JÓLASVEINAR GRÝLUSYNIR MÁLA BÆINN RAUÐAN ALLA HELGINA
23.11.2007 | 11:20
Jólaleikritið Jólasveinar Grýlusynir verður á fjölunum í Tjöruhúsinu á Ísafirði alla helgina. Sýnt verður bæði laugardag og sunnudag kl.14. Miðapantanir á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is Miðaverð er aðeins krónur 1.900.- og er heitt súkkulaði og heimabakaðar smákökur innifalið í miðaverði. Jólasveinar Grýlusynir hefur fengið frábærar undirtektir áhorfenda en leikurinn var frumsýndur um síðustu helgi fyrir fullu Tjöruhúsi. Einnig var uppselt á sýningu númer tvö en nú er laust á sýningar helgarinnar og um að gera að vera snöggur og panta sér miða. Jólasveinar Grýlusynir er bráðfjörugur leikur um gömlu íslensku jólasveinana þar sem ýmsum spurningum er svarað um þessa skemmtilegu vini okkar í fjöllunum. Jólasveinar Grýlusynir leika á alls oddi, þeir sprella og syngja vísurnar sínar við tónlist Hrólfs Vagnssonar. Kómedíuleikarinn er á sviðinu að vanda, Jóhann Daníel er ljósameistari, Marsibil G. Kristjánsdóttir er hönnuður sveinanna sem birtast bæði sem brúður og grímur og Soffía Vagnsdóttir leikstýrir. Allir í leikhús um helgina. Hlakka til að sjá ykkur í Tjöruhúsinu ævintýrahúsi jólasveinanna.
Gáttaþefur syngur um nefið sitt sem er næmast allra nefja.
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.