VESTFIRSKUR HÚSLESTUR Á MORGUN

Kómedíuleikhúsið og Safnahúsið á Ísafirði verða með vestfirskan húslestur laugardaginn 3. maí og er þetta jafnframt síðasti húslestur vetrarins. Að þessu sinni verður fjallað um skáldið Jón Þorláksson. Jóna Símonía Bjarnadóttir fjallar um skáldið og Elfar Logi les úr verkum hans. Séra Jón Þorláksson sem kenndur er við Bægisá í Eyjafirði en hann fæddist í Selárdal í Arnarfirði árið 1744. Hann lauk stúdentsprófi og vann sem ritari hjá amtmanni um hríð en vígðist sem prestur árið 1768. Hann var tvívegis sviptur hempunni sökum barneigna og gerðist hann þá starfsmaður prentsmiðjunnar í Hrappsey á Breiðafirði. Þar hófst í raun bókmenntaferill hans en árið 1774 kom út hans fyrsta ljóðaþýðing. Hann flutti að Bægisá í Eyjafirði árið 1788 og tók þar aftur upp preststörf og dvaldi til æviloka árið 1819. Hann var afkastamikill þýðandi og meðal verka hans á því sviði er Paradísarmissir Miltons. En Jón var líka gott skáld og eftir hann liggur nokkuð magn kvæða og vísna sem margar voru gráglettnar.
Einsog áður gat er þetta síðasti vestfirski húslesturinn þennan veturinn. Þráðurinn verður síðan tekinn upp að nýju í haust. Aðgangur að húslestrinum er ókeypis að vanda.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband