VELHEPPNAÐ LISTAMANNAÞING Á ÍSAFIRÐI

Í gærkveldi efndi Kómedíuleikhúsið og listamenn í Ísafjarðarbæ til Listamannaþings á Ísafirði. Óhætt er að segja að vel hafi til tekist og að þingið sé komið til að vera. Þema þingsins í gær var Staða og framtíð listalífs í Ísafjarðarbæ. Flutt voru fjölmörg mögnuð erindi enda var umræðuefnið krassandi og bauð uppá fjöruga pistla og umræður. Fundarstýra var Anna Sigríður eða Annska einsog við köllum hana. Stýrði hún þinginu af stakri prýði enda var hún vopnuð öflugri arnarbjöllu til að halda mönnum við sinn ræðutíma og tókst það vel. Fulltrúar frá fimm listgreinum fluttu erindi um sína grein og var fróðlegt að heyra þeirra vangaveltur. Ómar Smári Kristinsson myndlistarmaður hafði nokkrar áhyggjur af uppbyggingu sinnar listgreinar hér í bæ og óskaði eftir öflugum frumkvöðli og baráttumanni í myndlistargeiranum. Einhverjum sem gæti hrint af stað öflugum verkefnum í myndlistarsviðinu. Það var fróðlegt að heyra erindi Evu Friðþjófsdóttur um danslistina en hún hefur unnið ötulega að eflingu listarinnar hér í bæ og kennir nú dans í skólum víða á Vestfjörðum. Kómedíuleikarinn flutti leiklistarpistilinn og vildi efla bæði atvinnu- og áhugaleiklistina á svæðinu. Hans framtíðarsýn er sú að Kómedíuleikhúsið bæti við sig öðrum leikara helst leikkonu í fullt starf og þar með væri hægt að stíga næsta skref og setja á svið tvíleiki. En til þessa hefur leikhúsið einbeitt sér að einleikjum og er ástæðan einfaldlega sú að hann er eini atvinnuleikarinn sem er búsettur á Vestfjörðum. Í áhugaleikhúsinu vildi hann sjá þá breytingu að áhugaleikfélög væru starfandi í öllum bæjum í Ísafjarðarbæ, ekki bara á Ísafirði og Suðureyri einsog nú er heldur einnig á Flateyri og Þingeyri. Einnig var þeirri hugmynd kastað fram að koma á unglingaleikdeild hjá einhverju áhugaleikfélagana því Ísafjarðarbær státar af mjög frambærilegri æsku á listasviðinu einsog dæmin sanna t.d. með starfsemi unglingaleikhússins Morrans og sýningum Menntaskólans á Ísafirði. Lýður Árnason fjallaði um stöðu og framtíð kvikmyndalistarinnar í Ísafjarðarbæ. Margt áhugavert kom fram í erindi hans m.a. þann stóra kost að hér fyrir vestan höfum kyrrð og þögn nokkuð sem þekktist ekki í stærri bæjum og oft er ekkert gsm samband á tökustað sem er mjög stór plús. En þess má geta að í sumar hefjast tökur á sjónvarpsmynd eftir kappann og verður myndin alfarið tekin upp hér vestra.  Hulda Bragadóttir fjallaði um tónlistina en einsog landsmenn vita er Ísafjörður einmitt þekktur fyrir að vera mikill músíkbær.  Athyglivert var að heyra hugmyndir hennar um að tengja listgreinarnar meira saman og efla þannig samstarf milli ólíkra listamanna. Benti okkur réttilega á að nú þegar hafi þannig verkefni verið unnin t.d. með því að fá leikara sem upplesara á tónleikum nú eða þá dansara til að túlka músíkna í gegnum dansinn. Á erindum listanna loknum flutti Þröstur Jóhannesson frumsamið lag um AxlarBjörn sem hitti beint í mark. Næst á dagskrá voru listahátíðirnar á Ísafirði sem eru alls þrjár og mætti því kalla bæinn Listahátíðarbæ og væri nú sniðugt hjá Ísafjarðarbæ að hefja herferð í því að kynna bæinn sem Listahátíðarbæ. Þessar þrjár hátíðir eru leiklistarhátíðin Act alone, rokkhátíðin Aldrei fór ég suður og tónlistarhátíðin Við Djúpið. Þó hátíðirnar séu ólíkar þá eiga þar það eitt sameiginlegt að hafa slegið í gegn hjá landanum og líka útí úttlandi. Act alone og Aldrei fór ég suður eru jafn gamlar orðnar fimm ára en Við Djúpið er ári eldri. Kómedíuleikarinn fjallaði um Act alone og rakti í stuttu máli sögu hátíðarinnar sem hefur verið mjög einleikin svo ekki sé meira sagt. Á fyrstu hátíðinni var boðið uppá þrjár sýningar en í ár verða sýningarnar 25. Notaði sá Kómíski tækifærið til að skúbba og kynna helstu sýningar komandi hátíðar fyrir þingheimi en á næstu dögum verður dagskrá hátíðarinnar kynnt í fjölmiðlum. Eini þröskuldur Act alone er fjármagnið sem hefur verið nokk erfitt að finna en þó hefur mínusinn af hátíðinni lækkað með hverju ári og er stefnan sett á núllið í náinni framtíð. Smári Karlsson fjallaði um Aldrei fór ég suður sem er án efa flottasta rokkhátíð landsins. Hann rakti sögu hátíðarinnar sem hefur vaxið með hverju árinu og er nú svo komið að þeir geta valið úr böndum til að spila í gleðinni. Fjármálin komu líka talsvert við sögu enda kostar slatta af monnýaurum að halda eitt stykki festival. Hann vakti athygli á hve mikinn þátt heimamenn eiga í hátíðinni með ómetanlegu vinnuframlagi sem svarar einhverjum millum þegar allt er til tekið. Þetta er mjög góður púnktur og á einmitt mjög vel við það hve gott er að vinna að list í Ísafjarðarbæ allir eru boðnir og búnir að rétta hjálparhönd. Hvort heldur það er að skúra gólf, lána húsin sín, mála, smíða osfrv osfrv. Sigríður Ragnarsdóttir fjallaði um Við Djúpið. Hún rakti sögu hátíðarinnar sem hefur laðað að sér atvinnulistamenn allsstaðar úr heiminum. Einnig var dagskrá Dúpsins í ár kynnt en þar verður að vanda boðið uppá vandaða masterclassa með heimskunnum tónlistarmönnum. Fjármálin komu líka við sögu og sagði hún mikilvægt að bær og ríki héldi áfram að styrkja verkefnið með öflugum hætti svo hún megi vaxa og dafna enn frekar í framtíðinni. Að síðustu komu fulltrúar menningarapparatana tveggja og sögðu frá starfsemi sinni. Ingi Þór Ágústsson formaður Menningarmálanefndar sagði frá hlutverki nefndarinnar og kom þar m.a. að styrkjamálum en nefndin úthlutar styrkjum einu sinni á ári. Nýtti hann tækifærið til að auglýsa að nú gætu menn farið að koma sér í gírinn og óska eftir styrk fyrir lista- og menningarverkefni í bænum. Hann sagði einnig af því að undanfarið hafi nefndin unnið að stefnumótunarvinnu í menningarmálum í Ísafjarðarbæ og nú styttist í að þeirri vinnu ljúki og verður visslulega spennandi að sjá plaggið. Ingi lét sig líka dreyma um bjarta framtíð listalífs í bænum og víst er að allir eru til í að hoppa inní þann draum því vissulega er bjart framundan í listinni á Ísó. Næstur og jafnframt síðastur á mælendaskrá var Jón Jónsson frá Menningarráði Vestfjarða. Hann sagði okkur frá þessu nýstofnað apparati sem hefur vissulega komið sterkt inní listlífið þrátt fyrir stutta ævi. Ráðið úthlutar styrkjum til lista- og menningarverkefna á Vestfjörðum. Fyrsta úthlutun var fyrir síðustu áramót og á sumardaginn fyrsta '08 var úthlutað öðru sinni. Jón sagði einnig frá heimasíðu ráðsins og hvatti listamenn til að senda inn fréttir reglulega af því sem þeir eru að bardúsa hverju sinnig sem og að nýta sér atburðadagatalið á síðunni. Einnig sagðist hann vera boðin og búin til aðstoðar og ráðleggingar þegar sótt er um monnýpeninga hvort heldur það séu umsóknir til ráðsins eða bara almennar umsóknir til fyrirtækja og ýmissa sjóða. Annska fundarstýra sleit því næst þinginu en átti þó eftir eitt tromp í viðbót í hendinni og kynnti til sögunnar hina sögufrægu hljómsveit Grjóthrun. Hljómsveitin tók nokkra létta slagara við dúndurflottar undirtekktir enda valinkunnur maður á hvert hljóðfæri. Að sjálfsögðu var mikið skraf og rætt af þingi loknu enda margt sem liggur mönnum á hjarta að loknu þingi. Ýmsum hugmyndum hefur verið kastað á loft sumar komast til framkvæmda meðan aðrar bíða betri tíma og verður fróðlegt að fylgjast með listinni í Ísafjarðarbæ á næstu misserum og já bara næstu árin.

