Oddur Björnsson minning

Góður og einstakur vinur er horfinn af sviðinu. Oddur Björnsson leikskáld og leikstjóri. Það er ekki auðvelt að eignast góðan og traustan vin en við hjónin vorum svo heppinn að fá að kynnast Oddi og erum þakklát fyrir einstakt ævintýr sem við áttum saman. Við kynntumst Oddi eða Oddaranum einsog skáldið frá Bíldudal Hafliði heitinn Magnússon kallaði hann, árið 1993 á Bíldudal. Oddur var kominn til að leikstýra hjá Leikfélaginu Baldri og hinn ungi leikari, Elfar Logi, var settur í það að vera formaður leikfélagsins. Á svið var settur farsinn Klerkar í klípu og Oddur rúllaði þessu upp og gerði úr þessa flottu sýningu sem gekk og gekk og gekk, alveg einsog alvöru farsi. Oddur hafði aðsetur í krúttlegu húsi í fjörunni er nefnist Sæbakki. Ósjaldan fór hinn ungi leikari í heimsókn til leikstjórans að loknum æfingum og þá var nú heldur betur spjallað og ekkert verið að láta klukkuna trufla sig. Oddur varð strax kær og góður vinur okkar en það er nú ekki sjálfgefið hjá öllum leikstjórum en svona var Oddur, tók öllum vel sannur mannvinur. Enn jókst gleðin þegar að frumsýningu kom því þá kom eiginkona Odds hún Beggó og þar eignuðumst við hjónin annan vin. Í raun eignuðust Bílddælingar allir frábæra og einstaka vini því Oddur og Beggó fíluðu sig svo vel á Sæbakkanum að þau keyptu húsið. Koma þeirra hjóna í litla þorpið á Bíldudal var einsog vítamínsprengja í allt mann- og listalíf enda tóku nú ævintýrin að gerast. Oddur átti eftir að leikstýra oftar hjá Leikfélaginu Baldri. Árið 1994 setti hann á svið Karíus og Baktus með miklum bravúr. Ári síðar leikstýrði hann síðan eigin verki Jóðlíf þar sem leikarinn ungi, Elfar Logi, lék annað jóðið. Uppfærsla þessi er enn í minnum höfð á Bíldudal enda sannkallað listaverk því Beggó gerði einnig einstaka leikmynd og við hjónin vorum svo heppinn að fá að taka þátt í þessu ævintýri því Billa aðstoðaði Beggó við búninga og leikmynd. Sama ár fór hinn ungi leikari, loksins, í leiklistarnám og hvatning Odds var gott veganesti í þann skóla, og ekki sakaði að hafa fengið góða skólun á sviðinu hjá meistaranum. Við söknum þín Oddur en minnumst einstakra stunda við vorum sannarlega lánsöm að fá að kynnast þér. Við hneigjum okkur djúft fyrir þér að hætti leikarans. Elsku Beggó sendum kærar og einlægar kveðjur til þín og allra aðstandenda.
Billa, Elfar Logi og þrjár systur

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband