðamenn eru þegar farnir að láta sjá sig hér vestra og nú þegar hefur eitt skemmtiferðaskipi komið en það er bara byrjunin því metfjöldi verður í komu skemmtiskipa á Ísafjörð. Það hefur verið vel staðið að uppbyggingu í þessum málum og eiga Muggi hafnarstjóri og allir þeir sem hafa ljáð fram töfra sína miklar þakkir skildar. Hér á Vestfjörðum eru fjölmörg söfn og setur. Til gamans langar mig að nefna nokkur þeirra sem vert er að heimsækja en þar sem þau eru orðin svo mörg gæti vel verið að ég gleymi að nefna einhver þeirra. Ef við byrjum á Ströndum þá eru þar tvö geggjuð en ólík söfn. Hið margverðlaunaða Galdrasafn og litla leyndarmálið, Sauðfjársetrið sem er bara gullmoli og óvæntur gleðigjafi. Á Suðurfjörðum Vestfjarða ber fyrst að nefna safnið á Hnjóti sem er vert að heimsækja. Þegar leiðin liggur í hinn fagra Arnarfjörð, sem er án vafa einn flottasti fjörður Vestfjarða, er vissara að gefa sér góðan tíma. Því þar eru hvorki fleiri né færri en fjögur söfn. Inná Bíldudal er hið magnaða músíksafn Melódíur minningana sem söngvari þjóðarinnar Jón Kr Ólafsson hefur byggt upp af mikilli hugsjón og elju. Ekki má gleyma Skrímslasafninu sem er í gömlu matavælaverksmiðjunni þar sem hinar sögufrægu Bíldudals grænu baunir voru framleiddar að ógleymdum handsteiktum kjötbollum. Flottasta safnið að mínu mati er þó Listasafn Samúels í Selárdal, Listamannsins með barnshjartað einsog hann er nefndur. En til gamans má geta þess að það var víst Hannibal Valdimarsson sem gaf listamanninum þetta viðeigandi viðurnefni. Þetta safn er alveg einstakt og síðustu árin hefur Félag um endurreisn safnsins hans Samúels lift þar miklu grettistaki. Fyrir nú utan hve náttúrufegurðin er mikil í Selárdal og saga í hverjum hól. Þarna bjuggu jú m.a. Gísli á Uppsölum, síra Páll Björnsson, Árum Kári, Jón Þorláksson skáld, Hannibal ofl ofl. Hinu megin í Arnarfirði er svo safn frægasta Arnfirðingsins nebblega Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Þar er nú unnið hörðum höndum við endurgerð safnsins enda er í ár fagnað 200 ára afmæli ,,forsetans". Á Ísafirði er Byggðasafn Vestfjarða í Neðstakaupstað hér er um að ræða skemmtilegt sjóminjasafn og konfektmolinn er einstakt harmonikkusafn. Í Bolungarvík er einnig sjórinn í aðalhlutverki í safninu í Ósvör og ekki má gleyma Náttúrgripasafni Vestfjarða í Bolungarvík. Síðast en ekki síst má nefna Melrakkasetur í Súðavík þar sem rakkanum eru gerð góð skil. Að lokum má geta þess að á Flateyri er einn ofurhugi að undirbúa stofnun Dellusafns. Nú hef ég örugglega gleymt einhverju safni eða setri en þið bætið því þá bara við hér að neðan. Einsog lesa má eru söfnin og setrin mörg og fjölbreytt og engum ætti að þurfa leiðast er þeir ferðast um hina sögulegu Vestfirði. Verið velkomin og njótið vel.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:05 | Facebook
Athugasemdir
Frábær upptalning hjá þér Elvar Logi. Reyndar gleymdir þú dúkkusafninu á Flateyri, þar sem er flott dúkkusafn og alltaf heitt á könnunni og allskonar prjónafatnaður á boðstólum, og ekki síst bókabúðinni þar sem bækurnar eru seldar eftir vikt, og allt eins og það var sautjánhundruð og súrkál. Afar áhugavert.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.5.2011 kl. 23:06
já sem mig grunaði að einhverju væri ég að gleyma Dúkkusafnið á Flateyri er skemmtilegt og bókabúðin algjör perla, þar er hægt að ná sér í margan góðan konfektmolann á náttborðið - og verðið bara kíló.
Elfar Logi Hannesson, 25.5.2011 kl. 12:14
Já með þessum gömlu skemmtilegu lóðum og alles.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.5.2011 kl. 12:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.