Listamannaþing í Ísafjarðarbæ er sannarlega komið til að vera og hefur alla burði til að stækka enn frekar einsog önnur menningarverkefni í bænum hafa gert. Menn hafa þegar kastað fram ýmsum hugmyndum um næsta þing m.a. að taka heilan dag í þetta. Þá væri hægt að byrja daginn á því að listamenn myndu opna vinnurýmin sín og bjóða gestum að fylgjast með starfi sínu. Þannig gæti maður kíkt inná æfingu hjá Kómedíuleikhúsinu eða litið á vinnustofu myndlistarmanns og séð hann að störfum nú eða kikkað á æfingu hjá karlakór eða bara vera flug á vegg í tónlistartíma t.d í trompetleik. Svo væri þingað og boðið uppá flottan dinner. Og að síðustu yrði bara alvöru ball með alvöru bandi t.d. Bardúkku. Vá maður er þegar orðinn spenntur fyrir næsta Listamannaþingi í Ísafjarðarbæ og ætli við byrjum ekki bara fljótlega að undirbúa það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ársæll Níelsson

Leitt að hafa misst af þinginu.

Gaman að því að Þröstur hafi samið lag um Axlar-Björn. Ég er einmitt búinn að vera að gæla við það að skrifa um hann einleik. Ég veit þá hvert skal leita ef mig skyldi vanta tónlist í einleikinn.

Ársæll Níelsson, 6.5.2008 kl. 06:51

2 Smámynd: Elfar Logi Hannesson

Verður bara með næst. Góð hugmynd að einleik og lagið hans Þrastar er mjög flott enda mikill lista- og leikhúsmaður á ferð.

Elfar Logi Hannesson, 7.5.2008 kl. 16:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband